30.10.1957
Sameinað þing: 7. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í D-deild Alþingistíðinda. (2921)

197. mál, íslensk-skandinavíska samgöngumálanefndin

Fyrirspyrjandi (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Svo sem hv. þm, mun vafalaust öllum vera kunnugt, var á þingi Norðurlandaráðsins í febr. 1955 ákveðið, að sett skyldi á laggirnar sérstök nefnd, sem átti að hafa það hlutverk að fjalla um bættar samgöngur milli Íslands og hinna Norðurlandanna hins vegar. Þetta mál er, hvað sem mönnum kann að sýnast um ferðamál yfirleitt, merkilegt að því leyti, að hér hefur af hálfu Norðurlandaráðsins verið gerð ályktun, sem sérstaklega varðar Ísland.

Af hálfu íslenzku ríkisstj. var okkur Páli Zóphóníassyni falið að taka sæti í þessari n. Hún vann allmikið og viðaði að sér margvíslegum gögnum um ferðamál hér á landi yfirleitt og margvísleg atriði, sem máli skipta í því sambandi, viðskipti við Norðurlöndin og skilyrði hér heima fyrir til þess að taka á móti erlendum ferðamönnum.

Skýrsla þessarar n. ásamt till. hennar voru lagðar fyrir þing Norðurlandaráðsins, sem haldið var í febrúarmánuði s.l.

Ástæðan til þess, að ég ber fram þessa fyrirspurn hér, er sú, að Norðurlandaráðið gerði sérstaka ályktun í málinu, þar sem m.a. því var beint til íslenzku ríkisstj., að hún tæki til vandlegrar athugunar þau vandamál, sem íslenzk-skandinavíska samgöngumálanefndin benti á í sínu áliti, með það í huga, að þær ráðstafanir væru gerðar af hálfu Íslendinga, sem n. hefði talið forsendu þess, að hægt væri að auka samgöngur milli Íslands og hinna Norðurlandanna.

Þar sem af hálfu Norðurlandaráðsins var sýndur þessi áhugi á Íslandsmálum og að tengja Ísland við hin Norðurlöndin sem traustustum böndum með aukinni landkynningu um Ísland og jafnframt aukinni kynningu um Norðurlönd hér á Íslandi og einnig vegna þess, að þeir nm. frá hinum Norðurlöndunum, sem að þessu máli unnu í íslenzk-skandinavísku samgöngumálanefndinni, lögðu fram mikið starf þar og sýndu mjög mikinn áhuga á að auka tengslin milli Íslands og hinna Norðurlandanna, sýnist mér, að það sé mikið atriði fyrir Ísland að sýna þessu máli af sinni hálfu hina fyllstu eftirtekt og leitast við eftir fremsta megni að framkvæma þær ábendingar, sem Norðurlandaráðið vekur athygli á, í sinni ályktun. Það er að vísu ekki mjög langt síðan þetta þing var haldið og ekki hægt að vænta þess, að nein stórvirki hafi gerzt á þeim tíma. En ástæðan til, að ég flyt þessa fyrirspurn hér, er sú, að það komi fram hér á Alþ., að fyrir hendi sé áhugi á að vinna að áframhaldandi athugun þessa máls og reyna að hrinda í framkvæmd þeim ráðstöfunum, sem talið er nauðsynlegt að gera, og það komi jafnframt fram, sem ég tel víst að sé fyrir hendi, að hæstv. ríkisstj. hafi þegar hafizt handa um athugun þessara mála og vinni að þeim í samræmi við það, sem ályktun Norðurlandaráðsins bendir á.

Ég skal ekki fara hér út í þessar till. í einstökum atriðum, til þess gefst enginn tími, en ég vil aðeins vekja athygli á, að tvö meginatriði eru þar, sem Ísland varða og þarf að leggja áherzlu á. Það er annars vegar bættur hótelkostur, og hins vegar eru það gjaldeyrismálin, sem eru talin vera til hindrunar ferðalögum hingað til Íslands frá Norðurlöndunum hinum.

Að öðru leyti fer ég ekki efnislega út í þessa álitsgerð íslenzk-skandinavísku samgöngumálanefndarinnar, en vænti þess, að hæstv. ríkisstj. geti veitt Alþ. nokkrar upplýsingar um, hvað síðar hafi gerzt í málinu, frá því að Norðurlandaráðsþingið samþykkti umrædda ályktun.