18.12.1957
Efri deild: 45. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í B-deild Alþingistíðinda. (288)

73. mál, kosningar til Alþingis

Jóhann Jósefsson:

Ég þakka hæstv. forseta fyrir að hafa gefið mér tóm til þess að orða þetta, og ég vona, að það verði ekki misskilið, að mér gengur það eitt til að fá skýrara orðalag á þetta atriði og hef í rauninni tekið mér hæstv. fjmrh. til fyrirmyndar, því að mér skilst, að sú breyting, sem kom inn í þetta mál í hv. Nd., hafi verið frá honum.

Ég hef þess vegna orðað þessa brtt., sem ég ætla að leyfa mér að flytja skriflega, ef það fæst:

Brtt. við frv. til l. um breyt. á l. nr. 80 7. Sept. 1942, um kosningar til Alþingis. Frá Jóhanni Jósefssyni. Við 7. gr. Á eftir „til áróðurs á sama tíma“ í lok síðari mgr. komi: í næsta nágrenni við kjörstað.“ Er þá notað svipað eða sama orðalag og í breytingunni, sem gerð var í hv. Nd. um listamerki og því um líkt, sem ætlazt er til að líka sé bannað í næsta nágrenni við kjörstað.

Ég hef þarna sem sagt valið mér til fyrirmyndar það orðalag, sem þegar hefur verið samþ. í hv. Nd., og vil gera ráð fyrir, að það þyki ekki ósanngjarnt, að það sé líka notað um þessa gjallarhornsnotkun.

Hæstv. forseti sagði, að ég mundi ekki hafa tekið eftir því, að það væri sagt þarna til áróðurs á sama tíma. Jú, ég var búinn að sjá það, það stendur til áróðurs, en það getur verið margs konar áróðurinn, sem sagt, þó að það væri kosningaáróður, ef hann er í hæfilegri fjarlægð frá kjörstað, þá nær það engri átt, að það megi ekki hafa hann í frammi jafnt á kjördag sem aðra daga. Með því að fjarlægja það frá kjörstað virðist mér þeim tilgangi vera náð, sem ætlazt er til með brtt. hæstv. fjmrh. við frv., eins og það var í Nd. og hann lýsti sjálfur hér í ræðu fyrr við meðferð þessa máls.

Ég vil leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa litlu brtt.