02.06.1958
Sameinað þing: 50. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1669 í B-deild Alþingistíðinda. (2987)

Almennar stjórnmálaumræður

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Einn af mestu núlifandi stjórnmálaleiðtogum heimsins, Winston Churchill, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, komst þannig að orði, er hann ávarpaði þjóð sína á mikilli örlagastundu, að hann byði henni blóð, svita og tár. Þannig vildi hinn djúpvitri og raunsæi leiðtogi búa þjóð sína undir átökin við þá erfiðleika, sem fram undan voru.

Þegar núverandi ríkisstj. tók við völdum fyrir tæpum 2 árum, sagði hún þjóðinni að vísu, að hér væri allt komið í kaldakol, sem þó var fjarstæða og ósannindi, en hún lýsti því jafnframt yfir, að ekkert væri auðveldara, en ráða fram úr erfiðleikunum. Hún hét þjóðinni því, að úr vanda hennar skyldi leyst með nýjum leiðum og varanlegum úrræðum. Hún lofaði gulli og grænum skógum.

En ávöxturinn af starfi vinstri stjórnarinnar hefur ekki orðið sá, sem hún spáði sjálf við valdatöku sína. Aldrei hefur íslenzk þjóð staðið frammi fyrir öðrum eins vanda í stjórnmálum sínum, eftir að hún öðlaðist sjálfstæði sitt, og einmitt nú. Þessi hæstv. ríkisstj. á nú það úrræði eitt, eftir að hún hefur gefizt upp í viðureigninni við þá erfiðleika, sem hún hefur að langsamlega mestu leyti skapað sjálf, að ásaka Sjálfstfl. fyrir að hafa engar till. flutt um lausn efnahagsvandamálanna og reyna að telja þjóðinni trú um, að hann eigi engin úrræði og farist því ekki að gagnrýna uppgjöf ríkisstj.

Áður en þessari staðhæfingu er svarað, er rétt að minna á það, að flokkar vinstri stjórnarinnar spurðu ekki um úrræði Sjálfstfl. sumarið 1956. Þá sögðu þeir þjóðinni, að þeir kynnu sjálfir ráð við öllum vanda og mestu máli skipti fyrir þjóðarheill, að Sjálfstfl. yrði gersamlega einangraður um aldur og ævi.

Þið munuð, hlustendur góðir, heyra hæstv. forsrh , sem talar hér á eftir mér, halda sér í þá staðhæfingu eins og sökkvandi maður í flak, að Sjálfstfl. eigi engin sjálfstæð úrræði og hafi engar viðreisnartill. flutt. Hæstv. fjmrh. mun syngja sama sönginn. Hann hefur raulað hann undanfarna daga. Fulltrúar kommúnista og Alþfl. munu svo púa undir. Þannig mun öll vinstri hersingin reyna að hugga sig og fylgismenn sína og afsaka uppgjöf sína og brigðmæli með því, að stjórnarandstaðan hafi verið svo hláleg að vilja ekki segja henni, hvernig eigi að ráða fram úr vandamálunum.

En sjá menn ekki, hve eymd stjórnarliðsins er uppmáluð í þessum afsökunum þess? Mennirnir, sem lýstu því yfir árið 1956, að engan vanda væri hægt að leysa með Sjálfstfl., verða nú umfram allt að fá leiðbeiningar frá honum um það, hvað gera skuli.

En hvað hefur eiginlega orðið af úrræðunum, sem vinstri stjórnin sagði þjóðinni að hún ætti sumarið 1956? Getur það verið, að sama hafi hent hæstv. ríkisstj. og hrafninn, sem étur sín eigin egg, þegar hart er í ári?

Viðhorfin í íslenzkum stjórnmálum í dag út á við og inn á við hljóta að vera öllum ábyrgum og hugsandi Íslendingum hið mesta áhyggjuefni. Það er vitanlega hlutverk stjórnarandstöðunnar að gagnrýna mistök og víxlspor þeirra, sem með völdin fara á hverjum tíma. Og vissulega er það rétt, að stjórnarandstaðan hefur að mörgu leyti miklum mun erfiðari aðstöðu til þess að kryfja vandamálin til mergjar, en ríkisstj., sem hefur fjölda sérfróðra manna í þjónustu sinni. Þrátt fyrir það höfum við sjálfstæðismenn aldrei skorazt undan því að segja þjóðinni, hver afstaða okkar og stefna sé í stórum dráttum til þjóðfélagsvandamálanna, enda þótt við séum ekki í ríkisstj.

Meginvandamál íslenzks efnahagslífs í dag er hinn geigvænlegi hallarekstur svo að segja alls atvinnurekstrar í landinu og þá fyrst og fremst útflutningsframleiðslunnar. Fullkomið ósamræmi ríkir milli verðlags og framleiðslukostnaðar í landinu annars vegar og markaðsverðs útflutningsafurða okkar í viðskiptalöndunum hins vegar. Þetta þýðir það, að gengi íslenzkrar krónu er raunverulega fallið, það er ekki lengur í neinu samræmi við hina opinberu skráningu þess.

Sjálfstæðismenn hafa jafnan talið gengislækkun algert neyðarúrræði. En fram hjá þeirri staðreynd verður ekki gengið, að gengi krónunnar er fallið. Ein meginorsök þess gengisfalls eru hin pólitísku verkföll, sem kommúnistar beittu sér fyrir árið 1955 og höfðu í för með sér stórfellt kapphlaup milli kaupgjalds og verðlags. Í framhaldi af því, að kommúnistum og bandamönnum þeirra tókst að brjóta niður jafnvægisstefnu fyrrv. ríkisstj. í efnahagsmálunum, hefur svo gengi íslenzkrar krónu haldið áfram að falla hröðum skrefum. Vinstri stjórnin hefur verið að fella gengi krónunnar, síðan hún settist á valdastól. En hún þorir ekki að viðurkenna það og reynir að fela það eins og önnur óhappaverk sín. Verðbólguskrúfan hefur haldið áfram, hallarekstur útflutningsframleiðslunnar stöðugt orðið meiri, en engar aðrar ráðstafanir gerðar til þess að hindra stöðvun hennar, en álagning hrikalegra nýrra skatta og tolla á almenning.

Óhugsandi er, að íslenzkri útflutningsframleiðslu verði haldið áfram með slíkum hrossalækningum til frambúðar. Ný gengisskráning, sem mætt væri með hækkun kaupgjalds að vörmu spori, væri þó gersamlega tilgangslaus. Jafnhliða raunverulegum jafnvægisráðstöfunum telur Sjálfstfl., að höfuðnauðsyn beri til þess að auka útflutningsframleiðsluna, þannig að þjóðin fái meira til skiptanna og geti byggt lífskjör sín á heilbrigðum og traustum grundvelli. Í því sambandi verður að leggja áherzlu á að beina vinnuaflinu í vaxandi mæli að þeim atvinnugreinum, sem standa undir gjaldeyrisöflun og útflutningi. Í dag eru um 4.500 manns á öllum fiskiskipaflota þjóðarinnar. Af þessum hópi voru á s. l. ári um 1.400 útlendingar,

Það er fráleitt, að 3.500 manns geti í framtíðinni staðið undir svo að segja allri útflutningsframleiðslu 160 þús. manna þjóðar. Við verðum að viðurkenna það og gera það dæmi hreinlega upp við okkur, að óhugsandi er, að þjóðin njóti til frambúðar þeirra lífskjara, sem hún hefur búið við undanfarin ár, án þess að auka þátttöku sína í útflutningsframleiðslunni. Jafnhliða því, sem gerðar eru raunhæfar ráðstafanir til þess að koma á jafnvægi í þjóðarbúskapnum, yrði þess vegna að framkvæma róttækar aðgerðir til að beina vinnuafli þjóðarinnar til arðbærra starfa í þágu framleiðslunnar.

Þetta hefur vinstri stjórnin gersamlega vanrækt. Hún hefur meira að segja snúizt gegn síendurteknum tillögum okkar sjálfstæðismanna, m. a. um skattfrelsi sjómanna, til þess að örva þjóðina til þátttöku í sjómennsku og útgerð. Í stað þess hefur hún gert kákráðstafanir, sem engin áhrif munu hafa.

Þá er það skoðun okkar sjálfstæðismanna, að jafnhliða því, sem uppbótakerfið yrði afnumið, beri að lækka að miklum mun skatta og tolla á þjóðinni. Uppbótakerfið hefur krafizt stöðugt nýrra skatta á almenning, og er nú svo komið, að undir forustu núverandi hæstv. ríkisstj. hafa verið lagðar á um það bil 1.100 millj. kr. í nýjum álögum á almenning. Hefur þessi gífurlega skattheimta haft í för með sér lömun alls einkaframtaks, hindrað heilbrigða efnahagsstarfsemi og átt ríkan þátt í margvíslegri upplausn og öfugþróun í þjóðfélaginu. Einstaklingar, þ. á m. dugandi sjómenn og aðrir framleiðendur, hætta að leggja sig fram um öflun verðmæta, þegar hið opinbera tekur svo að segja allt, sem þeir afla. Fáum þykir svo vænt um Eystein Jónsson, að þeir leggi á sig erfiði og áhættu til þess eins að seðja skattahít hans.

Sjálfstfl. telur það einnig eitt hið mesta nauðsynjamál, að samtök launþega og atvinnurekenda geri með sér heildarsamninga um kaup og kjör til lengri tíma, en nú tíðkast. Í nágrannalöndum okkar semja þessir aðilar víða til 2 og jafnvel 3 ára. Tryggir þetta vinnufrið og á ríkan þátt í sköpun nauðsynlegs jafnvægis í þjóðfélögunum. Hér hafa hinar tíðu samningsuppsagnir oft valdið miklu öryggisleysi og glundroða, sem síðan hefur orðið öllum til tjóns, verkafólki, atvinnurekendum og þjóðarheildinni.

Þá er það og þýðingarmikið atriði, að framleiðendur og launþegar eignist sameiginlega hagstofnun, sem hafi það hlutverk að gera sér grein fyrir greiðslugetu atvinnuveganna á hverjum tíma og þróun í hagmálum, framkvæmi rannsóknir á kaupmætti launa frá ári til árs og leggi yfirleitt sem gleggstar upplýsingar á borðið um hagræn málefni, sem varða í senn verkalýð og vinnuveitendur og afkomu bjargræðisveganna til lands og sjávar.

Enginn hugsandi maður, sem vill þjóðfélagi sínu vel, kemst hjá því að viðurkenna þá hættu, sem felst í stöðugum og stórfelldum átökum milli verkalýðs og atvinnurekenda. Þessi átök verður nútímaþjóðfélag að hindra, ekki með valdboðum, heldur með samvinnu fjármagns og vinnu. Þessa tvo aflgjafa verður að sætta.

Við sjálfstæðismenn höfum aldrei sagt þjóð okkar, að unnt væri að leysa efnahagsvandamál hennar með töframeðulum, án þess að nokkur einstaklingur eða stétt þyrfti nokkru að fórna. Við höfum þvert á móti sagt og segjum enn, að frumskilyrði heilbrigðs efnahagslífs, góðra lífskjara og stöðugrar þróunar og uppbyggingar í þjóðfélaginu sé, að þjóðin líti raunsætt á hag sinn og miði eyðslu sína og kröfur til lífsins fyrst og fremst við arð framleiðslu sinnar og atvinnutækja.

Þetta er hinn einfaldi sannleikur um till. og úrræði í efnahagsmálum. Sá, sem segir þjóðinni þennan sannleika og hvikar aldrei frá honum, kemur fram eins og heiðarlegur stjórnmálamaður og villir ekki á sér heimildir. Sá, sem kemur hins vegar og segir þjóð sinni, að hann eigi ný og varanleg úrræði, sem leysi allan vanda auðveldlega, án þess að nokkur þurfi nokkru að fórna og án þess að taka þurfi tillit til grundvallarlögmála efnahagslífsins, hann segir þjóðinni ósatt og gerir tilraun til þess að blekkja hana. Og það er einmitt það, sem núverandi hæstv. ríkisstj. hefur gert. Hún átti engin ný og varanleg úrræði sumarið 1956, og hún á þau ekki heldur í dag. Þess vegna standa nú leiðtogar hennar uppi sem afhjúpaðir ósannindamenn frammi fyrir þjóð sinni. Kommúnistar og bandamenn þeirra hafa orðið að éta ofan í sig öll stóru orðin um „árásir“ fyrrv. stjórnar á verkalýðinn, „kauprán“ og „vísitöluskerðingar“. Þeir hafa s. l. 2 ár orðið sjálfir að samþykkja vísitölubindingu, dulbúna gengislækkun og neyðzt til að láta ríkisvaldið taka aftur af launþegum hina fölsku kjarabót, sem knúin var fram með hinum pólitísku verkföllum veturinn 1955.

Þetta sér og skilur hinn margsvikni verkalýður í dag.

Ég hef hér á undan rætt nokkra drætti í heildarstefnu okkar sjálfstæðismanna gagnvart efnahagsvandamálunum. Til viðbótar vil ég aðeins vísa til reynslu þjóðarinnar á till. okkar og úrræðum í efnahagsmálum árin 1950–55. Flokkur okkar átti þá sæti í ríkisstj. og hikaði ekki við að leggja fram fjölþættar till. um margvíslegar viðreisnarráðstafanir í efnahagsmálum landsmanna. Sumar þessar ráðstafana voru ekki vinsælar. En þær voru nauðsynlegar. Þess vegna hikaði Sjálfstfl. ekki við að rækja skyldu sína við þjóðarhag og beita sér fyrir flutningi þeirra og lögfestingu. Hann treysti á heilbrigða dómgreind fólksins og tapaði heldur ekki á því. Bæði í alþingiskosningunum 1956 og í bæjar- og sveitarstjórnarkosningunum í vetur stórjók hann fylgi sitt meðal þjóðarinnar, en flokkar vinstri stjórnarinnar töpuðu að sama skapi. Því miður tókst upplausnaröflum þjóðfélagsins, kommúnistum og bandamönnum þeirra, að brjóta þessar jafnvægisráðstafanir á bak aftur, eftir að mikill og heillavænlegur árangur hafði af þeim orðið.

Kommúnistar hafa átt meginþátt í því að skapa upplausn í efnahagsmálum landsins með rótlausum blekkingum og yfirboðum um margra ára skeið. Með völdum sínum í verkalýðshreyfingunni hafa þeir oft gert að engu tilraunir fyrrv. ríkisstj. til þess að fylgja heilbrigðri stefnu í efnahagsmálum. Með því móti tókst þeim að lokum að troða sér inn í ríkisstj. Samstarfsmenn þeirra hafa nú fengið smjörþefinn af þeim, og öll þjóðin sér það þrotabú vinstri stjórnarinnar, sem nú situr hnipið, sundrað og ráðvillt í eldhúsi hennar.

Ég hef talið nauðsynlegt að verja töluverðum hluta máls míns til þess að ræða afstöðu okkar sjálfstæðismanna í stórum dráttum til vandamálanna fyrr og nú. Ég hef sýnt fram á, að því fer víðs fjarri, að við stöndum uppi stefnulausir gagnvart því öngþveiti, sem vinstri stjórnin hefur leitt yfir þjóðina. Það sýnir óskammfeilni hv. stjórnarsinna, sem nú eru staðnir að því frammi fyrir alþjóð að hafa svikið bókstaflega öll loforð sín, að eina afsökun þeirra skuli vera staðhæfing um, að Sjálfstfl. skuli ekkert hafa jákvætt til málanna að leggja. Þar með hafa þeir gert eina tilraun til þess að bjarga sér með enn einum ósannindum. Sjálfstfl. hefur markað sína stefnu bæði fyrr og nú. Hann hefur hins vegar aldrei sagt þjóðinni, að hann byggi yfir lausnarorðum, sem leyst gætu öll vandkvæði án fórna og fyrirhafnar. Þess vegna hefur hann heldur aldrei staðið uppi sem svikari frammi fyrir almenningi, eins og vinstri stjórnin gerir nú.

En það er vissulega ástæða til þess, að við sjálfstæðismenn rifjum það upp í stuttu máli frammi fyrir þingi og þjóð, hver úrræði vinstri stjórnarinnar hafa reynzt þau s. l. tæp 2 ár, sem hún hefur farið með völd.

Fyrsta afrek vinstri stjórnarinnar var jólagjöfin í árslok 1956. Í henni fólust 300 millj. kr. nýir skattar og tollar á þjóðina. Það þýddi 9.400 kr. nýja útgjaldabyrði á hverja einustu fimm manna fjölskyldu í landinu. Annað afrek stjórnarinnar var hvítasunnuhretið, öðru nafni bjargráðin, sem nýlega hafa verið lögfest og komu í stað hinna varanlegu úrræða, sem stjórnin hafði lofað við valdatöku sína. Með bjargráðunum eru lagðar nær 800 millj. kr. nýjar álögur á þjóðina, nær eingöngu nefskattar. Það þýðir um það bil 25 þús. kr. nýja gjaldabyrði á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu. Samtals hefur þá vinstri stjórnin lagt nær 35 þús. kr. nýja gjaldabyrði á hverja 5 manna fjölskyldu á Íslandi á tæpum 2 árum. Meðalverkamannalaun í Reykjavík eru reiknuð 57 þús. kr., en eru miklu lægri víða um land. Það skarð, sem vinstri stjórnin hefur höggvið í laun verkamannaheimilanna, er því stórt og uggvænlegt.

En ráðh. vinstri stjórnarinnar eru brjóstheilir menn. Þeir segjast hafa gert þetta af eintómri ást á almúganum, til þess að halda niðri verðlagi og tryggja kaupmátt launa. Orðheppið skáld sagði einu sinni, að Alþfl. hefði fengið „snert af bráðkveddu“. Engu er líkara, en núverandi hæstv. ráðh. hafi fengið meira en snert af grunnhyggni, eða halda þeir, að almenningur sé með öllu dómgreindarlaus?

Myndin, sem við blasir að loknu þessu langa þinghaldi, er þá þessi:

Ríkisstj. hefur með efnahagsmálatill. sínum lögfest nýtt kapphlaup milli kaupgjalds og verðlags, þar sem það er beinlínis fyrirskipað, að kaupgjald og afurðaverð skuli hækka. Vísitalan hækkar um 14–17 stig á næstu 3 mánuðum. Niðurgreiðslur á verðlagi verða stórauknar, svikamylla dýrtíðarinnar eykur ganghraða sinn að miklum mun, hrikalegar skattaálögur á allan almenning eru lagðar á með gjaldeyrissköttum, sem fela í sér dulbúna gengislækkun, enda þótt styrkja- og uppbótakerfinu sé haldið áfram. Og sum stjórnarblöðin segja, að góð síldveiði eða hagstæð grasspretta muni gera ríkissjóð gjaldþrota. Þannig er þá trú stjórnarliðsins á sína eigin stefnu. Sjávarútvegurinn, sem stjórnin segir að eigi fyrst og fremst að njóta góðs af ráðstöfunum hennar, mætir stórfelldum nýjum erfiðleikum. Telja heildarsamtök útvegsmanna jafnvel horfur á því, að útgerðin stöðvist á miðju ári vegna stóraukins rekstrarkostnaðar, sem er afleiðing hins nýja 55% yfirfærslugjalds á rekstrarvörur útvegsins. Við þetta bætist svo enn það, að um 40 launþegasamtök, þ. á m. flest stærstu verkalýðsfélög landsins, hafa sagt upp samningum og meginhluti verkalýðshreyfingarinnar hefur lýst því yfir, að hún sé andvíg efnahagsmálatill. stjórnarinnar. Verkföll vofa yfir í mörgum starfsgreinum, jafnvel einstakir af þm. sjálfs stjórnarliðsins hafa sagt það skýrt og skorinort hér á Alþ.,till. steypi nýrri verðbólguskriðu yfir þjóðina og hljóti að leiða til hruns og öngþveitis.

Vinstri stjórnin er þannig að molna í sundur, innan frá meðal síns eigin þingliðs og utan frá innan verkalýðshreyfingarinnar og almennt meðal þess fólks, sem setti traust sitt á hin glæstu fyrirheit hennar.

Ég get ekki stillt mig um hér að lokum að nefna enn eitt dæmi um kák og yfirborðshátt hæstv. ríkisstj. utan í málefni sjávarútvegsins. Hinn 2. apríl árið 1957 voru samþ. lög, sem ríkisstj, beitti sér fyrir um sölu og útflutning sjávarafurða. Voru lög þessi sett til efnda á því loforði stjórnarinnar að afnema það, sem stjórnarflokkarnir kölluðu „einokun Sjálfstfl. á útflutningsverzluninni“. Aðalatriði þeirra var, að sjútvmrh. skyldi skipa 3 manna n., sem nefndist útflutningsnefnd sjávarafurða. Skyldi n. þessi ráða sér fulltrúa til þess að annast dagleg störf svo og aðstoðarfólk, eftir því sem þörf krefur. Skyldi hún síðan hafa yfirstjórn útflutningsmála sjávarútvegsins. Stjórnarliðið taldi, að með nefndarskipun þessari væri merkilegt spor stigið. En það er athyglisvert, að síðan þessi löggjöf var sett, hefur ekki verið hróflað við því skipulagi, sem frjáls samtök útvegsmanna höfðu sjálf komið á um útflutning afurða sinna. Og það er fyrst eftir að heilt ár er liðið, frá því að löggjöfin er sett, að sjútvmrh. skipar hina nýju n. Í hana eru svo skipaðir þrír skrifstofumenn, sem ekkert þekkja til útgerðar og ekki bera minnsta skyn á útflutning og verzlun með sjávarafurðir. Þessum mönnum felur sjútvmrh. að hafa forgöngu um markaðsleit og tilraunir til að selja sjávarafurðir á nýjum markaði.

Þannig er hálfkákið og yfirborðshátturinn á öllum sviðum hjá hæstv. ríkisstj. Hún hrúgar upp nýjum nefndum og ráðum í fullkomnu tilgangsleysi til þess eins að skapa gæðingum sínum bein og bitlinga.

Enn má geta þess, að ríkisstj. hefur gersamlega vanrækt að framkvæma það fyrirheit sitt að hefjast handa um endurnýjum togaraflotans með kaupum á 15 nýjum togurum. Enda þótt stjórnin hafi fengið um 500 millj. kr. í erlendum lánum s. l. 2 ár, nú seinast 50 millj. kr. rússneskt lán, þá hefur enn þá ekki verið samið um smíði eins einasta af hinum 15 togurum, sem stjórnin lofaði að kaupa til landsins.

Núverandi ríkisstj. og valdaferill hennar hefur verið þjóðinni hollur, en dýr skóli. Þjóðin sér, að vinstri stjórnin hefur ekki aðeins vanefnt öll sín loforð, heldur stendur hún í dag uppi sundruð og margklofin. Við borð lá, að eldhúsumr. féllu niður, vegna þess að ríkisstj. taldi sig sjálf í heila viku frekar dauða en lifandi. Aðeins ótti stjórnarflokkanna við nýjar kosningar og réttlátan áfellisdóm fólksins knúði hið sundraða stjórnarlið saman á ný. En þessi afturgengna ríkisstj. á enga sameiginlega stefnu í stærstu vandamálum þjóðfélagsins og loðir aðeins saman á lönguninni til að sitja og hræðslunni við afleiðingar verka sinna.

Við sjálfstæðismenn hörmum það ólán, sem þessi ríkisstj. hefur leitt yfir þjóðina. En á valdaskeið hennar verður að líta eins og kalt og napurt vorhret, sem að vísu hefur hamlað gróðri og valdið margháttuðu tjóni. En öll hret, einnig hvítasunnuhretin, styttir upp um síðir. Þá brýzt sólin fram úr skýjunum, og athafnaþrek og bjartsýni ungrar og þróttmikillar þjóðar nýtur sín á ný.

Íslenzka þjóðin elur enn í barmi sér trúna á framtíð sína. Undir nýrri, raunsærri og heiðarlegri forustu, sem segir fólkinu satt um ástand og eðli vandamálanna, verða erfiðleikarnir sigraðir. Það kann að kosta stundarfórnir og gera kröfur til þroska og ábyrgðartilfinningar almennings. En í viðreisnarbaráttunni mun þjóðin finna sjálfa sig, öðlast nýjan skilning á því, að það er fleira, sem sameinar hana en sundrar, og gera sér ljóst, að við erum öll fyrst og fremst Íslendingar, sem ber skylda til þess að berjast að einu marki, frjálsu og batnandi Íslandi, starfsamri og hamingjusamri íslenzkri þjóð. — Góða nótt.