23.04.1958
Sameinað þing: 40. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í D-deild Alþingistíðinda. (2871)

165. mál, biskup í Skálholti

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir margt af því, sem þeir ræðumenn hafa sagt, sem hér hafa talað á undan, þó að ég sé þeim um annað ósammála.

Það var ljóst af orðum hv. 1. þm. Skagf., að sumir meta þetta mál mjög sem metnaðarmál tiltekinna staða á Íslandi, og á það þó sízt við um hv. 1, þm. Skagf., að hann vilji hlut Skálholtsstaðar lítinn, því að af öllum ráðamönnum á seinni öldum hér á Íslandi hygg ég einmitt, að hann hafi manna mest beitt sér fyrir því að hefja Skálholt úr þeirri niðurlægingu, sem það var komið í, svo að hans orð átti vitanlega ekki á neinn hátt að skilja á þann veg, að hann vildi hlut Skálholts lítinn, þó að hann teldi sitt hvað að athuga við þessa till.

Það er vitanlega rétt margt af því, sem hv. 1. þm. Árn. sagði um helgi og gildi Skálholtsstaðar í hugum Íslendinga, og ég er sammála öllu því, sem hann sagði um þýðingu skilnings almennings á gildi slíkra staða og mikilvægi þess, að þeir verði efldir á þann veg, að það geti orðið til þess að vekja og efla sögulega tilfinningu, skilning á samhengi íslenzkrar sögu frá upphafi til þessa dags. En með því er auðvitað engan veginn skorið úr, hvar heppilegt sé að biskup Íslands sitji, eins og til háttar á Íslandi nú.

Hv. þm, vitnaði til þess í sinni mjög skörulegu og ánægjulegu ræðu, sem bæði var fróðlegt og gaman að hlusta á, að Alþ. ætti meira að meta gerðir hins forna biskups, sem gaf staðinn, og samþykki Alþ. á henni heldur en konungsboð, sem ekki hefði verið gefið að tilhlutan landsmanna sjálfra. Þetta kann að láta vel í eyrum. En er þá hv. þm. reiðubúinn að taka afleiðingum þess, sem hann segir? Var það svo, að hinn forni biskup gæfi staðinn þeirri kirkjudeild, sem nú starfar hér á Íslandi? Hún var þá að vísu ekki til, en víst er, að biskupinn hefði talið hana hina örgustu villutrúarmenn, og er sú kirkjudeild, sem einmitt landsmenn voru þvingaðir til með konungsboði þvert ofan í vilja landsmanna til að taka yfir sig. Ef fylgja á eftir rökstuðningi hv. 1. þm. Árn., er óhjákvæmileg afleiðing þess, að Skálholt verði afhent hinni kaþólsku kirkju, svo að ekki verði sagt, að upp verði tekið, að við allir gerumst kaþólskir, sem kannske margt má færa með, en ég skal ekki gera hér að umræðuefni. Þessi tilvitnun til fornra samþykkta og gerða, svo skörulega sem hún var fram sett af hv. 1. þm. Árn., leiðir út í hreina ófæru, þegar hún er rakin til hlítar. Það er alveg ljóst, að hv. þm. ætlar sér ekki að fara alla leið, sem hans rökstuðningur hlýtur þó að leiða til með jafnmiklum sanni eins og sá spölur, sem hann hér leggur til að farinn sé.

Sögulegar minjar ber vitanlega að hafa í heiðri og gera mikið úr gildi þeirra, en jafnframt verður að taka tillit til þeirra breytinga, sem á eru orðnar í þjóðlífinu. Það verður að gæta þess að láta helgi hinna sögulegu staða ekki verða sér fjötur um fót, heldur til þess að hvetja menn til framsóknar til eflingar heilbrigðs þjóðlífs, eins og það nú er á þessum dögum. Og þá komumst við ekki hjá að viðurkenna þá staðreynd, að okkar þjóðlíf hefur ekki einungis gersamlega breytt um svip og starfshætti, frá því að biskupsstóll var fyrst settur fyrir mörgum öldum í Skálholti, heldur jafnvel frá því að biskupsstóllinn var fluttur frá Skálholti til Reykjavíkur nú fyrir nær 200 árum. Hafi það þá verið nauðsynlegt, — og víst er, að þó að það væri gert að konungsboði, þá voru ýmsir hinna fremstu Íslendinga, sem töldu það nauðsyn, einnig þá, og þeir, sem bezt þekktu, — en hafi það þá verið rétt eða rík ástæða til þess, þá er miklu ríkari ástæða til þess nú að láta biskupssetrið vera í Reykjavík.

Það er oft talað um það, og það er rétt, að það er ekki að öllu leyti æskilegt, hvílíkur fjöldi fólks er nú samankominn í Reykjavík, í næsta nágrenni hennar og hér í kringum Faxaflóa. En því verður ekki á móti mælt, að nú er meginhluti landsfólksins kominn á þessar slóðir, Þess vegna er óhjákvæmilegt, að þeir embættismenn, sem eiga að gegna verulegu hlutverki fyrir þetta fólk, séu þar, sem það getur bezt náð til þeirra og þeir til þess. Og það á auðvitað fyrst og fremst við um allan þann fjölda, sem hér býr í Reykjavík og hér í nágrenninu. En það á einnig og ekki síður við, eins og hv. 1. þm. Skagf. réttilega lagði áherzlu á, alla þá menn, sem koma til Reykjavíkur víðs vegar utan af landi og eiga erindi við biskup. Líkur eru til þess, að þeir séu annaðhvort hér í bænum, úr næsta nágrenni eða hvort eð er eigi brýnum erindum hér að gegna, þannig að það yrði alger krókur fyrir þá, kostnaður, óþægindi því samfara, ef þeir þyrftu að fara austur til Skálholts til þess að hafa tal af þessum embættismanni. Nú vitum við að vísu, að það eru ekki nema tiltölulega fáir af öllum þeim, sem hér búa eða til bæjarins koma, sem hafa erindi við biskup, það er alveg rétt. En t.d. fyrir prestastéttina, en hennar höfðingi er biskupinn, þá er það ljóst, að það yrði beinn kostnaður og margháttuð óþægindi fyrir alla aðra en þá, sem eiga heima á Suðurlandsláglendinu, ef biskupsstóll og sá eini á landinu væri í Skálholti og fluttur frá Reykjavík. Þegar þessir menn koma hingað til bæjarins, hafa þeir yfirleitt mörgum erindum að sinna, eins og gengur og gerist og ekki þarf að lýsa fyrir mönnum. Hitt er sjálfsagt, að þeir gangi allir á biskupsfund. En ef þeir þyrftu að fara nær 100 km ferð aukalega til þess, tekur það bæði mikinn tíma, það er mikill kostnaður, og marga mánuði ársins er nánast ófært að fara þá leið, eins og við vitum, því miður, með þeim samgöngum, sem nú eru hér á landi.

Ég er að vísu mikill hvatamaður þess, að leiðin austur yfir fjall verði gerð sæmilega örugg, þannig að hún verði daglega fær vandræðalaust, og það er bæði skömm og skaði að láta núv. ástand haldast öllu lengur. En eins og sakir standa enn, vitum við, að það getur verið margar vikur samfleytt, svo að ekki sé talið í mánuðum, að menn fari ekki óneyddir þessa leið. Þeir, sem það gera af brýnni nauðsyn, leggja það auðvitað á sig, en þetta er óþægilegt og mörgum vandkvæðum bundið.

Nú játa ég, að svo hversdagsleg atvik eins og þau, sem ég hef talið, hljóma ekki eins vel og hin háfleyga ræða hv. 1, þm. Árn., sem talaði til tilfinninga manna og setti sitt mál prýðilega fram. En það er ekki biskup liðinna alda, sem við erum að velja aðsetur, heldur tiltekinn embættismaður, sem á að gegna ákveðnu hlutverki í íslenzka þjóðfélaginu í dag.

Það verður því að nálgast þetta mál eftir þeirri leið að athuga fyrst, hver eru störf þessa manns og hvar vinnur hann þau auðveldast af hendi. Er það í Reykjavík, í Skálholti, á Hólum eða einhvers staðar annars staðar?

Ég játa það, að ég hef engan staðarmetnað Reykjavíkur vegna, að halda endilega í biskup landsins. Ég játa, að ég tel það Reykjavík sæmd, að hér sé biskupssetur, og hér hafa margir ágætir menn gegnt því starfi, sem ekki eru síðri í Íslandssögu en margir þeirra fyrirrennarar, þó að þjóðfélagshættir hafi breytzt þannig, að þeir eru ekki eins áberandi í þjóðlífinu í heild og hinir fornu biskupar voru. Það verður því sízt af öllu talið, að Reykjavíkurseta biskupa hafi verið nokkur niðurlægingartími í biskupsdæminu. Þvert á móti. En ég játa, að ef málefnaleg rök eru færð fyrir því, að biskupinn geti betur gegnt því starfi og auðveldara verði fyrir almenning að hafa samband við hann í Skálholti, þá er rétt að flytja til Skálholts og þá má ekki metnaður Reykvíkinga standa því í gegn. En ef rökin hníga að því, að hér sé biskupsdæmið bezt komið, þá á aðsetur þess áfram að vera hér í bænum. Og öll hin sömu rök sem hv. 1. þm. Árn. flutti hníga t.d. að því að flytja Alþingi til Þingvalla, enda sjást þess dæmi. T.d. hefur því verið hreyft í blaði forsrh. nú í vetur, að rétt væri að flytja Alþingi til Þingvalla og jafnvel alla ríkisstjórnina, að hún tæki sér þar aðsetur. Ég hef nú ekki trú á því, að núv. ríkisstj, muni flytja sig þangað, hvað sem um aðrar verður. Með því er ekki sagt, að Reykvíkingum væri svo mikil eftirsjá að þeim, en það er annað mál.

Það var ekki lakari Íslendingur en Jón Sigurðsson, sem var upphafsmaður þess og réð mestu um það, að nokkru leyti gegn konungsvaldinu, að Alþingi var sett í Reykjavík. Kristján hinn 8. hafði hugsað sér, að Alþingi yrði endurreist á Þingvöllum, en þá var það sá maður, sem skildi bezt eðli hins nýja þjóðfélags, sem var að myndast á Íslandi, sem taldi, að Alþingi ætti helzt að sitja í Reykjavík, og hann fékk því ráðið, og meginhluti landsmanna hefur talið það eitt af stórvirkjum og góðverkum Jóns Sigurðssonar við íslenzka þjóð, að hann fékk því fram komið gegn mörgum öðrum ágætum mönnum, sem höfðu á þessu aðra skoðun.

Ég tel, að við eigum að athuga þetta mál öfgalaust og skoða það ofan í kjölinn. Okkur er vandi á höndum með Skálholt að finna því það hlutverk í íslenzku þjóðlífi, sem nútímanum hæfir. Það heyrist öðru hvoru hér á Alþingi, að það hafi að óþörfu og ófyrirsynju verið varið miklu fé til að endurreisa Skálholt, án þess að menn gerðu sér grein fyrir, til hvers ætti að nota staðinn. Ég tek fúslega á mig minn hluta ábyrgðarinnar af því, að þessu fé var varið. Ég tel, að það hafi verið þjóðarskömm og óvirðing, bæði við fyrri kynslóðir og íslenzku þjóðina í dag, að láta Skálholt vera í því niðurlægingarástandi, sem var, þegar þannig stóð, að við blygðuðumst okkar sjálfir fyrir að koma þangað, hvað þá að menn teldu sér fært að hleypa þangað erlendum mönnum, þó að þeir beinlínis bæru fram óskir um það að eiga kost á að skoða staðinn.

Þessu varð að kippa í lag, og þó að menn hafi reist þarna hús, sem menn vita ekki til hlítar enn hvað á að gera við, þá er það, miðað við alla okkar eyðslu, ekki til að horfa í, heldur tel ég það vera okkar metnaðarmál að koma staðnum í sæmilegt lag. Þangað til annar háttur verður tekinn upp, er eðlilegt, að sóknarprestur þessa prestakalls flytjist þangað. Það er úr ekki miklum vanda að ráða.

En ég játa, að það er ekki til fullnustu enn þá búið að koma sér saman um, hvað eigi að gera við Skálholtsstað í framtíðinni. Ég er fús til þess að athuga með öðrum og játa, að ég hef ekki fyrir fram andúð á Skálholti sem biskupssetri nú. En ég efast mjög um, að það sé íslenzku þjóðinni hagkvæmt. Ég tel fráleitt, að það verði afgreitt athugunarlaust. Ég tel sjálfsagt m.a., að það verði leitað álits prestastéttarinnar og biskups um þetta mál. Ég tel ekki, að þeir eigi að ráða því að lokum. En ég tel fráleitt að ráða því til lykta án þeirra samþykkis. En ég vil að lokum láta uppi þá skoðun mína, að ef biskupssetur verði endurreist í Skálholti, muni ekki aðeins áður en langt um líður eða samtímis verða reist biskupssetur á Hólum, heldur verði áður en langt um líður þriðji biskupinn settur í Reykjavík, og ég spyr, hvort það sé æskileg þróun og hvort embættisbáknið sé ekki orðið ærið þungbært, til þess að menn leggi út í slíkan kostnað einungis sökum forns metnaðar.