03.06.1958
Sameinað þing: 53. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1770 í B-deild Alþingistíðinda. (3004)

Almennar stjórnmálaumræður

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson) :

Herra forseti, góðir hlustendur. Vegna ummæla um landhelgismálið, sem fram hafa komið í þessum umræðum, þykir mér rétt að víkja með örfáum orðum að því máli.

Það er rangt, að deilur þær, sem risið hafa hér heima um landhelgismálið, hafi snúizt um minni efnisatriði málsins, eins og gildistökudag nýrrar reglugerðar eða hvenær heimila skyldi íslenzkum togurum veiðar innan hinnar nýju landhelgi eða um breytingar á grunnlínunni. Frá upphafi gerði ég glöggar tillögur um öll þessi atriði, en bauð jafnframt upp á samkomulag á þeim grundvelli, sem mestar líkur voru til að samstaða gæti orðið um. Við okkur Alþýðubandalagsmenn var því ekki ágreiningur um þessi atriði. Ágreiningurinn varðaði annað. Hann var um það, hvort standa ætti við gerða samninga um að ráðast í framkvæmdir í málinu þegar að Genfarráðstefnunni lokinni. Hann var um það, hvort halda ætti samkomulag um, að ný reglugerð yrði ákveðin milli 10. og 20. maí eða hvort fresta ætti afgreiðslu málsins, um það, hvort taka ætti upp viðræður við NATO-þjóðir, sem lögðu að okkur að bíða með framkvæmdir og taka upp samninga um málið. Deilan var um það, hvort við ættum að ræða áfram við þær þjóðir, sem vildu fá ákveðin fríðindi fyrir erlend skip í íslenzkri landhelgi. Ég veit, að enginn mun reyna að neita því, að þessi tilmæli komu fram, og það, sem meira var, bein tillaga um fríðindi handa erlendum togurum í íslenzkri landhelgi kom einnig fram hér heima. Tveir stjórnmálaflokkar á Alþingi vildu verða við óskum útlendinga og fresta ákvörðun í málinu um skeið. Hér var stór hætta á ferðum, sem hefði getað leitt okkur út í háskalega samningsaðstöðu. Af því lagði Alþb. höfuðáherzlu á að fá bindandi ákvörðun um efnisafgreiðslu málsins einmitt nú strax, og samkomulag stjórnarflokkanna var einmitt um þetta. Í því samkomulagi segir skorinort og greinilega, að eftirfarandi efnisbreytingar einar skuli gerðar frá gildandi reglugerð, og svo eru talin upp 3 efnisatriði, sem sé 1) landhelgin 12 mílur, 2) heimild handa íslenzkum togurum og 3) gildistökudagur 1. sept. Þetta orðalag, eftirfarandi efnisbreytingar einar, er ekki út í bláinn sett í samkomulag stjórnarflokkanna. Með því var verið að útiloka allt samningamakk um málið hér eftir. Efnisafgreiðslu málsins var því lokið. Með þessu er nýja reglugerðin raunverulega ákveðin, og með þessu koma engir samningar til greina við erlenda aðila né nein sérréttindi útlendingum til handa.

Það er ekki víða naglahald að finna í rökum sjálfstæðismanna í þessum umræðum í sambandi við efnahagsmálin. Mest ber á stóryrðum og órökstuddu geipi. Óheiðarleiki og ónákvæmni í meðferð á tölum er einstakt í sinni röð. Þannig þrástagast formaður Sjálfstfl., Ólafur Thors, enn á því, að jólagjöfin, sem hann kallar svo, en það voru þau nýju gjöld, sem leggja varð á í árslok 1956 til þess að greiða upp þann skuldabagga, sem hann þó skildi eftir sig. — hann segir, að þessar álögur hafi numið 300 millj. kr. Óþarft er að deila lengur um, hve miklu þessi gjöld námu, því að tölur fyrir árið 1957 liggja nú fyrir. Tekjuauki útflutningssjóðs nam ekki 300 millj. kr., eins og Ólafur Thors heldur fram, heldur 130 millj. kr.

Þá segir formaður Sjálfstfl., að álögur þær, sem stjórn hans samþykkti í ársbyrjun 1956, hafi aðeins numið 100 millj. kr., en þó verið taldar af mér og fleirum stórháskalegar. Tölur fyrir árið 1956 liggja fyrir. Þær sýna, að tekjur framleiðslusjóðs urðu 175 millj., en ekki 100 milljónir. Þá voru álögurnar framkvæmdar með þeim hætti, að allar almennar vörur og lúxusvörur báru eitt og sama gjald, og þannig varð verðhækkunin tiltölulega mest á nauðsynjavörum. Þá var ekki heldur verið að beita verðlagseftirliti eða hámarksálagningarreglum, þá gilti hin frjálsa álagning íhaldsins.

Og svo kemur síðasta nákvæmni íhaldsins í meðferð á tölum, 240 millj. verða að 790 millj. Og þó að álögurnar séu miklar, þegar íhaldið er að vorkenna almenningi, þá verða þessar sömu álögur ómerkilega litlar og nær einskis virði, þegar þeim er aftur skipt upp til framleiðslunnar.

Þessi málflutningur íhaldsins minnir á konuna, sem kom í skóbúðina og mátaði hvert skóparið eftir annað, en allir voru skórnir of stórir að utan, en of litlir þó fyrir fætur konunnar. Aumingja búðarmaðurinn varð að viðurkenna, að hann hefði ekki til skó af þeirri gerð, sem konan vildi, því að hann sá, að hún vildi fá skó, sem voru litlir að utan, en stórir að innan. Svipað er þessu farið með álögurnar, sem íhaldið er að lýsa. Þær eru feikilega miklar, þegar þær eru lagðar á, en litlar eða næstum engar, þegar þær eru greiddar aftur út til framleiðslunnar.

Það er mikill misskilningur hjá Ólafi Thors, að útvegsmenn hafi hótað framleiðslustöðvun eða hyggi á slíkt. Stöðvunartal Ólafs Thors er hlægilegt. Þessi hv. þm. er alltaf að spá stöðvun framleiðslunnar. Þegar breytt var bótakerfi til framleiðslunnar í árslok 1956, sagði hann, að útgerðin mundi stöðvast. Þegar samningar tókust við allar greinar framleiðslunnar og ekkert stöðvaðist, sagði hann, að ég hefði svikizt að útgerðarmönnum og hlunnfarið þá. Þegar síldveiðar áttu að hefjast 1957, spáði hann og blað hans, að nú mundi framleiðslan stöðvast. Ekkert stöðvaðist, en ríkisstj. samdi á ný við útvegsmenn. Um síðustu áramót spáði hann svo enn, að allt mundi stöðvast, og í nokkra daga lifði vonarneisti, því að sjómenn í Keflavík og á Akranesi voru óánægðir með kauptryggingu sína. En enn reyndist Ólafur falsspámaður. En nú stöðvast allt, segir formaður Sjálfstfl., þessi stöðvunarkóngur í íslenzkum sjávarútvegi, — Man hann, hver var sjútvmrh., þegar allur bátafloti landsmanna lá stöðvaður í heilan mánuð á hávertíðinni? Man hann, hver var ráðherra sjávarútvegsmála, þegar nýsköpunartogararnir lágu mánuðum saman í fjárhagslegu reiðileysi? Og man hann nokkuð eftir því hver bar ábyrgð á stjórn sjávarútvegsmálanna á Íslandi, þegar haustsíldveiðar bátaflotans stöðvuðust þrisvar sinnum á sama haustinu vegna ágreinings við stjórnarvöld landsins? Hv. þm. G-K. og formaður Sjálfstfl. mun fara nærri um, hver þessi stöðvunarkóngur er.

Núverandi stjórnarsamstarf hefur nú staðið í tæp tvö ár, því verður ekki neitað, að ýmsa skugga hefur borið á þetta samstarf. Þar ber fyrst að telja þá vansæmd, að erlendur her skuli enn vera í landi okkar. Þrátt fyrir ítrekaðar kröfur Alþb. hefur það mál ekki fengizt afgreitt. Enn er öllum framkvæmdum varðandi brottför hersins skotið á frest. Herstöðin við Keflavík boðar íslenzku sjálfstæði og menningu sífellda hættu. Hún gæti kallað yfir þjóðina beina lífshættu, hvenær sem er. En auk þessa er herstöðin stórhættuleg íslenzku atvinnulífi og veldur truflunum í efnahagsmálunum. Hún getur beinlínis brotið niður efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar. Það er höfuðnauðsyn, að alþýða um allt land taki enn upp harða baráttu fyrir brottför hersins úr landinu. Sterkt almenningsálit getur eitt knúið þá, sem með völdin fara á hverjum tíma, til þess að losa okkur við herinn. Alþb. mun leggja fram sitt lið í þessari baráttu, og það mun gera það, sem í þess valdi stendur, til þess að knýja á að fyrirheitin um brottför hersins verði efnd.

En þó að ýmislegt hafi gengið verr, en skyldi í stjórnarsamstarfinu, ber þó að viðurkenna, að ýmsu hefur miðað vel áfram. Ákvörðunin í landhelgismálinu er þýðingarmest, og það mál verður nú að leiða til fullnaðarsigurs. Uppbygging atvinnulífsins verður að halda áfram. Það er gleðilegt, að fólksflóttinn utan af landi skuli vera stöðvaður. Það er spor í rétta átt, að framleiðslan er að aukast og fleiri og fleiri landsmenn gefa sig að framleiðslustörfum. Atvinna hefur verið með mesta móti þessi tvö stjórnarár. Merk löggjöf hefur verið sett um húsnæðismál og lög sett um lífeyrissjóð togarasjómanna. Fiskverð til sjómanna hefur þrásinnis verið hækkað án verkfalla, og verkalýðsfélögin hafa fengið fram ýmis hagsmuna- og áhugamál sín. Gerbreyting hefur orðið í afurðasölumálum landsins, og standa okkur nú opnir möguleikar stóraukinna markaða í stað söluvandræða og markaðsörðugleika, sem áður voru. Stórfelldar framkvæmdir eru í landinu, eins og bygging nýs orkuvers við Sog og virkjanir eystra og vestra, og margt mætti fleira upp telja. En mörg stórmál bíða enn úrlausnar. Þeirra stærst er að tryggja betur sjálfstæðar þjóðartekjur með öruggum innlendum atvinnurekstri. Það er baráttan um efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar, og þeirri baráttu verður samferða baráttan um brottför hersins og andlegt og pólitískt sjálfstæði þjóðarinnar. Alþb. treystir á íslenzka alþýðu. Það leggur áherzlu á einingu hennar og samtakamátt og trúir því, að hún muni skilja, hvað henni er fyrir beztu, en láti ekki yfirboð og skrum íhaldsins villa sér sýn. Góða nótt.