23.04.1958
Sameinað þing: 40. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í D-deild Alþingistíðinda. (2869)

165. mál, biskup í Skálholti

Flm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt mörgum öðrum hv. alþm. úr öllum þingflokkunum að flytja á þskj. 365 till. til þál. um, að biskup Íslands skuli hafa aðsetur í Skálholti. Skálholt mun hafa verið biskupssetur um 700 ára skeið og eign biskupsstólsins. Öllum heimildum ber saman um það, með hverjum hætti Skálholt varð eign og aðsetur biskupsstóls á Íslandi, en það gerðist með þeim hætti, að Gissur biskup Ísleifsson gaf jörðina til biskupsstólsins og kvað svo á, að þar skyldi biskupssetur vera, meðan Ísland væri byggt og kristin trú ríkjandi í landinu. Þetta var síðan lögfest á Alþingi.

Með gjöf Gissurar biskups og þeirri tilskipun hans, að biskupsstóll skuli ávallt vera í Skálholti, er ákveðinn aðsetursstaður æðsta manns kirkjunnar og hún viðurkennd sem sjálfstæð stofnun. Tilskipun konungs 29. apríl 1785 um, að biskupssetur sé fært frá Skálholti er því freklegt brot gegn kirkjunni í landinu.

Það er náttúrlega þýðingarlítið að rekja mistök og syndir liðins tíma, en 18. öldin var mikill niðurlægingartími fyrir hina íslenzku þjóð, og þá var komið næst því, sem orðið hefur, að þjóðinni blæddi út, og lagðist þar allt á eitt: útlend harðstjórn og óáran í ríki náttúrunnar.

Seinni hluti 19. aldarinnar og það, sem af er þeirri 20., hefur verið endurreisnartími, og nú er svo komið, að þjóðin lifir við kjör, sem jafnast á við það, sem gott er talið hjá þeim þjóðum, er búa við betri hnattstöðu, en Íslendingar. En þótt svo sé, er enn margt ógert til þess að bæta fyrir mistök og syndir þeirra, sem völdin höfðu yfir Íslandi, áður en þjóðin náði þeim aftur í eigin hendur.

Íslendingar eru fámenn þjóð, sem á sér stórbrotna sögu og merkilegar menningarerfðir. Þessi fámenna þjóð, sem um margar aldir lifði einangruð langt frá öðrum þjóðum, hefur allt í einu komizt inn í hringiðu veraldarglaumsins og reynt eftir megni að notfæra sér þá nýju aðstöðu til þess að byggja upp atvinnuvegi sína og auka vellíðan þjóðfélagsþegnanna. Þetta var og er vissulega mikilvægt: að komast úr kútnum. En í öllu uppbyggingarstarfi þarf að halda fast í þjóðlegar menningarerfðir og reisa við forn óðul íslenzkrar menningar.

Skálholt er elzta menntasetur landsins og háborg kristins síðar á Íslandi. Þar var raunverulega höfuðstaður landsins um margar aldir. Þar sátu biskuparnir í Skálholtsstifti. Þaðan gerðu þeir yfirreiðir sínar um biskupsdæmið, sem náði frá Helkunduheiði suður og vestur um land að Hrútafirði við Húnaflóa.

Það má sjálfsagt ýmislegt misjafnt segja um vald biskupanna og kirkjunnar yfirleitt, en svo lánsöm varð þó íslenzka þjóðin, að kirkjan og biskupavaldið var yfirleitt þjóðrækið og beitti sér oft gegn konungsvaldinu. Sjálfsagt hefur það að einhverju leyti verið vegna ótta um að missa völd og auð. En svo mikið er þó víst, að þegar konungsvaldinu hafði tekizt að brjóta á bak aftur fulltrúa kirkjuvaldsins, biskupana á Hólum og í Skálholti, þá Jón Arason og Ögmund Pálsson, þá seig á ógæfuhliðina fyrir þjóðinni, og eftir það reisti hér enginn rönd við konungsvaldinu, svo að nokkuð verulega kvæði að, um langa hríð.

Sigur konungsvaldsins yfir biskupavaldinu hafði hin skaðlegustu áhrif á efnahag þjóðarinnar, því að konungur tók undir sig allar klaustrajarðir, mikið af jörðum biskupsstóanna og talsvert af jörðum þeirra manna, er barizt höfðu á móti siðaskiptunum. Þegar konungur hafði lokið þessu jarðaráni. var nálægt fimmti hluti af öllum jörðum í landinu eign konungs.

Afgjaldið af konungsjörðunum gekk að mestu út úr landinu og í fjárhirzlu konungs. Þetta hafði auðvitað hinar alvarlegustu afleiðingar fyrir efnahag landsins, en auk þess var lagt á landseta konungs að inna af hendi margs konar kvaðir, sem ekki viðgekkst áður, meðan kirkjan eða biskupsstólarnir áttu jarðirnar, og óx þannig fátækt og eymd þeirra, sem urðu landsetar á konungsjörðum.

Það kann nú að virðast sem svo, að þessi þáttur í sögu kirkjunnar og þjóðarinnar, sem hér hefur verið drepið á, komi því máli lítið eða ekki við, hvort endurreisa beri biskupsstól í Skálholti. En íslenzkan skörungsskap og kjark bar einna hæst í sögu þjóðarinnar, þegar þeir atburðir voru að gerast, sem hér hefur verið drepið á. Biskuparnir Jón Arason og Ögmundur Pálsson eru báðir einhverjir glæsilegustu fulltrúar, sem þjóðin hefur átt í viðureign við grimmt útlent vald.

Ég efast ekki um, að þótt kaþólsk kirkja eigi fáa fylgjendur hér á landi nú, mundi ekki standa á henni að endurreisa báða hina fornu biskupsstóla hér á landi á hinum fornu biskupssetrum og byggja þar upp veglega, ef hún fengi tækifæri til þess. Svo mikla rækt leggur kaþólska kirkjan hvarvetna við sögulegar minningar og að tengja þær trú og starfi hinna lifandi kynslóða.

Samkvæmt biskupatali Jóns Sigurðssonar í Safni til sögu Íslands telur hann, að 30 biskupar hafi setið í Skálholti í kaþólskum sið og 12 í lútherskum. Núverandi biskup yfir Íslandi er hinn 9. í röðinni, er setið hefur í Reykjavík samkvæmt konungstilskipuninni 1785.

Íslenzka þjóðin tók upp sið Lúthers nauðug. Engin ástæða er þó til að harma, að sá siður náði að festa hér rætur. En sú breyting hefði mátt verða með öðrum hætti, því að siðaskiptin notaði konungsvaldið til að kreppa greiparnar að hálsi þjóðarinnar stjórnarfarslega og efnahagslega.

Vér höfum borið sigur úr býtum í baráttunni fyrir réttindum vorum við arftaka þeirra, sem kúguðu þjóðina á öld siðaskiptanna og síðar brutu forn fyrirmæli og lagaboð um aðsetur biskupsstólanna með því að flytja þá frá Skálholti og Hólum. Vér náðum sigrinum, af því að þjóðin var einhuga um málstað sinn, en vér eigum margt ógert enn til þess að endurreisa í landinu það, sem lagt var í rúst á tímum ófrelsis og eymdar. Þá voru þjóðardýrgripir fluttir úr landi, svo sem hin dýrmætu handrit, sem íslenzkir menn höfðu gert af snilligáfum, sem alltaf hafa lifað með þjóðinni. Vér vinnum nú í ákafa að því að gera líf þjóðarinnar sem þægilegast og stefnum með miklum hraða inn í framtíðina til hins fyrirheitna lands lífsþæginda og öryggis um líkamlega velferð einstaklingsins, og skal það ekki lastað. En vér megum ekki gleyma fortíðinni, sögu vorri og skyldum við gengnar kynslóðir. Rækt við söguna er einnig skylda við framtíðina.

Skálholt ber einna hæst allra staða í íslenzkri sögu. Jörðin er úr landnámi Ketilbjarnar hins gamla, og er talið, að Teitur, sonur hans, hafi þar fyrstur bæ reist. Eftir hann bjó svo þar Gissur hvíti, sonur Teits, og síðan þeir feðgarnir Ísleifur og Gissur biskup.

Með tíundarlögunum, sem Gissur biskup kom á, tryggði hann biskupsstólinn fjárhagslega. Til stólsins voru síðar með tíundarfénu keypt undir hann lönd og hlunnindi. T.d. voru keyptar Vestmannaeyjar mestallar, eyjan Árnes í Þjórsá og skóglendi Sandártungna í Þjórsárdal auk margra fleiri smærri eigna.

Í kirknatalinu um 1200 er Skálholt kallaður „æðstur staður og dýrðlegastur á Íslandi“, og í Hungurvöku er Teiti Ketilbjarnarsyni talið það til hamingju, að hann gerði fyrstur bæ í Skálholti, er nú er allgöfugastur bær á öllu Íslandi. Hinir ágætu biskupar, sem réðu fyrir staðnum og auðguðu hann og prýddu, og umfram allt helgi Þorláks biskups Þórhallssonar, sem staðfest var hér á landi rétt fyrir 1200, hafa þótt réttlæta þessi ummæli.

Skálholtsstaður bætti smátt og smátt við auðæfi sin. Sumt var keypt, en sumt áskotnaðist með gjöfum og áheitum, og síðar fékk staðurinn mikið fé í sektir fyrir ýmis kirkjulagabrot.

Gissur hvíti mun fyrstur hafa reist kirkju í Skálholti, og mun það hafa verið fljótlega eftir kristnitökuna. Ef til vill er sú kirkja næstelzt á landinu, en fyrsta kirkjan, sem talið er að gerð hafi verið hér á landi, er kirkja sú, sem Þorvarður Spak-Böðvarsson gerði í Ási í Hegranesi árið 984. Kirkja Gissurar hvíta mun hafa staðið nokkuð fram í biskupstíð Gissurar Ísleifssonar, en hann lét gera hina 30 álna löngu kirkju, sem hann lagði svo staðinn undir og marga og mikla fjármuni aðra.

Magnús biskup Einarsson byggði við kirkju Gissurar biskups og stækkaði hana mikið og gaf henni margar gersemar.

Næsti eftirmaður Magnúsar biskups var Klængur Þorsteinsson, norðlenzkur maður. Hann lét höggva í Noregi stórviði, og var það farmur á tvö skip, og lét efna til kirkjugerðar, þegar er hann hafði einn vetur setið á biskupsstólnum. Mun sú kirkja vera hin mesta, sem reist hefur verið í Skálholti, og stærsta kirkja, sem reist hefur verið á Íslandi til þessa dags. Kirkjusmiðirnir hétu Árni og Björn hinn hagi Þorvaldsson, og kvað Runólfur Ketilsson biskupsson þannig um kirkju þessa:

Hraust er höll sú, er Kristi

hugblíðum lét smíða,

góð er rót undir ráðum,

ríkur stjórnandi, slíkum.

Gifta var það, er gerði

guðs rann ígultanni.

Pétur hefur eignazt ítra

Árna smíð og Bjarnar.

En Pétri postula var kirkjan helguð.

Klængur biskup lét einnig gera kirkjunni marga góða gripi, m.a. gullkaleik settan gimsteinum.

Páll biskup Jónsson lét byggja stöpul við kirkju Klængs, mjög vandaðan að efni og smíði, og lét þar gera í stöplinum kirkju eða kapellu og vígði Þorláki helga biskupi, móðurbróður sínum. Páll biskup lét búa kirkjuna veglega og lagði til hennar 4 hndr. hundraða, eða sem svarar til 480 kúgilda, en það mundi nema hálfri annarri milljón króna samkvæmt núgildandi skattmati búpenings. Sýnir það, að stórir hafa þeir verið í sniðum hinir fyrri tíma höfðingjar og ekki smátækir, þegar þeir voru að styrkja menningarmál þjóðar sinnar.

Illa munu hinar veglegu Skálholtskirkjur hafa enzt og verið fljótar að hrörna og fúna undan hinni sunnlenzku rigninga- og umhleypingaveðráttu, því að þegar Árni Þorláksson settist á stólinn 1269, var þessi mikla kirkja hrörnuð mjög að þökum. Lét hann þá gera nýja kirkju, en eldingu laust niður í hana, svo að hún brann og með henni mikil auðæfi og dýrgripir. Voru þá hafin samskot um allt land til endurreisnar kirkjunni, og safnaðist mikið fé, en Árni biskup Helgason fór út til Noregs og kom heim aftur árið 1310 með kirkjuvið og marga góða gripi, sem Hákon konungur háleggur, drottning hans og margir beztu menn í Noregi gáfu til kirkjunnar, og var þá reist mikil og vegleg kirkja í Skálholti, en sú kirkja fauk árið 1318 í ofviðri.

Talið er, að þær rúmar 5 aldir, sem kaþólskur siður ríkti í Skálholti, hafi þar kirkja verið reist átta sinnum, en á sama tíma hafi 5 sinnum verið reist kirkja á Hólum í Hjaltadal, og hefur mismunur veðráttu vafalaust átt sinn þátt í því.

Ég hef rakið þetta hér vegna þess, að sagan af kirkjubyggingunum í Skálholti lýsir því vel, hversu forsvarsmenn biskupsstólsins létu sér annt um reisn kirkjunnar og spöruðu hvorki til fyrirhöfn né fjármuni, svo að vegur og tign embættisins, sem kirkjan á staðnum táknaði, mætti sem mestur vera í vitund fólksins.

Norðmenn áttu sinn þátt í að hjálpa til við þetta, eins og sést af gjöfum Hákonar háleggs. Nú er verið að reisa veglega kirkju í Skálholti, þótt ekki sé hún eins stór og Klængskirkjan, en hin nýja kirkja er reist úr varanlegu efni, og til hennar hafa borizt stórfenglegar gjafir. Kirkjur Norðurlandanna hafa gefið 4 klukkur, mjög góða gripi, silfurstjaka og annan altarisbúnað og font úr færeysku grjóti. Einstaklingar í Danmörku hafa gefið altaristöflu skorna, vandað pípuorgel og glermálverk í alla glugga kirkjunnar og einstaklingar í Noregi trjávið, þilplötur og hellur á allt þak hennar, og von mun vera á fleiri gjöfum erlendis frá. Af þessu sést, að frændur okkar á Norðurlöndum láta ekki sitt eftir liggja að efla og prýða þann stað á Íslandi, Skálholt, sem norræn menningarsaga á margt að þakka.

Skálholt var allt í senn: höfuðstaður íslenzkrar kirkju og kristinnar trúar, mennta- og fræðasetur, þar sem trú og saga tengdust og studdu hvor aðra. Þar loguðu kyndlar mannvits og mennta og lýstu út yfir hafið, sem skilur Ísland frá öðrum löndum. Sagan og siðfræði Krists sátu á sama ,bekk, norræn tunga og suðræn menning sórust í fóstbræðralag á biskupsstólunum. Fyrir áhrifin, sem þjóðin fékk þaðan, erum vér Íslendingar sérstök menntuð og frjáls þjóð í dag, Það er ekki nóg að viðurkenna þetta í orði. Vér verðum einnig að viðurkenna það í verki á þann hátt að gefa hinum fornfræga sögustað, Skálholti, og öðrum frægum stöðum líf á nýjan leik, tengja þessa staði við líf og starf þjóðarinnar í nútímanum, flytja til þessara staða þau andleg störf og forustu í vissum greinum þjóðmenningarinnar, sem þeim hæfa og samrýmzt geta sögulegu hlutverki þeirra í vitund þjóðarinnar.

Raddir hafa heyrzt, þegar um þessa hluti er rætt, sem telja, að með slíku sé forustu og menningarhlutverk höfuðstaðar landsins, Reykjavíkur, rýrt. Þetta tel ég ekki rétt. Höfuðborgin hlýtur ávallt að verða höfuðmiðstöð íslenzkrar menningar og aðsetur hins æðsta valds í landinu. Íbúar borga og bæja þurfa hins vegar að hafa lifandi tengsl við byggðir landsins, þar sem þjóðin lifði og þar sem sagan gerðist. Það ætti því ekki að vera síður þeirra áhugamál að endurreisa reisn íslenzkra sögustaða, hvar sem þeir eru á landinu. Þjóðin öll verður að eiga rætur sínar í dreifðri byggð landsins, í náttúru þess og sögu, og það hlýtur að vera metnaður hvers Íslendings að endurreisa alla þá staði, sem varpað hafa ljóma og frægð á þjóðarsöguna. Að heimsækja og dvelja á slíkum stöðum, þar sem ilmur minninga vakir og gróðursettar hafa verið á ný stofnanir eða starfsemi í anda þjóðlegra minja og minninga, á og getur verið þjóðlegri menningu styrk stoð, og slík endurreisn á að vera höfuðstaðarbúanum ekki síður áhuga og metnaðarmál en hverjum öðrum af íbúum landsins.

Ég hygg, að ef biskupsstóllinn verður fluttur að Skálholti, verði þeir miklu fleiri, bæði höfuðstaðarbúar og aðrir, sem komast í snertingu við sjálfan biskupinn og hið tigna embætti hans, heldur en hér í sjálfum höfuðstaðnum. Þangað munu margir fara sér til upplyftingar og hressingar til þess að skoða staðinn og dvelja þar stund og stund við minningar liðins tíma í sögu staðarins og landsins.

Ef litið er á legu Skálholts, verður ekki séð, að það sé til mikilla óþæginda fyrir þjóðina og starfsmenn kirkjunnar, þó að biskupsstóllinn sé fluttur þangað. Staðurinn er í 94 km fjarlægð frá höfuðstað landsins, og er það um tveggja tíma akstur í bifreið. Vegir liggja í allar áttir frá staðnum og brú komin á Hvítá í nálægð staðarins. Biskupinn og hans þjónustulið getur búið við öll nútímaþægindi, því að þau eru þar þegar fyrir hendi. Þar er sími, raforka og jarðhiti. Læknir hefur aðsetur í Laugarási, sem er spölkorn frá. Umhverfis staðinn er þéttbýlasta og fjölmennasta landbúnaðarhérað landsins. Náttúrufegurð er óvíða meiri, en í Skálholti og náttúruauðlegð mikil, svo að þar gæti fjöldi fólks haft nóg að starfa og lifa af. Þar er því ákjósanlegt umhverfi fyrir höfðingja og tiginn embættismann að hafa aðsetur og öll aðstaða til að gera embætti biskupsins að háum tindi í vitund þjóðarinnar og að voldugu tákni í trúar- og menningarlífi komandi kynslóða.

Við flm. þessarar till. ætlumst ekki til þess, að sá aldni biskup, sem nú stýrir þjóðkirkjunni, flytjist í Skálholt, heldur gerist það þegar biskupaskipti verða næst, nema þá því aðeins að núverandi biskup kynni að vilja verða hinn fyrsti biskup, sem settist að í Skálholti, eftir að þar hefur verið biskupslaus staður hátt á annað hundrað ár. Væri það vel samboðið hinum merka kirkjuhöfðingja, sem nú situr á biskupsstóli Íslands.

Okkur flm. þessa máls kemur saman um það, að ekki megi lengi dragast úr þessu að ákveða um framtíð Skálholts, og okkur þykir sem ekki komi annað til mála, en að biskupinn yfir Íslandi hafi þar aðsetur og þannig séu aftur tengd saman saga Skálholts og starf íslenzku þjóðkirkjunnar. Kristin trú var í lög tekin á Alþingi. Fyrirmæli Gissurar biskups um, að Skálholt skyldi vera biskupssetur, meðan kristin trú ríkti í landinu, voru einnig á Alþingi lögfest. Nú kemur til kasta Alþingis að ákveða, hvort eigi fremur að standa fyrirmæli þau, er fylgdu gjöf Gissurar biskups og lögfesting Alþingis á þeim, eða konungstilskipun, sem ekki er vitað að landsmenn hafi óskað eftir.

Ég hygg, að þess sé beðið með talsverðri eftirvæntingu, hver afstaða Alþingis verður til þessa máls. Það er því eindregin ósk mín og okkar allra flm., að málið verði afgr. á þessu þingi. En þar sem líklegt er, að Alþingi eigi nú ekki eftir að sitja nema stuttan tíma, þarf sérstakan hraða að hafa á, svo að málið fái afgreiðslu. Málið er að mínum dómi þess eðlis, að varla er rík þörf á því, að nefnd fjalli um það. Þingmenn hafa haft nægan tíma til þess að mynda sér skoðun um þetta mál, þar sem hvort tveggja er, að í fyrra — fyrir ári var lögð fyrir Alþingi till. um sama efni, sem þá var ekki afgr., og nú hefur þessi till. legið frammi í nokkrar vikur, og auk þess hefur nú um nokkurra ára skeið verið ritað talsvert í blöð landsins um þetta málefni. Þyki hins vegar hæstv. forseta og hv. alþm. nauðsyn til bera, að málið fari til athugunar í n., þá leyfi ég mér að gera till. um, að hv. fjvn. fái það til athugunar, og mundi ég þá fyrir hönd okkar flm. vilja óska eftir, að málið fengi fljóta afgreiðslu.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að þegar þessari umr. er lokið, verði málinu vísað til síðari umr.