23.10.1957
Sameinað þing: 5. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í D-deild Alþingistíðinda. (2892)

14. mál, skyldusparnaður

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð. Ég held, að það liggi nú ljóst fyrir öllum hv. þm., eftir þær umræður, sem hér hafa farið fram, að þegar lagaákvæðin voru sett um skyldusparnaðinn á s.l. þingi, hefur það alls ekki verið neitt hugsað áður, hvort yfirleitt væri hægt að framkvæma þennan skyldusparnað eða hvernig það yrði gert með beztu móti.

Samkvæmt þeirri áætlun, sem fylgdi með frv. um húsnæðismálastjórn, var gert ráð fyrir, að skyldusparnaðurinn gæfi tekjur hálft þetta ár. Samkvæmt því mátti álykta sem svo, að málið hefði áður verið það hugsað, að hæstv. félmrh, hefði talið möguleika á því að setja reglugerð um framkvæmdina það snemma, að það hefði getað skilað tekjum í húslánasjóð hálft árið. Ég skal taka það skýrt fram, að það er mér ekkert sérstakt kappsmál, hvort þessi skyldusparnaður er framkvæmdur eða ekki, eða okkur sjálfstæðismönnum, vegna þess að við bentum á það við setningu þessara laga, að það væri sjálfsagt, áður en gripið væri til þessa úrræðis, að reyna, hvort hægt væri að ná svipuðum árangri með frjálsum sparnaði, sem tvímælalaust hefði á allan hátt verið einfaldari í allri framkvæmd, a.m.k. eftir að þær upplýsingar liggja fyrir um þá mörgu vankanta, sem eru á framkvæmd skyldusparnaðarins og komið hafa í ljós við margra mánaða athugun nú eftir að lögin voru sett. Og ég held, að það sé nánast fátítt, ef ekki óþekkt, að það þurfi að setja tvær reglugerðir um framkvæmd, aðra, sem eigi að vera um bráðabirgðaframkvæmd fram til næstu áramóta, en þá eigi að koma í gildi reglugerð, sem eigi að mæla fyrir um framkvæmdina til frambúðar. Það er næsta fátítt og sýnir, hversu erfitt þetta mál allt hefur reynzt hæstv. félmrh. til úrlausnar.

Ég skil nú sannast sagna ekki, hvernig hugsanlegt er að framkvæma þennan skyldusparnað nú frá 1. okt. að telja, þegar þessi reglugerð tekur gildi, ef það er ætlunin, að vinnuveitendur innheimti þetta af kaupi þeirra manna, sem undir skyldusparnaðinn falla, vegna þess að það er, eins og hæstv. ráðh, tók fram, mikill fjöldi manna, sem ekki fellur undir þennan sparnað, og hvernig á vinnuveitandi að vita, hvort viðkomandi aðili fellur undir sparnaðinn eða ekki. Ég er jafnframt ákaflega hræddur um það, að ef byrjað er á þessum skyldusparnaði á þann hátt eins og hér virðist gert ráð fyrir, að innheimta þetta sem nokkurs konar skatta af þessu unga fólki, þá verði það ekki til þess að skapa sérstaka tiltrú til þessa sparnaðar. Þetta er auðvitað atriði, sem er hæstv. félmrh. að bera ábyrgð á, hvernig þetta til tekst. En ég verð sannast sagna að segja það hvað mig snertir, að þá furðaði mig á þeim upplýsingum, sem hæstv. ráðh. hér gaf, því að það staðfestir svo ótvírætt, að ekki verður um villzt, að þegar lagaákvæðin voru sett í fyrra, höfðu menn ekki eða hæstv. ráðh. ekki gert sér nokkra grein fyrir því, hvort þetta væri framkvæmanlegt eða hvernig það væri framkvæmanlegt, og niðurstaðan verður svo þessi vandræðalausn, að gefa út samtímis tvær reglugerðir um framkvæmdina, sem eiga að gilda á mismunandi tímum.