02.06.1958
Sameinað þing: 50. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1655 í B-deild Alþingistíðinda. (2985)

Almennar stjórnmálaumræður

Ólafur Thors:

Herra forseti. Að gefnu tilefni vill Sjálfstfl. lýsa yfir eftirfarandi:

„Hinn 21. f. m., kl. 4.30, átti Ólafur Thors, formaður Sjálfstfl., ásamt Gunnari Thoroddsen borgarstjóra viðræður við forsrh. og utanrrh. á skrifstofu hins síðarnefnda samkvæmt ósk þeirra. Las Ólafur Thors þá upp nýgerða samþykkt Sjálfstfl. varðandi lausn landhelgismálsins. Er þar mörkuð stefna flokksins í málinu í öllum aðalatriðum, jafnt varðandi efnishlið þess sem málsmeðferðina, sem Sjálfstfl. lagði mikla áherzlu á.

Það er nú komið í ljós, að 3 dögum síðar gerðu allir ráðherrarnir með sér samning um málið, jafnt um efnishlið þess sem málsmeðferðina, og var Sjálfstfl. þar ekki til kvaddur.

Sjálfstfl. telur deilur þær, sem nú hafa risið innan ríkisstj. um málið, skaðlegar og skrif eins stjórnarblaðsins bæði stórvítaverð og þjóðinni hættuleg.

Sjálfstfl. vill engan þátt eiga í þeim gráa hildarleik, en mun, strax og hann telur fært, í samræmi við hagsmuni þjóðarinnar birta jafnt samþykkt þá, sem áður greinir og skráð er í fundabók flokksins, sem og ýmis önnur gögn málsins. Mun þá glöggt koma í ljós, hversu haldlausar eru þær fullyrðingar, sem málgagn sjútvmrh. hefur leyft sér að viðhafa um afstöðu Sjálfstfl, til þessa mikla máls.“

Þegar ég hafði rennt augunum yfir frv. stjórnarinnar um 790 millj. kr. nýjar drápsklyfjar á þjóðina, sem nú er orðið að lögum, varð mér að orði: Svá skal böl bæta að bíða annað meira. Mér var ljóst, að þetta kuldalega spakmæli Grettis Ásmundssonar hafði nú annar sterkur Íslendingur til góðs eða ills gert að leiðarstjörnu sinni á mikilli örlagastund í lífi þjóðarinnar og hans sjálfs.

Við þessar eldhúsdagsumræður, sem nú eru að hefjast við þá ójöfnu aðstöðu, að ákærði —stjórnin og lið hennar — hefur þrefaldan ræðutíma á við okkur sjálfstæðismenn, verður varla mikið rætt um, að í stað þess að reka herinn úr landi, eins og lofað var, var honum búið nýtt og vandað öryggisbyrgi og honum fengnir tveir lífverðir, herforinginn Hannibal og góði dátinn Lúðvík, sem báðir hafa strengt þess heit að verja hérvist bandarískra einkennisbúninga með sömu grimmd og sitt eigið ráðherralíf. Menn munu heldur ekki fjölyrða um kosningabrellur Hræðslubandalagsins eða eiða þess um að vinna aldrei með kommúnistum né svardaga kommúnista um að viðurkenna aldrei þingmannarán Hræðslubandalagsins.

Með einu pennastriki eða öllu heldur þó með einu hnefahöggi á nasir allra þeirra, sem stjórninni hafa treyst, hefur hæstv. forsrh. tekizt að fá þjóðina til að gleyma í bili þessum og öllum öðrum fyrri ávirðingum stjórnarinnar. Þetta er að vissu leyti vel af sér vikið af stjórn, sem áður en hún varð missirisgömul var orðin svo ber að brigðmælum, að menn spurðu ekki, hversu mörg af kosningaloforðum sínum hún væri búin að efna, heldur hitt, hver þeirra hún ætti eftir að svíkja.

Á þeim fáu mínútum, sem ég hef hér til umráða, er þess enginn kostur að rekja, svo að nokkru nemi, efni þessa óheillafrv. Þess ætti heldur ekki að vera þörf, því að undanfarna daga hafa öll blöð höfuðstaðarins rætt málið hvern einasta dag, og hefur höfuðblað landsins, Morgunblaðið, birt sjálft frv. og prýðilega útdrætti úr flestum helztu ræðum, sem um það hafa verið fluttar á Alþingi. Óþarft er að taka það fram, að aldrei fyrr hefur nokkur íslenzk stjórn gert neitt svipaða árás á skattþegna landsins og aldrei fyrr hefur verið lögð jafnmikil alúð við, að það sé einmitt efnaminnsta fólkið, hinar fjölmennu láglaunastéttir, sem borga brúsann. Að þetta sé rétt, sést á því, að allir vita, að sá, sem áður hafði lengst gengið í þessum efnum, er einmitt núverandi stjórn, þegar hún færði þjóðinni jólagjöfina 1956. Var hún þó aðeins sem rjúpa hjá ránfugli miðað við þessi ósköp, eða 300 millj. kr. í stað 790 millj. nú, og þótti þó svo þungbær, að stjórnin varð að vinna sér það til lífs að lofa að leggja aldrei aftur skatta á þjóðina.

Til þess að þetta mál sjáist í réttu ljósi, verða menn að gera sér grein fyrir, hvað skeð hefur, hvernig það skeði og hverjir valda.

Á þjóðina hafa verið lagðir 790 millj. kr. nýir skattar. Það er gert bæði með ógrímuklæddri gengislækkun og háum nýjum innflutningstollum. Frá þessum degi eru meira en 9/10 hlutar gjaldeyrisveltunnar reknir á grundvelli 55% hækkunar erlends gjaldeyris, en fyrir tæpan 1/10 hluta skal greiða 30% hækkun. Af þessu leiðir að sjálfsögðu geigvænlegar verðhækkanir allrar innfluttrar vöru. Ríkisstjórnin taldi þó ekki nóg að gert. Fyrir því ákvað hún, að þetta nýja yfirfærslugjald, þ. e. a. s. gengisfellingin, skyldi meðtalið við tollafgreiðslu. Með því þótti henni bikarinn fylltur, enda flóir nú út af.

Helztu nauðsynjar fólksins hækka allar, að ekki séu nefndar rekstrarvörur framleiðslunnar. Minnstu hækkanir, sem ég hef komið auga á í þessu illyrmislega stjórnarfrv., eru 1.5% á kaffi, sykri, matvöru og 20–30% á timbri, sementi, olíum, benzíni, fóðurbæti og öðrum slíkum vörum, en þaðan af hærri á öðrum vörum.

Ránsfengnum skiptir svo ríkisstj. milli ríkissjóðs, sem hún telur fá 144 millj., og útflutningssjóðs, sem talinn er hagnast um 646 millj. af hinum nýju 790 millj. kr. álögum.

Í rauninni hefur enginn reynt að verja þetta athæfi nema ráðherrarnir sjálfir. Þeir berjast um á hæl og hnakka. Menn brosa að þeim. Fleiri kenna þó í brjósti um þá. Það er líkast sem þeim þyki jafnvænt um ráðherrastólana og ástvinina og vilji þess vegna allt til vinna að missa þá ekki.

Hæstv. forsrh. hóf umr. um málið á fræðilegum grundvelli. Hann taldi frv. spor í rétta átt. Bráðlega yrðu menn að ákveða, hvort stíga skyldi sporið út. Aðspurður, hvað væri rétt átt, svaraði hann engu, en ýmsir héldu, að hann ætti við gengisfellingu. Næst færði hann ýmis rök að því, að betra væri að taka upp framleiðslu- en framfærsluvísitölu, en aðspurður, hvort hann talaði f. h. ríkisstj. allrar; þegar hann nú legði 790 millj. gengisfall og skatta á þjóðina ofan á 300 millj. 1956, en boðaði jafnframt afnám framfærsluvísitölu, svaraði hann heldur engu. Loks sagði ráðh., að uppbóta- og niðurgreiðslukerfið væri því skaðlegra, sem það stæði lengur og breiddi meira úr sér. Hann var þá minntur á, að 1956 hefði hann talið, að þetta kerfi hefði þá þegar gengið sér til húðar, væri orðið svo hættuleg svikaleið, að þjóðin riðaði á glötunarbarmi, samt sem áður dirfðist hann nú, eftir að kerfið væri orðið tveim árum eldra, að bera fram till. um margfalt meiri þenslu, en fyrr hafði þekkzt. Beðinn um skýringar svaraði ráðh. engu, og segir ekki meira af honum.

Útvegsmálaráðherra, Lúðvík Jósefsson, taldi, að í frv. fælist alls engin gengislækkun. Þótti sú kokhreysti honum einum lík. Lýsti hann sig jafnframt eindregið andvígan gengisfellingu, og var það líka hraustlega gert af flm. 55% gengisfellingar. Staðhæfði ráðh., að frv. væri í fullu samræmi við stöðvunarleið stjórnarinnar, enda þótt játað sé, að vegna þessa sama frv. hækki allar höfuðnauðsynjar um minnst 15–30%, en sumt annað miklu meira. Lét Lúðvík sig hafa það að lýsa þannig ýmsa helztu verkalýðsleiðtoga hreina og beina ósannindamenn, þ. á m. Eðvarð Sigurðsson, Eggert Þorsteinsson, Óskar Hallgrímsson og Snorra Jónsson, en allir þessir menn báru, sem kunnugt er, fram till. innan 19 manna nefndarinnar svonefndu og Alþýðusambandsstjórnarinnar um að banna stjórninni að flytja frv. með þeim rökum, að „greinilegt er, að þessar ráðstafanir í efnahagsmálunum leiða til frekari verðbólguþróunar og eru fráhvarf frá þeirri stefnu, sem 25. þing A. S. Í. fagnaði. Ráðstafanirnar brjóta því í bág við stöðvunarstefnuna,“ eins og orðrétt segir í till. þeirra.

En annars er þessi áfergja Lúðvíks Jósefssonar í það, sem hann kallar stöðvunarstefnu eða millifærsluleið, kátbrosleg. Stöðvunin á að liggja í því að stöðva kauphækkanir launastéttanna. Nú á 6% kauphækkunin, sem iðnrekendur féllust á í fyrra, að vera þjóðarböl o. s. frv. Millifærsluleiðin er nýir og nýir skattar á almenning, sem yfirfærast eða millifærast til framleiðenda,

Þessi þjóðráð, þessi nýi þjóðsöngur kommúnistanna er dálítið hjáróma í munni þeirra, sem valdið hafa hinu raunverulega gengisfalli með pólitísku verkföllunum vorið 1955, sem leiddu af sér þegar á því ári meira en 22% kauphækkanir, og alveg sérstaklega er röddin fölsk úr barka núverandi ríkisstj., sem beinlínis stóð fyrir 35–40% kauphækkunum til hæst launuðu flugmanna, leysti farmannadeiluna með hækkun flutningsgjalda, lét S. Í. S. hækka kaup sinna manna um 8% og það heilt ár aftur í tímann og einmitt meðan þó átti að heita, að kauphækkanir væru lögbannaðar, o. s. frv.

En varðandi hitt hollráðið, millifærsluleiðina, sem nú er orðið fyrsta og helgasta boðorðið í biblíu kommúnista, er rétt að minna á, að þegar fyrrv. ríkisstj. í ársbyrjun 1956 lagði rúmra 100 millj. kr. nýja skatta á þjóðina, sem yfirfærðust frá skattþegnunum til útgerðarinnar, til þess að hrinda framleiðslunni af stað, þá sagði þessi sami Lúðvík, að með því væri gerð „stórfelldasta árás, sem gerð hefði verið á vinnandi stéttir í landinu.“

Þessi háðulegi herramaður ætti að líta í spegil, þar sæi hann mynd af manni, sem í árslok 1956 lagði 300 millj. kr. nýja skatta á þjóðina og nú bætir 790 millj. ofan á þær klyfjar. Sá, sem taldi 100 millj. kr. skatta „stórfelldustu árás á vinnandi stéttir í landinu“, veit þá líka, að myndin, sem hann sér í speglinum, hlýtur að vera af versta verkalýðsböðli þessa lands, manni, sem svíkur verkalýðinn með köldum kossi af ofurást til ráðherrastólsins.

Og hvað er nú orðið af þeim, sem mest hefur miklazt af stöðvun framleiðslunnar? Svo er nú komið, að L. Í. Ú. hefur með réttu borið hann hreinum svikum og tilkynnt honum, að vegna þeirra svika verði alger framleiðslustöðvun, nema aðrir bjargi.

Hæstv. fjmrh. og hæstv. menntmrh. reyndu að verja óskapnaðinn.

Eysteinn Jónsson sagði: Þetta er raunveruleg fórn, því að ella hefði framleiðslan stöðvazt. Ég leyfi mér að minna á, að kjarninn í gleðiboðskap þessarar stjórnar, allt frá stofnun Hræðslubandalagsins og fram á þennan dag, hefur verið sá, að með varanlegum úrræðum skyldi vandinn leystur, án þess að nokkur maður missti spón úr aski sínum. Ég spyr nú ráðh.: Rignir þessum 790 milljónum króna af himnum ofan, eða er þeim ausið með spónum úr aski hvers einasta manns í landinu? Hér er seilzt djúpt í vasa skattþegnanna og mest tekið frá þeim, sem mestar hafa notaþarfirnar, enda þótt getan kunni að vera minnst.

Helztu varnir Gylfa Þ. Gíslasonar voru þær, að hér væri í rauninni um alls engar álögur að ræða, vegna þess að ekki hefði verið bent á aðrar ódýrari leiðir til að leysa vandann. Með sama rétti má segja, að meðan ekki séu færð rök að því, að afla megi ríkissjóði þeirra 800 millj. kr., sem standa undir útgjöldum fjárl., með léttbærari hætti, en nú er gert, þá séu núgildandi tollar og skattar engum manni til óþæginda eða byrði.

Það þarf önnur og sterkari rök og fimari vígamenn, en þessa til þess að telja almenningi trú um, að þessir nýju 790 millj. kr. skattar séu eins konar náðargjöf, nothæf til að hylja stærstu stjórnmálasvik, sem íslenzk saga kann skil á.

Þegar stjórnin var orðin algerlega ráðþrota, flýði hún í síðasta glerhús sitt og spurði: Hvar eru úrræði Sjálfstfl.?

Í framsöguræðu minni hér á Alþingi um þetta mál gerði ég allýtarlega grein fyrir, hvers vegna Sjálfstfl. hefði ekki enn borið fram úrræðin í efnahagsmálunum. Með orðum Hermanns Jónassonar, sem birt eru í Tímanum 20. síðasta mánaðar, sannaði ég, að ríkisstj, treysti sér ekki til að gera neinar skynsamlegar tillögur í málinu, fyrr en að undangengnum nær tveggja ára athugun sérfræðinga á þeim gögnum, sem ríkisstj. ein getur veitt aðgang að, og síðan tveggja mánaða athugun ríkisstj. sjálfrar á tillögum sérfræðinganna. Orð Hermanns Jónassonar voru þessi:

„Fram hefur farið mjög ýtarleg athugun á öllu fjárhagskerfinu. Sérfræðingar undir forustu Jónasar Haralz hagfræðings hafa fjallað um þá rannsókn og lagt skýrslur fyrir ríkisstj. Má segja, að nú liggi alveg ljóst fyrir, hvernig ástandið er og hver áhrif einstakar aðgerðir til leiðréttingar og úrbóta komi til að hafa. Þá er það ríkisstj. og stuðningsflokka hennar og loks Alþingis í heild að velja þær leiðir, sem heppilegastar eru og færar eru taldar.“

Hér þarf Eysteinn Jónsson að læra af Hermanni Jónassyni, og eftir þetta væri honum sæmst að láta minna. Honum ber að muna, að frekja hans, þegar hann krefst tafarlausra úrræða Sjálfstfl., er árás á Hermann Jónasson, sem alveg réttilega segir, að það sé ekki fyrr en fyrir liggi ýtarlegar upplýsingar, að auðið sé að gera sér grein fyrir, „hver áhrif elnstakar aðgerðir til leiðréttingar og úrbóta komi til með að hafa“, og þá, þ. e. a. s., þegar upplýsingarnar liggi fyrir, og þá fyrst komi til kasta stjórnar og þings. Krafa Eysteins Jónssonar um tafarlaus úrræði Sjálfstfl. er þess vegna að dómi Hermanns Jónassonar krafan um, að stærsti flokkur landsins geri órökstuddar tillögur.

Eysteinn Jónsson veit ofurvel, að ríkisstj. lét sér ekki nægja að leyna Sjálfstfl. staðreyndum málsins, heldur gerði hún leik að því að villa honum og þjóðinni í heild sýn í aðalefnum. Þetta sést m. a. á því, að nýverið taldi Lúðvík Jósefsson tekjuþörfina 90 millj., en Gylfi Þ. Gíslason allt að 200 millj., en nú bera þeir báðir fram frv. um 790 millj. kr. nýja skatta. Það hlýtur þó að vera öllum ljóst, að úrræðin hljóta að miðast við tekjuþörfina og að allt annað gildir um 90 millj. og 790 millj. tekjuöflun.

Allt þetta vil ég biðja hv. hlustendur að hafa í huga, þegar Eysteinn Jónsson og aðrir slíkir heimta nú úrræði Sjálfstfl. Ég bið menn að muna, að Hermann Jónasson hefur með réttum rökum sýnt fram á, að stjórnin ein átti aðgang að þeim heimildum, sem rannsaka þurfti, fékk ein réttar upplýsingar sérfræðinganna og hafði þess vegna ein aðstöðu til þess að gera sér grein fyrir, hver áhrif einstakar aðgerðir muni hafa, eins og Hermann Jónasson réttilega sagði, en að án þess að geta það, eru tillögur til úrbóta fálm eitt.

Með þessu er málið útrætt, og allt mas Eysteins Jónssonar, hversu mikið yfirlæti og hávaði sem því kann að fylgja, hlýtur að vera talað eins og niðri í ullarballa.

Ég get þó vel gert Eysteini Jónssyni það til geðs að svara hiklaust, hvort Sjálfstfl. vilji gengislækkun. Sjálfstfl. er og hefur alltaf verið andvígur gengislækkun, m. a. með þeim rökum, að sérhver þjóð, sem æ ofan í æ missir tök á verðmæti gjaldeyris síns, er í mikilli hættu stödd. Samt sem áður hefur Sjálfstfl. tvisvar staðið að því með Framsfl. að viðurkenna gengisfall, sem þegar var orðið. Hvort auðið hefði verið að umflýja slíkt nú, treysti ég mér ekki til að fullyrða, þar eð stjórnin heldur enn leyndu áliti erlendra og innlendra sérfræðinga og hefur með því varnað okkur sjálfstæðismönnum aðgang að þeim gögnum, sem stjórnin taldi sig þurfa að rannsaka mánuðum saman og raunar árum saman, áður en hún tók ákvarðanir sínar. En þegar þess er gætt, að sjálf ákvæði þessa frv. spinna upp á sig verulegan hluta tekjuþarfa útflutningssjóðs og ríkissjóðs, tel ég margt benda til, að forðast hefði mátt gengisfellingu frv. Eftir samþykkt þessa frv. hafa líkurnar fyrir, að „stiga þurfi sporið út“, eins og forsrh. sagði, stórum aukizt.

Þeim öðrum spurningum, sem Eysteinn Jónsson beindi til mín við 1. umr. málsins, vil ég svara þannig: Ég tel víst, að gögn málsins sanni, að auðið sé að afla tekna með hyggilegri og réttlátari hætti, jafnvel þótt fara ætti þessar villigötur stjórnarinnar hvað stefnu eða stefnuleysi varðar. Hitt er svo beinlínis óskammfeilni af þeim, sem okkur hafa leynt öllum gögnum, að biðja okkur að ákveða, hvort uppbætur atvinnuveganna eigi að vera meiri eða minni.

Um þessa hlið málsins segi ég að lokum þetta: Þegar Sjálfstfl. hefur farið með völd, hefur hann oft þurft að bera fram till. til að ráða fram úr miklum vanda, bæði á sviði efnahagsmála og á öðrum sviðum. Hann hefur aldrei hliðrað sér hjá því að gera tillögur og framkvæma þær. Svo mun enn reynast, ef þjóðin felur honum forustuna, og að því komur kannske fyrr en seinna.

En nú, þegar ég hef með þolinmæði svarað barnalegum spurningum ráðherranna um stefnu Sjálfstfl. í efnahagsmálum, langar mig að leggja nokkrar spurningar fyrir þá sjálfa. Ég spyr nú: Hver er ykkar stefna í efnahagsmálunum? Um það kom ekkert fram við umr. um þetta mál undanfarna daga annað en það, að þeir kepptust allir við að sverja af sér frv. Allir sögðu þeir, að í fælist alls ekki stefna síns flokks, heldur væri frv. einhvers konar óburður, sem fallizt hefði verið á að gera að stefnu stefnulausrar stjórnar yfir sauðburðinn. Hver er stefna Framsfl. í efnahagsmálunum? Vill Framsfl, hreina gengisfellingu? Eða ætlar hann kannske að leggja 1.100 millj. kr. nýja skatta á þjóðina fyrir hverja tveggja ára valdatíð sína? Hver er stefna Alþfl. í efnahagsmálunum? Vill hann gengisfellingu? Hver er stefnakommúnista í þeim? Vilja þeir enn þá meiri gengisfellingu? Þessum spurningum verða stjórnarflokkarnir að svara skýrt og greinilega í þessum umr., ella verða kröfur þeirra um, að Sjálfstfl. komi þeim til hjálpar og leggi tafarlaust fram úrræði til úrbóta, enn þá aumkunarverðari.

Ég minni svo stjórnina á, að hún hefur enn nær engu svarað af þeim tuttugu spurningum, sem ég beindi til hennar við 1. umr. þessa máls.

Næst er að athuga, hverjir það eru, sem gefa þjóðinni þessar gjafir. Ég er til neyddur með örfáum orðum að rifja enn einu sinni upp nokkur ummæli alþýðunnar. Þau eru góður rammi um ásjónu ríkisstj., að vísu gamalkunnur flestum, en fyrir það gagnlegur, að hann er sjálflýsandi og sýnir þess vegna stjórnina eins og hún er, þótt hún reyni að hylja sig í skugga.

Þegar Hermann Jónasson rauf stjórnarsamstarfið vorið 1956, flutti hann ræðu, sem prentuð er í Tímanum 10. marz það ár. Hann lýsti stjórnarferli Eysteins Jónssonar og félaga hans þannig: „Haldið hefur verið lengra og lengra inn á eyðimörk fjárhagslegs ósjálfstæðis.“ Stefnir Hermann Jónasson öllum afbrotamönnum fyrir dómstól þjóðarinnar og gleymdi þá víst engum nema sjálfum sér. Niðurgreiðslur, uppbætur og skattaálögur séu „hættuleg svikaleið“. „Gegn þessum voða þarf þjóðin að rísa, áður en það er of seint,“ segir Hermann Jónasson. Hann krefst algerrar stefnubreytingar tafarlaust, býður forustu sína, boðar varanleg úrræði án allra fórna, nær með bellibrögðum valdaaðstöðu og myndar bjargráðastjórn sína.

Nú verður atburðaröðin hröð. Erlendir sérfræðingar eru tafarlaust til kvaddir, því að lífið liggur við. Þeir „taka út þjóðarbúið“, en því hafði stjórnin lofað. Og í októberbyrjun 1956 getur forsrh. skýrt frá, að hans haukfránu fjármálaaugu hafi séð allt rétt, spádómsandi hans enn einu sinni sannað ágæti sitt, erlendu sérfræðingarnir séu búnir að staðfesta þetta allt. Nú skyldi blaðið brotið, ný stefna tafarlaust upp tekin, varanlegu úrræðin voru á tröppunum.

En á skammri stund skipast veður í lofti. Það mátti forsrh. sanna. Hann lenti í gerningaveðri, hætti við varanlegu úrræðin, sneri við og hélt aftur inn á eyðimörkina, kannske í leit að Eysteini, sem þar hefur orðið eftir. Armlög endurfundanna virðast hafa orðið svo heit, að forsrh. týndi áttavitanum og þar með stefnunni og hélt sig nú að gömlu heilræðunum hans Eysteins. Aðeins hélt hann miklu lengra inn á svikaleið niðurgreiðslnanna, uppbótanna og skattanna, en nokkrum hafði áður hugkvæmzt, því að í einingu andans og bandi friðarins lagði nú öll stjórnarhersingin í árslok 1956 300 millj. kr. nýja skatta á þjóðina, og stóð alls ekkert á kommúnistum. Hafði þó Lúðvík Jósefsson, svo sem ég áðan minnti á, sagt í byrjun þessa sama árs, þegar fyrrv. stjórn lagði 100 millj. kr. skatta á þjóðina í sama skyni, þ. e. a. s. til að hindra stöðvun framleiðslunnar, að hér væri um að ræða „stórfelldustu árás, sem gerð hefði verið á vinnandi stéttir í landinu“. Og Hannibal Valdimarsson hafði svarið þess helgan eið, svo að ég vitni í hann orðrétt, að „nýju skattaflóði verði ekki með neinu móti fram komið á Alþingi“. Allt var þetta nú með köldu blóði svikið, öllu með glöðu geði kyngt.

Eftir þetta gekk stjórnin í klaustur, lofaði bót og betrun og hóf nú leit að úrræðum, sem hún áður þóttist hafa í hendi sér. Voru nú sóttir nýir sérfræðingar. Þeir unnu dag og nótt og afhentu skjöl og skilríki 18. marz s. l. Síðan hefur stjórnin verið að athuga þessi gögn. Stjórnarherrunum dugði ekki minna, en tveir mánuðir til að setja sig inn í gögnin, og höfðu þó sérfræðingarnir látið stjórnina fylgjast með málunum daglega í nær heilt missiri. Ég get þessa enn, svo að menn geti betur skilið, hvern hlut stjórnin ætlar Sjálfstfl., sem hún skammtar 2–3 daga til að kynna sér málið, en án allra gagna og skilríkja.

Meðan þessu fór fram, hófu ráðherrarnir svo deilu um málið í blöðum sínum, Lúðvík Jósefsson fræddi þjóðina á því, að öll tekjuöflunin væri 90 millj., eins og ég áðan gat um. Gylfi Þ. Gíslason taldi dálitla reikningsskekkju hjá Lúðvík, þörfin væri 200 millj. kr., en ekki 90, Þjóðviljinn tók upp hanzkann fyrir sinn mann og sagði, að prófessor dr. Gylfi Þ. Gíslason menntmrh. væri hreinræktað hlægilegt fífl, enda hefði hann þá sagt, að uppbótakerfið væri komið út í slíkar öfgar, að mikil síldveiði mundi sennilega gera íslenzka ríkið gjaldþrota, og fleiri svipuð vísdómsorð. Endirinn varð svo sá, eins og allir vita, að þessir herrar sameinuðust um að leggja á þjóðina 790 millj. nýja skatta til að auka þetta uppbótakerfi.

Ég hirði ekki að rekja þessar ógeðþekku og ósæmilegu umræður í stjórnarblöðunum undanfarnar vikur, en þær eru siðlausari og sóðalegri, en ég man dæmi um í íslenzkum stjórnmálum. Ég skal nefna aðeins sem dæmi auk lýsinganna á menntmrh., að eitt stjórnarblaðið lýsti forsrh. sem siðlausum, yfirlætisfullum oflátung og brigzlaði honum um fals og flærð og bætti síðan við, að þetta væri aðeins brot af því, sem hann verðskuldaði. Hafði hann þá snert rússneska hjartað í kommúnistaflokknum. Utanrrh. fékk í sinn hlut, að hann væri smánarblettur á íslenzku þjóðinni, en fjmrh, var afgreiddur með því að vera íhaldssamt hundsskinn. Hafa þessi fúkyrði enn aukizt allra síðustu dagana. En sjálf deilan um væntanlegar úrlausnir vandamála þjóðarinnar einkenndist af því, að einn sagði það svart, sem annar sagði hvítt. Og oft mátti sjá sama daginn í einu og sama blaði mörgum ólíkum leiðum haldið fram, sem því eina rétta. En það þori ég að fullyrða, að þótt útvarpað hefði verið frá hreinum vitlausraspítala umræðum um þessi mestu vandamál þjóðarinnar og þeim algerlega óundirbúnum, hefðu þær umræður án efa orðið engu síður uppbyggilegar, en þessar viðræður ríkisstj. í blöðum hennar síðustu vikurnar og auk þess vafalaust miklu prúðari.

Mér þykir þetta atferli þjóðarskömm. Ég hef ekkert geð í mér til að rekja það frekar. En rétt er að viðurkenna, að eftir þessar innbyrðis deilur stjórnarinnar má telja víst, að allir skilji, að menn, sem þannig hugsa og tala hver um annan og auk þess eru ósammála í flestum aðalefnum, megna aldrei að leysa hin margvíslegu vandamál þjóðarinnar.

Nú hafa menn þá loksins fengið að sjá árangur nær tveggja ára heilabrota stjórnarinnar, þeirrar stjórnar, sem raunar þóttist öll ráð kunna þegar í upphafi. Hvernig lízt mönnum á óburðinn? Einu sinni sagði maður við kunningja sinn: Hvernig ferð þú að því að brjóta flösku í tómum poka? — Hinn svaraði: Ja, hvernig ferð þú að því að brjóta heila í tómum haus? — Einhvern veginn dettur mér þessi saga í hug, þegar ég lít á þessi nýju varanlegu úrræði eftir öll heilabrot stjórnarinnar.

Þessum árangri, svo beysinn sem hann er, hefur stjórnin náð eftir óviðunandi leiðum. Stj. hefur gerzt sek um að flytja æðstu völd þessara þýðingarmiklu mála frá Alþingi og yfir í hendur Alþýðusambandsins. Með þessu er brotið blað í stjórnmálalífi Íslands. Þeir bera þunga ábyrgð, sem það hafa gert. Þeir hafa framið svik við þingræðið og lýðræðið og fært með því voða yfir þjóðina og sjálfstæði hennar. Hitt er svo mál fyrir sig, að samþykki þessa nýja æðsta valdhafa yfir málefnum þjóðarinnar er fengið með ótrúlegustu aðferðum. Við það bætist svo, að valdhafinn, Alþýðusambandið, samþykkti ekki þetta frv., heldur mótmælti því. Mótmælatillagan var að vísu að forminu til felld með 15:14 atkv., en bak við þessi 14, sem mótmæltu, standa skv. meðlimaskrá félaganna hvorki meira né minna en 82% þeirra, sem atkv. greiddu, en bak við hina 15, sem gustukuðu sig yfir grátbænandi aumkunarverða ríkisstjórn, standa aðeins 18%. Verkalýðurinn samþykkti því ekki gerðir stjórnarinnar, þótt hún láti svo, heldur mótmælti þeim með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða.

Hermann Jónasson forsrh. stendur nú á sinni pólitísku Waterloo. Orrustunni er lokið. Stríð hans er senn á enda. Honum tekst ekki að gleyma því, hversu hart hann fordæmdi aðgerðir fyrri stjórnar, hversu heitt hann hét því að hætta tafarlaust svikaleið uppbóta, niðurgreiðslna og skatta og hversu afdráttarlaust hann lofaði að leysa vandann með varanlegum úrræðum og án þess að skerða lífskjörin. Verðbólgan skyldi tafarlaust stöðvuð. Efnd þessara loforða ætti að vera prófsteinn á stjórnina. Nú spyr þessi hermaður á Waterloo sjálfan sig: Höfum við gengið til góðs, götuna fram eftir veg? — Hann litast um. Varanlegu úrræðin sér hann ekki. Það, sem við blasir, er nýir skattar. Fyrst 300 millj„ síðan 790 millj., og er þá sleppt stóreignaskattinum svonefnda, er nemur 135 millj. Gengisfelling, lögskipaðar kauphækkanir, lögskipuð ný verðbólguskriða, lögskipaðar nýjar stórauknar niðurgreiðslur og uppbætur, og loks prófsteinninn, sem orðinn er legsteinn allra loforða og myllusteinn um háls hans sjálfs, sem sökkva mun honum í pólitískt djúp niður.

Hermaðurinn á Waterloo sér, að víxlsporin eru mörg, vanefndirnar fleiri. Hann spyr sjálfan sig, hvort ógæfan stafi ekki að verulegu leyti af því, að forusta hans hafi brugðizt, hvort hann hafi ekki skort hæfni til að taka ákvarðanir.

Þessar hugleiðingar Hermanns Jónassonar minna mig á söguna um asnann. Hann stóð glorhungraður milli tveggja heysátna. Hann var að því kominn að fá sér tuggu úr annarri, þegar honum varð lítið á hina og sá, að úr henni mátti líka seðja sig. Í hvora átti hann að bíta? Vesalings asninn velti vöngum. Honum var lífsins ómögulegt að ákveða sig. Að lokum varð hann hungurmorða.

Við Íslendingar eigum enn þá heysáturnar: gengisfallið, skatta til millifærslna og niðurgreiðslna, verðstöðvun, verðhjöðnun, myntskiptingu og enn fleiri „heysátur“. Asnann eigum við hins vegar engan. Aftur á móti eigum við forsrh., sem sýnist hafa erft þann brest hins viðkunna asna að geta ekki ákveðið, í hvora eða hverja „heysátuna“ hann vill bíta. Það er hættulegt, bæði honum sjálfum og þjóðinni allri.

Dauðasyndir stjórnarinnar eru ekki eingöngu sviknu loforðin. Ofan á þau bætast tilraunir til að brjóta niður þingræðið og lýðræðið með því að flytja valdið frá Alþingi og forseta landsins til Alþýðusambandsins. Við þetta bætist svo enn, að forustuna skortir algerlega hæfni til að taka ákvörðun, og loks er svo ríkisstj. sjálfri sér sundurþykk og gersamlega stefnulaus. Síðustu sporin, að láta til leiðast að leggja 790 millj. kr. nýja skatta á þjóðina, hljóta að hafa verið forsrh, þung, líka vegna þess, að hann veit, að með þeim er aðeins tjaldað til einnar nætur. Þessi úrræði eru ekki eingöngu óskynsamleg og hljóta að kalla á önnur haldbetri, mjög bráðlega, heldur eru þau líka svo úr garði gerð, að þau spana til óvinsælda. Verkalýðurinn hefur mótmælt með 82% atkvæða gegn 18%. Framleiðendur lýsa þau svik og mótmæla harðlega. Ótal stór og smá félög og félagasamtök mótmæla. Úr öllum áttum er mótmælt. Sjálfstfl., sem nú fer opinberlega með umboð 50% kjósenda, mótmælir. Formaður kommúnistaflokksins, sem fer með 17% atkvæða, mótmælir.

Einu sinni var kveðið:

Hérna á öldungsaxlirnar

ellisignar, bilaðar

hinu og þessu hrúgað var.

Hafa þær gerzt í vetur

stjórnarsynda setur.

En þó eru eftir ótaldar

allra verstu klyfjarnar,

sem líka á að láta þar.

Loftarðu þessu, Pétur?

Hermann Jónasson hefur engar öldungsaxlir, ekki ellisignar, ekki bilaðar. En samt spyr ég nú, þegar hann ofan á allar sínar fyrri syndir bætir hinum endanlegu svikum allra fagurra fyrirheita með því að leggja 790 millj. nýjar drápsklyfjar á þjóðina, — ég spyr: loftarðu þessu, Hermann?

Svo sem alþjóð veit, dó ríkisstj. miðvikudaginn 21. f. m. og gaf sjálf fyrir andlátið fyrirmæli um að tilkynna erlendum fréttastofnunum sorgarfregnina. Aðfaranótt fimmtudags fékk líkið sinadrátt og reis upp við dogg, eins og hnyttinn maður orðaði það. Á fimmtudag andaðist stjórnin öðru sinni. Á föstudagsmorgun lifnaði hún dauð. Þannig tórir hún nú, hve lengi skal ég ekki spá. Aldrei hefur íslenzk stjórn átt sér óhugnanlegri sögu né ömurlegra ævikvöld.

Forustulausa þjóð hefur sjálfri sér sundurþykk ríkisstj. þó á banabeði að lokum tekizt að sameina. Framsóknarmenn vilja reyna að bjarga leifunum af æru foringja sinna. Kommúnistar vilja forða sér undan refsivendi verkalýðsins. Alþfl. vill, ef auðið er, halda líftórunni með því að forða sér frá kommúnistum og ekki síður þó úr ástarörmum Framsóknar. Sjálfstfl. hefur alltaf viljað og mun alltaf vilja bjarga þjóðinni, en frumskilyrði þess er að losa hana við stjórnleysi stjórnarinnar. Þess vegna er þjóðin nú loksins sameinuð og sammála, öll þjóðin, að ráðherrunum þó undanskildum. Allir segja: Komi hvað, sem koma vill, en burt með þessa ríkisstj.

Ég lýk máli mínu með því að segja stjórninni og þjóðinni í heild þann einfalda, en afar þýðingarmikla sannleika, að enda þótt efnahagsmál þjóðarinnar verði aldrei leyst í eitt skipti fyrir öll, þá er þó haldbezta lausnin sú að efla útflutningsframleiðsluna með stórvirkustu tækjum. Jafnframt verður þjóðin að gera sér ljóst, að hún verður að una sanngjarnri skiptingu þess, sem dregið er í þjóðarbúið, því að engin þjóð fær til langframa lifað um efni fram.