03.06.1958
Sameinað þing: 53. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1765 í B-deild Alþingistíðinda. (3002)

Almennar stjórnmálaumræður

Karl Kristjánsson:

Herra forseti, góðir tilheyrendur. Hv. þm. A-Húnv., Jón Pálmason, talaði um, að húsmóðirin, sem vinnur eingöngu að heimilishaldi, sé ranglæti beitt með nýjum lagaákvæðum um skattamál hjóna, kallaði þau ákvæði kinnhest rekinn sveitakonunni.

Þetta var fremur hrottaleg framsetning. Með lagabreytingunni er leiðrétt misræmi, sem legið hefur í því, að skattskyldar tekjur, sem eiginkonur hafa aflað með vinnu sinni, hafa að undanförnu verið of þungt skattlagðar. Þessi leiðrétting kemur líka fram hjá sveitakonunum, sem vinna að öflun skattskyldra tekna með bændum sínum. Þær fá leiðréttinguna. Þegar vinur minn, hv. þm. A-Húnv., ætlar að koma sér vel við sveitakonur, þarf hann að fara laglegar að, en þetta. Þær eru síður en svo meiddar á kinnum eftir breytingarnar á skattalögunum og taka ekki á móti kossum á kinnarnar þess vegna, þó að hann virtist halda það. Hann ætti miklu heldur að reyna mansöng.

Þegar hv. 1. þm, Rang., Ingólfur Jónsson, hleypir út minkum sínum, eins og hann gerði hér áðan, minkum rógburðar og rangfærslu, dettur engum manni hér á Alþ. í hug að fara að eltast við þá einn og einn. Enginn fær verðlaun fyrir að vinna þau dýr, þau eru nefnilega tannleysingjar. Öllum þeim tilraunum, sem þessi hv. þm, gerði til þess að blekkja bændur landsins og telja þeim trú um, að þeir verði fyrir sérstöku ranglæti með hinni nýju efnahagslöggjöf, tel ég þó rétt — sérstaklega af kurteisi við áheyrendur — að svara með yfirlýsingu, sem stjórn Stéttarsambands bænda gerði 3. maí. Um leið tel ég einnig fullsvarað hv. þm. A-Húnv., Jóni Pálmasyni, um sama efni. Yfirlýsing stjórnar Stéttarsambands bænda er svo hljóðandi:

„Meirihluta stjórnar Stéttarsambands bænda hefur verið skýrt frá efni frv. ríkisstj. í efnahagsmálum, einkum að því er varðar landbúnaðinn sérstaklega. Meiri hluti stjórnar Stéttarsambandsins lætur í ljós þá skoðun, að ekki verði komizt hjá ráðstöfunum í þessum málum til þess að tryggja afkomu útflutningsframleiðslunnar til lands og sjávar, og án þess að taka afstöðu til þess, í hvaða formi þær eru, telur meiri hl. stjórnarinnar, að með frv. sé hlutur landbúnaðarins ekki fyrir borð borinn með hlíðsjón af ákvæðum þess gagnvart öðrum atvinnugreinum og stéttum.“

Þessa yfirlýsingu gerðu Sverrir Gíslason, Bjarni Bjarnason, Einar Ólafsson. Þó að talað sé um meiri hl. í yfirlýsingunni, klofnaði ekki stjórnin í meiri og minni hluta fyrir ágreining, heldur stóð þannig á, að tveir af fimm gátu ekki mætt á fundinum. Engin mótmæli hafa þessir tveir menn látið opinberlega frá sér heyra. Athygli skal vakin á því, að einn hinna þriggja, er yfirlýsinguna gefa, er sjálfstæðismaðurinn Einar bóndi í Lækjarhvammi. Vek ég athygli á því honum til heiðurs og áróðursmönnunum, flokksbræðrum hans, til umþenkingar.

Í gegnum stjórn Stéttarsambandsins hefur bændastéttin þannig talað. Enginn þarf að halda, að auðvelt sé að villa um fyrir bændastétt landsins almennt. Hún veit af aldareynslu, að svo sem sáð er, er uppskorið, og öll sönn velmegun kostar erfiði.

Þegar núverandi ríkisstj. var mynduð, vissu gerhugulir menn, að hún hafði tekizt á hendur erfitt verk og seinunnið. Fjárhagskerfið var sjúkt og riðaði til falls. En fleira var að. Framkvæmdavald íslenzka ríkisins er svo veikt, að það er varla meira, en nafnið eitt. Á því veltur á Íslandi í stað framkvæmdavalds, að þegnskapur sé svo þroskaður, að farið sé að lögum og fyrirmælum hins opinbera, án þess að valdbeitingu þurfi. Stéttasamtök hins vinnandi fólks í landinu hafa sum með samtakamætti sínum og hinum lítt takmarkaða verkfallsrétti skilyrði til þess að kúga ríkisvaldið, ef þau vilja það við hafa. Þetta er staðreynd, sem þýðir ekki að neita. Eitt af meginhlutverkum ríkisstj. átti að vera það að samhæfa þetta vald hinna vinnandi stétta ríkisvaldinu, að gera hinar vinnandi stéttir þegnlega ábyrgar um efnahagslega afkomu, ekki aðeins sína afkomu, heldur afkomu þjóðfélagsins, að veita þeim fyrir milligöngu fulltrúa sinna, eftir því sem hægt er, aðstöðu til að fylgjast með og vera þátttakendur að gera nýja skipan efnahagsmálanna. En ef þetta átti að takast, lá ljóst fyrir, að stjórnin þurfti að fá forkólfa verkalýðsins til að leggja til hliðar um sinn innbyrðis flokkadrátt og hinar óbilgjörnu deilur um þjóðskipulagsform. Markmið stjórnarinnar var að gangast fyrir uppbyggingu efnahagslífsins á hagfræðilega traustum grundvelli og fá til þess þegnlega og bróðurlega samstöðu sem flestra, en fyrst og fremst framleiðenda til lands og sjávar og verkalýðsins.

Nú er hátt á annað ár, síðan stjórnin tók til starfa. Hlutverkið hefur reynzt erfitt og seinunnið, eins og allir máttu búast við. En forðað hefur verið frá fári. Miðað hefur áleiðis að settu marki, og rétt horfir. Fyrir fáum dögum var sett ný efnahagslöggjöf, sem er merkur áfangi. Stjórnarandstaðan, Sjálfstfl., er í öngum sínum yfir þessu. Hann veit raunar ekki sitt rjúkandi ráð, eins og alþjóð hefur heyrt við þessar umr. Hann er líkastur hænu í hvössum vindi. Hann hefur ekkert jákvætt haft til mála þessara að leggja allan þann tíma, sem þau hafa verið til umr. á Alþingi. Og hvers vegna hagar Sjálfstfl. sér svona? Hvers vegna leggur hann ekki fram till. um efnahagsmálaúrræði? Hann segir þó, að þeirra sé þörf. Varla getur hann verið svo illa innrættur, að hann vilji, að þjóðin fari á höfuðið, þó að hann vilji, að ríkisstj. fari á höfuðið. Ekki getur þetta heldur stafað af því, að leiðtogar hans séu ekki vel viti bornir menn. Nei, þetta er einmitt af því, að þeir eru svo vel viti bornir, að þeir sjá, að úrræði stjórnarliðsins ganga í rétta átt og eru í aðalatriðum það helzta, sem hægt er að gera, eins og sakir standa í þjóðfélaginu, þegar á allt er litið.

Stjórnarandstaða, sem hefur ekkert annað, en vífilengjur og jag til málanna að leggja, þegar mikið liggur við, að hennar sögn eins og annarra, er viðundur veraldar. Ýmsir hlæja að Sjálfstfl. fyrir þetta, og víst gerir hann sig hlægilegan með þessu. Aðrir fara um hann hörðum ásökunarorðum, og víst á hann það skilið. Hvort tveggja þetta hefur verið gert hér í umr., og utan þings ber mikið á því. En þegar dýpra er skoðað, er hann fyrst og fremst brjóstumkennanlegur. Sá mun og verða dómur sögunnar. Það er sannarlega sorglegt, að leiðtogar þess stjórnmálaflokks, sem telur sig stærsta flokk landsins, — þó að hann sé að vísu frekar flokkasamsull, en flokkur, — skuli ekkert hafa til mála að leggja á örlagastund í efnahagsmálum þjóðarinnar, og úr því að svo er, að hann skuli ekki einu sinni hafa mannslund til þess að standa með því, sem aðrir leggja til, heldur reyna að torvelda árangur þess. Þetta er raunalegt dæmi um stjórnmálalegt menningarleysi. Hér er tækifæri fyrir hina almennu kjósendur í flokknum að gera betur, en foringjarnir og ganga í verki til samstarfs um farsæla framkvæmd efnahagslöggjafarinnar, hvar í stétt sem þeir eru. Það væri manndómslegt. Þar geta þeir haft til fyrirmyndar fulltrúa sinn í stjórn Stéttarsambands bænda, Einar Ólafsson.

Hin nýja efnahagslöggjöf um útflutningssjóð o. fl. hefur áreiðanlega marga kosti, enda er hún byggð á reynslu síðustu ára og útreikningum hagfróðra manna. Hér í þessum útvarpsumræðum hefur því glöggt verið lýst, þótt ryki hafi líka verið þyrlað. Í Fjármálatíðindum Landsbankans, hefti, sem er nýkomið út, er grein eftir Jóhannes Nordal hagfræðidoktor. Greinin heitir „Í átt til jafnvægis“. Þar talar hann um efnahagsmálafrv., sem nú er orðið að lögum, Jóhannes Nordal er ekki í neinum pólitískum flokki. Ég tel hann þess vegna hlutlaust vitni og vil lesa — með leyfi hæstv. forseta — nokkrar setningar úr greininni, um leið og ég ráðlegg áheyrendum að kynna sér hana í heild, hann segir m. a.:

„Óhætt mun að fullyrða, að sú stefnubreyting, sem hér hefur átt sér stað, horfir mjög til bóta. Vænta má, að jafnari útflutningsuppbætur muni stuðla að betri nýtingu og dreifingu framleiðsluaflanna á milli mismunandi greina útflutningsframleiðslunnar. Hitt er ekki síður mikilvægt, að dregið sé úr hinu geysilega misræmi, sem orðið var í verðlagi innflutnings vegna mismunandi innflutningsálaga. Var ljóst orðið, að þetta misræmi hafði í för með sér óhóflegan innflutning og notkun þeirra vörutegunda, einkum rekstrarvara og atvinnutækja, sem haldið var óeðlilega ódýrum í samanburði við vöruverð almennt og innlendan tilkostnað. Þegar til lengdar lætur, hlýtur hagkvæm nýting framleiðsluafla þjóðarbúsins að hafa mest að segja varðandi aukningu þjóðarteknanna og almenna velmegun.“

Vegna mjög takmarkaðs tíma get ég ekki lesið meira upp úr greininni. En þó að ég lesi ekki meira, kemur fram í hinu lesna þýðingarmikil umsögn fyrir hinn almenna áheyranda um efnahagsmálalöggjöfina nýju, af því að þar talar maður, sem stendur utan við þras hinna pólitísku flokka, hámenntaður maður í þjóðhagsfræðum.

Annars er nauðsynlegt að gera sér þess fulla grein, að vitanlega er það mest undir hinum vinnandi stéttum komið eða leiðtogum þeirra, hvort löggjöfin nær tilgangi sínum. Þar fá þessar stéttir tækifæri til að sýna, að þær séu ábyrgar og farsælt fyrir þjóðina, að þær séu hinar mest ráðandi stéttir um stjórnarfarið í efnahagsaðgerðum. Ég vil ekki trúa því, að þær vilji ekki taka á sig stundarmótlæti til að skapa sér og þjóðinni öruggari framtíð. Ég vil ekki trúa því, að leiðtogar verkalýðsins vilji ekki stilla sig um innbyrðis kapphlaup í kröfugerð, að þeir vilji brjóta niður það, sem byggja skyldi, setja sinn metnað á þeim sviðum ofar þjóðarhag. Ég vil ekki heldur trúa því, að þeir, sem tóku höndum saman um myndun stjórnarinnar, vilji á þessu stigi láta ágreining um þjóðskipulag slíta bræðraböndin.

Hér á Alþingi hefur komið fram sérstaða um efnahagsmálin hjá þrem mönnum af 16 í tveim stjórnarflokkunum. Framsfl. var eini stjórnarflokkurinn, sem stóð alveg sem einn maður að efnahagsmálafrv., ekki af því, að hann hefði ekki til samkomulags orðið að hliðra til, þegar samið var um það, heldur af því, að framsóknarmenn töldu skylt að rjúfa ekki einingu í slíku höfuðmáli stjórnarsamstarfsins.

Sjálfstæðisfl. segir frá því fagnandi aftur og aftur í blöðum sínum og ræðum, að ýmis stéttarsamtök hafi mótmælt lagasetningunni um útflutningssjóð. Sú virðist helzta og eina gleði hans að hampa slíkum fréttum. Áður fauk öðruvísi í þeim skjá. Þetta ætti að vera stéttasamtökunum aðvörun um að fara gætilega. Ætli það sé annars ekki einsdæmi í veröldinni, þó að breysk sé, að flokkur — eins og Sjálfstfl. vill láta fólk álíta að hann sé — fagni því, að stéttarfélög snúist á móti ráðstöfunum, sem gerðar eru til stuðnings framleiðslunni? Sannleikurinn virðist vera sá, að Sjálfstfl. leggur svo mikið kapp á að reyna að brjóta niður vinstra samstarfið, að hann brýtur flest boðorð, ef verkast vill. Áróðri hans til að koma á verkföllum mætti jafnvel líkja við andlegan sýklahernað.

Þjóðinni líður vel efnalega, en öryggið fyrir framtíðina vantar. Þjóðinni líður svo vel, að sá maðurinn á Alþingi, sem talinn er vera mest á móti þjóðskipulaginu, sagði í vetur orðrétt, að hér væri „með beztu lífskjörum í veröldinni.“ En þessi vellíðan hangir því miður á veikum þræði. Ef þjóðin eirir ekki skynsamlegum aðgerðum, er hrunið nærri. Hvaða vit er t. d. í því fyrir þjóðina að haga atvinnu- og gjaldeyrismálum þannig að ráða útlendinga á skip sín, borga stórfé í verðbætur á fiskinn, sem þeir afla, og greiða þeim erlendan gjaldeyri í laun í svo ríkum mæli, að þeir fái á einni síðvetrarvertíð hér hærri fjárhæð, en heils árs laun hálaunuðustu embættismanna eru í heimalandi þeirra?

Það er ekki hægt að komast hjá nokkurri áreynslu við lagfæringu efnahagskerfisins. Það er jafnóhugsandi eins og að velta þungum steini úr leið án átaks. En einmitt af því, hve þjóðin er vel á sig komin, á hún létt með að gera það átak, sem felst í efnahagslöggjöfinni. Jafnhliða þeim reglum, sem upp eru teknar í efnahagslöggjöfinni nýju til úrbóta, þarf þjóðin að leggja kapp á að auka útflutningsframleiðslu sína til sjávar og lands með eigin vinnu, því að það flýtir för til heilbrigðs og öruggs efnahagslífs. Skilyrði til þeirrar aukningar eru mikil, eða það vonum við. Víkkun fiskveiðilandhelginnar gefur í því sambandi mikil fyrirheit.

En þó að efnahagskerfið færist vonandi brátt til betra jafnvægis, þá verður ríkisvaldið eftir sem áður alltaf miklu að skipta af þjóðartekjunum hjá þjóð eins og okkar þjóð, sem er orðin svo félagslega uppbyggð, að hún hlýtur alltaf að leggja stóran hlut tekna sinna til sameiginlegra nota og dreifingar. Þess vegna verður jafnan fyrir hendi sama ástæðan og var, þegar núverandi stjórn var mynduð, fyrir þá, sem afla teknanna, að vilja hafa hönd í bagga um skiptingu þeirra. Það væri óviturlegt af vinnustéttunum að eyðileggja með óstillingu og innbyrðis sundrungu þá miklu aðstöðu, sem þetta veitir þeim, glapræði að sprengja með keppnikröfum bjargálnaviðleitni þá, sem hafin er, herja þannig á sjálfan sig og fella sín eigin virki.

Ef vinstri stjórnin yrði innan skamms að gefast upp, þá mundi ekki fyrst um sinn takast slík stjórnarmyndun. Sögulega merkilegri tilraun væri þá lokið með of litlum árangri. Hvað tæki við? Sýnt þætti þá, að þegnskap yrði ekki treyst í stað framkvæmdavalds. Einhvers konar valdstjórn tæki við fyrr eða síðar. Sjálfstæðisfl. segir: Ég skal strax taka við. — Vilja vinnustéttirnar það? Vilja þær, að hann fari með skiptingu þjóðarteknanna? Allir kannast við söguna af dýrunum tveim, sem fundu ostinn, komu sér ekki saman um skiptingu hans sín á milli og fengu því apann til að skipta. Apinn braut ostinn í tvennt, beit svo í partana á víxl. „Ég geri þetta til að gera partana jafna, því að ég vil skipta rétt“ sagði hann. Loks hafði hann þannig étið annan partinn að fullu, stakk þá eftirstöðvum hins upp í sig og sagði um leið: „Þetta er ekki of mikið í skiptalaun handa mér.“

Ég segi alls ekki, að Sjálfstæðisfl. hagi sér nákvæmlega eins og apinn, ef hann fær vald til að skipta þjóðartekjunum. En hinar vinnandi stéttir þurfa ekki að ganga að því gruflandi, að þá verði a. m. k. tekinn væn skiptalaun.

Það er hollast fyrir þá, sem afla ostanna, að skipta þeim sjálfir, og það er eðlilegast, að þeir geri það. Vinstristjórnarsamstarfið veitir tækifæri til þess. Vinnustéttirnar mega ekki slá það gullna tækifæri úr hendi sér fyrir óstillingu og innbyrðis sundrungu.