03.06.1958
Sameinað þing: 53. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1755 í B-deild Alþingistíðinda. (3000)

Almennar stjórnmálaumræður

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti, góðir hlustendur. Tveir ráðherrar hafa gasprað hér hátt, og er sýnilegt af málflutningi þeirra, að samvizkan er farin að slá þá lítið eitt. Í stað þess að biðja afsökunar á því, að þeir hafa ekki staðið við neitt af því, sem þeir lofuðu þjóðinni, koma þeir hér með margs konar fullyrðingar og staðleysur í garð sjálfstæðismanna. Þeir hrópa um hjálp og tillögur frá Sjálfstfl., enda þótt þeir fyrir fáum dögum í blöðum og á fundum hafi stært sig af því, að þeir ætluðu að leysa vandamál efnahagsmálanna án stuðnings og samráðs við Sjálfstfl.

Allir, sem fylgjast með stjórnmálum landsins, hafa gert sér ljóst, að til núverandi stjórnarsamstarfs var stofnað með blekkingum og fölskum loforðum, sem ekki stóð til að efna. Voru því margir frá upphafi vissir um, að árangur af starfi ríkisstj. mundi verða eins og til var stofnað. Það, sem gert er með óheilindum, blekkingum og svikum, endar alltaf á einn veg með vandræðum, vonbrigðum og tjóni. Að þessu sinni er það íslenzka þjóðin, sem verður að gjalda hina stóru skuld. Mun það koma þungt niður á þjóðarheildinni og valda ófyrirsjáanlegum erfiðleikum. Vonandi tekst svo til, að þjóðin megi læra af reynslunni og vinna upp aftur það, sem tapazt hefur.

Þegar stjórnin tók við völdum í júlílok 1956, lofaði hún úttekt á þjóðarbúinu fyrir opnum tjöldum. Sérfræðingar frömdu úttektina, og geymir ríkisstj. skýrslu um niðurstöður hennar, en hefur ekki fengizt til að birta hana alþm., hvað þá heldur almenningi. Augljóst er, hvers vegna stjórnin tregðast við að birta úttektina. Það er vegna þess, að hún sýnir, að allt, sem núverandi stjórnarflokkar sögðu fyrir síðustu kosningar um efnahagsmálin, var stórum ýkt og fjarstæðukennt. Úttekt þjóðarbúsins 1956 sýnir, að núverandi ríkisstj. tók við blómlegu búi. Hún sýnir, að atvinnuvegirnir voru í uppbyggingu og framleiðslutækin höfðu stórum aukizt í tíð fyrrv. ríkisstj., án þess að erlendar lántökur kæmu til. Og þegar Karl Guðjónsson er að tala um það, að fiskiskipastóllinn hafi ekki verið aukinn, þá ber að minnast þess, að í tíð fyrrv. ríkisstj. var fluttur inn og smíðaður í landinu fjöldi fiskibáta, og í tíð fyrrv. ríkisstj. voru gerðar ráðstafanir til kaupa á þeim bátum, sem hafa komið til landsins í tíð núverandi ríkisstj. Úttektin sýnir enn fremur, að nokkur einkenni komu fram í heildarmynd efnahagslífsins, sem gátu orðið hættuleg til frambúðar, en auðvelt var að lagfæra með skynsamlegum aðgerðum.

Þar sem fyrrnefnd úttekt vitnar gegn núverandi ríkisstj. og fullyrðingum stjórnarflokkanna fyrir síðustu kosningar og ætíð síðan, hefur ríkisstj. af þeirri ástæðu ekki enn fengizt til að birta úttektina, Þetta er skiljanlegt með tilliti til starfshátta ríkisstj., en stórmannlegt er það ekki. Ekki er ósennilegt, að stjórnarflokkarnir kvíði þeirri úttekt, sem fram verður látin fara, þegar þeir skila þjóðarbúinu af sér. Samanburðurinn mun ekki verða hagstæður fyrir núverandi stjórnarflokka.

Fyrir síðustu alþingiskosningar töluðu vinstri flokkarnir um gjaldeyris- og vöruskort, sem ekki hafði við rök að styðjast, vegna þess að þá var landið vel birgt af vörum og gjaldeyrisstaðan betri, þegar stjórn Ólafs Thors skilaði af sér í júlílok 1956, heldur en á sama tíma 1953, þegar sú stjórn var mynduð, en þá töldu a. m. k. framsóknarmenn, að allt væri í lagi í þessum málum. Bankaskýrslur og skýrslur Fiskifélagsins um útflutningsbirgðir frá þessum tíma sýna, að gjaldeyrisstaðan hafði batnað í tíð fyrrv. ríkisstj. um 81 millj. kr. Það er tilgangslaust fyrir andstæðinga sjálfstæðismanna að koma með falskar tölur, sem rekast á við opinberar skýrslur. Núverandi ríkisstj. hefur ekki haldið vörubirgðunum við, og er því tilfinnanlegur skortur á nauðsynlegum vörum á mörgum sviðum,

Ef gjaldeyrismálin eru athuguð í dag, verður sú mynd, sem blasir við, óglæsileg. Erlendar skuldir hafa hækkað um 500 millj. kr. Nokkur hluti af þessum lánum hefur verið tekinn til nauðsynlegra framkvæmda, en allt of stór hluti hefur farið í eyðslu, svo sem til þess að greiða ríkissjóði tolla, og nokkur hluti hefur gengið til þess að greiða venjulegan innflutning, sem áður hefur verið greiddur hverju sinni með framleiðslu þjóðarbúsins. Erlendar lántökur til þess að greiða ríkissjóði tolla eru glæframennska, sem hvergi þekkist nema hér á landi. Erlendir fjármálamenn skilja ekki fjármálastjórn íslenzka ríkisins. Fjármálaráðherrann er því frægur utan landsteinanna, ekki síður en hér heima, fyrir þá fjármálastefnu, sem hér er ráðandi. Erlend lán, sem ekki verða til framleiðsluaukningar og nauðsynlegra framkvæmda, verða þjóðinni erfið, þegar fram í sækir. Greiðslur vaxta og afborgana verða þungar í skauti, enda eru þær upphæðir, sem koma til greiðslu í þessu skyni, ískyggilega háar miðað við gjaldeyristekjur þjóðarinnar.

Ef litið er á gjaldeyrisstöðuna í apríllok s. l., kemur í ljós, að verzlunarjöfnuðurinn er óhagstæður fyrstu 1 mánuði ársins um 189 millj, kr., að gjaldeyrisstaðan, þegar hin erlendu lán eru tekin með, er nærri 600 millj. kr. lakari í apríllok s. l. heldur en á sama tíma 1956. Þessi þróun er óglæsileg og minnir vissulega á þörfina fyrir að auka framleiðslu þjóðarinnar.

Ríkisstj. hefur haft mikið fé til umráða, síðan hún komst til valda. Eigi að síður er hún stöðugt févana, því að dýrtíðarhít stjórnarinnar krefst stöðugt meira fjármagns, hærri skatta, meiri lána. Á árinu 1957 voru 300 millj. kr. teknar í nýjum sköttum af þjóðinni. Verðbólgulögin nýju munu gefa árlega 790 millj. kr. Hver hefði trúað því, ef einhver hefði sagt það, þegar stjórnin tók við völdum, að hún mundi leggja svo háa skatta á almenning eins og raun ber vitni? Sá, sem hefði haldið slíku fram, hefði tæplega verið talinn með réttu ráði.

En reynslan af 22 mánaða valdatíma stjórnarinnar sannar, að hún hefur verið ráðlausari og eyðslusamari en þeir, sem minnst treystu henni í fyrstu, höfðu reiknað með. Þegar 300 millj. kr. voru lagðar á þjóðina í árslok 1956, lýsti einn af stuðningsmönnum stjórnarinnar á Alþ. því yfir, að það, sem nú væri verið að gera, mundi leiða til gengislækkunar og mikillar verðbólgu. Hefur þessi stuðningsmaður stj. orðið sannspár, og hafa fleiri úr stjórnarliðinu á Alþ. lýst afstöðu sinni til verðbólgulaganna á þann hátt, að nú væri hrint af stað dýrtíðarskrúfu og yfir þjóðina mundi nú flæða ný verðbólgualda, sem illt yrði að stöðva.

Í grg. fyrir verðbólgufrv. er gert ráð fyrir, að nýjar aðgerðir þurfi að koma til á næsta hausti. Þessi mikla fjárheimta er þess vegna ætluð aðeins til bráðabirgða, og mun margur hugsandi maður hafa áhyggjur af því ábyrgðarleysi, sem fram kemur hjá stjórnarflokkunum með þessum ráðstöfunum.

Hinn óstöðvandi vöxtur dýrtíðarinnar setur allt efnahagskerfið úr skorðum, dregur úr framkvæmdum og getur leitt til atvinnuleysis. Dýrtíðarskrúfan hefur snúizt hratt, síðan núverandi ríkisstj. tók við völdum. Fjárl. hækkuðu um 151 millj. kr. árið 1957, miðað við næsta ár á undan. Vísitölunni hefur verið haldið niðri með stöðugt hækkandi niðurgreiðslum, og hefur hún hækkað um 21 stig, síðan ríkisstj, komst til valda. Sem dæmi um auknar niðurgreiðslur má minna á, að um það leyti, sem ríkisstj. komst til valda, var niðurgreiðslan á mjólkurlítra 86 aurar, en nú er niðurgreiðslan kr. 1.52 á hvern lítra eða næstum helmingi hærri en áður. Þannig mætti nefna ýmsar fleiri vörur, sem greiddar eru niður til þess að dylja vöxt dýrtíðarinnar, en þetta gerðist í dýrtíðarmálunum, á meðan stjórnin hafði verðstöðvun á stefnuskrá sinni.

En hvað verður nú, þegar stuðningsmenn stjórnarinnar á Alþ. og jafnvel ráðherrarnir viðurkenna, að horfið hafi verið frá verðstöðvunarstefnunni? Margir stuðningsmenn stj. fullyrða, að dýrtíðarskriðan fari nú yfir með meiri þunga, en nokkru sinni fyrr og skapi öllum almenningi mikla erfiðleika og valdi samdrætti í atvinnulífinu. Með verðbólgulögunum er gert ráð fyrir 5% kauphækkun frá 1. júní. Verða það 200 kr. á mánuði fyrir verkamannafjölskyldu og aðra, sem hafa hliðstæðar tekjur. Verðhækkun sú, sem sama fjölskylda verður að greiða vegna brýnna lífsnauðsynja, mun nema a. m. k. 600 kr. á mánuði. Þannig tekur verðbólguhít ríkisstj. a. m. k. 10% af launum þeirra, sem minnst bera úr býtum. En það er stjórn hinna vinnandi stétta, sem veldur þessum ráðsöfunum. Atvinnuvegir landsmanna fá sinn skerf af verðbólguráðstöfunum ríkisstj. Allur iðnaður mun lamast og mikill samdráttur verða í þeim atvinnuvegi. Landbúnaðurinn, sem engan málsvara virðist hafa átt, þegar verðbólgufrv. var samið, verður fyrir hvað mestum skakkaföllum vegna þessara ráðstafana. Allar rekstrarvörur landbúnaðarins eru stórhækkaðar og 55% yfirfærslugjald lagt á brýnustu nauðsynjavörur landbúnaðarins.

Landbrh., Hermann Jónasson, sagði í gær, að 55% yfirfærslugjald væri ekki lagt á brýnustu nauðsynjar. Eftir því telur ráðherrann fóðurbæti, áburð, benzín, olíur, byggingarefni, vélar og varahluti, sem þarf til rekstrar landbúnaðar, ekki nauðsynjavöru. Hygg ég, að bændur hafi ekki búizt við slíku skilningsleysi hjá ráðherranum, a. m. k. ekki þeir bændur, sem til þessa hafa kosið Framsfl.

Það er enginn vafi á því, að með ráðstöfunum ríkisstj. er landbúnaðurinn settur í mjög erfiða aðstöðu. Það hefur verið upplýst á Alþ., að ráðstafanirnar séu gerðar til þess að draga úr framleiðslu landbúnaðarvara. Það mátti skilja á Eysteini Jónssyni, að heyja væri ekki aflað eins og skyldi vegna þess, hversu fóðurbætirinn væri ódýr. En ræktunarframkvæmdir og áburðarkaup síðustu ára sanna bezt, að hér er talað af miklu þekkingar- og skilningsleysi á einum elzta atvinnuvegi þjóðarinnar.

En er framleiðslan of mikil? Árið 1957 var framleiðsla mjólkur 5.6% fram yfir nauðsynlegar þarfir. Það ár var mjög hagstætt hvað tíðarfar og grassprettu snertir. Umframframleiðslan s. l. ár er sú minnsta, sem leyfilegt er að hafa, til þess að tryggt sé, að alltaf verði nóg á markaðinum af hinum hollu og góðu landbúnaðarvörum. Að öðrum kosti er hætt við, að vöruskortur verði á ýmsum tímum árs, og er það til skaða fyrir þjóðarheildina og neytendur. Það er einnig til tjóns og leiðinda fyrir framleiðendur. Fólkinu fjölgar í landinu. Neytendahópurinn stækkar. Þarfirnar fyrir landbúnaðarvörur aukast. Það er þess vegna illt verk, þegar stjórnarandstöðuflokkarnir með verðbólgulögunum gera beinlínis ráðstafanir til þess að draga úr framleiðslu landbúnaðarafurða. Mjólkin átti að hækka um 5% 1. júní. Á það að vera hlutur bænda til þess að bæta þeim hækkanir, sem af verðbólgulögunum leiðir. Hætt er við, að þessi hækkun fari að mestu í kostnað. Eða hvað hafa bændur fengið af þeirri hækkun, sem lofað var 1. sept. 1957? Ýmsir munu segja, að ný hækkun komi í verðgrundvelli landbúnaðarins n. k. haust. En hvaða trygging er fyrir því, að bændur njóti þess, þótt útsöluverð mjólkur og annarra landbúnaðarafurða verði hækkað? Hætt er við, að verðbólguskrúfan taki drjúgan hlut til sín og kostnaðurinn, sem af henni leiðir, gleypi bróðurpartinn af hækkuninni, ekki sízt ef þannig verður búið að neytendum, að kaupgetan verði stórum skert.

Því var haldið fram í gærkvöld af þeim, sem gerðu tilraun til þess að verja tilræðið við landbúnaðinn, að útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir muni hækka og bæta þannig hlut bændastéttarinnar.

Á síðasta ári voru fluttar út landbúnaðarvörur fyrir 68 millj. kr. Meðalútflutningsuppbætur það ár voru 54.5%. Verðbólgulögin gera ráð fyrir 80% útflutningsuppbótum. Má því gera ráð fyrir, að útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir hækki um 17–18 millj. kr., en það mun ekki vera tíundi hlutinn af þeim sköttum, sem lagðir eru á landbúnaðinn samkvæmt verðbólgulögunum.

Það má þess vegna segja við bændur: Gjafir eru ykkur gefnar. Það er að þessu sinni eins og áður, að þrengt er að landbúnaðinum sérstaklega, þegar sjálfstæðismenn eru utan stjórnar. Bændur munu minnast þess, sem áður var, og viðurkenna, að sagan endurtekur sig og að Framsfl. geta bændur ekki treyst. Framsfl. hefur áður verzlað með hagsmuni bændastéttarinnar fyrir valdastólana. Bændur vita, að sveltitímabili landbúnaðarins lauk ekki fyrr, en sjálfstæðismenn fengu aðstöðu til að rétta hlut þeirra með réttlátri verðlagningu árið 1942. Og nú í umræðunum var Eysteinn Jónsson að býsnast yfir því, að vísitalan hefði hækkað 1942, vegna þess að landbúnaðarafurðirnar voru hækkaðar.

Bændur vita, að ræktunartímabil landbúnaðarins, sem enn stendur yfir, byrjaði, eftir að lög Péturs Magnússonar um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum fengu gildi 1946, en með þeim lögum var ríkissjóði gert að greiða 50 millj. kr. vegna ræktunar og bygginga í sveitum. Þetta var mikið fé á þeim tíma. En Framsfl. var utan stjórnar, þegar þetta gerðist.

Þótt landbúnaðurinn verði að þessu sinni verst úti, verða verðbólguráðstafanir stjórnarflokkanna jafnframt til þess, að allri þjóðinni blæðir, og með þessum ráðstöfunum eru erfiðleikar atvinnulífsins auknir og kostur almennings stórum þrengdur.

Vinstri stjórnin hefur spilað með hagsmuni almennings. Þannig verða svitadropar verkamannsins, bóndans, sjómannsins og annarra, sem vinna sér brauð með erfiði, skattlagðir til þess að lengja líf þeirrar ríkisstj., sem hefur fyrirgert rétti sínum og misst traust alls þorra almennings í landinu. En nú munu ýmsir segja. Þessi óhöpp hafa skeð, þetta verður ekki aftur tekið. — Eigi að síður munu flestir gera sér fulla grein fyrir því, að hjá þessu böli var unnt að komast. Það mun vart fara fram hjá nokkrum, að sökin og ábyrgðin er hjá stjórnarflokkunum og þá ekki sízt hjá Framsfl., sem flokka mest hefur siglt undir fölsku flaggi og blekkt kjósendur sína með því að þykjast vera raunsær og varfærinn í stjórnmálum landsins.

Þess ber að minnast, að við sjálfstæðismenn gerðum tillögur í ársbyrjun 1956 um stöðvun dýrtíðarinnar. Þá var dýrtíðarskriðan ekki það þung, að hún væri óstöðvandi. Hagstofustjóri gerði útreikninga, sem sýndu, hvaða kostnað það hefði í för með sér að stöðva dýrtíðina. Það er ekki sök okkar sjálfstæðismanna, þótt vísitalan hafi hækkað á árinu 1956, meðan kosningarnar og kosningaundirbúningurinn stóð yfir. Sökin er hjá þeim, sem ekki vildu taka í framrétta hönd okkar sjálfstæðismanna og sameinast um að forða þjóðinni frá böli dýrtíðar og upplausnar. Sökin er hjá þeim, sem rufu samstarfið og gerðust boðberar ævintýramennsku og fláttskapar. Sökin er hjá þeim, sem bera ábyrgð á þeirri stefnu eða stefnuleysi, sem ráðið hefur, síðan samstarfið var rofið við Sjálfstæðisfl. Sökin er hjá þeim, sem sögðust geta leyst allan vanda íslenzkra stjórnmála með því að setja stærsta flokkinn, þann flokkinn, sem mesta hefur ábyrgðartilfinninguna, frá samstarfi og ætluðu að leysa öll vandamál án samráðs við hann.

Nú, þegar stjórnarflokkarnir hafa gefizt upp og finna, að þau lög, sem þeir kalla bjargráð, leiða aðeins til vaxandi erfiðleika, kalla þeir eftir tillögum frá Sjálfstæðisfl. í efnahagsmálum landsins. Það er stutt síðan Tíminn endurtók það, sem oft hefur verið sagt í stjórnarherbúðunum, að efnahagsmálin verði leyst án samstarfs og án samráðs við Sjálfstfl. Flestir munu skilja, að efnahagsmálin munu ekki leyst á viðunandi hátt, nema Sjálfstæðisflokkurinn hafi forustu eða samráð þar um. Stjórnarliðið hrópar til Sjálfstfl. og biður um tillögur, biður um hjálp, sendir út neyðarkall. Vissulega vill Sjálfstfl. hjálpa. En þessari ríkisstj. verður ekki bjargað, þótt sjálfstæðismenn vildu leggja henni lið. Hún ber í sér dauðameinið og er ekki lengur starfhæf. Þótt góðar tillögur lægju fyrir í vandamálum þjóðarinnar, væri núv. stjórn um megn að framkvæma þær á viðunandi hátt. Sjálfstæðismenn munu gera skyldu sína og leysa efnahagsmálin, þegar þeir fá aðstöðu til að framkvæma þau úrræði, sem talin verða heppilegust fyrir alþjóð. Vandamál íslenzku þjóðarinnar verða leyst, þegar þjóðin hefur fengið stjórn, sem hún ber traust til, stjórn, sem ekki blekkir þjóðina, en segir henni sannleikann umbúðalaust. Núv. ríkisstj. treysta fáir. Almenningur telur, að stjórnin sé stjórn óhappa og víxlspora, sem hefur misst traust flestra.

Menn geta deilt um, hvort stjórnin hefur unnið til slíks vantrausts alþjóðar, þótt ástæðan sé augljós vegna vanefnda og svikinna loforða. Það er lögmál, sem stöðugt gildir, að hver, sem glatað hefur öllu trausti annarra, getur aldrei notið sín og verður ávallt ófær og vanmáttugur til þess að vinna gagn og leysa erfið viðfangsefni. Það er skaði og óbætanlegt tjón fyrir alþjóð, að ríkisstj. skuli ekki viðurkenna þennan sannleika, Því lengur sem stjórnin situr að völdum, verður tjón þjóðarinnar meira, erfiðleikar atvinnulífsins og alls almennings aukast.

Það er þess vegna þjóðarheill, sem krefst þess, að nú þegar verði breytt um stefnu, að spilin verði stokkuð upp, að þjóðin með nýjum kosningum eigi þess kost að velja sér nýja forustu og starfhæfa stjórn, sem hún ber traust til. Með því getur þjóðin endurheimt hamingju sina og starfsgleði. Þá mun þjóðin vera þess albúin að taka virkan og jákvæðan þátt í endurreisnarstarfinu og byggja upp á þeim rústum, sem vinstri stjórnin lætur eftir sig. Þá mun þjóðin fús til þess að leggja hart að sér, fórna stundarhagsmunum, ef nauðsyn krefur, til þess að efnahags- og atvinnulífið komist á heilbrigðan og traustan grundvöll. Ný og aukin starfsorka mun verða leyst úr læðingi til athafna og framfara, til vaxandi fjölbreytni í atvinnulífinu og aukinnar framleiðslu þjóðarbúsins. Undir þeim skilyrðum munu lífskjör almennings brátt batna og áhrif verðbólgulaga ríkisstj. smám saman hverfa. Með gagnkvæmu trausti ríkisstj. og almennings mun koma nýtt uppbyggingartímabil, tímabil starfs og framkvæmda. Landsins gæði munu verða nýtt til hins ýtrasta, til hagsbóta fyrir alþjóð. Þjóðin mun halda virðingu sinni inn á við og út á við og efla sjálfstæði sitt, efnalegt og pólitískt.

Það er trú mín, að þetta tímabil sé ekki langt undan. Það er trú mín, að þjóðin megi bráðlega losna úr fjötrum og erfiðleikum þeim, sem ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar hafa leitt hana í. Það er trú mín, að upp muni birta og þjóðin megi njóta gæfu og hamingju í því landi, sem forsjónin hefur gefið henni.