11.11.1957
Sameinað þing: 12. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í D-deild Alþingistíðinda. (2899)

28. mál, togarakaup

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Um leið og ég svara fsp. þeirri, sem hér liggur fyrir, þykir mér rétt að gera hér nokkra grein fyrir skipakaupum samkv. þeim lögum, sem hér er vitnað til í þessari fsp.

Með lögum nr. 94 frá 27, des. 1956 var ríkisstj. heimilað að láta byggja 15 togara og 12 allt að 250 smálesta fiskibáta. Þann 14. jan. 1957 var samið um smíði á sex 250 smál. skipum í Austur-Þýzkalandi, en síðar var samið um önnur sex skip af sömu stærð við sömu byggingaraðila. Þessi 12 skip verða byggð sem fullkomin togskip, en þó jafnframt gert ráð fyrir, að þau verði notuð til annarra veiða, en togveiða. Verð þessara skipa er um 50 millj. kr. Þau eiga að afhendast síðari hluta næsta árs. Helmingur andvirðis þessara skipa er tekinn að láni til eins og tveggja ára frá austur-þýzkum skipasmíðastöðvum, og greiðast af þeim lánum 5% vextir. Enn hefur ekki verið gengið frá frekari lánum varðandi þessi skipakaup.

Sjö af þessum 12 skipum hefur þegar verið ráðstafað til eftirtalinna aðila: Sigurður Magnússon útgerðarmaður, Eskifirði, Einar Guðfinnsson útgerðarmaður, Bolungavík, Leó Sigurðsson útgerðarmaður, Akureyri, Sigfús Þorleifsson útgerðarmaður, Dalvík, Raufarhafnarútgerð, Vopnafjarðarútgerð og Hjalti Gunnarsson skipstjóri, Reyðarfirði.

Varðandi kaup á þeim 15 togurum, sem ríkisstj. hefur heimild til að láta byggja samkv. umræddum lögum, skal þetta upplýst:

Þriggja manna n. hefur starfað með ríkisstj. að undirbúningi þessara skipakaupa. Í nefndinni eru þessir menn: Hjálmar R. Bárðarson skipaskoðunarstjóri, sem er formaður nefndarinnar, Erlingur Þorkelsson vélfræðingur og Sæmundur Auðunsson skipstjóri.

Nefnd þessi gerði tillögur um stærð og gerð skipanna og samdi ýtarlega útboðslýsingu, sem send var 28. júní í sumar til 16 þekktra togaraskipasmíðastöðva. Áður hafði Hjálmar R. Bárðarson skipaskoðunarstjóri átt viðræður fyrir hönd rn. við allmargar skipasmíðastöðvar um möguleika á smíði togara fyrir Ísland og kynnt þeim aðalkröfur okkar í sambandi við þessi væntanlegu skipakaup. Þann 28. okt. s.l. höfðu tilboð borizt um smíði þessara togara frá níu skipasmíðastöðvum. Nokkur fleiri tilboð hafa verið tilkynnt, en eru þó ókomin. Unnið hefur verið að samanburði á tilboðum þessum, og má nú segja, að það liggi orðið nokkuð ljóst fyrir, hvaða skilmálar ættu að vera fáanlegir, samkv. þessum tilboðum, ef gengið yrði til samninga.

Þar sem nú hefur verið unninn allur nauðsynlegur undirbúningur að þessum skipakaupum, hefur ríkisstj. nú nýlega ákveðið að hefja nú þegar samninga um smíði þessara skipa.

Jafnhliða undirbúningi þeim, sem unninn hefur verið að skipasmíðum þessum, hefur ríkisstj, leitað fyrir sér um lán til skipakaupanna. Nokkur lánstilboð hafa borizt, en áfram verður reynt að útvega hagstæðari lán, en hingað til hafa borizt. Samningar um smíði skipanna verða þó ekki látnir dragast af þeim ástæðum.

Ég ætla, að það, sem hér hefur verið sagt, upplýsi það, sem fyrirspyrjandi hefur hér óskað eftir upplýsingum um.