09.06.1958
Sameinað þing: 53. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1761 í B-deild Alþingistíðinda. (3001)

Almennar stjórnmálaumræður

Benedikt Gröndal:

Herra forseti, góðir hlustendur. Undanfarin 2–3 ár hefur tíðum mátt lesa það í Morgunblaðinu og heyra af vörum sjálfstæðismanna, að Alþfl. ætti á að skipa sérlega miklum pólitískum reiknimeisturum, sem gerðu furðulegustu hluti í krafti þeirra vísinda.

Hafi svo verið, að Alþfl. bæri af á sviði reiknivísindanna, þá er sú tíð nú úti. Í gærkvöld kom fram á sjónarsviðið í þessum umr. nýr stórmeistari í listinni, slíkur snillingur, að þar stenzt enginn samanburð. Þessi nýi meistari er hv. þm. N-Ísf., Sigurður Bjarnason. Hann flutti skörulega ræðu og sagði ýmislegt satt og rétt af landsföðurlegri vizku, en þess á milli sló hroðalega út í fyrir honum, ekki sízt þegar hann byrjaði að reikna. Sigurður komst sem sé að þeirri niðurstöðu, að hinar nýju álögur ríkisstj. næmu — ég man ekki hve mörgum hundruðum millj., og svo reiknaði hann út, að álögurnar næmu 35 þús. kr. á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu, en meðallaun verkamanna kvað hann nú vera talin 57 þús. kr. á ári.

Þetta var merkilegur reikningur. En dæmið er þó ekki alveg á enda. Sigurður gleymdi alveg gömlu álögunum, t. d. 800 millj. fjárlaganna, sem mundu samkvæmt reikningsaðferð þessari nema 25 þús. kr. á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu. Svo eru lögð á landslýðinn útsvör, og tækjum við Reykjavík sem dæmi, er heildarupphæð útsvaranna þar eitthvað nálægt 200 millj., en það nemur á hverja fimm manna fjölskyldu í bænum nálægt 12 þús. kr. Samkvæmt þessum reikningsaðferðum hv. þm. N-Ísf. nema opinberar álögur í útflutningssjóð, ríkissjóð og bæjarsjóð á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu hvorki meira né minna en 76 þús. kr. Nú hefur verkamannsfjölskylda 57 þús. kr. á ári, svo að samkvæmt þessum talnavísindum Sigurðar Bjarnasonar þarf hver fimm manna verkamannafjölskylda í landinu að útvega sér 19 þús. kr. lán til þess að eiga fyrir opinberum gjöldum, og er þá eftir allur framfærslukostnaður fjölskyldunnar allt árið auk allra annarra útgjalda.

Það hlýtur hvert mannsbarn að sjá, að þessir útreikningar hv. þm. eru hringavitleysa, algerlega út í bláinn, enda þótt Sjálfstfl. hafi valið hann til að flytja þjóðinni þetta sem heilagan sannleika í útvarpi frá hæstv. Alþingi. En svona er meðferð sjálfstæðismanna á staðreyndum varðandi efnahagsmálin. Tölur þeirra, 790 millj. kr. álögur og allt það, eru álíka fáránlegir útreikningar og þessi reikningsaðferð hv. þm. N-Ísf., sem í einni svipan gerði allar fimm manna fjölskyldur í landinu gersamlega gjaldþrota.

Ég er hræddur um, að Norður-Ísfirðingar þurfi að láta fram fara gagngerða endurskoðun á þessum hv. þm. sínum og þjóðin öll þurfi að endurskoða rækilega viðhorf og málflutning Sjálfstæðisfl., þar sem annað fer eftir því eina dæmi, sem ég hef nefnt.

Sjálfstæðismenn halda því mjög á lofti, að þing það, sem nú situr, hafi verið aðgerðalítið eða aðgerðalaust. Þrátt fyrir þá staðreynd, að sumir af forustumönnum Sjálfstæðisfl. hafa tiltölulega sjaldan sýnt þinginu þann sóma að mæta þar á fundum, hefur það afgr. mikinn fjölda mála, sem til framfara horfa og munu hafa margvísleg áhrif til góðs á ýmsum sviðum þjóðlífsins. Ég vil nefna það dæmi þessu til sönnunar, að síðdegis í gær afgr. Alþ. lög um lífeyrissjóð togarasjómanna, en þar með er eitt af mestu baráttumálum sjómannastéttarinnar á síðari árum orðið að veruleika. Engir menn í þessu landi eiga það frekar skilið en sjómennirnir, að þeim sé tryggður lífeyrir, eftir að þeir neyðast til að láta af störfum á sjónum, sumir eftir áratuga strit. Leit er að þeim störfum, sem slíta mönnum svo mjög — oft um aldur fram — sem sjómennskan, og það er sérstaklega ánægjulegt við þessi nýju lög, að samkomulag náðist um að láta réttindi lífeyrissjóðsins ná til þeirra manna, sem í dag eru komnir til ára sinna eftir langa starfsævi á togurunum, en venjulega verða menn að öðlast lífeyrissjóðsréttindi á mörgum árum, eftir að sjóður hefur verið stofnaður.

Það er ástæða til þess að benda togarasjómönnum á, að lífeyrissjóður hefur, þegar fram líða stundir, fleira gott í för með sér en að tryggja mönnum lífeyri í ellinni eða tryggja ekkjum tekjur. Lífeyrissjóðir eru sparifjármyndun og því mjög heilbrigðar og æskilegar stofnanir fyrir fjármálakerfi þjóðarinnar. Þegar nokkurt fé safnast í slíka sjóði, hafa þeir getað lánað þeim, sem sjóðina eiga, fé til húsbygginga eða til annarra slíkra framkvæmda. Við skulum því vænta þess, að eftir nokkur ár muni lífeyrissjóður togarasjómanna geta byrjað að lána ungum sjómönnum fé til að koma upp íbúðum fyrir fjölskyldur sínar, og mun sjóðurinn því láta gott af sér leiða, löngu áður en menn komast á þann aldur, að þeir byrja að fá úr honum lífeyri.

Það er rík ástæða til þess að óska togarasjómönnum, Sjómannafélagi Reykjavíkur og öðrum samtökum þeirra, sem mest hafa barizt fyrir framgangi þessa máls, til hamingju með þann sigur, sem vannst í málinu í gær. Alþfl. gerði það fyrir sitt leyti að algeru skilyrði í ríkisstj., að þessi l. yrðu sett nú á þessu þingi, um leið og efnahagsmálin væru afgreidd. En það var dálítið sögulegt, þegar Nd. Alþ. afgr. lífeyrissjóðsmálið í gær. Enginn þm. hafði þorað að standa upp til þess að andmæla frv. Mættir voru hér í þessum sal 14 þm. stjórnarflokkanna, en aðeins 4 sjálfstæðismenn, þegar málið var tekið fyrir. Nú vill svo til, að í Nd. þarf minnst 18 atkv. til þess að afgr. mál. En þá gerðist það, að einn af áhrifamestu þm. Sjálfstfl. gekk út úr fundarsalnum, fór niður á neðri hæð þinghússins og pantaði sér kaffisopa, það vantaði eitt atkv. til að gera lífeyrissjóð íslenzkra togarasjómanna að l., en þessi sjálfstæðisþm. neitaði að koma inn í fundarsalinn og greiða þetta atkv. Vitað var um fleiri sjálfstæðisþm. í húsinu, en nú fundust þeir ekki, vildu ekki koma nálægt því að veita íslenzkum sjómönnum lífeyrissjóð. Ég vona, að þeim hafi orðið kaffið og pönnukökurnar að góðu, en þetta litla atvik sýnir betur en nokkuð annað hinn sanna hug sjálfstæðismanna til baráttumála íslenzkrar alþýðu. Þeir fara og fá sér kaffi og pönnukökur, þegar þörf er á atkv. þeirra til að veita útslitnum, gömlum togarasjómönnum lífeyri í ellinni. Málið endaði raunar þannig, að 15. þm. stjórnarflokkanna komu á fundinn, og frv. um lífeyrissjóðinn varð að lögum.

Þessi lífeyrissjóður, sem nú hefur verið samþ. nær því miður aðeins til togarasjómanna. Þess vegna álitum við Alþfl.-menn að hér sé aðeins um áfanga að ræða. Lokatakmarkið er, að allir sjómenn verði slíkra réttinda aðnjótandi. Enda þótt ekki reyndist unnt að þoka málinu lengra í þessari lotu, verður baráttunni haldið áfram, unz fullnaðarsigur er unninn. Hér er ekki aðeins um mannréttindamál sjómanna að ræða, heldur einnig mikið hagsmunamál allrar útgerðarinnar, því að gengi hennar mun ávallt vera nátengt því, hversu örugg kjör sjómannanna eru.

Annað mikið hagsmunamál sjómanna eru skattamálin. Það hefur verið til umr. í vaxandi mæli, að réttlátt sé að létta sköttum af sjómönnum eða jafnvel gera laun þeirra alveg skattfrjáls. Er þetta byggt á þeirri sérstöðu þeirra fram yfir landkrabbana að geta ekki unnið aukastörf og hafa takmarkaða aðstöðu til að vinna fyrir sjálfa sig, t. d. við húsbyggingar. Þar að auki virðist þetta ein augljósasta leið ríkisvaldsins til þess að bæta kjör sjómannastéttarinnar og stuðla að því, að fleiri landsmenn snúi sér að hinum arðbæru framleiðslustörfum við sjávarútveginn, en það er þjóðarnauðsyn.

Núv. ríkisstj, hefur komið til leiðar verulegri hækkun á skattafrádrætti sjómanna, og hafa þær ráðstafanir sparað sjómönnum samtals margar millj. kr. í beinhörðum peningum, sem ella hefðu farið í skatta, Sjálfstæðismenn og — þótt ótrúlegt kunni að virðast — þeirra á meðal einmitt vinur okkar með kaffið og pönnukökurnar, sem ekki vildi styðja lífeyrissjóð sjómannanna, hafa yfirboðið stjórnina í þessu efni með till. hér á Alþ. En það er athyglisvert, að sjálfstæðismenn gerðu nálega ekkert í þessu máli í þau 15 ár, sem þeir áttu sæti í ríkisstj., en fóru fyrst að fá verulegan áhuga á málinu, þegar þeir voru farnir úr stjórn og lausir við alla ábyrgð.

Það sannast í þessu máli sem fyrr, að vandalaust er að berjast hetjulegri baráttu fyrir góðum málum, þegar menn bera enga ábyrgð og þurfa ekki að framkvæma sínar eigin till. Munurinn á stjórnmálaflokkunum í þessum hagsmunamálum sjómanna, lífeyrissjóðnum og skattafríðindunum, er sá, að sjálfstæðismenn gerðu ekkert, þegar þeir voru í stjórn, en flytja till, um sumt, eftir að þeir eru farnir úr stjórn. Vinstri flokkarnir gerðu hins vegar till. um bæði málin, þegar þeir voru ekki í stjórn, og hafa framkvæmt bæði, eftir að þeir fengu stjórnaraðstöðu.

Í sambandi við skattamál vil ég nefna hér lauslega mjög róttæka og nýstárlega till., sem Alþfl. flutti hér á Alþ, í vor og samþ. var fyrir nokkrum dögum. Hún er þess efnis, að rannsakað verði gaumgæfilega, hvort ekki sé hægt að afnema tekjuskattinn með öllu. Þessi till. byggist á þeirri staðreynd, að tekjuskatturinn er nú orðinn allt annar, en hann var í upphafi, hefur allt önnur áhrif og allt aðra þýðingu. Eins og hverju mannsbarni í landinu er kunnugt, eru því miður mikil brögð að skattsvikum, og hafa sérfróðir menn áætlað, að 20–25% af öllum þjóðartekjunum séu aldrei gefnar upp til skatts. Í þessu sambandi hefur skapazt hróplegt ranglæti milli þegnanna, því að einn gefur nauðugur viljugur upp allar tekjur sínar, meðan annar getur skotið miklum hluta af sínum tekjum undan. Þannig er tekjuskatturinn nú orðinn að verulegu leyti skattur á fastlaunafólk, sem oft hefur sízt aðstæður til að bera miklar skattabyrðar. Þetta kerfi hefur grafið uggvænlega undan siðferði þjóðarinnar í slíkum málum og haft margvísleg mjög slæm áhrif.

Við Alþfl.-menn viljum að sjálfsögðu enn sem fyrr, að breiðu bökin beri mestar byrðar þjóðfélagsins. Við viljum með þessari till. okkar um afnám tekjuskattsins tryggja, að þau raunverulega breiðu bök beri skatta, en ekki aðeins hin, sem skattheimtumönnum á einn eða annan hátt tekst að ná til með framtölum. Við höfum fasta trú á því, að nú séu þær aðstæður í þjóðfélagi okkar, að hægt sé að hafa þessa skattlagningu réttlátari með því að skattleggja ekki tekjur, heldur hluta af útgjöldum manna, skattleggja þá, sem hafa svo breið bök, að þeir geti veitt sér margvísleg lífsins gæði fram yfir hreinar nauðsynjar, skattleggja þá, sem kaupa lúxusvöruna, sem flutt er inn fyrir mörg hundruð millj. á hverju ári, Þannig nær skatturinn til þeirra, sem raunveruleg efni hafa, hvort sem þeir hafa aðstöðu til að fela tekjur sínar frá skattaframtali eða ekki. Við teljum, að nú séu aðstæður orðnar svo gerólíkar því, sem var fyrir 35 árum, þegar tekjuskatturinn var lagður á, að sú breyting, sem við leggjum til, mundi tryggja betri, hollari og réttlátari dreifingu þeirra byrða, sem nú eru lagðar á þjóðina í formi tekjuskatts.

Hér er um að ræða mjög mikla breytingu á skattakerfi þjóðarinnar, og við Alþfl.-menn gerum okkur ljóst, að slík breyting verður ekki gerð í einni svipan. Þess vegna höfum við talið rétt að hrinda málinu á flot með þeirri þáltill., sem við höfum fengið samþ. hér á Alþ., og munum við nú fylgja málinu eftir, þannig að sannreynt verði að beztu manna yfirsýn, hvort við höfum ekki bent á merkilega nýbreytni í skattamálum, nýbreytni, sem er fyllilega í samræmi við kröfur tímans.

Ég vil nú að lokum víkja aftur örfáum orðum að aðalefni þessa þings, efnahagsmálunum. Um margra mánaða skeið hefur mér eins og öðrum þm. stjórnarflokkanna gefizt meira eða minna tækifæri til að fylgjast með undirbúningi þessa máls, sem var ærið langur. Við höfum heyrt álitsgerðir hagfræðinga og annarra sérfróðra manna, við höfum þrautrætt hinar ýmsu leiðir, sem talið var unnt að fara, spurt og fengið svör. Það frv., sem nú er orðið að l., er að margra manna yfirsýn og margra sérfræðinga áliti það bezta, sem kostur er á, eins og málum er nú komið. Þetta mál er ekki frekar en slík mál hafa venjulega verið líklegt til sérlegra vinsælda, en landsmenn geta verið fullvissir um það, að alþm. og aðrir ráðamenn gera sér ekki leik að því að leggja á þjóðina meira, en þörf er fyrir.

Sjálfstæðismenn eru nú búnir að flytja fimm ræður í þessum umr., og hlustendur hafa heyrt, að þeir hafa engin önnur úrræði að bjóða. Það hefur enginn maður, hvorki í stjórnarliðinu né stjórnarandstöðunni, komið með fullkomnar og rökstuddar till. um aðrar ráðstafanir — og hvað á þá að gera? Það rignir ekki gulli af himnum ofan, sagði Ólafur Thors einu sinni fyrir nokkrum árum, þegar hann var ráðh. og þurfti að verja svipaðar ráðstafanir. Það rignir enn ekki gulli af himnum ofan.

Ég er, eins og flestir borgarar þessa lands, fús til þess að greiða minn hluta af þeim álögum, sem óhjákvæmilegt er á hverjum tíma að leggja á. En ég vil hafa eins mikla vissu og hægt er að veita fyrir því, að peningum, sem af okkur eru teknir, borgurunum, sé vel varið. Í þeim efnum tel ég einmitt að hin nýja skipan efnahagsmálanna sé veruleg bót. Kerfið er nú allt einfaldara, það er búið að afnema ótal flokka og tegundir uppbóta fyrir þetta og hitt í útgerðinni, en í staðinn verða einungis greiddar uppbætur á þann gjaldeyri, sem raunverulega er aflað. Þeir lélegu verða ekki lengur verðlaunaðir, kerfið allt er stórum auðveldara í framkvæmd og yfirsýn.

Með þessi aðalatriði í huga hef ég stutt efnahagsráðstafanir stjórnarinnar, enda hefði verið beinn voði fram undan, ef einhverjar slíkar ráðstafanir hefðu ekki verið gerðar nú. Við verðum framar öllu öðru að halda framleiðsluatvinnuvegum þjóðarinnar gangandi. Fiskveiðar og fiskiðnaður tryggja 97% af þeim gjaldeyri, sem við öflum, og fyrir þann gjaldeyri verðum við að auka enn framleiðsluna, unz hún getur vandræðalaust staðið undir þeim lífskjörum, sem við öll þráum. Þá fyrst verður hægt að tala um varanlega lausn efnahagsmálanna. Að því takmarki verða Íslendingar allir að stefna sem einn maður. — Góða nótt.