23.04.1958
Sameinað þing: 40. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í D-deild Alþingistíðinda. (2870)

165. mál, biskup í Skálholti

Steingrímur Steinþórsson:

Herra forseti. Það var nú eingöngu vegna niðurlagsorða hv. frsm. (ÁÞ), — ég hef nú ekki enn getað talið þá, hvað margir eru flm., en þeir eru áreiðanlega milli 10 og 20 að þessari till., — sem ég vildi aðeins segja örfá orð, því að mér virtist, að hv. flm. ætlaðist eiginlega til þess, að till. yrði samþ. eins og hún liggur fyrir, án þess að um hana væri fjallað í nefnd. Meiri lokleysu hef ég aldrei heyrt í raun og veru borna fram á Alþingi, því að allir vita, að hér er um að ræða margra milljóna króna útgjöld úr ríkissjóði, ef þessi till. yrði samþykkt á þennan hátt. En þessu var náttúrlega ekki haldið fast fram af hv. frsm., en þó gat hann um það, að sér fyndist eiginlega óþarfi, að Alþingi fjallaði um till. á annan hátt en þann að rétta upp hendurnar og samþykkja hana eins og hún liggur fyrir.

Ég vildi svo geta þess hér, að ég ásamt fleiri þm. — við höfum leyft okkur að bera fram tili. hér, sem er í prentun og verður sennilega útbýtt á morgun, um það, að ríkisstj. sé falið, — ég hef ekki till., og það gerir heldur ekkert, efnið kann ég, — að ríkisstj. verði falið að undirbúa undir næsta Alþ, endurreisn eða athugun á endurreisn biskupsstólanna á Hólum og í Skálholti. Það náttúrlega gæti aldrei komið fyrir hið háa Alþ., að það með einni einustu málsgrein, eins og hér er, ákvæði um að flytja biskupssetrið á þennan hátt, sem allir vita að verður líka mjög mikið deiluatriði, því að það þarf enginn að hugsa sér, að Norðlendingar muni gleyma Hólum, þegar kemur fram till. eins og þessi, — Norðlendingar, sem okkar lárviðarskáld og mesta skáld enn, a.m.k. allt frá Agli Skallagrímssyni, sagði: „Sá fjórðungur, er fyllti landið hálft.“

Ég gæti náttúrlega alveg eins og hv. frsm. fjórtánmenninganna, eða hvað þeir eru margir, þulið hér upp langa kafla úr sögu Hóla í Hjaltadal, eins og hann gerði með sögu Skálholts. Ég ætla ekki að gera það, tel það heldur einskis virði í þessu sambandi. Það er allt annað, sem þar verður að liggja til grundvallar, ef það á að taka upp. En það kemur ekki til mála, og ég þekki þá Norðlendinga illa, ef þeir taka því vel, að Hólum sé algerlega gleymt í sambandi við það, að verið er að ráðstafa biskupssetri út á land. Það þori ég algerlega að fullyrða.

Ég þori alveg í samjöfnuð um Skálholtsbiskupa og Hólabiskupa um það, að það hafa ekki minni kempur á Hólum setið, bæði sem trúboðar og þjóðlegir varðmenn fyrir okkar þjóðerni, en verið hafa í Skálholti. Þess vegna tel ég ekki rétt að vera með meting um þá hluti. En það gerði hv. flm. till. Hann var að telja upp hina miklu kosti hinna ýmsu Skálholtsbiskupa. En það mátti ekki nefna neitt, sem gert hefði verið á Hólum, nema a.m.k. í mjög óljósum vendingum. Annars ætla ég ekki við þennan hluta umr. — því að ég efa ekki, að þessi till. fer til n., — að fara að ræða málið að öðru leyti.

Það er þó aðeins eitt, sem kom fram seint í ræðu hv. frsm. flutningsmannanna, sem mig langar aðeins til þess að nefna. Hann sagði, að biskup, sem sæti í Skálholti, mundi komast í miklu nánari snertingu við fólkið í landinu en þar, sem hann sæti nú, Jú, hann tók það fram, hv. 1. þm. Árn., að það væru blómleg og falleg héruð í kringum Skálholt. Síztur manna skal ég neita því. Þetta eru indælar sveitir og gott og ágætt fólk, sem þar er. Og það er sjálfsagt ekki vafi á því, að biskupinn getur komizt í nánari snertingu við það fólk, sem rétt er í kringum hann. En ég vildi leyfa mér að biðja hv. flm. að spyrja menn norðan úr landi, austan af landi, vestan af Vestfjörðum, hvort þeim finnist það hagræði, þegar þeir ætla að finna herradóminn hér í Reykjavík, að þurfa að fara langa leið, eftir að þeir eru komnir hingað, til þess að ná honum. Það er einmitt stórkostlegur aukakostnaður fyrir alla þá, sem erfiðast eiga með að ná fundi æðstu manna þjóðfélagsins, sem hér er, því að það liggja engar leiðir aðrar, en í gegnum Reykjavík til þess að koma til Skálholts. Ég hefði mjög gaman af að heyra það, sem fólk í þessum héruðum segði um þetta atriði, og þetta er þó stórt atriði.

Ég ætla ekkert inn á kostnaðarhliðina, en eins og mun koma fram í þeirri till., sem lögð verður fram nú á næstunni og við vonum að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, taki til athugunar, um leið og hún athugar þessa till., þá vona ég það fastlega, að Hólum verði alls ekki gleymt í þessu sambandi. Og ég segi ykkur alveg satt, að það verður enginn friður um þetta mál, öðruvísi þá en að tvö biskupssetur verði reist. Það er ég alveg sannfærður um, og það mun sá biskupinn, afburðamaður, Gissur biskup, einnig hafa fundið, sem frsm. vitnaði til að réttu um stórhug og mikilleik á ýmsa vegu, eins og algerlega er rétt, þegar hann ekki einungis leyfði, heldur jafnvel beitti sér fyrir því, að reistur væri biskupsstóll á Hólum, og var með í ráðum og valdi í raun og veru afburðamann til þess að taka fyrsta biskupssæti þar, Jón biskup Ögmundsson, sem sat hér í Sunnlendingafjórðungi. Ef á að fara að taka sérstaklega það, að Gissur biskup gaf Skálholt til biskupsseturs og að þar skyldi vera ævarandi biskupssetur, meðan kristið land væri hér á Íslandi, þá beitti hann sér líka fyrir því, að Hólar voru gefnir sem biskupssetur, og hann gerði það vitanlega alveg með sömu kenndum þar, að sjálfsagt væri, að þar væri biskupssetur alltaf, meðan biskupssetur væri í Skálholti. Það getur ekki orkað tvímælis, eftir því sem söguleg rök hníga að því.

Mér þætti ekki ótrúlegt, að þessu máli lyktaði hér nú þannig, að þetta yrði athugað af fleiri aðilum. Við höfum nú mikla yfirbyggingu í sambandi við okkar kristni og kirkjumál. Við höfum synodus og prestastefnu og allt mögulegt, og einmitt fjallar það um þessi mál, og mér þætti ekki ótrúlegt, að það væri eðlilegt að heyra álit slíkrar ráðstefnu um þetta, þó að þetta hafi eitthvað verið rætt þar áður, áður en gengið yrði frá því af hinu háa Alþingi. Annars er ég því mjög samþykkur, að þetta mál fari til fjvn. og verði athugað þar. En ég held, að þetta mál verði aldrei afgreitt á þennan hátt. Það getur ekki verið minna, sem um er að ræða, ef Alþ. á að afgreiða svona mál, en samið verði um það frv. Það er þó alltaf talið virðulegra, en einföld þáltill., sem felur í sér milljónir eða milljónatugi útgjalda, — það er ég alveg sannfærður um.

Svo skal ég ekki segja meira um þetta á þessu stígi málsins, en mun að sjálfsögðu, þegar málið kemur til annarrar umr., mæla fyrir þeirri brtt., sem þá verður komin fram og búin að fá einhverja afgreiðslu í þeirri hv. n., sem hefur þetta til meðferðar og ég skal fylgja að verði fjvn.