30.10.1957
Sameinað þing: 7. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í D-deild Alþingistíðinda. (2917)

196. mál, lántaka til hafnargerða

Fyrirspyrjandi (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann gaf hér. Það kom glöggt fram, að enn sem komið er hefur ekki verið neitt gert af hálfu ríkisstj. til þess að afla lánsfjár til hafnargerða. Hann skýrði frá því, að það hefði alltaf verið gert ráð fyrir, að ákveðnar framkvæmdir yrðu látnar sitja í fyrirrúmi. Ég skal á engan hátt vanmeta þær framkvæmdir né heldur þá niðurröðun, sem þar er um að ræða; það er alltaf mikið álitamál, hvað sitja á fyrir og hvað ekki. En ég tel hins vegar, að það hafi verið þannig frá þessu máli skýrt á stundum a.m.k., þó að ég sé ekki að bera hæstv. fjmrh, fyrir því, að það hefur gefið sveitarfélögunum ástæðu til að binda nokkrar vonir við þessa lántöku. Það er að sjálfsögðu mikið vafamál, hvað á að halda á lofti bollaleggingum af hálfu ríkisvaldsins um lántöku til ákveðinna framkvæmda, ef allar horfur eru á því, að það geti liðið mörg ár, áður en hægt verði að hefjast handa í því sambandi. Eins og ég áðan gat um og flestum hv. þm. mun kunnugt af eigin raun, — þeir hafa flestir að einhverju leyti hafnargerðir á sinni könnu og hafa þurft að berjast fyrir öflun lánsfjár til þeirra, — þá er það ekki undarlegt, þó að vakið sé máls á þessu hér og menn vilji gjarnan vita, hvar þeir standa í þessu efni, því að það er að sjálfsögðu nauðsynlegt bæði við þessar framkvæmdir og aðrar að hafa hið fyllsta raunsæi og gera sér grein fyrir því, hvaða möguleikar eru fyrir hendi. Að því leyti tel ég gott að fá fram ákveðna yfirlýsingu frá hæstv. ráðh. um þetta efni, þó að sú yfirlýsing því miður gefi ekki miklar vonir þeim aðilum öllum, sem hafa hugsað sér eða vonazt til, að þeir gætu notið góðs af þessari fyrir huguðu lántöku. Og það fer í rauninni að vera skiljanlegt, að hæstv. ríkisstj. kærði sig ekki sérstaklega um heimild til þessarar lántöku á síðasta þingi, þar sem svo daufar horfur virðast á því, að þetta lán yfirleitt fáist í náinni framtíð.