30.10.1957
Sameinað þing: 7. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í D-deild Alþingistíðinda. (2916)

196. mál, lántaka til hafnargerða

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Við 1. umr. fjárl. gerði ég all ýtarlega grein fyrir lánsútvegunum erlendis á vegum ríkisstj. Ég benti á, að það, sem sæti fyrir í þessu efni, væri Sogsvirkjunin nýja, raforkuáætlun dreifbýlisins, sementsverksmiðjan, ræktunarsjóður, fiskveiðasjóður og togarakaupin. Þá hef ég áður tekið fram og lýst því yfir af hendi ríkisstj., að næst á eftir því að sjá þessum framkvæmdum farborða eins og hægt væri með lánsfjáröflun innanlands og utan kæmu hafnarframkvæmdir og lánaumleitanir erlendis í því skyni, ef mögulegt væri að koma slíku við.

Ríkisstj. hefur nú þegar tryggt mjög mikið fjármagn í Sogsvirkjunina, í fyrravetur nokkurt lánsfé til hinna forgangsframkvæmdanna. Á vegum ríkisstj. hefur undanfarið enn þá verið unnið að öflun lánsfjár erlendis til þessara framkvæmda, og hafa þá enn orðið að ganga fyrir í þeim umleitunum raforkuáætlunin, sementsverksmiðjan, ræktunarsjóður og fiskveiðasjóður, eins og ég raunar gerði grein fyrir við fjárlagaumr. Geri ég mér vonir um, að þær umleitanir beri árangur á þessu ári. Þá stendur nú fyrir dyrum að gera samninga um togarakaup, og koma þá til greina miklar erlendar lántökur í því sambandi. Lántökur erlendis til hafnargerða hafa því ekki komizt að enn þá, eins og ég greindi frá við fjárlagaumr., vegna þessara stórfelldu framkvæmda, sem hafa orðið að sitja fyrir, eins og fyrir fram var yfir lýst. Á hinn bóginn ganga hafnarframkvæmdir, að því er varðar lánaumleitanir erlendis, næst á eftir þeim framkvæmdum, sem ég nú hef greint frá, eins og áður hefur verið frá skýrt. Er unnið að þessum málum öllum saman, og koma þar til greina þau viðhorf öll varðandi lántökur og lánaútveganir erlendis, sem ég greindi allýtarlega frá í framsöguræðu fjárl. Er, eins og gefur að skilja, ekki hægt að segja nú til um það, hvenær að lántökum erlendis kæmi til hafnargerða, en ríkisstj. mun vinna að því máli samkvæmt þeirri starfsáætlun varðandi framkvæmdir og leit að erlendu lánsfé, sem hún hefur sett sér og kunnug er alþjóð og ég hef nú rifjað upp í tilefni af þessari fyrirspurn hv. þm.