11.11.1957
Sameinað þing: 12. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í D-deild Alþingistíðinda. (2931)

38. mál, innheimta opinberra gjalda

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mér skilst, að þetta mál sé í athugun hjá hæstv. ríkisstjórn. Og þá finnst mér, að það þurfi að athuga ýmis fleiri sjónarmið, en hafa komið hér til umræðu, og það er á þau, sem ég vildi rétt benda.

Ég skal þá benda fyrst og fremst á þá óskaplegu eyðslu með vinnu að þurfa að láta hvern mann, sem þarf að borga til þjóðfélagsins, fara virkan dag úr vinnutíma á alla staði, sem hann þarf að borga á, á hverjum mánuði, í sjúkrasamlag, niður í ríkissjóð, bæjarsjóðinn, vatnsskatt, símann o.s.frv., o.s.frv. Í hverjum mánuði verður hann að taka sér einn frídag frá vinnu til þess að labba stað úr stað og tína upp alla þessa mörgu staði, sem hann á að borga opinber gjöld í, í staðinn fyrir fyrst og fremst að koma því þannig fyrir, að maðurinn geti gert þetta án þess að tapa sinni vinnu. Það eru ýmsir starfsmenn ríkisins, sem telja sig geta farið hvenær sem þeir vilja. Ég ætlaði að tala við einn í dag úr stjórnarráðinu kl. hálf ellefu, og hann var ekki kominn þangað, o.s.frv. Þeir geta tekið tíma til þessa, þegar þeir vilja, en fjöldi manna, sem er í fastri vinnu hjá öðrum atvinnurekendum í bænum, hefur ekki þá sögu að segja, að hann geti farið þannig að. Þetta er eitt, sem þarf að athuga, hvort það er ekki hægt að færa til og einhvern veginn koma því fyrir með samkomulagi við fólk, að þegar menn hafa tíma, ekki á venjulegum vinnutíma, sé þeim hægt að borga sín opinber gjöld á þessum og hinum staðnum, t.d. milli 8 og 9 e.h.

Í öðru lagi er það, hvort það er ekki hægt að færa saman á einhvern einn stað allar þessar greiðslur, fela einhverjum bankanum t.d. Ég kem aldrei inn í banka svo hér á landi, að ég sjái ekki fjölda manns standa aðgerðarlausa. Þeir gætu alveg eins vel afgreitt 100, 200, 300 menn með því að taka á móti gjaldi og afgreiða kvittun, sem væri tilbúin fyrir fram vélrituð og þyrfti ekki annað, en undirskrifa, þegar maðurinn kæmi. Það þyrfti ekki meiri mannskap til þess, en er nú í þeim mörgum, það fullyrði ég alveg. Það mundi vera ákaflega mikill sparnaður að því fyrir alla. Og það er ekki bara ríkið og bærinn, það eru ýmsir fleiri. Það má segja, að það séu bæjarog ríkisfyrirtæki, t.d. síminn, tryggingarnar o.s.frv. En þetta ætti allt saman að vera á einum stað, og sá staður ætti ekki að hafa það eins og fínni kontórarnir í bænum, að vera lokaðir, þegar almenningur er ekki að vinna, en opnir, þegar almenningur er að vinna, svo að þeir geti ekki komið á þá til að greiða eða fá sín erindi afgreidd, heldur þurfi að gera vinnustöðvun til þess að geta farið á staðina til þess að fá sig afgreidda.

Þetta vildi ég líka láta athuga. Og ef þetta væri athugað í samvinnu af þeim aðilum, sem eiga hlut að máli, þá er ég alveg viss um, að það má spara geysifé, bæði beint með sparnaði í innheimtunni og eins sparnaði á tíma hjá mönnunum, sem þurfa að nota vinnutíma sinn. Þetta vildi ég að yrði athugað í sambandi við hitt, hvort það væri ekki hægt að finna leið til að koma því þannig fyrir, að menn gætu borgað sín gjöld á þá mörgu staði, sem þeir þurfa að borga á, án þess að þurfa að sleppa vinnu við það, og hvort þeir gætu ekki gert það með því að fara á einn ákveðinn stað, þar sem hægt væri að borga öll þessi gjöld, en þyrftu ekki að hlaupa ýmist í þennan staðinn eða hinn um allan bæinn til þess að ná í þá, sem eiga að taka á móti peningunum.

Ég hef einu sinni átt að borga hér peninga til borgarstjórans í Reykjavík. Það var nú ekki sá, sem nú er, það var Jón Þorláksson, og var þá enginn maður kominn á skrifstofuna, og það voru tíu mínútur fram yfir skrifstofutíma, og svo voru 20 mínútur fram yfir skrifstofutíma. Þá fór ég út. Þá mætti ég einum starfsmanna — Karli Torfasyni — í dyrunum og sagði: Ég ætlaði að borga útsvarið mitt. Ég kem ekki aftur til að borga það. — Jón Þorláksson hringdi sjálfur eftir tvo daga. Hann sagði: Má ég senda eftir því? — Sjálfsagt, sagði ég. Það gerði hann. Það hefur nú svo sem verið víðar, en á einum stað, sem hefur vantað menn, þegar þeir eiga að vera að vinna.

Þetta vil ég láta athuga, og ég er viss um, að það má koma þessu fyrir með samkomulagi við þá menn, sem hlut eiga að máli, þannig að við það sparist stórfé og mönnum verði það miklu þægilegra og betra, en nú er með þessar greiðslur.