02.06.1958
Sameinað þing: 50. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1690 í B-deild Alþingistíðinda. (2990)

Almennar stjórnmálaumræður

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson) :

Herra forseti, góðir hlustendur. Vart hefur meira verið rætt um annað mál meðal Íslendinga, síðan Genfarráðstefnan hófst í febr. s. l., en landhelgismálið og útfærslu fiskveiðitakmarkanna. Liggja til þess ýmsar og gildar ástæður.

Íslendingar eru ein mesta fiskveiðiþjóð heims. Landið er snautt af náttúruauðlindum. Mikið af nauðsynjum þjóðarinnar verður að kaupa frá öðrum löndum. Fiskur og sjávarafurðir verða að standa undir þessum innkaupum, enda eru 97% af útflutningi Íslendinga úr sjónum fengin. Það er staðreynd, sem enginn fær haggað, að án fiskimiðanna umhverfis Ísland mundi landið vart vera byggilegt. Verndun fiskimiðanna er viðfangsefni, sem tilvera þjóðarinnar er komin undir.

Þegar þetta er haft í huga, er augljóst, að það var Íslendingum vaxandi áhyggjuefni að fylgjast með þeirri ofveiði, sem átti sér stað á Íslandsmiðum fyrri helming þessarar aldar. Á tímabilinu milli heimsstyrjaldanna tveggja miðaði þessum málum í þá átt, að ljóst varð, að alger eyðilegging vofði yfir fiskistofninum, ef ekki yrði rönd við reist. Afli, miðað við fyrirhöfn, fór síþverrandi með hverju árinu, sem leið. Má nefna sem dæmi, að árið 1919 var dagsafli af ýsu rúmlega 21 vætt, en 1937 var hann kominn niður í 5 vættir. Ef miðað er við 100 togstundir, var ýsuaflinn 243 vættir árið 1922, en 1937 aðeins 71 vætt. Um ýmsar aðrar fisktegundir er svipað að segja.

Í heimsstyrjöldinni síðari minnkaði sóknin að sjálfsögðu, og fiskstofnarnir fengu þá nauðsynlega vernd. Áhrifin komu þar brátt í ljós með vaxandi afla. Síðan hófst sóknin aftur, og afleiðingin lýsti sér í síþverrandi aflabrögðum.

Ef fiskveiðitakmörkunum hefði ekki verið breytt, eins og gert var 1950 og 1952, væri vafalaust raunalegt um að lítast á Íslandsmiðum í dag. Þær ráðstafanir voru þá aðeins hugsaðar sem skref innan víðtækari ramma, og hefur reynslan leitt í ljós, að frekari aðgerða er þörf, ef ekki á illa að fara.

Ráðstafanir þær, sem gerðar voru árið 1950 og 1952, stöðvuðu hnignun íslenzkra fiskistofna að verulegu leyti. Þróun veiðanna og vísindalegar rannsóknir á stofnunum innan fiskveiðitakmarkanna sýndu þetta greinilega. Hins vegar má segja, að við Íslendingar fáum ekki enn þá þann hámarksarð af þessum stofnum, sem æskilegur er og nauðsynlegur fyrir íslenzka útgerð. Hér má aftur taka sem dæmi ýsustofninn. Vegna minnkaðrar sóknar á stríðsárunum rétti stofninn svo við sér, að miðað við 71 vætt á 100 togtímum árið 1937, fengu brezkir togarar 358 vættir á sömu tímaeiningu árið 1946, En það ár fóru þeir aðeins 470 veiðiferðir á Íslandsmið. Síðan jókst sókn þeirra og annarra erlendra manna á Íslandsmið jafnt og þétt frá ári til árs, og árið 1952 fóru Bretar einir 1.334 veiðiferðir hingað. Samtímis þessu minnkaði ýsustofninn jafnt og þétt, þannig að árið 1952 gaf hann af sér aðeins 169 vættir á 100 togtímum, en veiðihæfni skipanna jókst að sama skapi sem aflinn minnkaði.

Lokun þýðingarmikilla uppeldissvæða árið 1950 og 1952 stöðvaði þessa ofveiði. En vegna mjög aukinnar sóknar brezkra og annarra erlendra togara á næstu árum gerði það samt ekki meira, en halda stofninum í horfinu. Veiði í 100 togtíma jókst aðeins lítillega og var orðin 191 vætt árið 1956, miðað við 169 vættir árið 1952, svo sem áður var sagt. Þetta dæmi um ýsuna sýnir greinilega, að aukin sókn og meiri veiðihæfni skipanna hefur hér dregið mjög úr verndarráðstöfunum þeim, sem gerðar voru árið 1952.

Frekari aðgerðir til verndar íslenzku fiskstofnunum og útgerð okkar, sem byggir tilveru sína á þeim, verður því að miðast við það að takmarka heildarsóknina í því skyni, að komizt verði hjá því, að of nærri stofnunum verði gengið. Af þessu leiðir, að útiloka verður útlendinga, eftir því sem nauðsyn krefur, og skapa verður íslenzkum skipum forgangsrétt til þess að hagnýta þessa stofna, eftir því sem ástand þeirra gefur tilefni til hverju sinni.

Íslendingar hafa jafnan lagt á það mikla áherzlu að undirbúa sem bezt allar aðgerðir sínar í landhelgismálinu. Margar þjóðir aðrar, en Íslendingar, stunda veiðar á Íslandsmiðum og hafa því hagsmuna að gæta í sambandi við fiskveiðitakmörk hér við land. Það er vitað, að frá þessum þjóðum mætir sérhver útfærsla fiskveiðitakmarka mótstöðu. Gegn þessari mótstöðu verður það að koma, að Íslendingar sjálfir standi saman um allar þær ákvarðanir, sem teknar eru í málinu. Flokkadeilur og flokksrígur verða að víkja, þegar landhelgismálið er til meðferðar. Við undirbúning allra aðgerða í landhelgismálinu ber að leggja megináherzlu á að skapa samstöðu allra stjórnmálaflokka og þjóðarinnar í heild, áður en í aðgerðir er ráðizt. Þegar samstaða er fengin um úrlausnir, má einskis láta ófreistað til að reyna að sannfæra aðrar þjóðir um, að allar aðgerðir séu byggðar á lífsnauðsyn þjóðarinnar sjálfrar og gerðar í því skyni einu að tryggja tilveru hennar, en ekki til þess að sýna yfirgang og troða illsakir við aðra. Íslendingum er svo rík nauðsyn vinsamlegra viðskipta við aðrar þjóðir, að þeir verða að halda sem einn maður á rétti sínum og lífshagsmunum og leitast við að undirbúa og skýra mál sitt svo, að aðrar þjóðir skilji, hvað í veði er fyrir þjóðina.

Segja má, að Íslendingar hafi stigið fyrsta þýðingarmikla sporið í landhelgismálinu, er lögin um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins voru samþykkt á Alþingi 23. marz 1948. Í 1. gr. þessara laga segir, að sjútvmrn. skuli með reglugerð ákvarða takmörk verndarsvæða við strendur landsins innan endimarka landgrunnsins, þar sem allar veiðar skuli háðar íslenzkum reglum og eftirliti.

Fyrsta reglugerðin samkv. þessum lögum var gefin út 22. apríl 1950 og var um verndun fiskimiða fyrir Norðurlandi einu. Með reglugerð þessari voru allar botnvörpuveiðar og dragnótaveiðar bannaðar á svæðinu frá Horni til Langaness innan línu, sem dregin var 4 sjómílur frá yztu annesjum, eyjum eða skerjum og þvert fyrir minni flóa og fjarða. Reglugerðin færði því ekki aðeins fiskveiðitakmörkin úr 3 mílum í 4, heldur breytti hún einnig grunnlínum allverulega. Þessi nýju ákvæði skyldu koma til framkvæmda 1. júní 1950, en svo gat þó ekki orðið að öllu leyti, þar eð Íslendingar voru bundnir af samningi við Breta frá 1901 um 3 mílna landhelgi og aðrar grunnlínur, en tilgreint var í reglugerðinni. En í landgrunnslögunum, sem reglugerðin byggist á, er svo ákveðið, að reglum þeim, sem settar verða, skuli einungis framfylgt, að svo miklu leyti sem samrýmanlegt er milliríkjasamningum þeim, sem Ísland er eða síðar kann að gerast aðili að. Samningnum við Breta hafði verið sagt upp 3. okt. 1949, en hann féll ekki úr gildi fyrr en 3. okt. 1951. Á tímabilinu frá 1. júní 1950 til 3. okt. 1951 urðu því Íslendingar að sætta sig við, að Bretar hefðu hér meiri rétt til fiskveiða fyrir Norðurlandi en allir aðrir, þ. á m. Íslendingar sjálfir.

Haustið 1951 fóru Bretar þess á leit, að engar frekari ráðstafanir yrðu gerðar af Íslands hálfu, meðan eigi lægi fyrir dómur í deilumáli Breta og Norðmanna, sem þá var fyrir alþjóðadómstólnum í Haag. Ríkisstjórn Íslands varð við þessari beiðni, og dómur féll í desember 1951.

Næsta sporið var því stigið með útgáfu nýrrar reglugerðar 19. marz 1952, er fiskveiðitakmörkin voru færð út kringum landið allt í 4 mílur og grunnlínum breytt. Þessi reglugerð kom til framkvæmda 15. maí 1952.

Reglugerðin frá 1952 er, svo sem kunnugt er, enn í gildi. En öllum Íslendingum hefur lengi verið ljóst, að þær ráðstafanir, sem þegar hafa verið gerðar í sambandi við fiskveiðilandhelgina, eru hvergi nærri fullnægjandi. Íslendingum er nauðsyn að færa fiskveiðitakmörk sín frekar út, bæði grunnlínur og sjálf fiskveiðitakmörkin. Fyrir viðurkenningu á þessu hefur verið barizt á alþjóðlegum vettvangi um langt skeið. Þessi barátta var hafin á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1949, er íslenzka sendinefndin lagði til, að alþjóðalaganefnd Sameinuðu þjóðanna skyldi falið að gera heildarrannsókn á öllum þeim reglum, er gilda skyldu á hafinu, og þ. á m. um stærð landhelgi og fiskveiðitakmörk. Íslenzka tillagan mætti ákafri mótspyrnu og að sjálfsögðu aðallega af hálfu þeirra þjóða, sem töldu, að 3 mílna reglan væri hin eina rétta. Íslenzka sendinefndin hélt málinu til streitu, og að lokum var tillaga hennar samþykkt með naumum meiri hluta.

Á allsherjarþingunum 1953 og 1954 var reynt að fá þessari niðurstöðu hnekkt, en í bæði skiptin tókst íslenzku sendinefndinni að koma í veg fyrir það.

Á allsherjarþinginu 1956 var loks lögð fram heildarskýrsla alþjóðalaganefndarinnar, og hafði þá ríkisstj. Íslands gert sér vonir um, að allsherjarþingið mundi ræða skýrsluna og komast að endanlegri niðurstöðu um víðáttu landhelgi og fiskveiðitakmörk. Svo sem kunnugt er, varð niðurstaðan þó sú, að þingið vísaði málinu frá sér og til sérstakrar ráðstefnu, sem haldin var í Genf frá 24. febr. til aprílloka s. l. Ísland stóð eitt gegn þessari ákvörðun.

Genfarráðstefnunni er nú lokið, og liggja niðurstöður hennar fyrir. Af því, sem á ráðstefnunni gerðist, varða Íslendinga mest umræður og ályktanir um grunnlínur og fiskveiðitakmörk. Að því er grunnlínur varðar, var gerð fullgild samþykkt um, að aðalreglan skuli vera sú, að grunnlínur skuli dregnar frá lágfjöru á ströndum. Sú undantekning er þó gerð, að á svæðum, þar sem strönd er vogskorin eða þar sem eyjaklasar eru í nánd hennar, megi draga beinar grunnlínur, þ. e. a. s. þvert fyrir mynni flóa og fjarða. Mega slíkar grunnlínur þó ekki víkja á verulegan hátt frá meginstefnu strandarinnar. Sker, sem yfir flæðir, má ekki nota sem grunnlínustaði, nema því aðeins að vitar eða önnur slík mannvirki, sem ávallt eru ofan sjávar, séu byggð á þeim.

Um víðáttu landhelginnar og fiskveiðitakmarkanna var engin fullgild ályktun gerð. A. m. k. 13 tillögur komu fram um þetta atriði. Svo sem kunnugt er, bar Kanada fram tillögu, þar sem greint er milli landhelgi og fiskveiðilögsögu, og skyldi fiskveiðilögsagan vera 12 mílur. Niðurstaðan varð sú, að 12 mílna fiskveiðilögsagan fékk nauman meiri hluta í nefnd og á ráðstefnunni, en náði ekki tilskildum 2/3 meiri hluta atkvæða. Allar till. varðandi víðáttu landhelginnar sjálfrar voru felldar, bæði í nefnd og á allsherjarfundum.

Eftir Genfarráðstefnuna stendur því málið þannig, að fullgild samþykkt hefur verið gerð um grunnlínur, en ekki fiskveiðilögsöguna. Um fiskveiðilögsöguna er því engin viðurkennd alþjóðleg samþykkt til. Einfaldur meiri hluti er að vísu fyrir því að taka 12 mílna regluna upp í alþjóðasamþykktir. En mér er kunnugt um, að ýmsar þjóðir, sem beittu sér fyrir þessu, viðurkenna ekki rétt þjóða til að gera þetta með einhliða ákvörðun og munu ekki gera það sjálfar. Íslendingum er því nú sá vandi á höndum að ákveða, hvað gera skuli í málinu. Þegar það dæmi er gert upp, verða Íslendingar að hafa í huga, að tilvera þeirra og framtíð veltur á því að vernda fiskimið sín með útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Þeir eiga og að minnast þess, að 10 ára barátta á alþjóðlegum vettvangi hefur leitt til þess, að nú er almennt viðurkennt, að Ísland hafi algera sérstöðu í þessu efni og útfærsla fiskveiðitakmarkanna sé Íslendingum nauðsyn. Hér hefur vissulega verið unninn mikill og glæsilegur sigur, og eiga þeir, sem að honum hafa unnið, skilið þakkir alþjóðar. En hinu má þó ekki gleyma, að þó að nauðsyn Íslendinga sé viðurkennd, þá hafa þeir ekki þrátt fyrir margar alþjóðlegar ráðstefnur, fengið settar alþjóðlegar reglur, sem leysa vanda þeirra. Hins vegar getur enginn til þess ætlazt, að Íslendingar bíði lengur með ákvarðanir og aðgerðir. Því verður að hefjast handa nú, en gera það þannig, að hagnýttur sé sá skilningur, sem fyrir hendi er á þörfum þjóðarinnar, án þess að kalla yfir sig andmæli og óvild þeirra þjóða, sem Íslendingar vilja eiga vinsamlegt samstarf við, sé þess nokkur kostur. Þetta er hægt, ef rétt er að farið. En það er líka hægt að spilla fyrir öllu, sem áunnizt hefur, sé ekki haldið á málinu af fyrirhyggju.

Á fundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins, sem haldinn var í Kaupmannahöfn dagana 5.–7. maí, skýrði ég frá áformum Íslendinga í fiskveiðilögsögumálinu. Lágu til þess þær ástæður, að þar bauðst gott tækifæri til að kynna málstað okkar, enda er svo ákveðið í reglum bandalagsins, að þar skuli kynntar fyrir fram aðgerðir bandalagsríkja, sem líklegar eru til að valda ágreiningi við önnur ríki innan bandalagsins.

Það kom fram í sambandi við fundinn og var reyndar vitað áður, að margar bandalagsþjóðanna eru algerlega mótfallnar einhliða aðgerðum í landhelgis- og fiskveiðilögsögumálum og viðurkenna ekki rétt neinna þjóða til slíkra einhliða aðgerða. Það kom og fram, að alger sérstaða Íslands að því er varðar víðáttu fiskveiðilögsögunnar mætti skilningi og velvilja.

Að gefnu tilefni þykir mér rétt að skýra frá, hvernig mér fórust orð, er ég í ræðu á fundi Atlantshafsbandalagsins gerði grein fyrir málstað Íslands. Ég sagði í upphafi ræðu minnar orðrétt svo, í íslenzkri þýðingu:

„Ég er þess fullviss, að öllum þeim, sem hér eru, er ljóst, að Ísland er hrjóstrugt land. Í landinu sjálfu eru nær engar auðlindir, og flestar lífsnauðsynjar verður því að flytja inn. Þann innflutning verður að greiða með útfluttum afurðum, sem eru að 97% sjávarafurðir, Ég er viss um, að allir hljóta að vera sammála um, að í slíku tilfelli sé það heilbrigð skynsemi að tryggja hlutaðeigandi þjóð afnot fiskistofnanna umhverfis landið, að svo miklu leyti sem það er nauðsynlegt til að tryggja afkomu þjóðarinnar, og að því er Ísland varðar, er það engum vafa bundið, að landið mundi ekki byggilegt án slíkra ráðstafana. Ef þessar staðreyndir eru hafðar í huga, er auðvelt að skilja, hvers vegna íslenzka þjóðin hefur lengi lagt höfuðáherzlu á að færa út fiskveiðitakmörk sín umhverfis landið, enda hefur reynslan greinilega leitt í ljós, að þau takmörk hafa verið og eru enn ófullnægjandi.“

Síðan rakti ég, hvernig Íslendingar hefðu leitazt við á alþjóðavettvangi að fá settar reglur, er fullnægðu þörfum þeirra, og beðið ráðstefnu eftir ráðstefnu, en án árangurs. Ég lauk ræðu minni á Kaupmannahafnarfundinum orðrétt, í íslenzkri þýðingu, þannig:

„Að þessum fundi loknum mun ég fara til Íslands, og verða þá málin í heild tekin til endanlegrar ákvörðunar í ríkisstj. Samkvæmt núgildandi lögum á Íslandi, sem í gildi hafa verið s. l. 10 ár, er ríkisstjórn Íslands heimilt að gefa út reglur innan endimarka íslenzka landgrunnsins, en þar er um að ræða 40–50 sjómílur frá ströndum. Nú er álitið, að vegna málalokanna í Genf sé rétt að ákveða fiskveiðitakmörkin við Ísland í 12 mílna fjarlægð frá ströndum, enda var meiri hluti atkvæða á ráðstefnunni fyrir því, og Kanada og Bandaríkin gerðu þá tillögu snemma á ráðstefnunni.

Ég geri mér að sjálfsögðu fyllilega grein fyrir, að þegnar ýmissa Atlantshafsbandalagslanda hafa talsverðra hagsmuna að gæta í þessu máli og að margar bandalagsþjóðir mundu miklu fremur kjósa, að við gerðum engar ráðstafanir eða a. m. k. ekki nema með samningum. Þetta virðist alveg ljóst. En við verðum einnig að leggja áherzlu á það, að hvað Ísland snertir er hér um lífsafkomu þjóðarinnar að ræða. Það verður alls ekki sagt um hagsmuni hinna. Eins og nú stendur, kemur ekki til mála af Íslands hálfu neitt minna en 12 mílna fjarlægð, og ekki er heldur hægt að fallast á það sjónarmið, að ráðstafanir í þessu máli skuli háðar samþykki þjóða, sem í grundvallaratriðum eru algerlega andvígar skoðunum Íslendinga í málinu. Þess væri heldur ekki hægt að krefjast með sanngirni.“ — Lauk hér ræðu minni á Kaupmannahafnarfundinum.

Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins óskaði í lok ráðstefnunnar að kynna sér málið í fáa daga og fór fram á, að reglugerð um útfærslu fiskveiðitakmarkanna yrði ekki gefin út á meðan. Ég tjáði honum, að það mundi taka um vikutíma að ganga frá reglugerðinni og mundi hún verða gefin út þegar eftir 14. maí og fiskveiðilögsagan þá verða 12 mílur.

Umr. þær, sem síðan hafa farið fram á þessum vettvangi, hafa verið mjög gagnlegar, enda þótt einhliða ákvörðun sé ekki viðurkennd.

Hér heima hefur verið nokkur ágreiningur um málið. Menn hefur að vísu ekki greint á um það, að friðunarlínan skyldi færð út í 12 mílur og að í þær framkvæmdir skuli ráðizt nú. Hitt hefur valdið ágreiningi, hvernig þetta skuli bera að.

Með bréfi, dags. 17. maí, sendi hæstv. sjútvmrh. stjórnmálaflokkunum, Fiskifélagi Íslands og atvinnudeild Háskóla Íslands uppkast að reglugerð um fiskveiðitakmörkin, sem hann taldi líklega til samkomulags milli flokka. Efni reglugerðarinnar var útfærsla friðunarlínu í 12 mílur, grunnlínur óbreyttar, íslenzkum togurum og dragnótabátum bönnuð veiði innan 12 mílnanna, reglugerðin skyldi gefin út 20. maí, þ. e. þrem dögum síðar, og koma til framkvæmda 1. júlí n. k.

Fiskifélag Íslands og atvinnudeildin voru samþykk útfærslu í 12 mílur, en höfðu að öðru leyti sitt hvað við reglugerðaruppkastið að athuga.

Alþýðuflokkurinn gat fyrir sitt leyti ekki fallizt á þessi vinnubrögð. Tillögur Alþfl. voru, að fyrst skyldi reynt að ná samstöðu þingflokkanna allra um breytingar þær, sem gera skyldi á fiskveiðilandhelginni, með hliðsjón af till. þeim, sem fram komu í umsögnum Fiskifélags Íslands og atvinnudeildar háskólans. Var þetta gert með það í huga, hversu rík nauðsyn Íslendingum er á að standa saman í málinu til að geta mætt sem bezt þeim erfiðleikum, sem málinu eru samfara út á við. Reglugerðin samkvæmt tillögum Alþfl. skyldi gefin út 30. júní og koma til framkvæmda 1. sept. n. k. Tíminn þar til reglugerðin verður gefin út svo og tíminn til 1. sept. skyldi notaður til þess að ræða málið við grannþjóðir okkar í því skyni að afstýra alvarlegum ágreiningi og koma því í höfn með þeim hætti, að aðgerðir okkar fengjust viðurkenndar eða yrði ekki andmælt.

Ég ætla ekki að rekja hér þær umr., sem fram fóru, áður en niðurstaðan fékkst. En umr. lauk með því, að stuðningsflokkar ríkisstj. féllust á tillögur Alþfl. og höfnuðu tillögu og reglugerðaruppkastinu frá 17. maí.

Stjórnarflokkarnir komu sér síðan saman um, hverjar breytingar þeir vildu leggja til að gerðar yrðu á fiskveiðilögsögunni, og lögðu þessa till. sína fyrir samvinnunefnd stjórnmálaflokkanna allra um landhelgismálið. Breytingarnar eru í því fólgnar í meginatriðum að færa fiskveiðitakmörkin út í 12 mílur og leyfa íslenzkum togurum að stunda veiðar á viðbótarbeltinu, en algerlega er eftir að ræða, hvort sú heimild verður takmörkuð og þá með hverjum hætti. Réttur er áskilinn til grunnlínubreytinga.

Alþfl. er fyrir sitt leyti ekki á þessu stigi málsins tilbúinn með tillögur sínar um grunnlínur og óskar að athuga það mál nánar.

Viðræðurnar í samvinnunefnd allra stjórnmálaflokkanna hafa leitt í ljós, að allir flokkarnir eru á einu máli um útfærsluna í 12 mílur. Lýðræðisflokkarnir þrír leggja hins vegar áherzlu á, að reynt sé að afla skilnings og viðurkenningar á nauðsyn og réttmæti ákvarðana Íslendinga í málinu með viðræðum við aðrar þjóðir og að reynt verði að halda þannig á, að það komist farsællega í höfn.

Blað Sameiningarflokks alþýðu — sósíalistaflokksins, Þjóðviljinn, hefur að undanförnu gert sér mjög tíðrætt um landhelgismálið og í því sambandi ráðizt mjög harkalega að Alþfl. og mér persónulega. Er ég sakaður um að hafa tekið upp samninga við Atlantshafsbandalagið um landhelgismálið og á að hafa heitið því, að Íslendingar skyldu falla frá aðgerðum sínum í landhelgismálinu. S. l. föstudag, 30. maí, ræðir Þjóðviljinn t. d. um fund Atlantshafsbandalagsins í Kaupmannahöfn og segir svo orðrétt:

„Urðu þar miklar umræður um landhelgismál Íslendinga, en ekki er vitað, hvað ráðherrunum fór á milli nema af erlendum blaðafregnum, sem herma, að Guðmundur hafi verið fenginn ofan af því að birta nokkra afdráttarlausa yfirlýsingu um það, að íslenzk stjórnarvöld væru staðráðin í því að stækka landhelgina í 12 mílur.“

Miðvikudaginn 28. maí segir Þjóðviljinn enn fremur orðrétt:

„Hann lofaði því hátíðlega, að landhelgi Íslands skyldi ekki stækkuð. Til frekari áherzlu og öryggis tiltók hann nákvæmlega upp á dag, að engin ákvörðun skyldi tekin í landhelgismálinu næstu mánuði.“

Mörg fleiri ummæli í sama anda hafa birzt um mig í Þjóðviljanum undanfarna daga. Öll eru þessi ummæli ósönn og tilhæfulaus, og Þjóðviljinn veit, að þau eru ósönn.

Þegar ég kom heim að fundi Atlantshafsbandalagsins loknum, las ég fyrir meðráðherrum mínum og þ. á m. sjútvmrh. ræðu þá, er ég flutti í Kaupmannahöfn. Þeir, sem hlustað hafa á ræðu mína hér í kvöld, hafa heyrt, að á fundinum í Kaupmannahöfn sagði ég orðrétt: „Ekki kemur til mála af Íslands hálfu neitt minna en 12 mílna fjarlægð, og ekki er heldur hægt að fallast á það sjónarmið, að ráðstafanir í þessu máli skuli háðar samþykki þjóða, sem í grundvallaratriðum eru algerlega andvígar skoðunum Íslendinga í málinu.“ Ég skýrði meðráðherrum mínum einnig frá því, að ég hefði lýst því yfir, að reglugerð um 12 mílna útfærsluna yrði gefin út þegar eftir 14. maí. Ég skýrði einnig frá því, að engin ósk eða tillaga hefði komið fram um neina sérstaka ráðstefnu, hvað þá að nokkur tími hefði verið nefndur í því sambandi. Allt þetta vita skriffinnar Þjóðviljans. Engu að síður leyfa þeir sér að dylgja með og fullyrða hið gagnstæða.

Ég veit, að þegar Þjóðviljinn verður að renna þessum ósannindum niður um sitt víða kok, kemur hann með önnur. Þá fullyrðir hann, að ég hafi tekið upp samninga um málið eftir heimkomuna og þá gefið hin og þessi fyrirheit, sem mig skortir hugmyndaflug til að geta mér til um fyrir fram, hver Þjóðviljinn muni segja að verið hafi. En allt slíkt er tilhæfulaust. Engir samningar hafa verið teknir upp og engin fyrirheit um frest eða afslátt í málinu gefin.

Í nokkra daga eftir Kaupmannahafnarfundinn voru fyrirætlanir Íslendinga í landhelgismálinu, bæði að því er varðar grunnlínur og sjálfa fiskveiðilögsöguna, skýrðar fyrir bandalagsþjóðum okkar og þeim tjáð, að ef þær hefðu eitthvað fram að færa innan mjög takmarkaðs tíma, skyldi það lagt fyrir þingflokkana hér heima. Allt var þetta gert með samþykki meðráðherra minna í Framsfl. og vitund ráðh. Alþb. Ég verð að segja, að því miður var tíminn of naumur til þessara viðræðna við bandalagsþjóðir okkar, og ég tel, að heppilegra hefði verið að gefa sér betri tíma, án þess að til mála hefði komið að fallast á nokkra sérstaka ráðstefnu.

Ósannindi Þjóðviljans um afskipti mín af landhelgismálinu eru ekki einu ósvífnu blekkingarnar, sem þetta blað hefur haft í frammi í sambandi við landhelgismálið. Þannig tekur Þjóðviljinn sig t. d. til miðvikudaginn 28. maí og birtir reglugerð um hin nýju fiskveiðitakmörk, sem blaðið segir fullsamda og undirritaða. Þetta er auðvitað alrangt. Engin reglugerð hefur enn þá verið samin, og það er ekki hægt að semja hana, m. a. vegna þess, að ekkert er farið að ræða um, hvernig ákvæðin um íslenzku togarana skuli vera og fyrirvarinn um grunnlínur getur orðið meiri, en fyrirvarinn einn.

Ótal fleiri ósannindi um menn og málefni úr Þjóðviljanum gæti ég rakið, ef tíminn leyfði, en því miður gerir hann það ekki. En ég vil spyrja, hvers vegna Þjóðviljinn hagar málflutningi sínum með slíkum endemum. Hvílir það ekki á þeim ráðh., sem blaðið þykist styðja, að hafa forustu í landhelgismálinu innanlands? Er málflutningur sem þessi til þess fallinn að skapa þá þjóðareiningu um framkvæmdir í landhelgismálinu, sem ekki aðeins ráðh. heldur öllum Íslendingum er lífsnauðsyn, ef hægt á að vera að bera málið fram til sigurs? Hver og einn getur svarað þessari spurningu fyrir sig, en mér virðist augljóst, að hér sé vitandi vits verið að reyna að egna til ófriðar og úlfúðar á tímamótum, þegar þjóðinni ríður mest á að standa saman og leggja flokkadeilur og pólitískar erjur til hliðar.

En svo grár sem leikur Þjóðviljans er inn á við, þá er hann þó enn þá ljótari út á við. Fullyrt er í þessu blaði, að erlendar þjóðir og bandalög hafi borið fram hinar og þessar kröfur og haft ýmist í hótunum um sameiginlegar refsiaðgerðir eða heitið fjárhagslegum fríðindum til að fá kröfum sínum framgengt. Ég þekki engan slíkan málflutning, og víst er, að ekkert slíkt hefur frá bandalagsþjóðum okkar í Atlantshafsbandalaginu komið. En eitt veit ég: Þessar fullyrðingar Þjóðviljans og málflutningur allur er betur til þess fallinn en nokkuð annað að skapa tortryggni og óvild í garð Íslands á erlendum vettvangi og torvelda friðsamlega lausn og framkvæmd útfærslu fiskveiðitakmarkanna. E. t. v. er tilgangur Þjóðviljans eitthvað í þessa áttina. Kommúnistaskriffinnar Þjóðviljans hafa jafnan ýmislegt fleira í huga, en farsæla lausn á vandamálum þjóðarinnar, ef þeir sjá sér leik á borði til þess að stofna til árekstra og illdeilna við bandalagsþjóðir okkar. Stuðningur Þjóðviljans við þann ráðh., sem með landhelgismálin fer innanlands, hefur jafnan þótt orka tvímælis, en í þessu máli gerir hann það naumast. Minnir öll framkoma blaðsins í málinu á þau ummæli eins stuðningsmanns þess, sem fræg eru að endemum: Hvað varðar mig um þjóðarhag?

Góðir Íslendingar. Áformin um útfærslu fiskveiðilögsögunnar eru ein af mikilvægustu stjórnaráformum síðari ára. Vitað er, að vestrænar þjóðir viðurkenna ekki rétt neins ríkis til þess að færa út landhelgi eða fiskveiðilögsögu sína með einhliða aðgerðum. Gera verður því ráð fyrir, að einhliða aðgerðir verði ekki viðurkenndar og muni sæta mótmælum og andstöðu.

Hinu má heldur ekki gleyma, að alger sérstaða Íslands að því er fiskveiðar varðar er nú almennt viðurkennd. Um 10 ára barátta á alþjóðlegum vettvangi hefur leitt til þess, að telja má þessa viðurkenningu fengna. Þessu ber að fylgja eftir. Sem betur fer, gefst tími ekki aðeins til 30. júní, heldur og til 1. sept. að ræða málið við nágranna okkar og bandamenn. Þann tíma verður að nota vel. Einskis má láta ófreistað til að sannfæra aðrar þjóðir um nauðsyn aðgerða okkar og leitast við að afstýra deilum og árekstrum. Það er trú mín, að þetta mál megi leysa í sátt og samlyndi við aðrar þjóðir, þannig að fullnægt sé kröfum okkar og þörfum, ef það er rætt af skilningi og velvild. En á hverju sem gengur, er Íslendingum þó umfram allt nauðsynlegt að standa saman um þetta stórmál.

Vil ég að lokum láta í ljós þá einlægu von mína, að þjóðin beri gæfu til þess, að allir góðir Íslendingar sameinist nú á örlagastundu einmitt um það að láta íslenzkan þjóðarhag varða sig meira en allt annað. — Góða nótt.