19.03.1958
Sameinað þing: 35. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í D-deild Alþingistíðinda. (2939)

151. mál, verðlagning á bensíni og olíu

Fyrirspyrjandi (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 303 til hæstv. félmrh. um verðlagningu á benzíni og olíu, en hæstv. félmrh. fer með verðlagsmál, eins og kunnugt er, og fsp. hljóðar svo:

„Hvers vegna hefur útsöluverð á benzíni og olíu ekki verið lækkað, þótt verðlagsreikningar sýni stórfellda lækkun?“

Það er kunnugt, að undanfarna mánuði hafa fragtir stórum lækkað, og þess vegna hefur innkaupsverð á olíu og benzíni lækkað til muna í landinu. En spurningin er: Hvers vegna hefur þessi lækkun ekki verið látin koma fram í útsöluverðinu? Og það eru fleiri en ég, sem óska eftir svörunum við þessu, og fyrirspurn mín er fram komin til þess að gefa hæstv. ríkisstj. tækifæri til að bera fram ástæðurnar fyrir þessu, ef þær eru að einhverju leyti réttmætar, vegna þess að mig og aðra fleiri skortir upplýsingar um að skilja það, hvers vegna hæstv. ríkisstj. tekur því ekki fegins hendi, þegar lækkunin kemur þannig utan frá.

Það er vitað, að í nóvembermánuði s.l. gat benzínlítrinn lækkað a.m.k. um 8 aura lítrinn í útsölu, en benzínið var ekki lækkað, heldur kemur þetta fram sem hagnaður hjá olíufélögunum fyrir s.l. ár í þeirra uppgjöri, því að ekki hefur þeim heldur verið gert að taka þetta frá á sérreikning. Það er vitað, að benzínið gat einnig lækkað um 17 aura a.m.k. 1. marz, Lækkunin hefur ekki komið til framkvæmda, og menn eru undrandi, hvers vegna það er ekki. Það er einnig vitað, að gasolía gat lækkað um síðustu mánaðamót a.m.k. um 4 eða 5 aura. Hvers vegna er hún ekki lækkuð? Ég spyr ekki í neinum ádeilutón. Ég óska eftir skýringum, vegna þess að almenningur í landinu hefur fulla þörf fyrir að verða aðnjótandi þeirrar lækkunar, sem býðst hverju sinni.

Almenningur í landinu verður að taka á sig hækkanir, þegar þær koma, og er ekkert við því að segja, þegar hækkanirnar koma af óviðráðanlegum ástæðum. Enn er vitað, að fragtir fara lækkandi og að lækkun hefur orðið á fob.verði á benzíni og olíum, en það er það stutt síðan, að ekki er eðlilegt, að sú lækkun sé komin fram í verðinu hér, vegna þess að vörubirgðir eru hér liggjandi og lækkunin getur ekki komið til framkvæmda hér um leið og olía lækkar erlendis og ekki heldur strax eftir að fragtirnar lækka.

Það er vitað, að nú hlýtur að verða stórfelld lækkun á olíu og benzíni, þegar lágu fragtirnar fara að gilda, t.d. þegar sá farmur er kominn til landsins, sem er fluttur fyrir 14 shillinga, eins og einn farmur, sem nú er á leiðinni.

Fragtin var í desembermánuði 35 shillingar, og fannst mönnum hún ekki sérlega há þá. Þá var samið um flutninga á nokkrum förmum fyrir þetta verð, en eftir að samningarnir höfðu verið gerðir, lækkaði fragtin stórkostlega, fór niður í 23 shillinga.

Ég segi það ekki hæstv. ríkisstj. neitt til lasts, þó að hún hafi stuðlað að því, að samið væri um nokkra farma á 35 shillingum, En það er hins vegar staðreynd, að ef það hefði ekki verið gert, heldur beðið tveimur vikum lengur eða svo, þá hefði olían, sem nú er verið að nota á vertíðinni, orðið allmiklu ódýrari, en hún er. Útgerðarmenn hefðu hagnazt, og þjóðarbúið í heild hefði einnig gert það.

Ég vil nú vænta þess, að hæstv. ráðh. færi fram rökstuddar ástæður fyrir því, hvers vegna almenningur í landinu er ekki látinn njóta þess, þegar innkaupsverð olíunnar lækkar, olíu og benzíns, og hvers vegna olíufélögunum er leyft að hafa þetta sem tekjur hjá sér. Og menn spyrja: Eru það olíufélögin, sem ráða verðlagningunni nú, eða eru það verðlagsyfirvöldin og hæstv. ríkisstj., eins og verið hefur undanfarið.

Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. gefi svör við þessari fsp. minni.