18.12.1957
Efri deild: 45. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í B-deild Alþingistíðinda. (293)

73. mál, kosningar til Alþingis

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Mér kemur það nokkuð á óvart, ef hæstv, forseti ætlar að halda því fram við hv. þd., að ég hafi ekki kvatt mér hljóðs.

Ég fékk fjarvistarleyfi hjá hæstv. forseta fyrir réttum klukkutíma til þess að mega vera við jarðarför, og ég lét einmitt í ljós ósk um það, að mér gæfist kostur á því að taka til máls að þeim tíma liðnum, svo að það er ekki fyrir neina náð hæstv. forseta, sem ég fæ að taka hér til máls nú, enda er þessu máli þannig farið, að það er vissulega ástæða til þess, að því séu gerð ýtarlegri skil, en þó hefur gefizt tækifæri til hér í hv. þingdeild.

Það er látið í veðri vaka, að megintilgangur þessa frv. sé sá að friða kjördaginn, eins og hv. stjórnarflokkar kalla það.

Þegar ég virði fyrir mér þennan tilgang og þau fögru orð öll, sem um hann hafa fallið, bæði hér á hv. Alþ. og í blöðum hv. stjórnarflokka, þá getur ekki farið hjá því, að upp í hugann komi mynd nokkuð önnur af framkvæmd þessara sömu flokka á friðsemd sinni á kjördegi. Og mig langar til þess að rifja í örstuttu máli upp nokkra drætti þessarar myndar úr þeim landshluta, þar sem ég þekki bezt til kosninga. Þar, eins og auðvitað annars staðar á landinu, hefur hv. stjórnarflokkum, sem flytja þetta frv. til þess að „friða kjördaginn“, gefizt tækifæri til þess að sýna þann vilja sinn í verki.

Ég vildi fyrst mega skýra frá því, hvernig bæjarstjórnarkosningar voru framkvæmdar af Alþfl. og Framsfl. á Ísafirði í fyrsta og annað skiptið, sem ég átti kost á því að taka þátt í slíkum kosningum þar.

Kjördagurinn hófst á því, að umsát var hafin af hálfu þessara flokka um tvær heilbrigðisstofnanir bæjarfélagsins, sjúkrahúsið og elliheimilið. Það var hleypt hóp kosningasmala Alþfl. og Framsfl. á þessar tvær heilbrigðisstofnanir og þær bókstaflega hernumdar. Um leið og kosning var hafin, hreinsuðu umboðsmenn þessara flokka svo að segja bæði sjúkrahúsið og gamalmennaheimilið og fluttu fólkið, sumt lítið veikt, en sumt mikið veikt, á kjörstað. Ég minnist þess, að sumt af þessu fólki var svo fársjúkt, að það gat ekki einu sinni setið í bifreiðum, og varð að bera það í sjúkrabörum inn á kjörstaðinn.

Þetta gerðist ekki aðeins á sjúkrahúsinu, eins og ég sagði, heldur og á elliheimilinu. Mennirnir, sem nú segjast vera að „friða kjördaginn“ fyrir Reykvíkinga, þustu inn á elliheimilið í býti að morgni og höfuðsátu gamla fólkið og fluttu það á kjörstað, um leið og kosning var hafin.

Þetta er einungis einn dráttur í myndinni af því, hvernig fulltrúar þessara flokka „friðuðu kjördaginn“ á Ísafirði.

Annar dráttur í þessa mynd er sá, að það var tekið að tíðkast á þessum árum, að fulltrúar Alþfl. tóku upp heilar fjölskyldur daginn fyrir kjördag og fluttu þær heim til sinna eigin forsprakka til þess að höfuðsitja þær þar í heilan sólarhring, áður en kjördagur og kosning hæfist. Var ýmsum brögðum beitt til þess að fá fólk til slíkra hluta.

Þriðji drátturinn í þessa mynd af friðnum, sem Framsfl. og Alþfl. sköpuðu fyrir vestan ,á kjördegi, gæti svo verið sá, minningin um það, að eitt sinn var það á einum kjörstað í kjördæmi mínu, að kona, sem legið hafði sjúk í 3 ár og var með háan sótthita á kjördag, var borin á kjörstað til þess að greiða atkv., svo veik, að hún hafði ekki einu sinni möguleika til þess að óska aðstoðar þess manns í kjörstjórninni, sem hún óskaði að aðstoðaði sig við að greiða atkv. Manneskjan hafði bókstaflega hvorki líkams né sálarkrafta til þess að biðja um aðstoðina, og sá, sem bar hana á kjörstaðinn, var látinn óska aðstoðarinnar fyrir hana og þar með auðvitað þverbrjóta kosningalög.

Þetta eru aðeins örfáir drættir í myndinni af því, hvernig þessir flokkar, sem nú segjast vera að „friða kjördaginn“ fyrir Reykvíkinga, hafa friðað hann útí á landi. Ég skal ekki rekja þessa sögu lengri, en ég gæti talið tugi slíkra dæma.

Þegar á þetta er litið og fjölmargt fleira, er það ekki lítil hræsni og yfirdrepsskapur, þegar þessir flokkar, sem nú sitja í ríkisstj., flytja frv., sem þeir segja að eigi fyrst og fremst að vera um það að vernda kjósendurna, vernda fólkið í Reykjavík fyrir ágangi pólitískra smala á kjördegi. Ég held, að það sé nokkurn veginn staðreynd í þeim landshluta, þar sem ég þekki bezt til, að engir flokkar hafi beitt eins skefjalausum áróðri og eins miskunnarlausri harðýðgi við gamalt fólk og veikt á kjördegi eins og Framsfl. og Alþfl. Kommúnistar hafa ekki gert það þar, vegna þess að þeir hafa miklu minna þurft á því að halda, því að þeir hafa svo að segja ekkert fylgi átt í þessum landshluta.

Það frv., sem hér liggur fyrir til breytinga á kosningalögunum, á að vísu að ná til fleiri en Reykvíkinga. En því er fyrst og fremst beint að Reykjavík. Ég er líka sannfærður um það, að ekki einn einasti maður t.d. í landshluta eins og Vestfjörðum tekur það yfirvarp alvarlega, að tilgangur þessa frv. sé að friða fólkið fyrir ásókn hinna pólitísku flokka á kjördegi. Fólkið þekkir allt of vel fortíð þeirra flokka, sem aðallega beita sér fyrir þessu frv.

Á það hefur verið bent í þeim miklu umr., sem orðið hafa um þetta mál hér á hv. Alþingi, að sérstök mþn. sé starfandi að því að endurskoða kosningalögin, og sú n. er skipuð fulltrúum allra þingflokka. Ég dreg það ekki í efa, að breyta megi ýmsum atriðum kosningalaga til hins betra og til réttlátari vegar. Öll mannanna verk eru þannig, að þau eru ófullkomin, og reynslan er stöðugt að kenna okkur fjölmargt í framkvæmd lýðræðishátta. En það er merkilegt, að sá flokkur og leiðtogar þess flokks, sem aðallega hafa beitt sér fyrir þeim breyt. á kosningalögum, sem hér er um að ræða, eru aðalvarðmennirnir um hina ranglátu og úreltu kjördæmaskipun, sem ríkir í þessu landi. Réttlætistilfinningin er þá ekki þroskaðri, en svo hjá þessum mönnum, sem segjast vera að friða fólkið fyrir ágengni stjórnmálamannanna, að sjálfan grundvöll lýðræðisskipulagsins, kjördæmaskipunina, vilja þeir hafa eins rangláta og þeir frekast geta, aðeins ef það er í þágu þeirra eigin pólitísku hagsmuna. Framsfl. nefnir það ekki einu orði í þeirri „réttindabaráttu“, sem hann þykist standa í hér fyrir hönd kjósenda í landinu, að kjördæmaskipunin sé óréttlát og það þurfi að breyta henni. Nei, á það er ekki minnzt einu orði, enda þótt sú staðreynd blasi við öllum landslýð, að Alþingi sjálft sé ekki skipað í neinu samræmi við vilja fólksins í landinu. Þetta sést einna greinilegast á úrslitum seinustu alþingiskosninga, þar sem það gerðist, að Framsfl. og Alþfl. töpuðu á milli 4 og 5% atkvæða, en unnu samt nokkur þingsæti, á sama tíma sem Sjálfstfl., sem hækkaði hlutfallstölu sína úr 37.5% upp í 42.4%, tapaði tveimur þingsætum, Þessar staðreyndir sýna greinilegar en nokkuð annað, hversu léleg mynd Alþingi er í dag af vilja þjóðarinnar. Flokkur, sem hefur rúmlega 42% kjósenda á bak við sig, hefur 19 þm., en flokkur, sem hefur 15.6% á bak við sig, Framsfl., hefur 17 þm. En þetta er ekki ranglæti, sem hæstv. núverandi ríkisstj. finnst ástæða til þess að beita sér fyrir að leiðrétta. Þetta má liggja í láginni. Alþingi má hennar vegna vera skrípamynd af þjóðarviljanum. En til hins er ástæða, að flytja frv. um breyt. á kosningalögunum, sem ekki setur undir neinn leka í sambandi við áróður á kjördegi og ekki felur í sér neina raunhæfa tilraun til þess að draga úr óhóflegum áróðri og ónæði, sem kjósendur kunna að verða fyrir af honum.

Ég benti á það, að þau vinnubrögð, sem ég lýsti hér í upphafi að viðhöfð hefðu verið á kjördegi vestur á Vestfjörðum, bæði við bæjarstjórnar- og alþingiskosningar, af Framsfl.mönnum og Alþfl.-mönnum, verða ekki að neinu leyti hindruð með þeim breytingum, sem lagt er til að gerðar verði með þessu frv. Það er ekki hægt að koma í veg fyrir það, að pólitískir flokkar, sem vilja ganga hart að fólki, sem kannske er tregt til að kjósa, kannske vegna veikinda, kannske vegna elli, kannske vegna sjóndepru, — það er hvergi tryggt, að þetta fólk njóti einhvers nýs friðar gagnvart ágangi. Það hafa ekki verið færð minnstu rök að því af hálfu hv. stjórnarsinna, að þessi ágangur yrði minnkaður, þó að þessar brtt. verði samþykktar. En aðalatriði þeirra eru þau, að hinum pólitísku flokkum er gert erfiðara fyrir að fylgjast með því, hverjir kjósa. Og þó nær þetta í raun og veru eingöngu til Reykjavíkur og hinna stærstu kaupstaða, vegna þess að í strjálbýlinu, í sveitum og í sjávarþorpum, geta menn fylgzt alveg nákvæmlega með því, hverjir kjósa. Fjölmennið er ekki meira en svo, og kynnin eru það náin manna á milli, að það þarf ekki að hafa menn inni á kjörstöðum til að skrifa upp nöfn þeirra, sem kjósa, vegna þess að samborgararnir geta að öðrum leiðum fylgzt nokkurn veginn nákvæmlega með því. Þetta frv. er þess vegna ekki til þess að friða fólk úti á landi fyrir of mikilli ágengni stjórnmálaflokka á kjördegi. En auðsætt er, að hv. stjórnarflokkar byggja á því nokkra von, að minnkaðir möguleikar til þess að fylgjast með því, hverjir kjósa hér í Reykjavík, muni helzt bitna á stærsta stjórnmálaflokknum. Og það er ljóta sagan í sambandi við þetta mál, að það er ekki flutt fram sem réttlætismál, þó að flm. þess hafi á sér yfirskin guðhræðslunnar og tali um friðun kjördagsins, heldur sem pólitískt ofsóknarmál.

Á það var minnzt, að sérstök mþn. starfaði að endurskoðun kosningalaga og þar ættu sæti fulltrúar allra flokka. Á undanförnum áratugum, þegar kosningalög hafa verið endurskoðuð, hefur verið lögð áherzla á það, að um það starf gæti verið samvinna milli hinna pólitísku flokka. Á þann hátt hefur verið talið líklegast, að skynsamlegum breytingum yrði fram komið, breytingum, sem ekki væru eingöngu miðaðar við stundarhagsmuni eins eða tveggja flokka, heldur við þörf lýðræðisskipulagsins fyrir réttlátar og skynsamlegar reglur.

Hér er allt annar háttur á hafður. Nú eru hafin pólitísk illindi um endurskoðun kosningalaga. Fyrst er byrjað á því, að stuðningsblöð hæstv. ríkisstj. hefja upp hótanir um það, að klekkt skuli á stjórnarandstöðunni. Síðan er málið flutt, að vísu í nokkru mildari búningi, en orðræður höfðu verið uppi um áður. En engu að síður er undirbúningur málsins svo lélegur, að jafnvel við 1. umr. þess verða hæstv. ráðh. að lýsa því yfir, að veigamestu ákvæði frv. séu byggð á prentvillum. Á ég þar við ákvæðið um það, sem stóð upprunalega í frv., að kosning skyldi ekki standa lengur en til kl. 10 síðdegis. Jafnvel veigamesta ákvæði frv. er sagt byggjast á prentvillu, eftir að margra mánaða vinnu hefur verið eytt í að undirbúa málið.

Það er auðsætt, að þetta frv. er fyrst og fremst fram komið vegna ótta hæstv. stjórnarflokka við þær kosningar, sem fram undan eru. Þessir flokkar gera sér það ljóst, að á því rúmlega eina ári, sem stjórn þeirra hefur setið, hefur hún brugðizt vonum svo margra manna, að líkur eru fyrir því, að fylgi þeirra muni hafa hrakað allverulega. Og fyrsta úrræðið, sem þá er gripið til, er tilraun til þess að takmarka kosningarréttinn, tilraun til þess að tryggja það, að færra fólk komi á kjörstað, heldur en ef gildandi reglum í kosningalögum væri fylgt.

Þetta er í raun og veru kjarni málsins. Flokkar, sem eru orðnir uggandi um fylgi sitt og aðstöðu, grípa til þess ráðs að takmarka kosningarrétt fólksins í þeirri von, að sú takmörkun muni fyrst og fremst bitna á stærsta flokknum í landinu og aðalandstöðuflokki þeirra.

Mér hefði fundizt sanngjarnt, ef í þessu frv. hefði verið lagt til, að kosningu skyldi ljúka um miðnætti. Það er það, sem löggjafinn hefur raunverulega ætlazt til, enda þótt kosningalög hafi á örfáum stöðum verið framkvæmd þannig, að kosið hafi verið eftir miðnætti. En hv. stjórnarflokkar leggja upprunalega til, að kosning verði látin hætta klukkan 10, en heykjast síðan á því, eftir að þeir finna þunga almenningsálitsins gegn sér, og leggja til, að kosningu verði látið ljúka klukkan 11. Ef til vill skiptir það ekki meginmáli, hvort kosið er til klukkan 11 eða 12. En stefnan, sem kemur fram í baráttunni fyrir að stytta kjördaginn um einn klukkutíma, segir til sín og er alveg tvímælalaus og greinileg. Hún miðar ekki að því að gera fólkinu auðveldara að neita þess helga réttar, sem atkvæðisrétturinn er, heldur þvert á móti að hinu, sem ég minntist á áðan, að gera því erfiðara fyrir. Það geta fjölmargar ástæður legið til þess, að maður geti ekki neytt atkvæðisréttar síns, fyrr en eftir klukkan 11 að kvöldi. Maður getur verið á bráðnauðsynlegu ferðalagi, hann getur verið í sjóróðri, hann getur verið bundinn við gæzlustörf eða atvinnu sína fjarri byggðum, og fjölmargar aðrar ástæður geta komið til greina í þessu sambandi, þannig að maður geti ekki neytt atkvæðisréttar síns, fyrr en t.d. eftir klukkan 11 að kvöldi. En slíkur maður á ekki að hafa réttinn til þess að hafa áhrif á skipan bæjarstjórnar sinnar, sveitarstjórnar eða sjálfs Alþingis samkvæmt því frv., sem hér liggur fyrir. Vegna þess að stjórnarflokkarnir hafa ákveðið að „friða kjördaginn“, á þessi maður, sem er t.d. í sjóróðri og kemur ekki að fyrr en eftir klukkan 11 að kvöldi, ekki að hafa rétt til þess að greiða atkv. Ég minnist þess, jafnvel í þessum hörðu kosningum, sem ég lýsti áðan í upphafi ræðu minnar vestur á Ísafirði, að það var beðið með að slíta kjörfundi eftir því, að menn kæmu af sjó. Þannig var nú þó litið á þetta mál þar. Og ég býst við því, að réttlætistilfinning allra venjulegra manna sé á þá lund, að maður eigi einskis að missa í af rétti sínum til þess að hafa áhrif á stjórn bæjarfélagsins eða þjóðar við það, að hann er t.d. á síðustu stund dagsins, síðustu stundinni fyrir miðnætti, bundinn við skyldustörf sín, hvort sem er á sjó eða landi.

Ég fæ ekki séð, hvernig hægt er að færa minnstu rök að því, að með þessu frv. sé verið að stuðla að réttlæti eða þá auknu lýðræði. Enda þótt bannað sé að skrifa öll nöfn þeirra kjósenda, sem á kjörstað koma, eru engar raunverulegar hömlur lagðar við því, að stjórnmálaflokkarnir fylgist með því, hverjir kjósi, og eins og ég sagði í upphafi og eins og bent hefur verið á áður, í þessum umr., er hægt að gera þetta í hverju einasta sveitakjördæmi landsins og í hverju einasta sjávarþorpi landsins. Það er aðeins í Reykjavík og e.t.v. á Akureyri, sem þetta mundi verða erfitt í framkvæmd.

En engu að síður er ég þess fullviss, að sjálfir stjórnarflokkarnir, sem þessi frv. eru að flytja, hafa ákveðið að gera tilraun til þess að fylgjast áfram með því, hvenær fólkið kemur á kjörstað og hverjir hafa greitt atkvæði, því að ég hef hvergi heyrt því haldið fram í þessum umr. öllum, að það hafi einungis verði Sjálfstfl., sem hafi haft fulltrúa á kjörstað til þess að skrifa upp nöfn þeirra, sem greitt hafa atkv. Þvert á móti hefur verið játað, að allir stjórnmálaflokkar hafi gert þetta. Og það er alveg öruggt, að þessir flokkar ætla sér að halda þessu áfram með öðrum hætti, þessari eftirgrennslan á því, hverjir kjósa. Og við skulum sanna til, hvort ekki muni verða höfð einhver útispjót um það. Og hvað er þá orðið eftir af þeirri „friðun kjördagsins“, sem þessir menn eru sífellt að tala um?

Það sýnir svo bezt, að við sjálfstæðismenn höfum rétt fyrir okkur í því að telja illar hvatir liggja til grundvallar þessu máli, að sjálfir leiðtogar stjórnarflokkanna, eins og t.d. hæstv. fjmrh., lýsa því hreinlega yfir, að þessu máli og þessum breytingum á kosningalögunum sé fyrst og fremst stefnt gegn kosningaskipulagi Sjálfstfl. í Reykjavík. Þessir flokkar vita það og viðurkenna, að Sjálfstfl. er mjög vel skipulagður í höfuðborg landsins og er þar byggður upp af miklum fjölda starfandi flokksmanna, sem taka virkan þátt í baráttu flokksins, ekki einungis fyrir hverjar kosningar, heldur og á milli kosninga. Svo hræddir eru andstæðingar okkar við þetta skipulag, að enda þótt þeir hafi reynt að líkja eftir því, hafi reynt að ná sama árangri með svipuðu skipulagi og við höfum haft, þá grípa þeir að lokum til þess óyndisúrræðis að reyna að torvelda starfsemi þess í þeirri von, að þetta bitni helzt og mest á stærsta flokknum.

Ég held, að ef það hefði verið raunverulegur tilgangur með þessu frv., að „friða kjördaginn“ og draga úr ósæmilegum áróðri á kjördag, hefði verið allt öðruvísi að þessu máli unnið. Engum er það ljósara en okkur sjálfstæðismönnum, að það hefur oft verið hafður í frammi ósæmilegur áróður og það hefur oft verið beitt ágangi gagnvart kjósendum, veiku fólki og öldruðu, á kjördegi. Þær myndir, sem ég dró upp í upphafi máls míns, eru gleggsta sönnun þess. Við sjálfstæðismenn hefðum þess vegna áreiðanlega verið við mælandi um það, þegar kosningalög voru endurskoðuð, að freista raunhæfra úrræða til lagfæringar í þessum efnum. En hér er ekki fyrst og fremst nú lögð áherzla á það að byggja á reynslunni og reyna að hafa samvinnu og frið um skynsamlega endurskoðun reglna kosningalaganna um þessi efni, heldur er fleygt inn á Alþingi skömmu fyrir jól illa undirbúnu frv., sem ber allan svip öfga og yfirgangs, ber allan svip þess tilgangs að reyna fyrst og fremst að klekkja á stærsta flokki þjóðarinnar, en láta sér í léttu rúmi liggja, hvort í leiðinni fæst nokkur raunveruleg umbót á því skipulagi, sem verið er að deila á. Ég er sannfærður um það, að það er það mikið af sanngjörnum og greindum mönnum í hv. stjórnarflokkum, að þeir finna þetta vel, að með þessu frv. er ekki stefnt að sanngjörnum breytingum, sem gætu skapað traustari grundvöll fyrir íslenzkt lýðræði og þingræði eða opinber stjórnmál í landinu yfirleitt, Hér er pólitískt ofurkapp að verki, og fyrir ótta við óvinsældir núverandi hæstv. ríkisstj. hefur verið talið nauðsynlegt að knýja þetta mál fram á síðustu dögum fyrir þingfrestun.

Það er svo annað mál, hvort hv. stjórnarflokkar ná þeim tilgangi, sem að er stefnt með þessu frv. Mér er næst að halda, að þeir muni ekki ná honum. Pólitísk hrekkjabrögð borga sig yfirleitt ekki. Almenningur á Íslandi hefur orðið svo góða aðstöðu til þess að fylgjast með, að hann getur greint á milli þess, hvað sé ærleg tilraun til þess að bæta úr göllum á kosningalögunum og hvað sé pólitískt hrekkjabragð framið í þeim tilgangi einum að klekkja á einum einstökum flokki. Ég treysti það mikið á dómgreind íslenzks almennings, að ég held, að þessar kosningalagabreytingar, sem í engu veita kjósandanum raunverulegan frið með skoðanir sínar og valfrelsi um það, hvort hann eigi að kjósa eða ekki kjósa, muni ekki verða stjórnarflokkunum til vinnings.

Ef réttlætistilfinning Framsfl. hefði rumskað eitthvað í sambandi við þessi mál, hefði afleiðing þess átt að verða sú, að hann hefði flutt frv. um breytingu á kjördæmaskipuninni eða þá boðið öllum öðrum flokkum þingsins samvinnu um nýja og réttlátari kjördæmaskipun. Það hefði sýnt nokkra viðleitni til þess að treysta grundvöll íslenzks lýðræðis. En ég er þá illa svikinn, ef það gerist á þessu kjörtímabili, að Framsfl. bjóði Sjálfstfl. eða öðrum þingflokkum samvinnu um breytingar til batnaðar í lýðræðislegri átt á kjördæmaskipun þeirri, sem við nú búum við. Saga Framsóknar í því máli gefur vissulega ekki miklar vonir um, að hún muni nú hafa áhuga fyrir auknu réttlæti á því sviði. Þvert á móti benda síðustu alþingiskosningar og sú samvinna, sem þá hófst með Framsfl. og Alþfl. um að sniðganga kosningalög og stjórnarskrá, til þess, að þessir flokkar hyggist hagnýta sér enn um skeið ófullkomleika kjördæmaskipunarinnar. Ég vil þó ekki trúa því að óreyndu um Alþfl., að hann sé endanlega genginn í björg Framsfl. í þessu máli. Alþfl. hefur borið gæfu til þess á undanförnum áratugum að eiga þátt í samvinnu við Sjálfstfl. um breytingu á kjördæmaskipuninni. Sú samvinna hefur alltaf kostað harða baráttu við Framsfl., sem í lengstu lög hefur staðið á verði fyrir ranglætið. Ég el að minnsta kosti nokkra von í brjósti um það, að þeir tímar muni koma, að lýðræðissinnað fólk í Alþfl, sjái, að við svo búið verður ekki til lengdar látið standa. Það er ekki hægt að þykjast vera lýðræðisþjóð og eiga elzta þjóðþing veraldar, en láta þetta þing síðan vera skrípamynd af þjóðarviljanum. Mikill meiri hluti þjóðarinnar mun með tímanum rísa upp gegn þessu ranglæti, og eins og Framsfl. bognaði einu sinni nokkuð fyrir kröfunum um aukið réttlæti í þessum efnum, eins mun sú staðreynd, að innan hans er töluvert af frjálslyndu og skynsömu fólki, verða til þess, að hann sér, sér ekki lengur fært að gegna varðstöðunni um ranglætið.

Í þessum orðum mínum kann að vísu að koma fram of mikil bjartsýni eftir það atferli, sem leiðtogar Framsfl. hafa gerzt sekir um í sambandi við flutning þessa máls. Ég játa það, að flutningur þessa frv., sem ekkert réttlæti felur í sér, en aðeins tilraun til valdníðslu og misnotkunar á pólitísku valdi, gefur ekki mikla von um það, að Framsfl. kunni að snúast til réttrar leiðar í því máli, sem enn þá stærra er, en þetta, nefnilega endurskoðun sjálfrar stjórnarskrárinnar og kjördæmaskipunarinnar, sem skipun Alþingis og grundvöllur íslenzks lýðræðis að langsamlega mestu leyti hvílir á.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta mál. En ég vil endurtaka það, að á því hefði vissulega farið betur, að sú n., sem vinnur nú að endurskoðun kosningalaga, hefði fengið tóm til þess að ljúka starfi sínu, áður en frv. eins og þessu, sem hér liggur fyrir, væri kastað inn á Alþ. Ég fæ ekki betur séð en einmitt þetta, þessi málsmeðferð, muni torvelda verulega, að tekið verði á endurskoðun kosningalöggjafarinnar af skynsemi og raunhyggju, að þetta mál, eins og það er flutt nú, muni hindra það starf, og það er vissulega illa farið, því að það er ýmislegt í kosningalöggjöfinni, sem hófleg samvinna og athugun skynsamra manna mundi geta fært til betri vegar. Í þessu frv. felst ekkert slíkt.