11.11.1957
Sameinað þing: 12. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í D-deild Alþingistíðinda. (2904)

28. mál, togarakaup

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Þessar umræður, sem hér hafa farið fram, gætu gefið tilefni til ýmissa hugleiðinga, en það er auðvitað engin aðstaða til þess að ræða þetta mál neitt verulega, þar sem um nauman tíma er að ræða, sem þingmönnum er ætlaður.

Mér skildist, að hæstv. ráðh. væri ánægður með gang þessara mála, eins og hann hefði verið, og teldi það hafa gengið fullkomlega á viðunandi hátt. Mér skilst nú, að hann sé þá ánægðari, en aðalblað flokks hans, því að þar hefur a.m.k. einu sinni og það fyrir nokkuð löngu komið fram umkvartanir um það, hvað þessi mál gengju seint. Að vísu var ekki hæstv. sjútvmrh. kennt um það, heldur öðrum öflum, en það virðist þá sem ráðh. telji ekki, að það hafi verið ástæða til þeirra umkvartana, sem komu fram í blaðinu. Hins vegar var það nú alveg ljóst af upplýsingum hæstv. ráðherra, að hann taldi líkur til, að mönnum mundi ekki þykja þetta alls kostar hafa gengið rösklega, vegna þess að hann fór hér að svara atriðum, sem ekki hafði verið um spurt, og gerði í rauninni að uppistöðu í sínu máli, en það voru samningarnir um hin 12 austur-þýzku skip, sem samið hefði verið um smíði á. Það er vitanlega góðra gjalda vert, þó að það hins vegar hafi nú upplýstst eftir svar hæstv. ráðh. við fsp. hv. 2. þm. Reykv., að það er auðvitað með öllu óviðunandi, ef ekki tekst að fá hagstæðari greiðsluskilmála á þessum skipum, en nú virðast horfur á. Þó að það hafi verið svo, að einstakir aðilar, sem hafa samið um eitt og eitt skip við erlendar skipasmíðastöðvar, hafi ekki getað fengið margra ára lán, heldur venjuleg exportkreditlán, gegnir auðvitað allt öðru máli, þegar samið er um smíði á 12 skipum, að því er mér skilst við sama aðila. Þá gegnir það nokkurri furðu, ef ekki er grundvöllur til þess að fá hagstæðari lán, en aðeins til tveggja ára og það aðeins um helming andvirðisins, hinn helminginn verður að yfirfæra þegar í stað eða áður en skipin eru afhent, eftir þeim reglum, sem gilda almennt um þessa báta. Hér er um 50 millj. kr. upphæð að ræða, og það gefur auga leið, að það er mjög mikið átak, ef þarf að greiða það á tveimur árum af gjaldeyristekjum þjóðarinnar.

Varðandi togarana virðist liggja ljóst fyrir, að það hefur enn ekki verið samið um smíði neins togara, og það er enn í óvissu, að því er mér skilst, við hvern aðila verður samið. Það er a.m.k. ítrekað búið að spyrja hæstv. ráðh. um það, og hann hefur engu um það svarað, hvar líklegt sé að skipin verði byggð. Hins vegar virðast þó hafa verið einhverjar bollaleggingar um þetta, því að hæstv. ráðh. sagði, að lánamöguleikar yrðu að sjálfsögðu að athugast í sambandi við, hvar skipin yrðu byggð. Hann telur einhverjar horfur á, þó að allt sé það í lausu lofti, að lán fáist, og þá hlýtur það væntanlega að vera í því landi, þar sem skipin á að byggja, eftir fyrri upplýsingum hans um, hvaða vinnubrögð yrðu á þessu að vera. Og ég vildi nú leyfa mér að vænta þess, að hæstv. ráðh, gæti með hliðsjón af þessum upplýsingum, sem hann hefur gefið, skýrt frá því, hvar líkur séu til þess að slík lán sé að fá, og jafnframt vildi ég ítreka það, sem hv. þm. N-Ísf. spurði um, hvort ætlunin væri nú að semja um smíði allra þessara skipa eða aðeins nokkurra þeirra.

Í rauninni liggur málið þannig fyrir eftir þau svör, sem hæstv. ráðh. hefur nú gefið, að menn eru nákvæmlega jafnnær um öll atriði málsins, annað en það eitt, að ekkert er farið að hefjast handa um annað, en leita eftir tilboðum og að nokkur svör hafa borizt við þeim tilboðum. Og til viðbótar það, að eftir upplýsingum hæstv. ráðh. virðast þessi tilboð alls ekki hagstæð, og þá er um það að ræða, eins og hann sagði, að það verði að leita fyrir sér eftir því, hvort ekki fáist með einhverju öðru móti viðunandi hagstæð lán. Og ef ríkisstj. telur gerlegt að ganga nú frá smíðasamningum, án þess að lán hafi fengizt, eins og hæstv. ráðh. upplýsir, hljóta að vera það miklar líkur til, að lánin fáist, að það eigi að vera auðið að skýra frá því a.m.k., hvar um slíkt sé að ræða, því að það semur engin ríkisstj. um að smíða skip fyrir tugi milljóna eða á annað hundrað milljónir króna, án þess að það séu verulegar líkur til og raunar næstum fullvíst, að lán fáist til smíðanna.

Ég verð að láta í ljós nokkra óánægju yfir því, að hæstv. ráðh. skuli ekki sjá sér fært að svara þessu nánar, en gert hefur verið. Það er rétt, að við byggingu þessara skipa hafa víða verið bundnar miklar vonir, og miðað við það, hvað var lögð geysileg áherzla á það af hæstv. ríkisstj. í fyrrahaust að fá afgreidda heimildina til þess að láta smíða þessi skip, mátti gera ráð fyrir, að það mundi verða gengið með oddi og egg að því að smíða skipin. Nú virðist sem sagt málið liggja þannig fyrir, að allt sé í óvissu um þetta efni, eða a.m.k. ef ríkisstj. hefur einhverja vitneskju um horfur á framkvæmdum, þá hefur hún ekki séð sér fært að skýra frá því hér. En ég endurtek það, að mér þætti mjög æskilegt, ef ráðh. sæi sér fært að skýra frá því nánar, en hann hefur gert, hvaða horfur séu á lántökum, og þá, hvort þegar liggi fyrir, að fáanlegt sé lán til smíða á öllum skipunum, og þá hvort þau lán séu með viðunandi kjörum og hvort ætlunin sé nú hjá ríkisstj. að semja um smíði allra þessara 15 togara.

Varðandi síðasta atriði fyrirspurnar hv. þm. N-Ísf., að það væri ekki búið að úthluta skipunum til neinna ákveðinna staða, þá er það vitanlega fullgilt svar hjá ráðherranum. Hins vegar hefur ekki verið talið til fyrirstöðu við bátana a.m.k., að það væri gengið frá úthlutun þeirra fyrir fram að nokkru leyti, þannig að það hefði vitanlega ekki verið útilokað heldur með togarana. Og líklegt er, að fyrir liggi einhverjar tillögur frá atvinnutækjanefnd um það, hvert hún telur æskilegt, að þessi skip færu, og þá væri mjög gott að fá um það upplýsingar frá hæstv. ráðherra, ef hann telur sér fært að upplýsa það.