03.06.1958
Sameinað þing: 53. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1750 í B-deild Alþingistíðinda. (2999)

Almennar stjórnmálaumræður

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti, góðir hlustendur. Mér fannst nánast broslegt, jafnvel kátbroslegt, þegar hv. þm. G-K. var í gærkvöld að afneita gengislækkun. Sjálfstfl. er á móti gengislækkun og verður það alltaf, sagði formaður flokksins. En svo kom í næstu setningu hjá honum: Samt hef ég þrívegis framkvæmt lækkun á gengi krónunnar. — Mér dettur í hug: Ætli hann yrði ekki til í það svo sem eins og einu sinni eða tvisvar enn þá að lækka gengið, aðeins ef hann fengi stjórnartaumana í hendur? En það er trúa mín, að á meðan hann væri að framkvæma verkið, gæti hann hæglega haft til að hrópa yfir landsbyggðina: Ég er harðastur allra Íslendinga á móti gengislækkun. — Ósamræmi, segið þið. Nei, þetta er Ólafur Thors. Á því er engin önnur skýring til.

Að öðru leyti var hin stórorða ræða form. Sjálfstfl. lítið annað en vandræðaleg, en þó sannarlega misheppnuð tilraun til að afsaka ráðleysi sjálfstæðismanna í efnahagsmálum, en þær afsakanir urðu strax í munni ræðumannsins að þungum ásökunum fyrir ábyrgðarleysi og lýðskrum, sem þjóðin mun lengi og með réttu áfellast hann fyrir.

Þó komst þessi höfuðsmaður íhaldsins fyrst í essið sitt, þegar hann fór að bölsótast yfir samstarfi verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstj. Þar sér hann nefnilega framtíðarhættuna. Slíkt samstarf var hvorki meira né minna, en stjórnarskrárbrot og þar að auki brot á öllu þingræði og lýðræði. Þarna hafa menn sýnishornið af vinsemd Sjálfstfl. til verkalýðs og verkalýðssamtaka. Við svoleiðis fólk á ekki að tala. Það er brot á öllu velsæmi, og þar að auki er það brot á sjálfri stjórnarskránni.

En hvað er þá að segja um afstöðu verkalýðssamtakanna til þeirrar leiðar í efnahagsmálunum, sem helzt fékkst samkomulag um að farin yrði? Frá því skal nú skýrt eftir frumgögnum.

Það er upphaf þessa máls, að strax þegar hugmyndin um að bjóða verkalýðssamtökunum 5% kauphækkun til þess að draga úr kjararýrnun launafólks í sambandi við fyrirhugaðar aðgerðir í efnahagsmálum kom fram, var það atriði eitt út af fyrir sig borið undir miðstjórn Alþýðusambands Íslands. Miðstjórnin samþ. þessa till. samhljóða. Einnig var um þetta leitað álits margra forustumanna verkalýðssamtakanna víðs vegar um land. Allir voru á einu máli um það, að þetta væri umtalsverð kjarabót og bæri tvímælalaust að taka henni.

Þá er þess svo næst að geta, að strax þegar frv. um útflutningssjóð var fullgert, var miðstjórn og 19 manna nefnd Alþýðusambandsins kölluð saman til þess að fjalla um málið í heild. Það er þingræðis- og stjórnarskrárbrotið, sem verst fór í taugarnar á hv. þm. G-K. Málið var svo rækilega rætt á mörgum fundum og síðan gerðar um það ályktanir. Hér í umr. hefur sérstaklega verið gerð að umtalsefni till., sem borin var fram af Eðvarð Sigurðssyni, Eggert Þorsteinssyni o. fl., og því haldið fram, að hana beri að skilja sem mótmæli gegn frv. um útflutningssjóð. Þetta er þó sannanlega alrangt, því að fyrir lá brtt. um, að efnahagsmálanefnd og miðstjórn Alþýðusambands Íslands skyldu mótmæla tillögum þeim, sem fyrir lægju um ráðstafanir í efnahagsmálum. Hvað fékk sú till. mikið fylgi? Þessi till. var kolfelld, fékk aðeins eitt atkvæði, að viðhöfðu nafnakalli, gegn atkvæðum allra annarra fundarmanna. Þetta er sannleikurinn í málinu.

Þessu næst tel ég svo rétt að gefa hlustendum kost á að heyra þær ályktanir, sem miðstjórn og efnahagsmálanefnd Alþýðusambands Íslands gerðu, er umræðum þeirra lauk um efnahagsmálin. Þær voru á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Efnahagsmálanefnd og miðstjórn Alþýðusambands Íslands hafa á fundum sínum að undanförnu kynnt sér og rætt tillögur þær í efnahagsmálum, sem ríkisstj. nú hyggst leggja fyrir Alþingi. Með ráðstöfunum þessum er í veigamiklum atriðum vikið frá þeirri verðstöðvunarstefnu, sem farin hefur verið, síðan núverandi ríkisstj. tók við völdum, og verkalýðssamtökin hafa stutt og vildu styðja áfram. Ljóst er, að afleiðingar þessara ráðstafana verða meiri verðhækkanir, en átt hafa sér stað síðustu þrjú missiri.

Þó álítur fundurinn, að þar sem ákveðið er að lögfesta nokkra launahækkun, megi telja tryggt, að ekki geti orðið um rýrnun kaupmáttar verkalauna að ræða, a. m. k. næstu mánuði.

Enn fremur telur fundurinn mikils virði, að ákveðið er að setja löggjöf um lífeyrissjóð togarasjómanna og gerðar nokkrar breytingar á skattalögunum láglaunafólki í hag.

Að þessu athuguðu og jafnframt vegna annarra mikilsverðra mála fyrir afkomu og lífskjör íslenzkrar alþýðu í framtiðinni, sem úrlausnar krefjast nú, leggur nefndin og stjórn Alþýðusambands Íslands til, að verkalýðshreyfingin vinni ekki á móti eða torveldi framgang tillagnanna.“

Þessi till. var samþ. með 16 atkvæðum gegn einu, en 12 sátu hjá.

Að lokum var svo hljóðandi ályktun gerð, og sýnir hún bezt, hvort fundarmenn ætluðust til þess, að afgreiðsla efnahagsmálanna eða ágreiningur um þau skyldi leiða til stjórnarslita, eins og sumir hafa viljað halda fram. Sú till. var á þessa leið:

„Fundur efnahagsmálanefndar og miðstjórnar Alþýðusambands Íslands, haldinn 8. maí 1958, lýsir ánægju sinni yfir því, að lögfestur hefur verið réttur tíma- og vikukaupsmanna til óskertra launa í allt að 14 daga í veikinda- og slysaforföllum og til eins mánaðar uppsagnarfrests frá störfum.

Fundurinn fagnar einnig, að tryggður er á Alþ. framgangur frv. um lífeyrissjóð togarasjómanna.“ Ég vil leyfa mér að skjóta því hér inn í, að þetta frv. um lífeyrissjóð togarasjómanna var afgr. í gær sem lög frá Alþingi. Síðan segir í ályktuninni:

„Framkvæmd þessara mála er ávöxtur af samstarfi verkalýðshreyfingarinnar við núverandi ríkisstj., og svo er einnig um ýmis önnur hagsmunamál alþýðustéttanna, svo sem verulega hækkun á kaupi fiskimanna, lækkun tekjuskatts á láglaunafólki, þál. um hækkun elli- og örorkulífeyris og aukið fé til íbúðarhúsabygginga á s. l. ári.“

Ályktun fundarins lauk með þessum orðum: „Fundurinn lætur í ljós þá von, að framhald megi verða á vinsamlegu samstarfi verkalýðshreyfingarinnar og núverandi ríkisstj. um framgang hagsmunamála alþýðunnar og þeirra mikilvægu málefna, sem nú bíða úrlausnar.“

Tillögumennirnir voru einmitt þeir, sem hv. þm. G-K., Ólafur Thors, hefur oft verið að vitna til með ánægjubros á vör, þeir Eðvarð Sigurðsson, Óskar Hallgrímsson, Eggert Þorsteinsson og þeir, sem stóðu að upphaflegu till. á fundinum, og sýnir það bezt, hvort þeir eru ekki þakklátir því, sem vel hefur verið gert af núverandi ríkisstj. fyrir verkalýðssamtökin og verkalýðsstéttina.

Nú spyr ég: Eru þetta mótmæli verkalýðshreyfingarinnar, eins og hv. þm. G-K. entist sannleiksást til að fullyrða hér í gær?

Það er vissulega rétt, að verðlag kemur til með að hækka mjög verulega vegna þeirrar aðstoðar, sem nú verður veitt til þess að tryggja öruggan rekstur aðalatvinnuveganna og útflutningsframleiðslunnar og þar með að tryggja fulla atvinnu í landinu. En það er og verður stærsta mál verkalýðsins á hverjum tíma, að atvinnulífið sé í fullum gangi og geti staðið með blóma. Um það eru þó allir sammála, að fyrst um sinn leiði þessar verðhækkanir, sem fram undan eru, ekki til kjaraskerðingar launafólks. Þetta játar t. d. hv. 4. þm. Reykv., Eggert Þorsteinsson, í nál. sínu með svofelldum orðum: „Víxlun sú, sem frv. gerir ráð fyrir á næstu 9 vísitölustigum og 5% kauphækkun, virðist hins vegar munu koma í veg fyrir almenna kjaraskerðingu næstu mánuði.“ Hið sama var einnig játað í tillögu Eðvarðs Sigurðssonar o. fl., — tillögunni, sem hv. þm. G-K. var að vitna til í gær, mjög svo villandi þó.

En svo mikið er víst, að verkalýðurinn veit fullvel, að íhaldið hefði hvorki haft samráð við verkalýðssamtökin um úrlausn efnahagsmálanna né heldur leyst þau með það fyrir augum að vernda hag hins vinnandi fólks, — eða hvenær hefur íhaldið komið með kauphækkun til launþega, áður en verðhækkanir hafa skollið á vegna stjórnmálaaðgerða? Það vita allir, að það hefur aldrei gerzt og mun sennilega aldrei gerast. Á eftir hefur svo verkalýðshreyfingin jafnan orðið að heyja fórnfrek verkföll til þess að rétta hlut sinn á ný. Það er það, sem íhaldið hefur rétt að verkalýðsstéttinni.

Ég skal taka það fram, að ég biðst ekki undan ábyrgð að mínum hluta á þeirri samkomulagsleið, sem hér hefur verið valin í efnahagsmálunum. Ég held, að eftir atvikum sé sú leið, sem farin var, verkalýð landsins hagkvæmari, en aðrar leiðir, sem samkomulag gat náðst um.

Mótsagnirnar í málflutningi stjórnarandstöðunnar eru furðulegar. Sjálfstæðismenn viðurkenna aðstoðar þörf við atvinnulífið, og þeir fullyrða jafnframt, að með þessum aðgerðum sé of lítil aðstoð veitt. En svo fer samhengið hjá þeim ónotalega út um þúfur, því að hins vegar halda þeir því fram, að tekjuöflunin og þar af leiðandi verðhækkanir séu allt of miklar. Með þessu afhjúpar Sjálfstfl. hyldjúp og fyrirlitleg óheilindi sín í málinu, og þarf engu við það að bæta til útskýringar.

En nú segið þið ef til vill: Þetta verða ekki varanleg úrræði. — Það má vel vera, að það sé rétt, en sannleikurinn er líka sá, að engin varanleg úrræði eru til í efnahagsmálum nema þá þau ein að efla framleiðsluna, auka þjóðartekjurnar. Aðeins með því móti verður meira til skiptanna, og að því er nú unnið af hæstv. ríkisstj. Jafnframt þarf svo að draga úr eyðslu og miða fjárfestingarframkvæmdir á hverjum tíma við tekjuöflun þjóðfélagsins.

Þá er það einnig sannfæring mín, að verkalýðshreyfingin eigi mjög að taka það til íhugunar og jafnvel að krefjast þess sjálf, að vísitölukerfið í núverandi mynd verði endurskoðað, því að verkalýðssamtökin hafa yfir nægilegri orku að ráða til að tryggja verkafólki réttmætan hlut sinn af þjóðartekjunum á hverjum tíma, það er ég alveg viss um. Ég held líka, að auðvelt sé að sanna það hverjum manni, að raunar eru það hálaunamenn þjóðfélagsins, sem mest hafa grætt á vísitöluhækkunum undanfarinna ára, ef nokkur hefur þá raunverulega grætt á vísitöluskrúfunni, þegar allt kemur til alls. En svo mikið er víst, að verkalýðurinn hefur þar oft fengið skarðan hlut, að ég ekki segi aðeins hálfan hlut.

Með þessu, sem ég nú hef sagt, læt ég útrætt um efnahagsmálin.

Þegar ég heyri svartnættisþrugl stjórnarandstöðunnar um þjóðfélagsástandið núna vegna stjórnarfarsins í landinu, þá dettur mér oft í hug hið hressilega svar Halldórs Kiljans Laxness, þegar hann kom heim úr heimsferðalagi sínu og blaðamaður spurði hann, hvernig honum litist nú á ástandið hér heima. Hið víðförla skáld sagði þá: Er ekki allt hérna í stakasta lagi? Ég sé ekki betur, en hér sé allt í bezta lagi. Lífskjör almennings eru betri hér, en jafnvel í Bandaríkjunum, hvergi eins vel og mikið byggt, og allflestir hafa meira en nóg að bita og brenna og margir of fjár, að því er virðist. Það væri þá kannske helzt sums staðar í sveitum, að kjör manna séu krappari. Annars ferðast menn um allt, og nóg er flutt inn, og einhvern veginn eru alltaf ráð með gjaldeyri. — Einna sízt skildi skáldið, að það gæti gengið að flytja inn erlent vinnuafl á fiskiskipin og borga kaupið í erlendum gjaldeyri. En hvað á að gera, sagði hann svo, þegar innlent vinnuafl skortir og það erlenda fæst ekki með öðru móti? Nú, þetta gengur allt vel, og af hverju eru menn þá eiginlega að kvarta, og hverjum andskotanum eru menn alltaf að kvíða? sagði skáldið.

Hér kveður a. m. k. nokkuð við annan tón, en hjá hv. stjórnarandstöðu, sem segir daglega, að allt sé að fara fjandans til. En ég spyr: Er nú þetta samt ekki eins sönn mynd af íslenzku þjóðinni í dag og barlómsvæl íhaldsins um, að allt sé að sökkva í eymd og volæði? Mér er nær að halda, að svo sé.

Þeir íhaldsmenn fjasa mikið um svik ríkisstj., en sjaldan eru svikabrigzlin þó rökstudd á nokkurn hátt. Ég tel, að tvö atriði stjórnarsáttmálans séu langsamlega þýðingarmest fyrir verkalýð landsins og eftir efndum eða vanefndum á þeim eigi raunar helzt að dæma stjórnina. Þessi atriði eru loforðin um að beita sér fyrir alhliða atvinnuuppbyggingu í landinu, einkum í þeim þremur landsfjórðungum, sem verst voru á vegi staddir í atvinnulegum efnum, þegar stjórnin var mynduð, og í öðru lagi loforðin um lausn landhelgismálsins. Væntanlega þagna nú fljótlega brigzlin um svik í landhelgismálinu, ekki get ég trúað öðru. Hitt er rétt, að enn þá er að vísu alllangt frá því, að vinnufúsu fólki sé séð fyrir fullri atvinnu sums staðar úti um land, en ástandið í þessu efni, hefur þó batnað verulega, síðan stjórn Ólafs Thors hrökklaðist frá völdum. Stór og afkastamikil fiskiðjuver hafa tekið til starfa í öllum landshlutum. Bátaflotinn hefur víða verið stóraukinn, og nú skapast með stækkun landhelginnar stórbætt skilyrði fyrir vélbátaútgerðina hvarvetna um land. Verður því nú þegar að hefjast handa um aukna fiskiskipabyggingu innanlands, enda ætti skipasmíði nú að verða fyllilega samkeppnisfær við útlönd vegna efnahagsaðgerða ríkisstj. Eftir 2–3 mánuði fara togbátarnir 12, sem verið er að smíða fyrir okkur í Austur-Þýzkalandi, að sigla til íslenzkra hafna og taka þátt í atvinnulífi okkar, og væntanlega verða þeir allir komnir heim fyrir næstu áramót. Þá ætti líka að verða skammt þess að bíða, að hafin verði smíði 8 stórra togara fyrir Íslendinga í Þýzkalandi eða Bretlandi, og er það mál nú að fullu undirbúið, og virðist ekkert vera því til fyrirstöðu, að framkvæmd geti hafizt. Fólksflóttinn til Reykjavíkur og Suðurnesja er að stöðvast. Áður var það oft aðalúrræði í atvinnuleysishéruðunum að senda menn á Keflavíkurflugvöll. Nú er sú tíð liðin, sem betur fer, og það er gleðiefni vissulega, að nú er minna unnið á Keflavíkurflugvelli og meira unnið að heilbrigðu atvinnulífi úti um land. Íslenzk framleiðslustörf eru sem sé aftur að endurheimta sitt fólk. Núverandi ríkisstj. skilur til fulls, að það er mesta hagsmunamál fólksins um land allt, að haldið sé uppi fullri atvinnu. Það verður að ganga á undan öllu öðru að afla nýrra framleiðslutækja og auka þar með þjóðarframleiðsluna. Í því felst eina varanlega lausnin á vanda okkar í efnahagsmálunum.