23.10.1957
Sameinað þing: 5. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í D-deild Alþingistíðinda. (2891)

14. mál, skyldusparnaður

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég átti þess nú sízt von, að ég fengi neina traustsyfirlýsingu frá hv. þm. N-Ísf. á undan öðrum út af því, að vel mundi gefast húsnæðismálalöggjöfin og verða meiri myndarbragur á framkvæmd hennar, en á þeirri löggjöf, sem áður var í gildi. Það eru mér því engin vonbrigði, ekki nokkur minnstu vonbrigði, þó að slík traustsyfirlýsing komi nú ekki frá hans hendi.

Það er rétt, að fagmenn höfðu áætlað, að skyldusparnaður mundi á einu ári gefa húsnæðismálakerfinu allt að því 15 millj. kr. tekur. Hitt er alrangt hjá hv. þm., að ég hafi gert mér vonir um, að þessar 15 millj. kr. mundu koma inn á árinu 1957. Það var einmitt tekið fram mjög skýrt og margsinnis í umr., þegar löggjöfin var til umræðu, að á fyrsta ári mundu bæði tekjurnar af tolltekjum ríkissjóðs, 1%, og skyldusparnaðarféð ekki koma inn, fyrr en á árinu 1958, og upplýsingar fylgdu með frv. um það, að tekjur af þessum og öðrum tekjuöflunarleiðum, sem frv. fylgdu, kæmu ekki fram að fullu og alls ekki nema að litlu leyti ,fyrr en einmitt á árinu 1958, svo að það er alrangt, að því hafi verið haldið fram, að þetta mundi skila sér strax á árinu 1957 nema að mjög litlu leyti.

Þá segir þessi hv. þm., að það hafi verið flanað að málinu og enginn hefði gert sér neina grein fyrir því, hvernig þessa fjár yrði aflað eða hvernig það yrði innheimt. Það var vissulega búið að hugsa það mál nokkuð, og sérstaklega var tekið í mál í frv., að skyldusparnaðurinn yrði innheimtur með merkjakerfi. Hins vegar þarf enginn að undrast það, sem annars leggur það á sig að hugsa þetta mál og framkvæmd þess, að það þurfi að gera margvíslegar ráðstafanir, áður en innheimta skyldufjárins gæti komið til framkvæmda samkvæmt merkjaleiðinni, og fyrir því gerði ég grein áðan, að það þurfti í fyrsta lagi að gefa út sparimerkin, það þurfti að gefa út margvísleg eyðublöð, bæði fyrir húsnæðismálastjórn, póstafgreiðslurnar og pósthúsin í landinu, sem áttu að taka á móti fénu, og til atvinnurekendanna, sem áttu að inna greiðslur af hendi samkvæmt þessu; einnig í sambandi við skattstofuna og skattayfirvöldin í landinu, sem einnig koma þar við sögu og a.m.k. verða að hafa þær upplýsingar, að hægt sé að „kontrollera“ þetta kerfi.

Þetta vissu menn allt saman fyrir fram, en samt sem áður var talið rétt að fela húsnæðismálastjórn að gera drög að slíkri reglugerð, og það gerði hún og mun hafa lokið því í ágústmánuði, að gera sín drög. Húsnæðismálastjórnarmennirnir voru þó ekki sammála, og úr þeirra tillögum, sem voru í tvennu eða þrennu lagi, varð síðan að vinna, og það var gert og athugað mjög og velt fyrir sér, hver leiðin væri affarasælli að fara, merkjakerfaleiðin eða skattinnheimtuleiðin. Það var við þessa athugun alveg ljóst, að með því að fara merkjaleiðina yrði ekki náð inn sparifénu á þessu ári, frá gildistökudegi laganna. En þar sem reiknað er með, að árstekjur geti verið 15 millj. kr. af þessu, er þar um að ræða 21/2 millj. þá tvo mánuði, sem alveg var sýnt að reglugerð hefði ekki getað verið komin til framkvæmda á, í sumar, og þá upphæð vildi ég ekki fella niður. Ég vildi ekki taka það á mig að feila það niður, og þess vegna setti ég reglugerð einmitt um það, að spariféð skyldi nú innheimtast skattaleiðina frá 1. júní, gildistökudegi laganna, og til áramóta, en er viss um það, að í framkvæmd muni merkjakerfaleiðin að ýmsu leyti verða hagkvæmari til frambúðar, og hef í raun og veru þegar tekið ákvörðun um að taka upp merkjainnheimtuleiðina frá áramótum. Ég held, að höfuð kosturinn við þá aðferð sé sá, að fólk fær þá ekki þetta fé í hendur og þarf aldrei að reikna með því sem eyðslueyri, fyrr en það kemur hlæjandi aftur með þeim réttindum, sem það veitir, þegar það hefur verið hjá húsnæðismálastjórn í þjónustu húsnæðismálanna, og veitir því margvísleg forréttindi að þeim árum liðnum.

Það, sem hér hefur því gerzt, er það, að sett hefur verið reglugerð, sem tryggir það, að skyldusparnaðurinn kemur til framkvæmda frá þeim sama degi sem lögin voru sett, og með öðru móti, en þessu var ekki hægt að ná því marki. Ég held því, að þeir, sem eru mjög áhugasamir um, að skyldusparnaðurinn skili sér, frá því að lagaheimild var til þess að innheimta hann og síðan framvegis, eigi einmitt að vera ánægðir yfir því, að reglugerðin var miðuð við þá framkvæmd, sem gæti skilað sparifénu inn, frá því að skyldusparnaðurinn var lögfestur á Alþingi.

Ég skal játa, að menn geta deilt um, hver aðferðin sé heppilegri í sambandi við framkvæmd skyldusparnaðarins. Ég hef talið, að skattinnheimtuleiðin hafi þann kost á þessu ári að ná til gildistökudags laganna, sem hin leiðin gat ekki gert, en viðurkenni ýmsa kosti merkjaleiðarinnar til frambúðar og hef sem sé látið semja reglugerð, miðaða við þá framkvæmd, og öll gögn henni viðvíkjandi geta verið komin til póstafgreiðslna og pósthúsa og skattayfirvalda og húsnæðismálastjórnar fyrir áramót, þannig að alla framkvæmdina á þeim grundvelli geti borið að með eðlilegum hætti og vel undirbúið frá 1. Jan. n.k.