02.06.1958
Sameinað þing: 50. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1685 í B-deild Alþingistíðinda. (2989)

Almennar stjórnmálaumræður

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti, góðir hlustendur. Við, sem nú lifum og störfum í landinu, höfum hlotið í arf mikinn fjársjóð, sem forfeður okkar börðust fyrir um aldir, en það er sjálfstæði þjóðarinnar, viðurkenning á rétti hennar til landsins og tilveru meðal þjóðanna, En þetta kostar okkur líka umfram allt fórnfýsi og samheldni auk fjármuna, ef vel á til að takast.

Áður fyrr hafði Alþingi og ríkisstjórn lítil afskipti af atvinnuvegum þjóðarinnar. Bóndinn og útgerðarmaðurinn sáu um sig sjálfir. Þeir tóku á sig boðaföllin, og látið var skeika að sköpuðu, hvort þeir stóðust þau eða ekki.

Nú er öldin önnur. Árið 1946 fór nýsköpunarstjórn Ólafs Thors, hv. þm. G-K., inn á nýja leið í þessum efnum. Þá var fyrst gengið inn á það af Alþingi og ríkisstj. að taka ábyrgð á fiskverði til útflutnings. Síðan hefur ekki tekizt að losna við afskipti ríkisins af útflutningsverðinu, enda ekki tekizt á annan hátt að skapa rekstrarskilyrði fyrir atvinnuvegina.

Með hverju ári hefur orðið erfiðara að afla fjár til þess að brúa bilið á milli framleiðslukostnaðar annars vegar og söluverðs afurðanna erlendis hins vegar. En þetta hefur verið nauðsynlegt, nema því aðeins að eitt af þrennu hefði skeð eða allt í senn:

Í fyrsta lagi, að framleiðslukostnaður innanlands hefði haldizt óbreyttur.

Í öðru lagi, að framleiðsluaukningin í landinu hefði verið það mikil, að hún hefði getað staðið undir hinum aukna kostnaði, sem orðið hefur, og þó hæpið, að það eitt hefði dugað.

Í þriðja lagi, að verðlag erlendis hefði hækkað til samræmis við aukinn kostnað við framleiðsluna innanlands.

Ekkert af þessu hefur verið til staðar í það ríkum mæli, að það hafi nægt til að brúa bilið. Þess vegna hefur á hverju ári s. l. 12 ár þurft nýjar aðgerðir af hálfu ríkisins til að tryggja sölu afurðanna á erlendum markaði.

Árið 1950 var ósamræmið á milli erlends verðlags og framleiðslukostnaðar innanlands orðið það mikið, að ekki þótti fært að halda áfram á sömu braut. Þá var gjaldeyrisskráningunni breytt það mikið, að það átti að nægja til að bjarga útgerðinni. En sú varð þó ekki raunin. Þá töluðu núverandi stjórnarandstæðingar ekki um álögur á þjóðina, eins og hv. þm. Sjálfstfl. gera nú, og voru þó álögurnar, ef álögur skyldi kalla, miklu meiri þá en nú, því að allt, sem greiða þurfti í erlendum gjaldeyri, hækkaði jafnt og þ. á m. neyzluvarningur. Nei, sjálfstæðismönnum ferst hvorki að tala um álögur á þjóðina né það, að aðrir vilji gína né gapa yfir bönkum og lánastofnunum, því að þeir láta sjálfir aldrei ónotuð tækifæri í þeim efnum og svífast þá einskis.

Sú leið, sem farin er nú í efnahagsmálum og lögfest hefur verið til að tryggja afkomu aðalatvinnuveganna, er millileið í hinum nýju lögum um útflutningssjóð o. fl. er farinn meðalvegur milli gengisbreytingar og þess skattafyrirkomulags, er ríkt hefur undanfarin ár. Kerfinu er breytt frá því, sem verið hefur, og það jafnframt gert einfaldara. Það er gerður minni mismunur á uppbótum, en áður hefur átt sér stað, og það er gert ráð fyrir því, að allar tegundir útflutningsvara geti komið til greina. Þá er gert ráð fyrir því að leggja yfirfærslugjald á allar aðfluttar vörur og duldar greiðslur, enn fremur að greiða yfirfærsluuppbætur á tekjur íslenzkra atvinnuvega af öðru, en vörusölu, eins og t. d. flutningsgjöld í siglingum m. m. Í þessu er fólgin mikil breyting frá því, sem verið hefur, sem hefur m. a. þá þýðingu, að ekki er lengur útilokað, að nýjar atvinnugreinar geti staðizt samkeppni í útflutningi, þótt svo hafi verið áður.

Þá minnkar nú mikið bilið á milli innlends og erlends verðlags í ýmsum greinum, og er það spor í rétta átt, enda hefur það líka hlotið viðurkenningu hv. stjórnarandstæðinga, sem eru hreint ekki eins mikið á móti þessum lögum og þeir vilja vera láta, og sýndu brtt. þeirra það bezt. Þær miðuðu flestar að því að auka útflutningsbæturnar, en það þýðir meiri álögur að þeirra dómi, og engin till. hefur komið frá þeim um það að minnka gjöldin á nauðsynja- eða rekstrarvörum landbúnaðar og sjávarútvegs, enda eru margir hinna reyndari þm, Sjálfstfl. það greindir menn, að þeir sjá þýðingu þessa máls fyrir land og þjóð, þótt sjálfum hafi þeim ekki auðnazt að koma með neitt, sem getur bjargað atvinnuvegum þjóðarinnar. Og engan fá þeir til að trúa því, að við lifum til lengdar, eins og ástatt er nú, án þess að gera nýjar ráðstafanir. Ef engar ráðstafanir væru gerðar, þá fyrst væri ástæða til að óttast um hag lands og þjóðar, því að eftir því sem lengur er dregið að aðhafast eitthvað í efnahagsmálum, eftir því eykst misræmið í verðlagi innanlands og utan og enginn eyrir verður til að brúa bilið, svo að ekki liggur neitt fyrir annað, en að framleiðslan stöðvist, verkamenn atvinnulausir og afurðir landbúnaðarins illseljanlegar. Aðgerðarleysi yrði of dýru verði keypt, til þess að nokkur skyni borinn maður óski þess, því að allir sjá, hvernig fer um lífsnauðsynjar og framkvæmdir í landinu, þegar framleiðsla þjóðarinnar er óseljanleg eða stöðvast.

Um áhrif hinna nýju laga um útflutningssjóð á afkomu landbúnaðarins vil ég taka það fram, að aðstaða til útflutnings á landbúnaðarvörum verður nú betri vegna hækkaðra útflutningsbóta. Hækkun á erlendum rekstrarvörum ásamt hækkun á vinnulaunum mun að sjálfsögðu verða tekin til greina við verðlagningu á komandi hausti. Mjólkurverð hækkar nú þegar í samræmi við grunnkaupshækkun og aukinn dreifingarkostnað samkv. lögunum. Kjötverð hækkar einnig sem nemur hækkun á dreifingarkostnaði.

Því er haldið fram af sumum og kom m. a. fram í umr. á Alþingi nú nýlega, að of miklu fé sé varið til fjárfestingar í landbúnaði miðað við annað. Í því sambandi var því haldið fram, að fjárfesting í landbúnaði s. l. 4 ár hafi verið meiri, en í sjávarútvegi. Ég hygg, að óþarft sé og engum til góðs að stofna til metings milli þessara höfuðatvinnuvega í þessum efnum. Uppbygging þarf að eiga sér stað bæði í landbúnaði og sjávarútvegi, og nær væri að bera samanlagða fjárfestingu þeirra saman við heildarfjárfestingu þjóðarinnar. En ég vil leyfa mér af þessu tilefni að fara nokkrum orðum um landbúnaðinn, þátt hans í þjóðarbúskapnum og landbúnaðarframkvæmdir síðustu ára.

Það er að vísu rétt, að landbúnaðurinn framleiðir, eins og nú standa sakir, ekki nema tiltölulega lítinn hluta af útflutningsvörum landsmanna. Á það vil ég þó benda, enda full ástæða til, að menn viti það, að sá gjaldeyrir, sem inn í landið kom á s. l. ári fyrir útfluttar landbúnaðarvörur, gærur, ull, kjöt o. fl., gerði betur, en að greiða allar rekstrarvörur, sem keyptar voru til þarfa landbúnaðarins á því ári. En eins og kunnugt er, framleiðir landbúnaðurinn aðallega vörur, sem þjóðin notar sjálf, og auðvitað sparar hann þannig gjaldeyri, sem hún yrði að afla með einhverju móti, ef þessar vörur væru fluttar inn.

Landbúnaðarframleiðslan til innanlandsnotkunar mun, eftir því sem næst verður komizt, hafa numið nokkuð yfir 700 millj. kr. á s. l. ári, miðað við verðlagsgrundvöll landbúnaðarafurða. Þeir, sem tala um of mikla fjárfestingu í landbúnaði nú síðustu árin, verða að gera sér grein fyrir því, að framkvæmdir í landbúnaði hafa á ýmsum tímabilum á þessari öld verið litlar og verulegur hluti er bústofnsaukning, sem er vegna fjárpestanna. Á árunum 1947–52 er landbúnaðarfjárfestingin þó ekki nema 40 millj. kr. á ári, en hefur aukizt síðan. Á öðrum sviðum átti sér stað mjög mikil fjárfesting, á sama tíma og lítil fjárfesting var í landbúnaði. Til dæmis um það, sem fengizt hefur fyrir það fé, sem fest hefur verið í landbúnaði í seinni tíð, skal ég nefna þetta:

Á árunum 1947–56 stækkuðu túnin um 23 þús. ha. eða sem næst þriðjung. Á sama tíma voru reist 2.083 íbúðarhús eða á þriðju hverri jörð í landinu. Á síðustu fimm árum hafa verið byggð fjós með hlöðum yfir nálega 10 þús. nautgripi og fjárhús með hlöðum yfir 150 þús. fjár. En bústofnsaukningin á árunum 1953–56 er 7.300 nautgripir og 260 þús. fjár. Auk þessa hefur yfirleitt verið vel séð fyrir vélvæðingu í landbúnaðinum. En framleiðsluaukningin er líka mikil síðustu árin. Kjötframleiðsla hefur aukizt síðustu 5 árin úr 9 þús. í 15.400 tonn, ullar- og gæruframleiðsla meira en tvöfaldazt og mjólkurframleiðslan hjá mjólkurbúum aukizt úr 45 millj. lítra í 66 millj. lítra.

Ég vil enn fremur benda á það, að við landbúnaðinn vinna nú aðeins 13% af þjóðinni, og hygg ég, að því verði naumast haldið fram, að þau 87%, sem önnur störf vinna, skili að jafnaði stærri hlut í þjóðarbúið. Bændur landsins hafa lyft grettistaki og notið til þess stuðnings Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda, Það er líka söguleg staðreynd, að þegar bændurnir hafa leyst sín stærstu vandamál, þá hefur Framsfl. jafnan átt sæti í ríkisstj. og farið með landbúnaðarmál.

Í tíð núverandi ríkisstj. hefur margt verið unnið landbúnaðinum í hag. Lögum um búfjárrækt hefur verið breytt til bóta, enda þarf saman að fara arðmikið búfé, grasgefin tún og góð nýting. Þá ber enn fremur að nefna hina nýju lagasetningu um landnám, ræktun og byggingar í sveitum, þar sem tekin er upp sú nýjung að styrkja sérstaklega ræktun þeirra býla, sem hafa undir 10 ha. tún. Framsóknarmönnum hefur lengi verið það ljóst, að brýna nauðsyn ber til að skapa öllum býlum í landinu rekstrarhæfan grundvöll, en sá grundvöllur er óvíða til staðar, ef túnin, sem eiga að sjá búpeningnum fyrir fóðri, eru undir 10 hö. Þá er samkv. þessum sömu lögum verulega bætt aðstaða nýbýlinga frá því, sem verið hefur. Það er trú mín og von, að þeir fjársjóðir, sem faldir eru í ræktanlegu landi, muni smám saman leysast úr læðingi og þar eigi enn eftir að skapast nýir möguleikar í sambandi við skógrækt, hveraorku o. fl.

Sjálfsagt spyr nú einhver: Hvað á að gera með meiri framleiðslu í landbúnaði, en nú er? Því vil ég svara þannig: Þjóðinni fjölgar, mörg smáþorp eiga eftir að rísa upp í sveitum landsins. Sú kemur tíð, að enginn efast um, að hægt sé að flytja út sauðfjárafurðir með góðum árangri. En það er með þær eins og aðra framleiðslu, að það þarf að tryggja rekstrargrundvöll útflutningsafurðanna og um leið tryggja fólkinu í landinu, stöðugt verðlag daglegra nauðsynja og eigna.

Íslenzku þjóðinni fjölgar um rúmlega 3.000 manns á ári, og leiðir þetta til þess, að efla þarf framleiðsluna af fremsta megni, svo að hægt sé að sjá öllum fyrir lífsnauðsynjum. Núverandi æskumenn og konur geta valið um skóla og hlotið góða menntun, enda er æskan þess verðug, því að hún er bæði þróttmikil og dugleg og hefur alla möguleika til að láta gott af sér leiða. Þessum arftökum þjóðfélagsins mun vafalaust takast að bæta um og laga ýmislegt, sem miður fer nú í landi voru. Af hálfu hins opinbera er fé varið til menntunar æskunni, eftir því sem ástæður leyfa, og á þessu ári er fjárveitingin til menntamála 123 millj. kr., en auk þess 12 millj. kr. til kirkjumála. En einnig á annan hátt er fé varið til þess að búa í haginn fyrir framtíðina. Til opinberra framkvæmda er m. a. veitt á fjárlögum þessa árs:

Til nýbyggingar þjóðvega sem næst 15 millj. kr. og til viðhalds þjóðvegum helmingi hærri upphæð, eða 33 millj. kr. Til endurbyggingar gamalla vega, fjallvega og sýsluvega rúmar 4 millj. kr. Til brúargerðar rúmar 10 millj. kr. Til hafnarframkvæmda um 13 millj. kr. Til raforkusjóðs 15 millj. kr., nýrra raforkuframkvæmda 10 millj. kr. Til ræktunarframkvæmda samkvæmt jarðræktarlögum 23 millj. kr. Til nýbýla 6½ milljón króna. Til lánastofnana landbúnaðarins 4.1 millj. Og til stækkunar á túnum innan 10 ha. 5 millj. kr.

Allir þessir liðir á fjárlögum eiga það sameiginlegt, að þeir miða að varanlegum umbótum, sem eiga að skapa þjóðinni betri afkomu í framtíðinni. Það er talið, að um 1.500 millj. kr. hafi farið í fjárfestingu árið 1957 hér á landi eða 1 króna af hverjum 3, sem þjóðin hefur aflað. Þessi fjárfesting er að miklu leyti á vegum einstaklinga. Það gefur auga leið, að það þarf ýtrustu hagsýni og dugnað til að halda þannig áfram til lengdar. En eitt er víst, að það er ekki hægt að festa svona mikið fé árlega, nema því aðeins að atvinnuvegir þjóðarinnar gangi og gangi vel.

Öll fjárfesting varðandi atvinnuvegina er nauðsynleg, sé hún til þess að auka framleiðslumagnið og skapa ný verðmæti og þar af leiðandi auknar tekjur. Sú fjárfesting þarf jafnan að sitja í fyrirrúmi fyrir öðru, sem ónauðsynlegra er. Það má heldur aldrei draga vinnuafl þjóðarinnar um of frá atvinnuvegunum. Þeir eiga að geta fengið og þurfa að fá innlent vinnuafl, svo að ekki fari af þeim sökum gjaldeyrir úr landi.

Framsfl. er ljóst, að það þarf að verja meira fjármagni, en gert hefur verið til sjálfs atvinnulífsins. Ber þá að meta það, sem vel hefur verið gert í þessum efnum. Byggð hefur verið áburðarverksmiðja, sem sér bændum fyrir nægum köfnunarefnisáburði og sparar þar með mikinn gjaldeyri, eða á s. l. ári rúmar 30 millj. Nú er langt komið að reisa sementsverksmiðju, sem mun í framtíðinni ekki einungis spara gjaldeyri, heldur og greiða fyrir framkvæmdum í landinu. En víða blasa við ný verkefni, sem krefjast úrlausnar á næstunni. Það þarf að ráðast í virkjanir á stórám landsins og tryggja þar með eflingu atvinnuveganna og þá ekki sízt stóriðju, jafnframt því sem unnið er að því, að allir landsmenn fái ljós og yl frá raforkunni. Þetta þykja kannske loftkastalar. En þá, sem þannig hugsa, vil ég minna á það, að ekki eru nema rúm 50 ár, síðan byrjað var að leggja síma um landið, og nú má heita svo, að hvert einasta sveitabýli í landinu, sem hefur viljað síma, hafi fengið hann. Fleira mætti nefna af þessu tagi. Þó hefur oft á þessari öld verið misjafnt árferði til lands og sjávar, svo að fresta hefur orðið ýmsum framkvæmdum í bili.

Framkvæmdamáttur þessarar þjóðar er mikill, ef hún leggur sig fram og velur það, sem til heilla horfir. En óneitanlega veltur mikið á því, að þjóðinni takist að ráða á viðunandi hátt fram úr efnahagsmálum sínum, takist að mynda ábyrgan grundvöll í þeim efnum og skilningur verði almennur á þeim málum. Enn þá hafa nú verið gerðar ráðstafanir, sem eiga að geta orðið spor í rétta átt, ef þjóðin ber gæfu til að eyðileggja þær ekki í framkvæmd. Margir spyrja í sambandi við efnahagsmálin: Hví lækkið þið ekki allt og tryggið útflutninginn á þann hátt í staðinn fyrir að hækka allt saman? — Slík lækkun mundi, eins og nú er komið, þurfa að dómi sérfræðinga að ná til allra peningagreiðslna og verðmæta og verka í aðalatriðum eins og gengisbreyting, nema að því leyti að tölur yrðu lægri. Báðar leiðirnar miða að sama marki, en aðalatriðið er, að jafnvægi myndist og það jafnvægi raskist sem minnst.

Þegar í upphafi styrjaldarinnar varaði Framsfl. við því að koma af stað verðbólgu í landinu. Of fáir sinntu þeirri viðvörun, því miður. Mörgum þótti gott að fá hækkandi tekjur í krónum. Krónufjölgunin var nefnd kjarabót. En hverjum dettur nú í hug, að maður, sem hefur 4.000 kr. tekjur á mánuði, hafi 10 sinnum betri kjör en sá, sem hafði 400 kr. fyrir stríð? Engum. Kjarabót verðbólgunnar er blekking. Það hefði verið hyggilegt að fara að ráðum Framsfl. í því að hleypa verðbólgunni ekki af stað. Einnig nú er honum bezt treystandi að ráða fram úr vandanum, þannig að við megi una í framtíðinni. — Góðar stundir.