18.12.1957
Efri deild: 45. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

73. mál, kosningar til Alþingis

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður og ekki teygja lopann um þetta mál, en nokkur ummæli hv. þm. N-Ísf. (SB) gáfu mér þó tilefni til að segja nokkur orð.

Hann var að lýsa kosningum á Ísafirði, og ég hugsaði með sjálfum mér: Mikið fjandi hafa þeir verið fljótir að læra af Reykjavík á Ísafirði. Þeir hafa verið langnámfúsastir allra manna um landið eða bara undireins getað tekið upp reykvísku aðferðirnar. Eru þeir nú svona skynsamir á öllum sviðum, Ísfirðingar, og fljótir að taka upp það, sem annars staðar skeður? Og ég fór að grafa í huganum og fann, að þeir hafa tekið ýmislegt upp eftir öðrum, en hvergi eins fljótt og vel eins og þarna. Það eru nokkur ár síðan ég varð að víkja til hliðar frá kjörstofunni, á meðan fulltrúar Sjálfstfl. báru út mann í sjúkrabörum, en Ísfirðingar bara fundu það upp strax á eftir, tóku hana, alveg strax á eftir, aðferðina þá. Það stóð ekki á því. En aftur á móti fundu þeir það nú ekki upp að gera sérstaka kjördeild á elliheimilinu. Þeir bara hertóku elliheimilið og komu þeim á kjörstað, en Reykvíkingar fundu síðar upp að gera bara sérstaka kjördeild á elliheimilinu og Kleppi, svo að þeir þyrftu ekki að vera að hafa fyrir því að koma þeim á kjörstaðinn, heldur gætu þeir kosið þar. Það þótti mér miklu skynsamlegra.

Hann lítur svo á, hv. þm., að ef þetta lagafrv., ef að lögum verður, takmarki þá, sem koma á kjörstað og kjósa, þá muni það aðallega ganga á móti Sjálfstfl. Hvernig má nú þetta vera? Ja, það er álit manna, að nokkur hópur sé til af mönnum, — kjósendum, — sem ekki hafi sjálfstæðar skoðanir á málunum og sé þess vegna hægt að hafa áhrif á með „agitasjón“, eins og það er kallað, eða áróðri. Ef þetta er rétt hjá hv. þm., að það gangi sérstaklega út yfir Sjálfstfl., ef þetta lagafrv, verður til þess, að færri komi á kjörstað, þá hlýtur það að vera af því einu, að áróðurinn þar hefur meiri áhrif og þeir nái t.d. í fleiri af þessum skoðanalausu mönnum, en hinir flokkarnir. Það getur ekki verið af öðru. Það getur aldrei verið af öðru, en sá hluti þjóðarinnar, sem er það heimskur eða hugsunarlaus, að hann ekki reynir að mynda sér sjálfur skoðanir um málin, tilheyrir Sjálfstfl., ef þetta er rétt hjá hv. þm. Ég segi það ekki, en þetta er eftir hans kunnugleika, sem hann segir þetta. Það er þá svipað eins og kom fyrir mig. Ég hef tvívegis, síðan ég fór að bjóða mig fram til þings, verið í mínu kjördæmi á kosningadag, annars ekki. Ég hef verið kominn hingað suður og kosið hérna. Annað skiptið var ég í kjörstofunni. Þá kom inn fáviti, alger fáviti, og hann sagði, þegar hann kom inn í klefann: „Hann Árni sagði mér að fara hérna inn.“ „Hvað áttir þú að gera, góði minn?“ sagði þá einn í kjörstjórninni. „Hann gaf mér bara brjóstsykur.“ Þá sagði einn kjörstjórnarmaðurinn: „Á ég þá ekki að hjálpa þér, góði?“ „Ég veit það ekki,“ sagði hann. Ég skipti mér ekkert af þessu. Ég vissi, að ég átti vissan meiri hluta atkv. Ég gat náttúrlega eyðilagt þetta atkvæði kalt og rólega, En þegar Sjálfstfl. langar til þess að nota sér svona atkv. með áróðri, hvort sem það er nú brjóstsykur eða eitthvað annað, sem þeim er gefið til að kjósa, þá vil ég lofa þeim það. En nú sér hv. þm., að kannske muni fækka þeim atkv., sem þeir ná á þennan hátt, og þeir fá minna, geti þeir ekki náð að teyma fólk nauðugt á kjörstaðinn.

Mér þótti hálfvænt um þessa yfirlýsingu þm., að það væri tiltölulega fleira af þessum mönnum í Sjálfstfl. en í hinum flokkunum, ef ég má trúa henni. Ég er nú ekki víss um, að ég trúi því, en því betra mannval sem er í flokkunum, því skemmtilegra er við að eiga, og ef það er rétt, að það sé tiltölulega lélegast í Sjálfstfl., eins og marka má af ræðu hv. þm. N-Ísf., þá gleðst ég heldur yfir því heldur en hitt.

Hér hafa komið fram brtt. við frv., áður hafa tvær þeirra veríð fluttar í Nd., að því er ég held, en ein er ný af nálinni hér í þessari deild. Ég út af fyrir sig tel anda till. tveggja, sem hv. þm. V-Sk. étur hér upp eftir öðrum mönnum, sem flutt hafa þær í Nd., vera til bóta, en ég tel ekki rétt að gefa kjörstjórn vald til þess að ákveða, hvort á að fresta kosningum eða ekki, og ég tel þess vegna, að þessar till. báðar þurfi meiri athugunar við, en þær hafa fengið enn og réttara að þær bíði eftir heildarendurskoðun, sem verið er að gera á lögunum, heldur en þær séu samþykktar núna. Ég mun þess vegna ekki greiða þeim atkv., þó að í sjálfu sér sé ég samþykkur anda þeirra. En líklega er það sjálf ríkisstj. eða landskjörstjórnin, sem á að taka ákvörðun um það, en undir engum kringumstæðum kjörstjórnir einstakra kjördeilda úti í hinum einstöku kjördæmum.

Ég ætla ekki að segja meira um þetta og skal láta máli mínu lokið og ekki tefja fyrir málinu. En það var sérstaklega þessi yfirlýsing hv. þm. N-Ísf. eða sérstaklega tvennt: annars vegar, hvað Ísfirðingar eru næmir og fljótir að taka eftir það, sem annars staðar er gert, og í þessu tilfelli í Reykjavík af Sjálfstfl., hvað kosningar snertir, — og svo hitt, ef það er rétt hjá hv. þm., að það sé torvelduð kjörsókn í kosningum, sem nú með breytingu laganna er í því einu fólgin, að það er ekki eins gott að vita, þegar líður á daginn, hvaða menn hafa ekki áhuga á því að kjósa sjálfir, og því ekki eins gott að ná í þá menn, sem ekki kæra sig um að kjósa, til þess að teyma þá á kjörstaðinn. Ef það er rétt hjá honum, að þetta gangi sérstaklega út yfir Sjálfstfl., þá er það yfirlýsing á því, að þeir skoðanalausu menn, sem til eru í landinu, séu aðallega þar, og þá gef ég litið fyrir þann meiri hl., sem byggist á þeim atkvæðum, eins og ég gaf lítið fyrir atkvæðið, sem meiri hl. hefði getað oltið á, í Norður-Múlasýslu, þegar hann Jói var að koma inn í kjörstaðinn til að kjósa, en hann vissi ekki einu sinni, hvað hann átti að gera.