30.10.1957
Sameinað þing: 7. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í D-deild Alþingistíðinda. (2915)

196. mál, lántaka til hafnargerða

Fyrirspyrjandi (Magnús Jónsson):

Herra forseti, Ég hef leyft mér að beina hér til hæstv. fjmrh. fyrirspurn varðandi lántöku til hafnargerða, þar sem spurzt er fyrir um það, hvað gert hafi verið af hálfu ríkisstj. til þess að afla láns til hafnargerða og hverjar horfur séu á, að umrætt lán fáist.

Svo sem fyrirspurnin ber með sér, er gert ráð fyrir því, að af hálfu ríkisstj. hafi eitthvað verið aðhafzt í þessum málum, og skal ég í aðeins örfáum orðum gera grein fyrir því, á hverju sú skoðun mín byggist.

Þegar núverandi ríkisstj. var mynduð, var fram tekið í málefnasamningi hennar, að hún mundi leita eftir erlendum lánum til framkvæmda í landbúnaði, iðnaði og hafnargerðum. Í sambandi við viðræður, sem urðu á s.l. hausti vegna kjaramála verkalýðsfélaga, mun þetta mál m.a., sérstaklega varðandi hafnargerðirnar, hafa borið á góma, og mér er kunnugt um það, að ýmsir aðilar utan af landi þóttust hafa nokkra vissu fyrir því að, að því mundi verða unnið af ríkisstj. að leysa fjárhagsvandræði hafnargerðanna með lántöku. En eins og mörgum hv. þm. mun vera kunnugt, er víða við að stríða mjög alvarlegan fjárskort í sambandi við hafnargerðir víðs vegar um landið. Möguleikar sveitarstjórna til lántöku eru yfirleitt algerlega þrotnir, þannig að það eru lítil úrræði fyrir hendi hjá efnalitlum sveitarfélögum að útvega það fé, sem af þeirra hálfu, á að leggja fram til hafnargerðanna. Og þetta vandamál verður sífellt verra viðureignar. Það var því eðlilegt, að því væri fagnað víða, ef hæstv. ríkisstj. væri nú að vinna að því að gera eitthvert verulegt átak í þessum efnum, um öflun lánsfjár, sem gera mátti þá ráð fyrir að yrði annað tveggja lánað sveitarfélögunum til framkvæmda að sínu leyti og þá að einhverju leyti einnig til þess að greiða skuldir ríkissjóðs við hin ýmsu sveitarfélög, þar sem ríkissjóður hefur ekki getað innt sín framlög enn af hendi eins og tilskilið er.

Á síðasta þingi var þetta mál nokkuð rætt, og af hálfu minni hluta fjvn. var flutt till. þess efnis að heimila ríkisstj. að taka allt að 25 millj. kr. lán til hafnarframkvæmda. Þessi till. fékkst ekki samþ., af hvaða ástæðu sem það hefur verið, en hins vegar lýsti hæstv. fjmrh. því yfir í sambandi við afgreiðslu þeirrar till., að ríkisstj. væri einmitt að vinna að þessu máli og mundi verða þá síðar á því þingi gefin skýrsla um bæði þetta lánamál og aðrar lánsútveganir, sem ríkisstj. ynni að. Ég minnist þess nú ekki, að sú skýrsla hafi verið gefin á því þingi, og það er ekki enn vitað, að neitt hafi gerzt í þessum efnum, a.m.k. hafa þær vonir, sem tengdar voru við þetta lán, enn sem komið er brugðizt. Ég veit, að margir hafa áhuga á að vita, hvers megi vænta í þessu efni, og því er það, sem ég hef leyft mér að flytja umrædda fyrirspurn og vænti þess, að hæstv. fjmrh. geti gefið upplýsingar um, hversu horfir með þessa lántöku ríkisstj. til hafnargerða.