19.03.1958
Sameinað þing: 35. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í D-deild Alþingistíðinda. (2942)

151. mál, verðlagning á bensíni og olíu

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Mér finnst hv. fyrirspyrjandi vera vanþakklátur, því að hann fékk þó sannarlega greinargóð svör við því, sem hann spurði um. Hann spyr enn um það, hvers vegna olíuverðið lækki ekki. Honum var sagt frá því, að farmurinn, sem kom með Hamrafellinu 27. febr. s.l., muni ekki koma til sölu, fyrr en í næsta mánuði og þegar hafi verið tekin ágreiningslaust ákvörðun í innflutningsskrifstofunni um 4 aura lækkun á lítra, þegar sú sala hefst; en það standa engin rök til þess, að sú verðlækkun komi til framkvæmda, fyrr en í næsta mánuði. Ágreiningur er svo aftur um nokkurn hluta af þessum ákvörðunum, og þar er deilt um 2 aura mismun, sem getur samt á árssölu numið 2.3 millj. kr. olíufélögunum í hag, og vænti ég, að hv. fyrirspyrjandi hallist á sveif með mér og beiti sínum áhrifum um það, að olíufélögin fái ekki þann gróða, því að það er alveg ástæðulaust. (Gripið fram á: Hver á að fá þann gróða?) Þann gróða af olíunni? Fólkið í landinu, m.a. hv. fyrirspyrjandi. (Gripið fram í.) Já, það er eins og ég tók fram.

Viðkomandi því, að þessi hv. fyrirspyrjandi, hv. 1. þm. Rang., segist ekki vita betur, en það sé á valdi þess ráðh., sem fari hér með verðlagsmál, að skera þarna úr og beita neitunarvaldi, þá veit hann miklu betur. Hann var sjálfur viðskmrh. fyrir skömmu og er ekki svo minnislaus, að hann viti ekki, að gangur málanna er sá, að ef innflutningsskrifstofan er ekki sammála um verðlagsákvarðanir, þá áfrýjar hún til ríkisstj. í heild, alveg nákvæmlega eins og gert var í hans stjórnartíð, og hann hafði ekkert neitunarvald þá. Það hefur enginn einstakur ráðherra neitunarvald í málum, sem heyra undir ríkisstj. alla. Þetta veit hann vel og þarf ekki að spila sig svo fáfróðan hér fyrir hv. þingheimi eins og hann gerir. Það er því sagt gegn betri vitund, þegar hann segir, að ég eigi, ef ég sé óánægður með reglurnar og telji þær of háar, að beita neitunarvaldi. Ég hef það ekki, og hann hafði það ekki.

Ég heyri það nú betur, en mér var ljóst áður, að hjarta hv. fyrirspyrjanda slær með olíufélögunum, en ekki með almenningi. Á þessu átti ég raunar von. Ég vil því í framhaldi af því, sem ég áðan sagði, og til þess að gera hann ánægðari, ef það er hægt, skýra honum frá því um þær kröfur um verðhækkanir, sem bárust nú frá olíufélögunum, einmitt um það leyti sem þurfti að fara að taka ákvarðanir um þessar verðlækkanir vegna lækkaðra fragta og vegna lækkaðs innkaupsverðs, að þá fóru olíufélögin fram á það, að þau fengju miklu meiri hækkanir á álagningarreglunum, og það er ekki gengið of nálægt þessum kaupsýslufélögum, þó að það sé upplýst hér, að miðað við innkaupsverð og flutningsgjald þeirrar olíu og þess benzíns, sem kom með Hamrafellinu hingað til lands þann 21. jan. þetta ár, jafngilda kröfur olíufélaganna um hækkanir þeim til handa allt að 13 millj. kr. í tekjuaukningu þeim til handa, miðað við eitt ár. 13 millj. kr. fóru þau fram á, blessaðir fátæklingarnir. (Gripið fram í.) Ekki þessar 13 millj. Þeir vilja fá 13 í viðbót, hv. fyrirspyrjandi. Það fyllist seint sálin prestanna. Nei, það er sannleikur, það var gengið á hag olíufélaganna með verðlagningunni í febrúarmánuði 1957 á þann hátt, að miðað við eins árs sölu á olíum og benzíni misstu þau 30 millj. kr. spón úr aski sínum. Og það er þessi spónn, sem þau vilja fá upp í sig aftur og fá því miður dálitla aðstoð úr ýmsum áttum til þess að koma þeim spæni upp í sig á ný. Það er þarna búið að rétta þeim með júlí-verðákvörðunum nokkuð og núna 2.3, en þau báðu þá um 13, og því miður hef ég ekki neitunarvald til þess að synja þeim um það, en það mundi ég gera með góðri samvizku.