18.12.1957
Efri deild: 45. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

73. mál, kosningar til Alþingis

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður. En það voru nokkur orð, sem hv. þm. N-Ísf. lét falla og sumpart áttu að vera svar til mín og sumpart víst frekari útskýringar á málinu heldur en hann hafði áður gefið, sem ég get ekki látið alveg hjá líða að fara um nokkrum orðum.

Hann var að tala um það, að heppilegra mundi vera að kjósa á öðrum tíma, en nú er gert í bæjunum og þá helzt á sama tíma og kosið væri í hreppsnefndir í sveitum. Ég skal ekkert um þetta segja. En það er þá fleira, sem þarf að breyta í því sambandi. Nú mun þessi háttur vera hafður á af því, að það þykir heppilegra, að ný bæjarstjórn taki við nýrri fjárhagsáætlun, og þess vegna er kosið rétt eftir að nýtt ár byrjar. Þetta sér maður m.a. á því, að í útsvarslögunum er svo ákveðið, að fjárhagsáætlun fyrir komandi ár skuli lögð fram í bænum almenningi til sýnis og liggja frammi 14 daga í des., til þess að mönnum geti verið ljóst, áður en þeir ganga til kosninganna, hvað bæjarstjórnin ætlar að gera á komandi ári, hvað mikið hún ætlar að leggja á borgarana og hvernig hún ætlar að verja því fé á komandi ári, sem hún fær til umráða. Þetta hefur ekki verið gert enn hér í Reykjavík. Hvers vegna? Ja, hvers vegna? Langar meiri hlutann í bæjarstjórn ekki til, að menn viti þetta, áður en þeir kjósa? Er það þess vegna, sem þeir eru að reyna að brjóta lög í annað sinn, kosningalögin, brutu þau í fyrra líka, bæði hvað þetta snertir og eins með hverju þeir jöfnuðu á? Er það þess vegna, sem þeir eru að því? Það þarf að breyta þarna fleiri greinum, ef það á að fara inn á þetta svið, og það liggur ekki eiginlega fyrir nú að ræða um það, þó að ég minnist á þetta, af því að hv. þm. var að minna á það. Í öðru lagi er talið, að í kaupstöðum og kauptúnum séu hlutfallslega flestir kjósendur heima í janúar.

Hann endurtók, að það séu þessi lög, sem hann telur að muni beinlínis draga úr mönnum að kjósa, gangi fyrst og fremst út yfir Sjálfstfl., og vildi núna rökstyðja með því, að í honum væru langflestir sjómenn og það væri svo hætt við, að þeir gætu ekki verið komnir til að kjósa kl. 11.

Ég held nú, að þó að þeir hefðu reynt að ná meiri hl. í sjómannafélagi landsins og Reykjavíkur í mörg ár, hefði þeim aldrei tekizt það. Og ég hélt, að það benti ekki beint á, að meiri hl. sjómanna landsins væri sjálfstæðismenn. Hitt er náttúrlega rétt, að af því að flokkurinn er stærstur, ef það gengur út yfir einhverja, þá gengur jafnt yfir alla flokka tiltölulega, hverjir ekki sækja, sem ég alls ekki viðurkenni. Ég viðurkenni ekki, að það þurfi á nokkurn hátt að ganga út yfir kjörsókn þeirra manna, sem hafa áhuga á kjörsókninni og mynda sér skoðanir um málin, sem fyrir liggja. Það getur gengið út yfir hina. Það er erfiðara þá að vita, hverjir hafi kosið, svo að þeir geta ekki sótt þá og teymt þá í bandi niður á kjörstaðinn. Það gengur út yfir þá menn. Og það er náttúrlega, ef þeir eru tiltölulega flestir í Sjálfstfl., að þetta gangi mest út yfir þá. Þá er þetta af því, að þeir hafa mest af skoðanalausum mönnum innan sinna vébanda. Það getur ekki verið af neinu öðru. Það liggur alveg ljóst fyrir. Ef það væri jafnmikið af þessum skoðanalausu mönnum í öllum flokkum, þá gengi það hlutfallslega alveg jafnt yfir flokkana, en af því það er flest af þeim þarna, þá gengur það mest út yfir hann. Þetta held ég að hv. þm, hljóti að skilja.

Hann talaði um það og var að spyrja stjórnina, hvað liði endurskoðun stjórnarskrárinnar. Ég ætla ekki að svara fyrir stjórnina, en þó veit ég það með vissu, að henni miðar eins áfram núna og þegar Sjálfstfl. lét Sigurð Eggerz vera formann fyrir n., sem átti að gera till. um stjórnarskrárbreytinguna, tvö ár eftir að hann var dáinn. Það er ég alveg viss um. Henni miðar eins fljótt núna.

Þá var hann að tala um það, að allir vildu láta kjósa, og gaf í skyn, að ég væri einn af þeim. Það er alveg rétt. Ég vil láta mína kjósendur kjósa, en ég vil láta þá sjálfráða um það, og sá var t.d. munurinn við síðustu alþingiskosningar, að fimmtudag fyrir kosningar, eftir að við vorum búnir með alla fundi í Norður-Múlasýslu, fór ég á flugvöll til að fara suður. Þá mætti ég Eysteini Jónssyni, sem var að koma til þess að tala við sína kjósendur. Hann spurði, hvort ég væri vitlaus að vera að fara suður, hvort ég ætlaði ekki að reyna að herða á sókninni fyrir kjördag. Ég sagði nei. Ég ætlaði að fara suður og kjósa hér í Reykjavík, eins og ég væri vanur, og láta það ráðast alveg, hvenær mínir menn kæmu að kjósa, þeir mundu hugsa um sig. Á sama tíma, fimmtudagsmorguninn, voru sendir af stað níu menn, sem áttu að fara og húsvitja alla bæi í Norður-Múlasýslu, ef þeir gætu, fram á helgina, af Sjálfstfl., til að fá þá til að kjósa. Ég fór suður. Þeir fóru um, sjálfstæðissmalarnir, komu á bæina, — og hver var niðurstaðan? Hún varð sú, að Árni Eylands eða Sjálfstfl. fékk þremur atkv. færra, en ég vissi að þeir áttu að eiga, eftir því sem mér var sagt, í sýslunni. Þeir höfðu þrjú atkvæði frá honum fyrir labbið, það var allt og sumt, sem þeir höfðu upp úr því,

Nei, ég held, að það sé bezt að lofa kjósendum sjálfum að skapa sér sínar skoðanir og ráða því sjálfir, hvort þeir koma á kjörstað eða ekki, og að það sé blessun fyrir þá, sem ekki þurfa að neita eða vera togaðir hálfnauðugir á kjörstað, og engan áhuga hafa og enga skoðun á málinu, sem fyrir liggur, enda kemur ekki neitt fram í þessu frv., sem bendir á það, að mönnum sé torveldað að kjósa, nema einungis þetta. Þeir fá ekki að vita, hverjir eru búnir að kjósa, vita þess vegna ekki, hverjir þessir áhugalitlu eru, sem ekki ætla sér að kjósa, og geta ekki sent heim til þeirra til þess beint að sækja þá, ekki nema svona í von og óvon og lenda þá kannske á mönnum, sem eru búnir að kjósa, og fá engar þakkir fyrir.