03.06.1958
Sameinað þing: 53. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1773 í B-deild Alþingistíðinda. (3005)

Almennar stjórnmálaumræður

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti, góðir hlustendur. Út af hnjóðsyrðum ráðh. Hannibals Valdimarssonar og Lúðvíks Jósefssonar í garð tveggja hv. alþm., Bjarna Benediktssonar og Jóhanns Hafsteins, vegna fjarveru þeirra um hríð vil ég taka fram, að svo er fyrir þakkandi, að slíkar baráttuaðferðir eins og þessir ráðh. beita hér eru jafnóvenjulegar á Alþ. og þær eru óviðfelldnar. En þessir tveir þm. Sjálfstfl. eru báðir að allra dómi einhverjir ötulustu og samviskusömustu menn, sem eiga sæti á Alþingi.

Hafi nokkur maður verið í efa um, að ríkisstj. ber feigðina í brjósti sér, að hún er helsjúk, óstarfhæf, — og eins og Hallgrímur Pétursson segir: „Sjónlaus, köld, dauf og rétt steindauð“ — þá hafa ræður ráðh. og þm. stjórnarflokkanna tekið öll tvímæli af. Ég held, að það sé alveg rétt hjá þm. S-Þ., að ef núverandi stjórn færi frá, þá mundi ekki aftur verða mynduð slík stjórn, og ég held, að enginn mundi harma það.

Í mesta máli þjóðarinnar, landhelgismálinu, ákallar stjórnin einingu, einingu allra flokka, þjóðareiningu. En henni hefur ekki einu sinni tekizt að ná einingu innan sjálfrar sín, heldur upplaukst hér fyrir alþjóð slíkt hyldýpi óeiningar og innbyrðis tortryggni, að firnum sætir. Sjútvmrh. hefur látið blað sitt, Þjóðviljann, birta reglugerð hans um landhelgina, sem fullsamin sé og frá gengið í öllum atriðum, en utanrrh. lýsir því yfir, að engin reglugerð hafi verið samin enn né heldur sé hægt að semja hana, því að enn séu óútkljáð hjá stjórnarflokkunum þýðingarmikil málsatriði. Sjútvmrh. lætur blað sitt bera embættisbróður sinn elskulegan brigzlum um undanhald og brigð í landhelgismálinu á erlendum vettvangi. Utanrrh. lýsti því yfir í gær, að öll þessi brigzl séu ekki aðeins ósönn, heldur vísvitandi ósönn. Og á meðan slær stjórnarformaðurinn úr og í, en hins vegar á allra vitorði, að fremur hefur hann verið á kommúnistanna bandi í þessu máli.

Þannig henda ráðh. ríkisstj. þessu fjöreggi þjóðarinnar á milli sín eins og skessurnar áður fyrr, og áreiðanlega þarf til þess heitar bænir þjóðarinnar og yfirnáttúrlega bænheyrslu, ef ekki á í höndum þessarar stjórnar að fara eins og forðum í þjóðsögunni, að tröllin missi fjöreggið úr höndum sér og það molist mélinu smærra.

Framsókn og Alþfl. lofuðu því við stjórnarmyndunina og hafa endurtekið þær yfirlýsingar innanlands og utan, að ráðh. kommúnista skyldu ekki fá að koma nærri utanríkismálum. En nú er svo komið, að í einu allra mikilvægasta og viðkvæmasta innanlands- og milliríkjamáli er kommúnistum falin forusta. Í þeirra augum ráða önnur sjónarmið, en hjá Íslendingum almennt. Þeim er það efst í hug að spilla vináttu Íslands og vestrænna þjóða og reyna að reka fleyg inn í hið vestræna samstarf, enda mundi slíkt verða stærsti stjórnmálasigur í sögu kommúnistaflokksins íslenzka, og sannarlega mundu þeir fá umbun fyrir hjá húsbændum sínum í austri, ef þetta tækist. Þetta skauzt skýrt út úr sjútvmrh., er hann sagði: Við höfum ímugust á öllum NATO-fundum.

Annað stórmálið, sem ríkisstj. hefur til meðferðar, er efnahagsmálið. Fyrir síðustu kosningar og þegar stjórnin var mynduð var lofað að leysa þessi mál. Nú er stjórnin búin að glíma við þau í tvö ár. Með frv. um útflutningssjóð er viðurkennt af ríkisstj., að ekki sé tjaldað nema til einnar nætur, strax í haust þurfi að endurskoða sjálfan grundvöllinn.

Hér er aðeins bráðabirgðalausn. Það er því komið í ljós, að stjórnarflokkarnir áttu engin varanleg úrræði, eins og þeir sögðu. Þetta var „allt plat“, eins og krakkarnir segja.

Hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, að það væru helber ósannindi, að Framsfl. hafi lofað að lagfæra efnahagsástandið án nokkurrar kjaraskerðingar. Þessi var kjarninn í ræðu hans. Ég læt forsrh. svara Eysteini Jónssyni. Hermann Jónasson sagði í ræðu, er hann flutti 7. okt. 1956, orðrétt: „Vegna sífellds og hættulegs áróðurs er nauðsynlegt að taka fram, að ef rétt er á haldið, þarf hér ekki að vera um að ræða kjaraskerðingu, sem neinu nemur, í byrjun, og hispurslaus framkvæmd skynsamlegra ráðstafana ætti að geta tryggt núverandi lífskjör þjóðarinnar.“ Þar með hefur Hermann Jónasson afgreitt Eystein Jónsson með svardaga hans og afneitanir fyrir fullt og allt.

Fjmrh. sagði, að upphaf verðbólgunnar væri 1942 og ef einhver einn maður ætti að heita faðir hennar, þá væri það Ólafur Thors. Gegn þessu fleipri vil ég leiða sem vitni mann, sem ég veit að fjmrh. rengir ekki. Það er hæstv. forseti Sþ., Emil Jónsson. Hann hefur margsinnis í ræðu og riti sannað, að upphaf verðbólgunnar var það, þegar Framsfl. 1941 rauf tengslin milli kaupgjalds og verðlags á innlendum vörum.

Sjútvmrh, sagði í gær, að efnahagsmálatill. stjórnarinnar hefðu verið affluttar af stjórnarandstæðingum á svo purkunarlausau hátt, að einsdæmi mætti teljast. Ég vil benda honum á, að hans eigin flokksmaður, Einar Olgeirsson, varaði alvarlega við þessu frv., sagði, að það væri engin lausn á efnahagsvandamálum þjóðarinnar, og lagði til, að því yrði vísað frá. Og tveir þm. Alþfl. snerust á móti frv. og greiddu atkv. gegn því, Áki Jakobsson og Eggert Þorsteinsson. Áki sagði í grg. fyrir atkv. sínu: „Með því að sýnt er, að frv. þetta fullkomnar það að leiða efnahagsmál þjóðarinnar út í öngþveiti og að lög þessi eru sett gegn vilja mikils meiri hluta verkalýðshreyfingarinnar, þá segi ég nei“.

En það eru fleiri en þm. Sjálfstfl., formaður Sósfl, og fjórði hver þm, Alþfl., sem telja úrræði stjórnarinnar ekki lausn vandamálanna. Í ræðu sinni hér áðan vitnaði hv. þm. S-Þ. í nýútkomið hefti af tímariti Landsbanka Íslands og þar í ágæta grein eftir dr. Jóhannes Nordal, en hann hefði átt að lesa svolítið lengra, því að þar segir í þessari ágætu grein, orðrétt: „Enda þótt takast megi með ráðstöfunum þeim, sem útflutningssjóðsfrv. gerir ráð fyrir, að koma á greiðslujöfnuði á þessu ári hjá ríkissjóði og útflutningssjóði, eru ekki mikil líkindi til, að það ráði bót á hinu mikla jafnvægisleysi gagnvart útlöndum, sem einkennt hefur efnahagsþróun á Íslandi s. l. ár.“ En þetta er einn aðalvandi þjóðarinnar í dag.

Mikið af ræðutíma ráðh. hefur farið í það að kvarta yfir, að sjálfstæðismenn hafi ekki viljað segja stjórninni neitt um það, hvernig eigi að leysa efnahagsmálin. Ræður tveggja ráðh. í gær voru eingöngu kveinstafir út af þessu. Þessu var nú rækilega svarað í gær og í kvöld, bæði af formanni Sjálfstfl., Ólafi Thors, og öðrum ræðumönnum Sjálfstfl. Til viðbótar skal ég taka fram eftirfarandi: Ráðh. komu sér allir undan að svara þeirri fyrirspurn Ólafs Thors, hver væri hin raunverulega stefna stjórnarflokkanna í efnahagsmálum, því að útflutningssjóðsfrv. er bráðabirgðaráðstöfun. Ræða forsrh. snerist mest um aðgerðir, sem hann taldi nauðsynlegar, en eru alls ekki í hinni nýju löggjöf, svo sem nýtt vísitölukerfi. Ráðh. Alþb. kvörtuðu yfir því, að nú hefði þeirra stefnu ekki fengið að ráða, en hver raunveruleg stefna þeirra væri, sögðu þeir ekkert um. Þjóðin er því enn engu nær um það, hvað hver stjórnarflokkanna raunverulega vill eða hver hans stefna er, því að allir segja þeir, að þeir hefðu nú helzt viljað hafa þetta allt öðruvísi, en það er.

Ég vil einnig taka fram, að það er ekki rétt hjá hæstv. forsrh., að Sjálfstfl. hafi fengið tækifæri til að kynna sér álit sérfræðinga í málinu. Sjálfstfl. var að vísu gefinn kostur á að fá hjá hagfræðingunum skýringar á ýmsum atriðum frv., en þegar þeir voru spurðir um athuganir þeirra á öðrum leiðum, sem til greina gætu komið, kváðust þeir ekki geta skýrt frá þeim rannsóknum og tillögum nema með leyfi ríkisstj., og Sjálfstfl. hefur aldrei fengið að sjá álitsgerðir hagfræðinganna.

Það er vissulega vandasamt mál, sem hér er um að ræða, efnahagsmálin, og sjónarmiðin mörg um orsakir og úrlausn vandans. Hygginn verkalýðsleiðtogi úr einum stjórnarflokkanna sagði nýlega: Aðal efnahagsvandamál þjóðarinnar er Framsóknarflokkurinn. — Þetta er líka allútbreidd skoðun meðal íslenzku þjóðarinnar og ekki óeðlilegt. Með þeim einstæðu forréttindum, sem flokkurinn nýtur, skattfríðindum þess verzlunarfyrirtækis, sem hann byggist á, og miskunnarlausri misnotkun flokksins á aðstöðunni er Framsfl. orðinn eitt mesta vandamál þjóðfélagsins. Einn af hyrningarsteinum þjóðfélagsins er efnahagslegt og pólitískt jafnrétti. En meðan einn flokkur í skjóli ranglátrar kjördæmaskipunar og úreltra skattalaga er hátt hafinn upp yfir alla aðra, svo að í hans augum er þar enginn annar sambærilegur, er erfiðara að fá landsfólkið til að sætta sig við byrðar og fórnir, sem kann að þurfa á að leggja, því að slíkt verður að ganga jafnt yfir. Það þarf því engan að undra, þótt Framsfl. veitist erfitt að ná samstöðu við aðra um úrlausn.

Forsrh. varð fyrir síðustu kosningar tíðrætt um eyðimerkurgöngu þjóðarinnar. Hin erfiða ganga hans sjálfs minnir mig á kvæði, sem var ort fyrir rúmum eitt hundrað árum og byrjaði svona: „Oft er hermanns örðug gang.“ Og kæmi mér ekki á óvart, þótt fjallkonan vilji nú segja við hann eins og stúlkan í kvæðinu:

Veslings piltur vegamóður, viltu ekki hvíla þig?

Til áréttingar því, sem ræðumenn sjálfstæðismanna hafa hér sagt, og viðbótar skal ég gjarnan nefna hér nokkur atriði, sem ég tel að eigi að koma til athugunar í sambandi við efnahagsmál þjóðarinnar:

1) Ráðherrarnir hafa tekið það skýrt fram í þessum umræðum og fjmrh. sérstaklega nú í sinni ræðu, að íslenzka krónan sé ekki rétt skráð, og fjmrh. sagðist vilja stefna að því að færa gengisskráninguna í rétt horf. Ég tel víst, að bankar og hagfræðingar líti eins á. En skráning krónunnar er bundin í lögum. Það er persónuleg skoðun mín, að þeim lögum eigi að breyta og fela þjóðbankanum að ákveða gengi íslenzku krónunnar í samráði við ríkisstj. Ég veit ekki til þess, að nokkurs staðar sé gengi krónunnar þannig lögbundið. Víðast hvar þykir sjálfsagt, að þetta sé í höndum þjóðbankanna. Þjóðbankinn skráir krónuna í samræmi við efnahagsástandið á hverjum tíma, og hann hlýtur að miða gengið við það annars vegar, að útflutningur og framleiðsla geti borið sig, og hins vegar, að gengið sé sem stöðugast, því að sveiflur um gengisskráningu eru háskalegar. Þetta er að sínu leyti eins og ákvörðun um almenna vexti, er í höndum þjóðbankanna, og þó að í einstaka tilfellum sé vaxtahæð lögbundin um tilteknar lánategundir, þá er ákvörðun almennra vaxta auðvitað í höndum bankanna, og býst ég við, að flestir teldu fráleitt, að Alþingi ákvæði slíkt í lögum.

2) Ef gengisskráningunni væri breytt af þjóðbankanum og ríkisstj., þá kæmi til athugunar að taka upp nýja og verðmeiri mynt, til þess að fólk meti hana meira og örvist fremur til sparnaðar.

3) Vísitölukerfið þarf að taka til gagngerðrar endurskoðunar og leggja að velli þá svikamyllu, sem þar hefur verið að verki í 18 ár.

4) Það þarf að koma á allsherjar kjarasamningum við öll verkalýðsfélög landsins til a. m. k. 2 eða 3 ára. Það er ógerningur að framkvæma skynsamlega efnahagspólitík með því, að samningar séu sífellt lausir og einn starfshópur geti stöðvað meira eða minna af þjóðarbúskapnum í dag og annar þegar hinu verkfallinu er lokið. Það verður að vera skylda hverrar ríkisstj. að beita sér fyrir því, að slíkir allsherjar samningar séu gerðir til langs tíma, eins og sjálfsagt þykir í nágrannalöndum okkar, þar sem jafnaðarmenn ráða.

5) Það þarf að koma á fót samvinnustofnun launþega og atvinnurekenda, er fylgist nákvæmlega með afkomu atvinnuveganna og vinni að því að jafna ágreining, eins og Sigurður Bjarnason benti á í umræðum í gær. Slík starfsemi hefur verið í Hollandi í nokkur ár og gefizt mjög vel.

6) Það þarf að auka framleiðsluna til sjávar og sveita og m. a. að auka framleiðsluverðmæti á hvern einstakling til að bæta lífskjörin. Með hinum stórvirku tækjum, eins og togurum og stórum vélbátum, hefur framleiðsluverðmæti á hvern sjómann stórlega aukizt.

7) Það þarf að auka iðnaðinn með ýmsum aðgerðum og m. a. skapa honum skilyrði til útflutnings. Í sambandi við þetta vil ég nefna till. Svein Guðmundssonar alþm., sem samþykkt hefur verið á Alþingi, varðandi lánveitingar til iðnaðarins, endurkaup víxla, þannig að iðnaðurinn njóti jafnréttis á við landbúnað og sjávarútveg.

8) Stóriðja þarf að aukast. M. a. mun nú í athugun framleiðsla á þungu vatni, en talið er, að gufuorkan muni sérstaklega henta til þess. Verksmiðja, sem framleiðir 100 tonn á ári af þungu vatni, á að skila um 100 millj. kr. í gjaldeyri, sem mundi hjálpa drjúgum til að bæta úr hinum mikla halla, sem er á gjaldeyrisaðstöðunni, en það er ein meginundirótin undir erfiðleikum okkar í efnahagslífi þjóðarinnar.

9) Stórauka þarf og hraða hagnýtingu hinna miklu auðlinda landsins, fallvatna og alveg sérstaklega heita vatnsins og gufunnar. Nýtt tímabil var hafið í þeirri hagnýtingu, þegar hinn mikli nýi gufubor tók til starfa nú nýlega.

10) Það þarf að efla verzlun og viðskipti, þannig að samkeppni og frjálst framtak fái að njóta sín.

11) Bæjar- og sveitarfélögin þurfa að fá nýja tekjustofna, m. a. til að geta lækkað útsvörin og þar með örvað frjálsan atvinnurekstur.

12) Afnema þarf nefndir og ráð og hömlur, eftir því sem framast er unnt. En það er einn af meginágöllum núverandi skipulags útflutningsbóta, styrkja og niðurgreiðslna, að þar flóir allt og flýtur í nefndum og ráðum, skriffinnsku og eftirlitsmönnum og eftirlitsmönnum með þeim.

13) Gerbreyta þarf fjárfestingareftirlitinu, afnema þá n., sem þar skammtar og úthlutar, en halda fjárfestingu í eðlilegu horfi með heilbrigðri banka- og vaxtapólitík.

14 Auka þarf sparnað almennings með því að finna fastan gengisgrundvöll, sem hægt er að halda stöðugum, og með hvatningum og verðlaunum sparnaðar.

15 Sparnað þarf á ríkisfé. Það þarf að draga úr gjöldum hins opinbera. Það er eitt hið nauðsynlegasta, og þar á auðvitað fjmrh. að hafa forustu, en þar hefur ekki verið vottur af viðleitni í þá átt, eins og allir hv. alþm. vita. Fjmrh. hefur jafnan borið það fyrir, að það væri ómögulegt að spara neitt að ráði vegna þess, að flest gjöld séu lögbundin. En það hefur skort frá honum frumkvæði og till. um að fá þá breytt þessum lögum í sparnaðarátt. Samt hefur veríð bent á, að ýmis þau útgjöld, sem óbundin eru að lögum, mætti spara. Hverju hefur þá Eysteinn Jónsson svarað? Jú, hann segir, að þetta sé allt hinum ráðuneytunum og hinum ráðherrunum að kenna. Hann hefur skírt öll ráðuneytin nema fjmrn. útgjaldaráðuneyti, og svo kennir hann bæði núverandi og fyrrverandi samstarfsmönnum um það, að þeir vilji endilega eyða og spenna og auðvitað fái fjmrh. ekki ráðið neitt við það, sem útgjaldaráðherrarnir vilji gera.

Það var eðlilegt, eins og öll reynsla er af hæstv. fjmrh., að hann reiddist heldur heiftarlega af hinni rökstuddu ádeilu Jóns Pálmasonar, sérstaklega þegar ofan á það bætist, að eiginlega síðasta og eina blómið í hnappagati hans er fölnað og fallið, en það var, að hann ræki ríkisbúskapinn greiðsluhallalausan, því að á síðasta ári tókst þetta svo höndulega hjá hæstv, fjmrh., að verulegur greiðsluhalli varð á ríkisbúskapnum. En fyrst engrar forustu er að vænta um sparnað frá fjmrh., þá skulum við alþm. bara byrja á okkur sjálfum.

Fyrsta Alþingi í tíð núverandi ríkisstj. stóð í nær átta mánuði, og það Alþingi, sem nú er að ljúka störfum, mun standa að vísu aðeins skemur. En 6–8 mánaða þingseta á ári er hrein fjarstæða. Hún stafar af því einu, að ríkisstj. vanrækir að undirbúa í tæka tíð þau mál, sem nauðsynlegt er að fái hér meðferð og afgreiðslu. Alþm. eru látnir sitja aðgerðalausir vikum og mánuðum saman, í vetur fyrst vegna þess, að ráðh. þorðu ekki að leggja fram neinar till. í efnahagsmálunum fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í janúar. Síðan er Alþingi látið bíða aðgerðalaust nokkra mánuði, meðan ráðh. eru að rífast innbyrðis um, hvernig eigi að leggja tollana og skattana á. Og loks er Alþingi látið bíða nokkrar vikur, meðan verið er að tala við 19 manna nefndina og 6 manna nefndina og hvað þær nú heita allar þessar nefndir utan Alþingis.

Framkoma ríkisstj. og núverandi stjórnarflokka er svo alvarlegt tilræði við þingræðið í landinu og virðingu fyrir Alþingi, að slíkt má ekki endurtaka sig. Ef almenningur sér, að Alþingi situr á hans kostnað aðgerðalaust mánuðum saman og jafnvel sé öllum ráðum ráðið utan sala þess, þá minnkar og hverfur virðingin fyrir Alþ., þessari þúsund ára gömlu söguhelgu stofnun þjóðarinnar, sem öll þjóðin ætti að standa vörð um.

Alþingi getur hæglega lokið störfum á 2½–3 mánuðum, t. d. frá októberbyrjun og fram að jólum, ef ríkisstj. vanrækir ekki að undirbúa málin og þau frv., sem þar þarf að leggja fyrir.

Við alþm. gætum byrjað á því að spara stórum alþingiskostnaðinn. Alþingi kostar nú 8–9 millj. kr. á ári. á þessum lið mætti spara 3–4 millj. með því að stytta þingtímann. En eitt er nauðsynlegt, til þess að það geti orðið. Það er, að alþm, komi sér saman um að fá sér starfhæfa ríkisstj,

Það er ekki tími til þess — tími minn mun vera á enda — að telja hér upp fleiri atriði. En að lokum kem ég að því úrræði, þeirri umbót, sem mesta þýðingu mundi hafa í efnahagslífi þjóðarinnar, og það er að fá ríkisstj., sem þjóðin treystir. Í stað þeirrar sundurleitu sauðahjarðar, sem nú ráfar hér um forustulaus og áttavillt, þarf styrka, samhenta, ábyrga stjórn, sem veit, hvað hún vill, og þjóðin ber traust til. Traust og stefnufesta mundi örva framtak í atvinnurekstri, auka trú almennings á gjaldmiðil og skapa stöðugleika í efnahagsmálum. En þessi stjórn nýtur óskoraðs vantrausts alls almennings, en kannske er þó mest vantraust ráðherranna hvers á öðrum.

Herra forseti, góðir hlustendur, tíminn er á enda, þökk þeim er hlýddu. — Verið þið sæl.