03.06.1958
Sameinað þing: 53. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1742 í B-deild Alþingistíðinda. (2998)

Almennar stjórnmálaumræður

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ræða sú, sem hv. þm. A-Húnv. flutti hér áðan, var að einu leyti merkileg. Hún sýnir, hvílík býsn af ofstæki og þröngsýni geta komizt fyrir í einum mannshuga og hvernig slíkt ástand frystir að lokum alveg heilbrigða skynsemi. Ég mun ekki elta mjög ólar í einstökum atriðum við þessa samhengislausu skammarþulu hv. þm., en vil þó aðeins benda á tvö eða þrjú atriði.

Hann byrjaði ræðu sína með því að sýkna Sjálfstfl. af verðbólguþróuninni. Hver var það, sem rauf samtök um dýrtíðarmálin 1942 og stýrði þannig, að vísitalan hækkaði um 89 stig á einu ári? Það var upphaf verðbólguþróunarinnar á Íslandi. Það var formaður Sjálfstfl., Ólafur Thors. Hver var það, sem prédikaði um blessun dýrtíðar og sagði, að það væri hægt að lækna hana með einu pennastriki? Það var formaður Sjálfstfl., Ólafur Thors. Ef nokkur einn maður á að kallast faðir verðbólgunnar, þá er það formaður Sjálfstfl., og hans þjónn hefur þessi hv. þm. A-Húnv. verið alla tíð. Svo kemur þessi hv. þm. og byrjar hér ræðu sína með því að segja: Allir bera sök á dýrtíðinni nema Sjálfstfl.

Þá var þessi hv. þm. að tala hér um landbúnaðarmál. Hann falsaði að sjálfsögðu ummæli mín um heyskap, fóðurbæti og vélar, og er það nú mál út af fyrir sig, — ég mun koma að þeim atriðum síðar. En þessi hv. þm. hefði ekki átt að tala um landbúnaðarmál. Hv. þm, hefur einu sinni fengið að ráða landbúnaðarstefnunni á Íslandi í tvö ár. Það var á árunum 1944–46. En hvernig var sú stefna, sem hv. hm. markaði? Stéttarsamband bænda, sem þá var að fæðast, var ofsótt af stjórnarvöldunum. Með búnaðarráðslögunum illræmdu voru bændum lögskipaðir forráðamenn til þess að halda niðri afurðaverðinu. Sérstök löggjöf var sett til þess að svelta stéttarsamtökin fjárhagslega í byrjun. Af öllu því gífurlega fjármagni, sem ráðstafað var á þessum árum, fór svo að segja ekki neitt til landbúnaðarins. Áburðarverksmiðjumálið var saltað og farið hinum háðulegustu orðum um áburðarverksmiðjuna, og allt fór eftir þessu. Meira að segja flokksbræðrum þessa hv. þm., Jóns Pálmasonar, blöskraði svo aðfarirnar, að þeir voru margir önnum kafnir við að sverja af sér ofsóknarstefnu Jóns Pálmasonar í garð landbúnaðarins. Þetta er í eina skiptið, sem hv. þm. A-Húnv. hefur fengið að ráða landbúnaðarstefnunni, og þá með þessum afleiðingum fyrir landbúnaðinn. Og það var engin tilviljun, að þessi hv. þm. var að skjóta hér inn áðan í sína ræðu rógi um Stéttarsamband bænda.

Um ræður þeirra sjálfstæðismanna, sem töluðu hér í gærkvöld, er ekki margt að segja, sem ekki hefur þegar verið rækilega tekið fram af öðrum. Ræða Ólafs Thors var eitt samfellt neyðaróp út af því, að menn skyldu gerast svo djarfir að ætlast til þess, að stærsti flokkur landsins hefði stefnu í efnahagsmálum. Kem ég að því síðar.

Hv. 11. landsk., Friðjón Þórðarson, sagði það höfuðatriði að skýra rétt frá staðreyndum. En ekki var hann búinn að tala lengi, þegar honum reyndist hált á hellunni. Hann fór að greina frá því í þungum ásökunartón, að rekstrarvörur landbúnaðarins hækkuðu allar stórkostlega í verði, og síðan sagði hv. þm.: Hvað eiga svo bændur að fá í staðinn? 5% kauphækkun, sagði hann. Tæpast er hægt að hugsa sér freklegri fölsun, en í þessum málflutningi felst, þegar þess er gætt, að á móti verðhækkun þeirra vara og tækja, sem fara til landbúnaðarins, á að koma samsvarandi hækkun á verðlagsgrundvelli landbúnaðarins, og síðan eiga bændur auðvitað að fá sem svarar 5% kauphækkun til viðbótar til jafns við aðra. Þetta veit hv. þm. Ekki sýnist þessi hv. þm. ætla að verða siðbótamaður í Sjálfstfl. í málflutningi, og hefði þeim þó ekki veitt af einum slíkum.

Þá sagði hv. þm. og það endurtók hv. þm. A-Húnv., að ég hefði sýnt sérstakan áhuga á því að skera niður framlög til vegagerðar. Ég býst við, að þessi hv. þm., 11. landsk., sé vegna þingbernsku sinnar ókunnugur því, að undanfarna áratugi hefur aldrei verið lagt hér svo fram fjárlfrv., að framlög til vegagerðar og annarra framkvæmda hafi ekki verið sett talsvert lægri, en í fjárl. ársins á undan. Þetta hefur verið föst venja og til þess hugsuð að gefa þinginu svigrúm varðandi ákvarðanir um þessi efni. Ég vil a. m. k. ekki leggja það verr út, en svo fyrir hv. þm., að hann hafi ekki athugað þetta. Á hinn bóginn er hv. þm. A-Húnv. vel kunnugt um, hvernig þetta er vaxið, og lét hann sig þó hafa það að stíga í rógssporin.

Hv. þm. N-Ísf., Sigurður Bjarnason, og Jón Pálmason lögðu báðir út af þeim texta mest, að stjórnin hefði lofað að leysa efnahagsmálin varanlega og án þess að það snerti nokkurn. Þetta er hreinn tilbúningur þeirra sjálfstæðismanna, og falla því hinar löngu ræður þeirra um þetta niður sem dautt orð.

Hv. þm. N-Ísf. kom nokkuð inn á skattamál. Það þótti mér vænt um, það minnti mig á, að þau þurfti ofur lítið að ræða hér í kvöld. Hv. þm. sagði, að sjálfstæðismenn hefðu ósköp mikinn áhuga fyrir lágum sköttum og sérstaklega hefðu þeir þó mikinn áhuga fyrir því, að fiskimenn þyrftu ekki að borga of mikið. En hvað segir reynslan í þessu efni? Hún er ólygnust. Undir fjármálaforustu sjálfstæðismanna voru sett hér skattalög, sem lengra hafa gengið, en nokkur önnur lög í því að leggja skatta bæði á félög og einstaklinga. Rétt er að athuga, hvað fjármálaforusta Sjálfstfl. t. d. áleit rétt að fiskimenn borguðu í tekjuskatt til ríkisins og hvað þeim er nú ætlað að borga eftir þær lækkanir, sem gerðar hafa verið á sköttum yfir höfuð og sérstaklega á sköttum fiskimanna, síðan Sjálfstfl. lét af fjármálaforustunni. Þessi samanburður lítur þannig út:

Ég tek dæmi af fiskimanni, kvæntum með tvö börn á framfæri, sem stundar sjó í tíu mánuði á ári. Ef við tökum hreinar tekjur 40 þús. kr., þá hafði þessi maður eftir reglum sjálfstæðismanna 826 krónur. Nú ekki neitt. Ef hann hefði 50 þús. kr. tekjur, þá hafði hann eftir reglum sjálfstæðismanna 1.523 kr., en nú 107 kr., lækkun 1.416 kr. Ef hann hefði 60 þús. kr., þá hafði hann eftir reglum sjálfstæðismanna 2.702 kr., en núna 289 kr., lækkun 2.413 kr. Ef hann hefði 70 þús. kr., þá hafði hann eftir reglu sjálfstæðismanna 5.411 kr., en núna 1.086 kr. eða lækkun 4.325 krónur. Ef hann komst upp í 80 þús., þá hafði hann 9483 kr., eftir því sem sjálfstæðismenn töldu mátulegt, á meðan þeir höfðu forustuna, en núna 1.757 kr., lækkun 7.726 kr. Ef hann komst upp í 100 þús., eins og einstaka duglegir yfirmenn gera, þá hafði hann 18.283 kr., það þótti mátulegt þá, en núna 4.393, lækkun 13.890 kr. Og ef einstaka afreksmaður komst upp í 120 þús., þá átti hann að borga 28.437 kr., en núna 8.999 kr., lækkun 19.438 krónur.

Á þessu geta menn séð áhuga sjálfstæðismanna fyrir lágum sköttum á fiskimenn, þegar þeir höfðu aðstöðu til að ráða, og svo hvernig tekið hefur verið á skattamálum fiskimanna nú undanfarið, og mér er sérstakt gleðiefni að fá þetta tækifæri til þess að leiðrétta þann róg, sem sjálfstæðismenn hafa frammi haft um þetta mál undanfarið. Líklega er þetta dálítið öðruvísi, en Sigurður Bjarnason hélt. Hann hefur líklega verið farinn að trúa ósannindavaðli Morgunblaðsins um skattamál fiskimanna. Honum er nokkur vorkunn, því hann er einn af ritstjórum blaðsins.

Þá er ekki siður ástæða til út af því, sem hv. þm. sagði, að henda sjómönnum í Reykjavík og annars staðar, þar sem sjálfstæðismenn ráða, á útsvarsseðilinn sinn, en á þeim seðlum blasir greinilega við í framkvæmd áhugi sjálfstæðismanna fyrir skattfrelsi sjómanna. Þeir seðlar eiga meira skylt við veruleikann, en fleipur sjálfstæðismanna á Alþingi.

Það er alveg vonlaust verk að meta rétt þær till. í efnahagsmálum, sem nú hafa verið lögfestar, nema hafa það í huga, að skrásetning íslenzku krónunnar er algerlega röng. Kveður svo ramt að þessu, að enginn íslenzkur atvinnurekstur getur staðizt lengur án uppbóta, ef hann á afkomu sína undir viðskiptum við útlönd eða á í samkeppni við erlendar vörur og þjónustu, sem ekki eru þá sérstaklega hlaðnar tollum og álögum.

Samtök hafa ekki fengizt um að breyta skráningu krónunnar í það horf, að atvinnurekstur geti staðizt án uppbóta. Þess í stað hefur verið aflað fjár til þess að leggja með krónunni. Vísitöluskrúfan, sem hér hefur gilt á undanförnum árum, ásamt pólitískum áhrifum á margan hátt hefur skrúfað verðlag og uppbætur hærra og hærra ár frá ári. Sjálfsagt er hægt að nota uppbætur að takmörkuðu leyti, án þess að miklu tjóni valdi. En reynsluna höfum við þó glögga af því, að það er hál braut að fara inn á að greiða einstökum framleiðslugreinum útflutningsuppbætur. En þegar útflutningsuppbótakerfið er orðið jafnstórt og það hefur orðið hjá okkur, þá dylst engum manni, að stór háski er á ferðum.

Álögur þær, sem uppbótakerfinu fylgja, hækka vitanlega allan framleiðslukostnað í landinu. Uppbætur voru á hinn bóginn greiddar mjög misjafnar og sumum greinum engar bætur. Fjáröflun til uppbótanna var hagað þannig, að á sumar vörur voru lögð gífurlega há gjöld, en öðrum var sleppt og þá einkum því, sem kallaðar eru brýnustu nauðsynjar, og vörum til atvinnurekstrar. Þetta þýddi, að atvinnurekstur sá, sem ekki var í hæstu uppbótarflokkum, hlaut að eiga æ erfiðara uppdráttar. Sá iðnaður og sú framleiðsla, sem keppti við þær aðfluttar vörur og þá erlendu þjónustu, sem naut sérstakra hlunninda í uppbótakerfinu, hlaut að lamast, sbr. t. d. járniðnað, skipasmíðar, siglingar o. fl., o. fl.

Þeir þættir framleiðslunnar, sem búið hafa við mun óhagstæðari uppbætur en aðrir, svo sem togaraútgerðin og síldveiðar norðan og austan, hafa goldið þess mjög undanfarið.

Þegar uppbótakerfið er orðið mjög stórfellt með gamla laginu, blasir blátt áfram sú hætta við, að það jafngildi því að lögbanna allar nýjar framleiðslugreinar, sem byggja á útflutningi eða samkeppni við erlenda þjónustu í þarfir atvinnuveganna.

Engum hugsandi manni getur blandazt hugur um, að uppbótakerfið sem við bjuggum við, var búið að afskræma svo efnahags- og framleiðslukerfið, að allar þessar hættur, sem ég hef drepið á, voru fyrir hendi. Jafnframt lá það fyrir, að tekjuöflunarráðstafanirnar hrukku hvergi nærri. Þetta lá fyrir í vetur. Kom þá til athugunar, hvað ætti að gera. Ekki verður annað ráðið af tali þeirra, sem andæfa efnahagslöggjöfinni nýju, en ekkert hefði þurft að gera. Sé þetta ekki þeirra meining með andstöðunni við löggjöfina án þess að gera nokkrar aðrar tillögur, verður að líta á tal þeirra sem hreina markleysu.

En hvað mundi það hafa þýtt, ef ekkert hefði verið gert og látið reka á reiðanum? Stórfé mundi hafa skort til þess að greiða uppbæturnar og niðurgreiðslurnar, sem framleiðslan átti að byggja á. Allt mundi því hafa rekið í strand á fáum mánuðum, afleiðingin orðið samdráttur og stöðvun framleiðslunnar og stórfellt atvinnuleysi og kjararýrnun fyrir almenning. Þetta var fram undan, ef ekkert hefði verið aðhafzt, og þetta er það, sem við blasti, ef þeir hefðu fengið vilja sínum framgengt, sem beittu sér gegn efnahagsmálalöggjöf ríkisstj.

Auðvitað kom til athugunar nú sem áður, hvort hægt væri að losna alveg við uppbótakerfið, breyta skráðu gengi krónunnar á þann veg, að höfuðútflutningsatvinnuvegir landsmanna gætu orðið reknir uppbóta- og styrkjalaust, eða þá að lögleiða niðurfærslu allra peningaverðmæta, sem þýddi í raun og veru að taka upp nýja mynt. En því nefni ég þá leið í sömu andránni, að hún mundi hafa í öllum meginatriðum sömu áhrif og gengislækkun. Munurinn er þó sá, að tölur mundu lækka, í staðinn fyrir að með gengislækkun mundu tölur yfir höfuð hækka.

Um þessar leiðir hafa ekki tekizt samtök nú né fyrr, síðan 1950, að gengisskráningunni var breytt. Margir eru ósparir á yfirlýsingar um, að þeir séu á móti uppbótakerfinu. En þegar til á að taka, reynist erfitt að fá samtök um leiðir til að sleppa því alveg.

Það skal greinilega tekið fram, að eins og komið var um ósamræmi í verðlagi og gengisskráningu hefði full leiðrétting gengisskráningar valdið mjög stórfelldri verðhækkun á þeim vörum erlendum, sem haldið hefur verið niðri undanfarið með hinni röngu gengisskráningu og undanþágu frá gjöldum til þess að standa undir uppbótakerfinu.

Eins og ég hef sýnt fram á, þá gat uppbótakerfið, eins og það var orðið, alls ekki staðizt og var orðið allt of hættulegt afkomu þjóðarinnar til þess, að hægt væri að una við það. Samtök fengust ekki um að leiðrétta hið skráða gengi krónunnar og færa verðlagið í einu stökki til samræmis við það, sem vera ætti án uppbótakerfis, eða taka upp nýja mynt. Hér varð því að reyna að fá samtök um millileið, sem gæti forðað frá mestu hættum uppbótakerfisins, eins og það var orðið, leið, sem væri skref í áttina út úr ógöngunum og tryggt gæti öflugt framleiðslustarf.

Ofan á varð sú málamiðlun, sem í efnahagslöggjöfinni felst. Hún er í raun og veru fólgin í því að stiga hálfa leið út úr uppbótakerfinu með því að lögleiða allsherjar yfirfærslugjald og yfirfærsluuppbætur, yfirfærslugjald, sem nær til alls gjaldeyris, sem látinn er af hendi, og yfirfærsluuppbætur, sem greiddar eru á gjaldeyri, sem kemur inn, viðhalda síðan þeim þætti úr gamla uppbótakerfinu að greiða hærri uppbætur á mikinn hluta útflutningsins, en yfirfærslugjaldinu nemur og leggja þá einnig hærri álögur á mikinn hluta innflutningsins. Þessi nýja leið felur í sér stórfellda minnkun á því ósamræmi, sem þjáð hefur mest íslenzkt atvinnu- og framkvæmdalíf og var mjög hættulegt afkomu þjóðarinnar, þegar til lengdar lét. Það er þessi þáttur málsins, sem því veldur, að hér er um stórfellt nýmæli að ræða, sem stefnir alveg tvímælalaust í rétta átt. Það er þessi þáttur í málinu, sem gerir það þess vert, að fyrir því sé barizt. Þessi endurbót hlýtur að verða lyftistöng fyrir atvinnurekstur landsmanna yfir höfuð, þegar frá líður, og eiga verulegan þátt í því að auka þjóðartekjurnar og forða frá þeirri stórkostlegu kjaraskerðingu, sem yfir vofði, ef ekkert var aðhafzt eða haldið áfram með gamla laginu.

Auðvitað á það við um þessa leið, sem valin var, og það sama gildir um hvaða aðra leið, sem farin hefði verið, að engin þeirra megnar að stöðva dýrtíðarveltuna eða verðbólguhjólið, nema með fylgi nauðsynlegar ráðstafanir í peningamálum, hallalaus ríkisbúskapur og skynsamleg útlánastefna hjá bönkunum. Enn fremur megna engin úrræði, hvorki gengisbreyting, þessi leið né nein önnur, að stöðva verðbólguhjólið, ef áfram verður haldið að nota vísitöluna sem mælikvarða fyrir víxlhækkun kaupgjalds og verðlags á sama hátt og verið hefur. Þessi staðreynd hefur aldrei legið ljósar fyrir, en nú eftir þær athuganir, sem hagfræðingar hafa gert á því máli. Allt ber því að sama brunni, verði vísitölustefnunni haldið áfram óbreyttri, þá snýst verðbólguhjólið áfram.

Auðvitað fylgir veruleg verðhækkun þessari leið, sem nú var farið inn á. Það sama er að segja um hvaða aðra leið, sem valin hefði verið. Einnig niðurfærsluleiðinni eða þeirri leið að skipta um mynt og nota lægri tölur, en verið hafa í öllum viðskiptum mundi líka að sjálfsögðu fylgja það, að verð á erlendum vörum mundi hækka í hlutfalli við peningagreiðslur innanlands. Einkum verða þessar verðhækkanir verulegar á ýmsum vörum til framleiðslunnar, sem ekki hafa borið gjöld í uppbótakerfið, en fram hjá þessu varð ekki komizt, eins og allir sjá, ef stíga átti skref út úr gamla uppbótakerfinu og til leiðréttingar á því gífurlega ósamræmi, sem orðið var í verðlaginu. Verðhækkun sú, sem verður á vörum og tækjum til framleiðslunnar t. d., er aðeins brot af því, sem orðið hefði, ef stigið hefði verið út úr uppbótakerfinu í einum áfanga.

Þær breytingar, sem felast í efnahagslöggjöfinni, eru til stórfelldra hagsbóta fyrir framleiðsluna yfir höfuð. Þær geta að sjálfsögðu valdið erfiðleikum hjá ýmsum fyrst í stað, einkum þeim, sem standa í öflun ýmissa tækja til framleiðslunnar. En menn verða að gæta þess, að leiðrétting á ósamræminu í verðlaginu hlaut að koma, og þeim mun lengur sem dregið hefði verið að stíga skref til samræmingar, þeim mun verr hefðu breytingarnar komið við alla, sem hlut eiga að máli.

Hv. þm. stjórnarandstæðinga hafa í rauninni átt bágt undanfarið. Þeim er það ljóst, að efnahagsmálafrumvarpið er merkilegt spor í rétta átt. Hinir skynsamari og ofsaminni talsmenn þeirra hafa einnig viðurkennt þetta hvað eftir annað.

Forustumenn Sjálfstfl. hafa vafalaust orðið að beita hörðu að lokum til þess að fá allt sitt lið til þess að vera á móti málinu, og er það ekkert undarlegt. Það hefði átt að mega ætlazt til þess, að Sjálfstfl. hefði haft manndóm til þess að styðja þetta mál, sem hlaut að skoðast spor í rétta átt frá þeirra sjónarmiði. En þess í stað hafa þeir þaggað niður raddir hinna skynsamari og ofsaminni manna og tekið það ráð að spila á lægstu nóturnar, eins og vant er, og höfuðvopnið á að vera að fá menn til þess að snúa reiði á stjórnarflokkana fyrir óhjákvæmilegar verðhækkanir, sem hlutu að verða afleiðing af nýjum ráðstöfunum í rétta átt í efnahagsmálunum. Það á að segja við bóndann: Það hækkar verð á tækjum, sem þú þarft að kaupa. Það getur þú þakkað Framsfl. fyrir. — Það á að segja við útgerðarmennina og fiskimennina: Það hækkar verð á því, sem þið þurfið að kaupa, og það getið þið þakkað Framsfl., Alþb. og Alþfl. fyrir, — Þetta er rógur á lægsta plani, gerður í trausti þess, að Íslendingar standi á svo lágu stigi í þekkingu á eigin þjóðarbúskap, að þeir haldi, að það hefði verið fært að halda þessum málum í því horfi, sem verið hefur. Þessi áróður er móðgun við menn.

En athugum ofur lítið nánar, hvernig þessi áróður fer í munni þeirra stjórnarandstæðinga. Þeir hafa ekki farið dult með það í málflutningi sínum, að þeir telja, að uppbótakerfið eigi að afnema og gengisskráningin sé röng. Þetta segi ég ekki til þess að álasa þeim, því að ég hef sjálfur verið þeirrar skoðunar, að það væri heppilegt að losa sig við uppbótakerfið, a. m. k. að mestu leyti, og færa skráningu krónunnar í rétt horf. Hef ég ekkert farið dult með þessa skoðun. Það er bara blekking, að almenningi sé hagur að rangri gengisskráningu. En allt veltur á, hvaða stefnu er fylgt að öðru leyti, hvað með fylgir gengisbreytingu og öðrum slíkum ráðstöfunum, og þá ekki sízt, hversu víðtæk samtök eru fáanleg um þær.

En hvernig geta þeir menn, sem vilja gengislækkun og uppbótakerfið feigt, hvernig geta þeir fengið sig til þess að gera nú hækkun á verðlagi neyzluvara og vara til framleiðslunnar að rógsefni á hendur stjórnarflokkunum? Þessar hækkanir hlytu sem sé að verða gífurlega miklu meiri, ef þeir fengju sinn vilja og skráning íslenzku krónunnar væri færð í rétt horf og uppbætur afnumdar.

Í þessum málflutningi stjórnarandstöðunnar eru fólgin svo botnlaus óheilindi og virðingarleysi fyrir réttu máli og réttum rökum, að öllum hlýtur að blöskra, enda er sannleikurinn sá, að fyrst framan af fengust ekki nærri allir þm. Sjálfstfl. til þess að taka þátt í þessum skrípaleik, þótt þeir sennilega verði allir fengnir til þess að lokum. Og ræðumannavalið í þessum útvarpsumræðum af hendi stjórnarandstæðinga sýnir sannarlega, að það hefur ekki verið eftirsótt af þeirra hendi að taka þátt í þeim.

Þá er eftirtektarvert, að einmitt þær verðhækkanir, sem sjálfstæðismenn gera helzt að rógsefni, eru sá þáttur í málinu, sem þeir af þm. flokksins, sem ekki hafa enn þá tamið sér þá íþrótt til fulls að tala alveg glórulaust, hafa talið löggjöfinni helzt til gildis. En það er sú samræming í verðlagi, sem þessum ráðstöfunum fylgir.

Hvert leiðir það íslenzku þjóðina að lokum, ef stjórnmálamenn hennar og aðrir menn í trúnaðarstöðum temja sér áróður eins og þann, sem Sjálfstfl. beitir nú, og sýna slíkt virðingarleysi fyrir staðreyndum við meðferð þýðingarmikilla mála og gert er með þessu? Tekst að brjóta dómgreind manna niður, eða rísa menn gegn svona aðförum? Á því getur meira en lítið, oltið um framtíðina. Efnahagsmálin eru því miður talsvert flókin, en óhugsandi, að vel fari, ef ekki er hægt að treysta því, að heilbrigð dómgreind fái notið sín við mat á því, sem gert er og gera þarf. Er hægt með svona áróðri að gera menn þannig, að þeir sjái ekki nema niður fyrir fætur sér, missi alveg samhengi í hugsun, verði á móti öllu, sem gera þarf, og geti ekki sameinazt um að styðja neitt jákvætt? Er hægt að æra menn þannig með samhengislausum neikvæðum áróðri, að enginn stjórnmálamaður né stjórnmálaflokkur þori að lokum að beita sér fyrir nokkru heilsteyptu úrræði í þýðingarmestu málefnum landsins af ótta við þennan neikvæða róg? Takast sjálfstæðismönnum þessi vinnubrögð? Ég held ekki. Ég held, að þeir vanmeti dómgreind manna. Ég held, að þetta verði verst fyrir þá sjálfa, þegar fram í sækir.

En við hverju var svo sem að búast af stjórnarandstöðunni í þessu tilliti? Við hverju var að búast af mönnum, sem hafa reynt að spilla fyrir því, að Íslendingar gætu fengið lán erlendis til allra nauðsynlegustu framkvæmda, bara af því að þeir héldu að með því gætu þeir gert stjórninni óleik? Við hverju var að búast af mönnum, sem gert hafa allt, sem í þeirra valdi hefur staðið, til þess að koma af stað nýrri verðbólguöldu í landinu með því að æsa til verkfalla og með sérhverjum öðrum ráðum, enda þótt þeir, á meðan þeir höfðu völdin, gengju allra manna lengst í því að reyna að sýna fram á, að slíkt gæti aðeins orðið til tjóns fyrir stéttirnar og þjóðina í heild? Við hverju er að búast af mönnum, sem gengið hafa fram í því með mestri frekju allra manna að heimta aukin ríkisframlög og ríkisútgjöld á öllum sviðum og hafa sýnt allra manna minnsta ráðdeild í tilhögun ríkisrekstrar, en deila svo á aðra fyrir það, að ríkisútgjöld hafi hækkað? Við hverju er að búast af mönnum, sem hafa gengið svo langt að bera samstarfsþjóðum Íslendinga og helztu vinaþjóðum pólitískar fémútur á brýn, af því að þeir héldu, að það gæti komið ríkisstjórninni illa að útbreiða slíkan óhróður? Auðvitað var ekki við því að búast, að þeir, sem þannig hafa komið fram, hefðu manndóm til þess að fylgja nokkru góðu máli, sem kom frá andstæðingunum, eða gætu stillt sig um að leika á hinar lægstu nótur í áróðrinum.

Ef nokkur í liði hv. stjórnarandstæðinga fengi notið til fulls góðra hæfileika fyrir ofsa og blindu forustunnar í skammsýnni valdabaráttu, þá mundu stjórnarandstæðingar einnig sýna lit á því að uppfylla skyldur sínar við þjóðina og gera tillögur um úrlausn efnahagsmálanna, svo að þær gætu orðið bornar saman við úrræði ríkisstj. En það er öðru nær, en því sé að heilsa. En hvernig sem hv. stjórnarandstæðingar reyna, komast þeir aldrei fram hjá því, að öll þjóðin spyr: Hverjar eru till. sjálfstæðismanna? Þjóðin spyr, og hún á heimtingu á svari.

Út af þessu hafa sjálfstæðismenn verið í hinni mestu klípu og eru enn. Þeir gagnrýna tillögur stjórnarinnar, en þora ekkert til þeirra mála að leggja. Þeir afsaka sig með því, að þeir hafi ekki haft undir höndum nauðsynlegar upplýsingar til þess að gera till. En menn spyrja, og ekki að ástæðulausu: Þeir segjast hafa skilyrði til þess að dæma um tillögur ríkisstj. bæði í einstökum atriðum og að efni til. Hafa þeir þá ekki einnig skilyrði til þess að segja, hvað þeir vilja? Enginn efast um, að þeir hafa það. Það sjá allir. Þess vegna hafa sumir þeirra hér og þ. á m. hv. þm. Rang., sem á að tala hér á eftir, verið að reyna að klóra í bakkann og afsaka framkomu flokksins á þingi með því að segja, að það væri ekki ástæða til þess, að þeir gerðu tillögur, því að þeir treystu ekki stjórninni til þess að framkvæma þær. Mikið er að heyra þetta. Á ekki þjóðin heimtingu á að vita, hvað þeir vilja, þó að þeir treysti illa stjórninni? Þessi heilagrautur kemur þannig út, að þeir geta ekki gert tillögur, af því að stjórnin sé svo vond og úrræðalaus. Mundi þá ekki vera freisting fyrir þá að sýna, hvað þeir væru úrræðagóðir? Þjóðin gæti þá borið saman úrræðaleysi ríkisstj. og úrræði þessara snillinga.

Ég sé ekki betur, en stjórnarandstæðingum sé vorkunn í þeim ógöngum, sem þeir hafa lent. Það er þeirra mál. En öll þjóðin spyr: Hvað vilja sjálfstæðismenn? Vilja þeir gengislækkun eða ekki? Sjá þeir leið til þess að lækka uppbæturnar frá því, sem þær eru ráðgerðar í hinum nýju lögum ríkisstj.? Vilja þeir deila byrðunum öðruvísi, en þar var gert? Við þessu vilja menn fá skýr svör, en engar vífilengjur eða undanbrögð, eins og formaður Sjálfstfl. viðhafði í gærkvöld. Þjóðin heimtar spilin á borðið.