11.11.1957
Sameinað þing: 12. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í D-deild Alþingistíðinda. (2909)

28. mál, togarakaup

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Óljós voru nú svör hæstv. sjúvtmrh. áður, en miklu dimmra er honum þó fyrir augum, þegar hann á að svara þeim einföldu spurningum, sem ég bar fram, heldur en jafnvel fyrr. Menn hafa nú heyrt hans svör við þeim, og skal ég ekki rekja það frekar, enda hef ég takmarkaðan ræðutíma, svo að ég get ekki farið út í almennar umræður málsins. Ég vil einungis spyrja hann: Er það ekki meginatriði í þessu máli, hvort fé er hægt að fá til togarakaupanna eða ekki? Og er þá ekki nauðsynlegt að fá það upplýst, hvort mögulegt sé að fá það fé af almennu láni, sem sagt er að sé verið að reyna að afla? Og varðar þá þingheim ekki miklu, hvar og hvernig með þá lánsútvegun gangi? Þetta mundu venjulegir menn telja aðalatriði þessa máls, en hæstv. sjútvmrh. er nú orðinn svo villtur, að hann skilur ekki þessi höfuðatriði málsins.

Þá vil ég enn spyrja hæstv. ráðh.: Hvað af mínum spurningum hefur ekki verið rætt í hæstv. ríkisstj.? Hann sagði, að sum þeirra atriða, sem ég spurði um, hefðu ekki verið rædd í hæstv. ríkisstj. Hæstv. ráðh. hlýtur að vita, hvað hann á við með þessum svörum sínum. Og það er sannarlega mjög fróðlegt fyrir þingheim til þess að átta sig á meðferð málsins hjá hæstv. ráðh. að vita, hvaða atriði það eru, sem alls ekki hafa verið rædd í sjálfri ríkisstj., en varða þó grundvallaratriði þessa máls.

Þá skaut hæstv. sjútvmrh. sér undir það, að hér væri um almenn mál að ræða, sem ekki heyrði undir sig að svara. En vissulega heyra þau undir hæstv. ráðh., að svo miklu leyti sem þau varða fjárútvegun til þessara togarakaupa. En þá er líka skammt fyrir hann að seilast til þess, sem svarað getur, til sessunautar síns, hæstv. fjmrh., og einhvern tíma hefði nú ekki staðið á honum, jafnvel óumbeðið, að svara jafnskýlausum spurningum og hér eru fram bornar. Og vil ég þá beina því til hæstv. fjmrh., hvort hann vill nú ekki, úr því að sessunaut hans er orðið orðs vant, hlaupa til og reyna að fræða þingheim og alþjóð um þau atriði, sem íslenzka þjóðin vissulega á heimtingu á að fá skýlaus svör við.

Loksins vildi ég svo spyrja hæstv. sjútvmrh. að því, hvort hann ráðgeri að auglýsa, hvenær sækja eigi um þessa togara til þess að koma til greina varðandi úthlutun þeirra, eða hvort ætlunin sé að úthluta þeim, án þess að mönnum sé gefinn kostur á því innan einhvers ákveðins frests, eftir að fyrir liggur, hver skipin eru og með hvaða kjörum þau verða látin, að sækja um þau.