23.04.1958
Sameinað þing: 40. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í D-deild Alþingistíðinda. (2872)

165. mál, biskup í Skálholti

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég verð nú að segja það, að ég varð dálítið undrandi, þegar ég sá þá till., sem hér liggur fyrir, lagða fram af hvorki meira né minna, en 14 hv. alþm., og ég verð að segja það, að allt það tal, sem á síðustu árum hefur verið um biskupsembættið, sannar, að það er stundum skammt öfganna á milli.

Ég hygg, að það séu nálægt því 30 ár siðan kom fram till. um það frá flokksbræðrum hv. 1. þm, Árn. að leggja niður biskupsembættið, og það átti að vera sparnaðarráðstöfun. Ef ég man rétt, voru laun biskupsins þá 7.000 kr. Nú er biskup Íslands, eins og vera ber, einn af virðulegustu og hæstlaunuðu embættismönnum landsins. En það er svo að skilja á mörgum mönnum, bæði í prestastétt og utan hennar, að nú sé að verða mikill vilji fyrir því að hafa hvorki meira né minna en 3 biskupa.

Ég er þeirrar skoðunar, að það sé sjálfsagt og eðlilegt, að biskupsembættið eigi að vera — eins og það er — eitt af virðulegustu embættum þessa lands, og ég er þeirrar skoðunar, að hvort sem litið er á það frá kirkjulegu eða menningarlegu sjónarmiði, þá sé alveg nægilegt fyrir okkar land að hafa einn biskup, og að sjálfsögðu á sá biskup að vera hér í höfuðborginni, í Reykjavík, og má þar vitna til þeirra raka, sem ég hygg að verði erfitt að hrekja og hv. síðasti ræðumaður, 1. þm. Reykv., flutti hér í sinni ræðu. En hinu er ekki að leyna, að ef það yrði ofan á eða mönnum fyndist nauðsynlegt að hafa hér tvö biskupsdæmi, þá er það auðvitað og sjálfsagt, að hinn biskupinn ætti að vera á Hólum í Hjaltadal, en ekki í Skálholti, því að Hólar eru í alla staði virðulegri staður, bæði að náttúrufegurð og útliti og sögu. Ekki svo að skilja, að það sé ekki rétt, að saga Skálholts frá fyrri tíð, fyrri öldum, sé á margan hátt merkileg. En þess er þá líka að minnast, að þar hefur gerzt einn hörmulegasti atburður Íslandssögunnar, þegar Jón biskup Arason og hans synir voru þar myrtir af danska konungsvaldinu. En mér hefur virzt, eftir því sem ég þekki til sögunnar, að það sé eins og ógæfan hafi elt þann stað alltaf síðan, og hann var kominn í þá niðurlægingu, sem allir þekkja, nú fyrir skemmstu.

Sannleikurinn er sá, að allt þetta, sem hefur verið talað um og ráðgert og framkvæmt með endurreisn Skálholtsstaðar, það er eitt af mjög mörgum dæmum um einkenni þeirrar fyrirhyggjulausu eyðslustefnu, sem nú er ríkjandi, því að það er eins og sumum finnist, að þjóðin geti alltaf aukið við útgjöldin milljónum og milljónatugum ofan á það allt, sem fyrir er.

Ég skal ekki um þetta fara miklu fleiri orðum, en vildi aðeins segja það, að jafnvel þó að það væri samþykkt að hafa tvo biskupa á Íslandi, þá mundi aldrei verða frá minni hálfu léð máls á því að greiða atkvæði með því að endurreisa biskupsdæmi í Skálholti. Það er áreiðanlegt. Hins vegar tel ég mjög eðlilegt og réttmætt, að þessi till. fari til hv. fjvn. Það er eins og réttilega var tekið fram af hv. 1. þm. Skagf., sem talaði hér mjög skörulega og vel, eins og hans er vandi, að þessi till. mundi kosta margar milljónir, sennilega marga tugi milljóna, og það er mjög eðlilegt og réttmætt, að slík till. fari til hv. fjvn., sem hefur gefizt upp á því á þessu þingi að afgreiða fjárlögin fyrir yfirstandandi ár á þann venjulega máta, en að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða um það. Ég vænti þess, að hv. fjvn., sem sjálfsagt fær till. til meðferðar, láti ekki undir höfuð leggjast að leita álits biskupsins og kirkjuráðsins, sem að sjálfsögðu eiga að fjalla um öll slík mál, sem okkar kirkju varða, og það skal verða mitt síðasta orð í þessu sambandi.