30.10.1957
Sameinað þing: 7. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í D-deild Alþingistíðinda. (2922)

197. mál, íslensk-skandinavíska samgöngumálanefndin

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Fyrirspurnin er svo hljóðandi:

„Hvað líður athugunum á framkvæmd þeirra þátta tillagna íslenzk-skandinavísku samgöngumálanefndarinnar, sem 5. þing Norðurlandaráðsins sérstaklega beindi til ríkisstj. Íslands?“

Fyrirspurnin beinist sem sé að því, hvað ríkisstj, hafi gert vegna nokkurra atriða varðandi samgöngumál Íslands og hinna Norðurlandanna, sem koma fram í áliti n., sem starfaði á vegum Norðurlandaráðsins 1955–57 og sérstaklega hafði þessi mál til meðferðar. Álit n. var lagt fram á 5. þingi Norðurlandaráðsins í febr. núna á þessu ári, og var þeim atriðum, sem n. taldi einkum koma til greina varðandi bættar samgöngur milli Íslands og hinna Norðurlandanna, vísað til ríkisstj. Íslands sumum þeirra og öðrum til athugunar hjá ríkisstj. hinna landanna.

Eftirfarandi atriðum var vísað til ríkisstj. Íslands: Að vinna að bættum gistihúsakosti á Íslandi. Það hefur undanfarið verið haldið áfram að veita nokkur lán til endurbóta og lagfæringa á gistihúsum úr svokölluðum sérleyfisgjaldasjóði, en sjóður þessi hefur mjög takmörkuð fjárráð, og er hér um smálán að ræða, en hafa þó sums staðar komið að verulegu liði. Í ráði er að leggja fyrir þetta hv. Alþ. frv. til nýrra veitingalaga, þ.e. almenns efnis um veitingar og gistihúsarekstur, í aðalatriðum í samræmi við frv., sem samið var um það efni af milliþn., sem starfaði fyrir nokkru. Þá er til athugunar, hvort unnt sé að stuðla að frekari átökum í gistihúsamálum, en um það er ekkert hægt að segja á þessu stigi, því að eins og þingmönnum er mætavel kunnugt, er hér sannarlega í mörg fleiri horn að líta.

Þá var í öðru lagi vísað til ríkisstj. Íslands að athuga, hvort hægt væri að taka upp sérstakt ferðamannagengi á íslenzkri krónu og hvort hægt væri að leyfa ferðamönnum að taka með sér út úr landinu hærri upphæðir í íslenzkum krónum, en nú er gert.

Ekki hefur enn þá verið talið fært að leggja út á þá braut að taka upp sérstakt ferðamannagengi. Menn tala nú oft um þetta almennt held ég, án þess að gera sér nákvæmlega grein fyrir, hvað það er. En sérstakt ferðamannagengi þýðir í raun og veru, að útlendum ferðamönnum séu greiddar uppbætur á þann erlenda gjaldeyri, sem þeir skila inn í landið. Slík ráðstöfun yrði hliðstæð því, að greiddar eru útflutningsuppbætur á útfluttar vörur. Að vísu má gera ráð fyrir því, að eins og gengisskráningu er hér háttað, þá dragi hún mjög úr því, að erlendir ferðamenn sjái sér fært að koma til Íslands og dveljast hér. Á þetta sama við um ferðamannaviðskipti erlendra manna og flestar framleiðslugreinar til útflutnings, sem ekki fá uppbætur, og raunar alla þætti atvinnulífsins, sem ekki hafa uppbætur eða stórfellda tollvernd. En vilji menn bæta úr þessu og borga þessar uppbætur á ferðamannagjaldeyri erlendra manna, sem koma hingað, þá þarf sérstaka fjáröflun til þess að greiða uppbæturnar á ferðamannagjaldeyrinn, Og fram að þessu hefur niðurstaðan orðið sú, að menn hafa ekki treyst sér til að fara inn á þessa braut að borga uppbætur á gjaldeyrinn með því að taka upp sérstakt ferðamannagengi, og þannig stendur þetta mál í dag, hvað sem verður framvegis. Til athugunar er í samráði við gjaldeyrisyfirvöldin, hvernig heppilegast kunni að vera að mæta þeim óskum, sem fram hafa komið um að leyfa ferðamönnum að taka með sér út úr landinu hærri upphæðir í íslenzkum peningum, en nú er gert.

Loks var því svo beint til íslenzku ríkisstj., — það var þriðja atriðið, — að æskilegt væri talið, að unnið væri að því, að skipafélög þau, sem halda uppi reglulegum ferðum milli Íslands og Danmerkur, létu skip sín hafa reglulegar viðkomur í Vestur-Svíþjóð og Vestur-Noregi. Hefur samgmrn. snúið sér til þeirra aðila, sem slíkar siglingar hafa með höndum, varðandi þetta mál, en þeim athugunum er ekki svo langt komið, að hægt sé að greina frá nokkurri niðurstöðu.

Eins og af þessu verður séð, er ekki um neinar stórframkvæmdir að ræða, enda geri ég varla ráð fyrir því, að hv. flm. hafi gert ráð fyrir því, heldur vaki það fyrir honum með þessari fyrirspurn að minna á málið og að ýta á það. Sé ég ekkert athugavert við það. Þetta mál er í athugun á þann hátt, sem ég hef greint frá, en hér er um talsvert stórfellt vandamál að ræða, sem þarf vel að skoða áður, en ákvarðanir eru teknar.