21.02.1958
Sameinað þing: 29. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1846 í B-deild Alþingistíðinda. (3015)

Fríverslunarmálið

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. þm. G-K. (ÓTh) sagði nokkur orð út af þeirri ræðu, sem ég hélt um þessi mál. Mér þykir leitt, að hann skuli ekki vera mættur á fundinum, en verð samt að svara nokkrum orðum því, sem hann sagði.

Það er raunverulega spurningin um, hvernig menn eigi að ræða mál, þegar þau eru tekin á þann hátt, sem hv. þm. G-K. gerði. Það má vel vera, að þetta fríverzlunarsvæðismál verði aldrei annað, en hugmynd og að menn þess vegna eigi ekki að ræða það öðruvísi heldur en sem grín og slá bara úr einu í annað og koma hvergi nærri umræðuefninu, eins og hv. þm. G-K. gerði. Það má vel vera, að þetta mál verði kannske ekki meira virði. En þegar mál er lagt fyrir í alvöru á Alþingi með þeim tilgangi, að menn reyni að mynda sér skoðanir um, hvaða þýðingu það mál hafi, þá eiga menn þó ekki að venja sig á að ræða mál svona.

Hv. þm. G-K. sagði, að það hefðu talað hér tveir menn, hæstv. menntmrh, og 3. þm. Reykv., og annar hefði talað úr austri og hinn hefði talað úr vestri — og þar með væri málið útrætt, svo þyrfti maður ekki að tala meira. Ég vil segja, að það hefur að vísu komið fyrir, að menn hafi tekið tillögum svona, þegar þær hafa komið fram og þótt eitthvað nýstárlegar og menn kannske átt erfitt með að átta sig á þeim. Ég man vel eftir t. d. hér á árunum, þegar ég flutti hér till. viðvíkjandi því, sem kallað hefur verið nýsköpun atvinnulífsins, þá sögðu viss blöð, m. a. blöð úr Sjálfstfl., eins og Vísir, að þessar till., sem þarna væri verið að flytja fram, væru ekkert annað en ráð kommúnista til þess að eyðileggja þjóðfélagið, það væru launráð og Lokaráð og þar með þyrfti ekki að tala meira um þetta, það væri úr sögunni. Hv. þm. G-K. tók ekki þannig á þessum málum þá. Hann leit ekki þannig á, að það væri bara hægt að segja, að einn hefði talað í austur og annar hefði talað í vestur eða einn talað frá austri og annar frá vestri og svo væri þetta búið og maður þyrfti ekki að hugsa meira um það. Hann tók þetta mjög alvarlega þá, og mér þykir ákaflega leiðinlegt, að honum skuli hafa hrakað svo, að hann geti ekki rætt mál eins og það, sem hér er lagt fyrir, af fullri alvöru. Hins vegar, þegar lengra kom fram í hans ræðu, þá kom allt annar hlutur fram, sem ég veit heldur ekki hvort á að taka í alvöru. En ef ætti að taka hann í alvöru, þá væri hann vissulega þess virði að ræða hann.

Hvað þm. G-K. sagði, að þetta fríverzlunarsvæði, það væri raunverulega, mér fannst það liggja í orðunum, svo sjálfsagður hlutur, að það þyrfti ekki mikið um það að tala, — það, sem stefnt væri að með þessu, væri eitt ríki í allri Vestur-Evrópu og í því ríki ættum við að vera, og hann vildi kalla það „þriðja ríkið“. Það er frekar óheppilegt orðatiltæki, en ég býst ekki við, að hann hafi meint það, sem felst nú í því orði, en hitt þó, að hann aðeins vildi telja, að Vestur-Evrópa ætti að vera eitt ríki, og það væri takmarkið, sem þarna væri stefnt að. Þá er það allalvarlegur hlutur, það alvarlegur hlutur, að það út af fyrir sig ætti a. m. k. ekki að setjast fram í gríni hér á Alþingi, því að það, að við ættum ekki lengur að vera ríki, heldur einn hreppur í ríki Vestur-Evrópu, er vissulega með meiri háttar breytingartillögum eða hugmyndum, sem fram hafa komið um lýðveldið Ísland. Og þegar hann út frá því vildi segja, að ég væri að magna alls konar drauga á móti svona ágætri hugmynd, þá vil ég spyrja: Er farið að líta á sjálfstæði Íslendinga sem draug? Er farið að líta á lýðveldið Ísland sem draug? Er farið að líta á menningu Íslendinga sem draug? Er farið að líta á þau lífskjör, sem við búum við á Íslandi, sem draug og það sé verið að reyna að vekja þetta allt saman upp á móti vísdómslegum till. um „þriðja ríki“, um Vestur-Evrópuríki?

Ég held, að við verðum að gera okkur dálítið betri grein fyrir hlutunum, sem við erum að ræða um. Að mínu áliti er raunverulega baráttan, sem fram kemur í sambandi við tollabandalagið, sú viðleitni auðvaldsins í Vestur-Þýzkalandi og Frakklandi að ná saman og verða ráðandi í þeim sex löndum, sem þar eru, eðlileg viðleitni út frá þróun auðvaldsskipulagsins yfirleitt og hins vegar fríverzlunarsvæðið raunverulega svar enska auðvaldsins við þessum tilraunum þess þýzk-franska til þess að leggja undir sig Vestur-Evrópu. Það eru tröllauknir kraftar á atvinnu- og fjármálasviðinu, sem þarna takast á. En í mínum augum eru þessi átök fyrst og fremst fjörbrot feigs skipulags. Þessir auðhringar, sem nú ráða á þessum sviðum og nú reyna að þurrka burt takmörk þjóðlandanna þarna, eru fyrirbrigði, sem ekki eiga sér langan aldur í sögu mannkynsins. Þau koma til með að víkja, áður, en margir áratugir líða, fyrir samvinnu og sameign mannanna í staðinn fyrir einræðisdrottnun örfárra auðmanna yfir atvinnulífi þjóðanna. Og mín afstaða er þess vegna sú gagnvart þessum málum, eins og ég reyndi að lýsa seinast, að meðan þessi umbrot fara fram og á meðan þessir risavöxnu hringar takast þarna á og reyna að móta þessi gömlu þjóðlönd á nýjan hátt, þá sé okkur bezt að standa þarna utan við og varðveita það, sem sérstakt er við okkar þjóðlíf, bæði hvað snertir þess lífskjör, menningu og sjálfstæði.

Ég veit, að það er talað um það af alvöru, meiri alvöru en hv. þm. G-K. sýndi í sinni ræðu, af vissum mönnum í veröldinni, að það sé mjög erfitt fyrir lítil ríki að vera sjálfstæð í heiminum, efnahagslega sjálfstæð, það sé raunverulega þannig, að maður geti aðeins lifað efnahagslega séð, ef maður sé í stærri heild. Þetta eru vissulega rök, sem rétt er að mæta.

Ég setti fram mínar skoðanir á því, hvernig við ættum að mæta slíku, hvernig ég álít, að við hefðum okkar möguleika á því að hafa sambönd við öll lönd veraldar, sem við vildum, öll svæði, sem kynnu að myndast, oft reyna að varðveita þannig það, sem sérstakt er við okkar þjóð, bæði hvað snertir hennar lífskjör, hennar menningu og hennar pólitíska og efnahagslega sjálfstæði.

Ég held, að þessi hugmynd um, að það sé ekki hægt fyrir lítil ríki og litlar þjóðir að lifa sjálfstæðu lífi, eins og var yfirleitt draumur slíkra þjóða á nítjándu öld, — ég held, að þessi kenning um, að þessar smáu þjóðir þurfi að ganga upp í, innlimast í stóra „ökónómíska“ heild, sé aðeins fyrirbrigði, sem stendur í sambandi við, að eftir að frjáls samkeppni nítjándu aldarinnar féll í valinn fyrir auðhringasamsteypum tuttugustu aldarinnar, þá séu auðhringasamsteypurnar, af því að þær taka ekki tillit til þeirra gömlu þjóðatakmarka, að reyna með þessari hugmynd um hinar stóru pólitísku heildir að skapa sér pólitíska vettvanga á sviði þjóðanna, sem samsvari þeirra efnahagslegu hagsmunum, m. ö. o.: kenningarnar um þessar stóru samsteypur séu aðeins fyrirbrigði, sem standi, á meðan þessir auðhringar séu drottnandi í atvinnulífi þessara landa og hafi þess vegna áhuga fyrir því og hagsmuni af því að brjóta niður tollatakmarkanir á millj þjóðanna til þess að fá frjálst spil fyrir sitt volduga auðmagn og fyrir sína yfirburði í tækni og skipulagi.

Við vitum það af sögu stóriðjunnar og auðvaldsins í heiminum, að þau ríki, sem voru fyrst til að mynda sér stóriðju, ruddu þar brautina í veröldinni, eins og England eða önnur slík, þau höfðu auðvitað alltaf hagsmuni af því, að öll önnur lönd væru opin fyrir ensku vörunum. Viðleitnin hjá hverri þeirri þjóð, sem reis upp á eftir til þess að skapa sér iðnað, koma sínum lífskjörum þar með á hærra stig, var fyrst og fremst sú að útiloka sig frá áhrifum þess enska innflutnings. Það er engin tilviljun, að þegar franska borgarastéttin tekur völdin með byltingunni miklu 1789 og Napóleon verður eins konar keisari kapítalismans á meginlandi Evrópu, þá er það eitt fyrsta verkið að reyna að loka Evrópu fyrir ensku vörunum til þess að skapa í Evrópu og þá fyrst og fremst Frakklandi og Rínarhéruðunum þann iðnað, sem gæti staðið Englandi, sem þá hafði raunverulega heimseinokun í iðnaðinum, á sporði. Og þannig hefur það alltaf gengið. Hver sú ung þjóð, sem hefur verið að sækja fram til þess að reyna að skapa sér sinn iðnað, byggja upp á grundvelli iðnaðarþjóðfélags góð lífskjör í sínu landi, hver ung þjóð, sem þannig sækir fram, hefur alltaf orðið að útiloka sig, vernda sinn unga, veika vísi að iðnaði fyrir stormunum frá þeim gömlu, sterku stóriðjuríkjum, til þess að þeirra iðnaður væri ekki drepinn í fæðingunni. Slík vernd hefur þess vegna alltaf verið einkenni allra ungra ríkja, hvort sem þau voru stór eða smá, til þess að verjast þeim gömlu, voldugu og sterku, sem höfðu haft aðstöðu í veröldinni til þess að ná styrkleika, sem var nægur til þess að brjóta hin löndin niður og iðnaðinn í þeim, ef þessi gömlu lönd fengu tækifæri til þess að ryðjast inn í þau ungu. Þess vegna var líka um leið tollastefnan hjá þeim iðnaðarlöndum, sem verða á eftir Englandi, Þýzkalandi og öðrum slíkum, eðlileg viðleitni borgarastéttarinnar í þessum löndum til þess að verja sig á móti því gamla enska „monopoly“ á iðnaðinum.

Spurningin fyrir okkur er þess vegna sú nú: Er þetta aðeins takmarkað fyrirbrigði í sögunni, þessi auðhringadrottnun, t. d. hér í Vestur-Evrópu nú, sem nú þegar er að reyna að sameina þarna sex þjóðlönd á meginlandinu í eitt tollabandalag, til þess að þessir hringar öðlist þar sem mest frelsi til að geta þar barizt og rutt sínum vörum til rúms, er þetta aðeins takmarkað, tímabundið fyrirbrigði, eða kemur það til með að vara lengur? Ég held, að þetta sé aðeins takmarkað og tímabundið fyrirbrigði. Ég held, að það skipulag, sem á eftir að vaxa upp hjá okkur í þessum efnum, muni alveg ótvírætt gefa hinum einstöku þjóðum þann möguleika til efnahagslegs þroska, sem þeim mörgum hverjum finnst þegar eins og vanti núna, þegar þær verða harðast fyrir barðinu á samkeppni þessara auðhringa.

Ég sé a. m. k. þá þróun fram undan, hvað snertir tæknilega þróun á framleiðslutækjum og nýtingu orkulinda, sem er undirstaðan að þessu öllu saman, atvinnu- og verzlunarlífi, –ég sé þá þróun fram undan, að orkumál, orkuútvegun verði ekki lengur neitt vandamál, fyrir mannkynið. Við höfum einmitt nú þessa dagana lifað það, að samtímis því sem við á undanförnum áratugum höfum séð hin stóru ríki í heiminum vera að berjast og lenda í styrjöldum út af yfirráðum yfir orkulindum og mörkuðum, þá höfum við nú lifað það, að vísindamenn nútímans eru byrjaðir að beizla þá orku, sem ótæmandi er, — ég á við vetnisorkuna, — þannig að við þurfum ekki að hugsa nema svona 20–30 ár fram í tímann til þess að sjá fram á það vegna tæknilegra framfara, að spurningin um orku og þar með um kraftinn til framleiðslu sé ekki lengur neitt vandamál fyrir mannkynið, ekki a. m. k. lengur neitt tæknilegt vandamál, ekki lengur neitt náttúrlegt vandamál, þannig að það sé þá orðið aðeins þjóðfélagslegt vandamál um, hvort mannkynið beri gæfu til þess að kunna að hagnýta slíka orku þannig, að mönnunum sem heild líði sem bezt, — sem sé: við sjáum fram á eftir máske 20, 30, 40 ár, að mennirnir eiga ekki að vera í neinum vandræðum með að skapa allsnægtir á þessari jörð, framleiða allsnægtir, þannig að fátækt, neyð og ég tala nú ekki um hungur, eins og mannkynið hefur búið við fram að þessu, verði jafnóþekkt fyrirbrigði og mannát eða annað slíkt er orðið í þeim siðmenntaða heimi. Ég efast ekki um, að slík tækni geri það að nokkurn veginn sjálfsögðum hlut, þegar allsnægtir eru skapaðar hjá mönnunum, að mennirnir þurfi ekki að vera að slást um þær innbyrðis lengur og skiptast í stéttir, sem berjast hver við aðra um slíkt, og að á slíkum allsnægtum verði slík sameign mannanna, að allir geti notið þeirra, og þessi tími, sem við erum að lifa núna, þessi 20–30 ár, verði eins og ljótur draumur fyrir mennina, eins og martröð. Og ég býst við, að menn hugsi þá allundarlega til okkar, til þessara ára, þegar menn jafnvel hafa verið hræddir við það, að þessi uppfinning mannanna, sem ætti að geta gefið þeim allsnægtir, yrði til þess að eyða mannkyninu á jörðinni, vegna þess að mennirnir kynnu ekki að nota þessa orku.

Það er um leið alveg gefið, að strax og tækni er komin á þetta þróunarstig, þá er það ekkert vandamál lengur fyrir neina þjóð, hve lítil sem hún er, að tryggja sér algert efnahagslegt sjálfstæði. Spurningin, sem við nú síðustu áratugi og aldir höfum verið að brjóta heilann um, eins og markaðir og annað slíkt, í þeim skilningi, sem það er, markaðir fyrir vörur, — öll slík vandamál eru upphafin með slíkri þróun. Og við skulum gera okkur ljóst, að þeir menn, sem í dag láta sig dreyma um að komast til stjarnanna og annað slíkt, þeir menn ættu sannarlega ekki að verða í vandræðum með að finna þjóðfélagsleg ráð til þess að notfæra sér þá ótakmörkuðu orku, sem þeir sjá nú þegar fram á að geta beizlað. Og við Íslendingar á eyju mitt í einu af heimshöfunum, með nægilegt af vetninu allt í kring, ættum ekki að vera í vandræðum, þegar við kunnum að hagnýta það.

Spurningin, sem fyrir okkur stendur í dag að mínu áliti, er bara sú, hvort við þessi 20, 30, 40 ár, eða hvað sem kann að líða, þangað til svona skýjaborgir rætast, að við ekki verðum trampaðir niður sem þjóð og eyðilögð og rifin upp með rótum, kastað út í hafrótið, þannig að þegar að þessum tíma kemur, sem ekki er langt þangað til, þá verði ekki lengur eftir nein íslenzk þjóð, eins og við skiljum hana í dag, með þeim sögulegu tengslum við sína fortíð og við sitt land, sem þjóðin enn þá hefur. Spurningin er um það, að við verðum ekki slitnir upp með rótum af aðgerðum þessara auðjötna, sem takast á þar úti í Evrópu, svo að þegar þeir tímar kæmu, sem gerðu okkur auðvelt að leysa þessi vandamál, þá lægjum við eins og rótarslitinn, ógæfusamur einstaklingur hér og gætum ekki aftur skapað tengslin við okkar fortíð.

Ég held þess vegna, að við eigum að fara okkur mjög hægt í þessum málum, eins og ég lagði aðaláherzlu á. Við eigum að sjá fótum okkar forráð. Við eigum að ráða sjálfir, hver þróunin verður, en ekki eiga neina hættu á, að einhverjar tilviljanir kunni að feykja okkur út í eitthvað og eitthvað, þannig að meira að segja þeir menn, sem hefðu haft forgöngu um okkar þátttöku í svona fríverzlunarsvæði, þeir segðu kannske eftir á, þegar þeir sæju, hvað út úr því kæmi: Ja, þetta datt mér nú aldrei í hug. — Þá er það bara of seint. Það kann að þykja íhaldssemi hjá mér, en ég held, að það sé íhaldssemi, sem við höfum gott af. Það var a. m. k. einu sinni, að hv. þm. G-K. sagði það um eina till., sem fram kom, að menn hefðu álitið, að með henni ætti að fara að stjórna því gamla Íslandi frá einu nýju landi hér vestur frá, og þess vegna hefði þjóðin risið upp á móti því. Og ég er hræddur um, að ef fríverzlunarsvæði yrði að veruleika, — og ég set mörg „ef“ við það, — þá væri ég hræddur um, að afleiðingin yrði sú, að okkar gamla Íslandi yrði að vísu máske ekki stjórnað frá einhverri ákveðinni höfuðborg í Vestur-Evrópu nú, en léti stjórnast, léti berast, hrekjast fyrir öldunum, sem frá meginlandinu kæmu, án þess að hafa hugmynd um, hvert við lentum.

Við skulum muna það, að í því mikla umróti, sem átt hefur sér stað, — og það hefur einkennt auðvaldsskipulagið þessar síðustu 3–4 aldir, sem það hefur lifað, að umrót sögunnar hefur verið meira, en nokkru sinni fyrr í hinni löngu sögu mannkynsins, og það eru margar þjóðir, sem hafa ýmist dáið út í því umróti, verið útrýmt eða hafa misst sín þjóðlegu einkenni, verið slitnar úr tengslum við sína sögu og þjóðarerfð, — ég held, fyrst við höfum verið svo gæfusamir að lifa sem þjóð með okkar þjóðareinkennum, í eins ríkum mæli og þau eru og eins sérkennileg og okkar þjóð er, að við ættum að gæta okkar vel þann tíma, sem auðvaldsskipulagið á eftir að lifa enn þá, að láta ekki rykkja okkur upp og róta okkur burt. Og ég held, að það sé skylda okkar, sem þjóðin hefur kosið til þess að stjórna sér, að sjá um, að hún lifi af í slíku umróti, að hún haldi tengslunum við sína þjóðarerfð og að hún spillist hvorki né eyðileggist og að þeim kostum, sem við stundum nefnum íslenzka eðliskosti, verði ekki kastað á glæ í því gífurlega efnahagslega og þar með þjóðhags- og þjóðfélagslega umróti, sem einkennir þessa öld framar öllum öðrum.

Þetta vildi ég segja út af því, sem hv. þm. G-K. var að segja, og því, hve gáleysislega mér fannst hann fara með hugtök eins og það, hvort Ísland ætti jafnvel að innlimast í eitt ríki Vestur-Evrópu, „þriðja ríkið“, eins og hann orðaði það.

Hæstv. menntmrh. ræddi hins vegar þetta mál af raunsæi og setti fram sín rök í því máli. Mér fannst að vísu á hans ræðu, að hann sjálfur féllist óbeint á allmargt af því, sem ég sagði viðvíkjandi möguleikum á okkar fiskútflutningi, að við mundum geta bætt okkur það upp í ýmsum löndum og svæðum veraldarinnar, þó að nokkuð kynni að verða erfiðara um markaði í Vestur-Evrópu. En hins vegar vildi hann leggja höfuðáherzluna á, að við værum háðir því að fá vörur frá Vestur-Evrópu, okkar lífsvenjur hér væru svo mikið við það miðaðar, okkar heimilishættir, okkar klæðnaður og allt mögulegt annað slíkt væri svo mikið við það miðað, að við gætum fengið slíkar vörur þaðan.

Í því er margt rétt, en þó ýmislegt við það að athuga. Það er rétt, að við höfum yfirleitt flutt inn ákaflega mikið frá Vestur-Evrópu og okkar lífsvenjur hafa markazt mjög mikið af þeim vörum. En við skulum gá að einu. Ég held, að það verði ekkert ríki í veröldinni, sem hefur jafnmikla hagsmuni af að selja sínar vörur eins og þetta Vestur-Evrópuríki, ef það skyldi komast á. Það er það iðnaðarlega þroskað ríki, með framleiðslu í svo stórum stíl, að þetta ríki framar öllum öðrum treystir á markaði alls staðar í heiminum, líka hjá okkur. Við skulum þess vegna aðgæta, að þó að við séum á vissan hátt dálítið háðir Vestur-Evrópu um að fá þaðan ýmsar vörur, þá er Vestur-Evrópu miklu háðari okkur um að selja okkur og öllum öðrum þjóðum heims. Það er engin þjóðasamsteypa, sem á eins mikið undir því og þessi þjóðasamsteypa í Vestur-Evrópu að geta flutt inn hráefni og að geta selt vörur, eins og einmitt hún. Þess vegna held ég, að þessi Vestur-Evrópa, hvað langt sem hún gengi í því að verða eitt ríki, mundi byggja allra mest á því að geta selt sem mest út fyrir sín vébönd, þannig að ég væri ekkert hræddur um þá samninga, sem við þyrftum að gera, hvort heldur við tollabandalag eða fríverzlunarsvæði Evrópu, í slíku sambandi. Sannleikurinn er sá, að það eru fá lönd í veröldinni, sem mundu eiga eins erfitt með það og þessi Vestur-Evrópulönd að vera sjálfum sér nóg. Það er bókstaflega óhugsandi fyrir þau, og engin þeirra dreymir um það. Þvert á móti dreymir þau um að verða sterkari í heimskeppninni, verða sterkari á heimsmarkaðinum, bæði í samkeppninni við þá voldugu amerísku hringi og þau uppvaxandi stóriðjuveldi austur frá.

Ég held þess vegna, að okkar afstaða sé ekkert lakari gagnvart hvort heldur væri tollabandalagi eða fríverzlunarsvæði Vestur-Evrópu heldur en þeirra gagnvart okkur. En þó verðum við að gá að öðru. Þó að við nokkra undanfarna áratugi höfum sérstaklega miðað við vörur frá Vestur-Evrópu, þá hefur þróunin orðið sú síðustu 15 árin hér á Íslandi, að raunverulega höfum við hvað snertir þær vörur og tæki, sem marka ýmislegt í okkar heimilisháttum, orðið miklu háðari ameríska markaðinum, amerísku vörunum, heldur en þeim vestur-evrópsku. Ég býst við, að ef við ættum að spyrja t. d. kvenfólkið viðvíkjandi slíku, að þá mundi það jafnvel hugsa meira um New York en París, og ég er hræddur um, að eftirspurnin, sem oft er hvað erfiðast að fullnægja nú í sambandi við heimilistækin og annað slíkt, sýni okkur, að það er venjulega miklu meira Ameríka, en Vestur-Evrópa, sem við erum háðir, Og þetta Vestur-Evrópuríki eða fríverzlunarsvæði Vestur-Evrópu eða tollabandalag 6 landanna, allt saman þetta breytir ekkert okkar afstöðu til Ameríku. Okkar möguleikar viðvíkjandi að verzla áfram eins og við höfum gert við Ameríku, að reyna að auka okkar verzlun þar, ekki aðeins í Bandaríkjunum, heldur líka í löndum eins og Brazilíu og öðrum slíkum, — allt saman þetta þýðir, að við eigum, ef við högum okkar verzlun hér skynsamlega, að geta fullnægt þeirri eftirspurn okkar fólks eftir vörum, sem brýnust er, einmitt þaðan. Til þess þurfum við hins vegar að hafa stjórn á innflutningnum, þ. e. að við flytjum þá ekki inn frá Bandaríkjunum þær vörur, sem við getum fengið nóg af annars staðar frá og eru ýmis hráefni, matvörur eða annað slíkt, heldur þvert á móti vörur, sem við kannske eingöngu getum fengið þaðan, vegna þess að þær séu ekki framleiddar annars staðar.

Ég held þess vegna, að þessi rök um, að við séum svo háðir vöruinnflutningnum frá Vestur-Evrópu, sem nokkuð er til í, séu ekki það sterk, að þau út af fyrir sig helgi það, að við gerðumst aðilar að fríverzlunarsvæði Vestur-Evrópu, ef það kæmist upp. Ég held í fyrsta lagi, að við getum haft viðskipti við þetta fríverzlunarsvæði og það í ríkum mæli, og í öðru lagi, að við getum alveg bætt okkur það upp, sem okkur kynni að vanta þar, með vörum frá Bandaríkjunum og annars staðar. Svo skulum við líka gera okkur ljóst, að það, að Vestur-Evrópuríkin, þessi gömlu, grónu iðnaðarríki heimsins, hafa verið langt á undan öðrum þjóðum og haft sem sé alveg einokun raunverulega á allmörgum áratugum á iðnaðarframleiðslu heimsins, það hefur gefið þeim forhlaup í þessum efnum, sem önnur iðnaðarríki hins vegar eru að ná. Við verðum t. d. alveg greinilega varir við það í verzluninni hér, að ýmislegt af þeim vörum, sem við ella gjarnan vildum kaupa frá sumum Vestur-Evrópuríkjunum, getum við líka fengið t. d, frá Tékkóslóvakíu eða Austur-Þýzkalandi. Og það mun vafalaust sýna sig með vaxandi framleiðslu í þessum löndum og þegar þau sniða sinn smekk á sinni iðnaðarvöru jafnvel enn þá meira að vestrænum hætti, eins og mikil tilhneiging virðist vera til, að þá mundi okkur ekki heldur verða skotaskuld úr að fá slíkar vörur frá þessum löndum, sem við höfum svona mikla vöruskiptaverzlun við núna.

Ég held þess vegna, að við þyrftum ekki að fara að taka þátt í fríverzlunarsvæðinu, ef við annars værum hræddir við ýmsar afleiðingar af því, bara vegna þess, að okkur væri svo nauðsynlegt vegna okkar lífsvenja að fá vörur þaðan. Hitt aftur á móti fannst mér liggja í orðum hæstv. menntmrh., að honum fyndist einhvern veginn, að ef við værum ekki með í fríverzlunarsvæðinu, þá værum við að útilokast eiginlega frá lífsvenjum og menningu Vestur-Evrópu. Það er ég ekki minnstu vitund hræddur um. Ég held, að leið okkar stúdenta mundi eftir sem áður liggja alveg sérstaklega til þessara landa. Okkar miklu rótgrónu menningartengsl við þau haldast áfram alveg óskert. Og svo skulum við muna það, að þrátt fyrir allt það mikla og ágæta, sem við höfum af þeim miklu þjóðum lært, þá hefur okkar menning náð hæst, þegar hún var í algerri andstöðu við allt, sem gerðist á meginlandi Evrópu, skar sig úr og menn þorðu hér að gera hluti og viðhalda þjóðfélagi, sem öll Evrópa, allt meginlandið var búið að glata.

Ég held þess vegna, að við þurfum ekkert að óttast um okkar lífsvenjur, það háa stig, sem einkennt hefur Vestur-Evrópu í sögu þjóðanna á síðustu öldum. Ég held meira að segja þvert á móti, að við Íslendingar höfum sýnt með okkar stjórn á okkar landi, að við höfum verið færir um að hækka slíkt stig og halda því, meðan þessar gömlu og rótgrónu Vestur-Evrópuþjóðir og jafnvel þær, sem hvað mest hafa rutt brautina, eins og Frakkar, voru að glata því.

Ég held þess vegna, að við þurfum engu að kviða í þessum efnum, þó að fríverzlunarsvæði kæmist upp og þó að við yrðum utan við, hvorki hvað snertir þær vörur, sem við þaðan þurfum að fá, né þær vörur, sem við þurfum að selja, né okkar lífsvenjur né okkar menningu né öll okkar sambönd við þessar þjóðir, sem við vissulega allir höfum áhuga fyrir að viðhalda, engu síður, en við þurftum að kvíða því, þegar við stofnuðum okkar lýðveldi, að við værum að slíta böndin við Norðurlönd, eins og sumir hér þá vildu halda fram, að okkur jafnvel bæri að gera. Þvert á móti. Okkar Alþingi gaf þá yfirlýsingu um, að einmitt þegar Ísland væri orðið algerlega frjálst og sjálfstætt lýðveldi, þá mundum við óska eftir því, að okkar menningarlegu og þjóðfélagslegu tengsl við Norðurlönd yrðu nánari en áður, og það hafa þau líka orðið.

Ég held, að við þyrftum ekki að óttast það, þó að við stæðum utan við fríverzlunarsvæði Vestur-Evrópu, að þau eðlilegu bönd, sem við eigum við þessar þjóðir, svo skyldar okkur í menningu og sögu sem þær eru og svo mikið sem við eigum þeim upp að unna — við þyrftum ekki að óttast, að þau bönd slitnuðu.

Þá ræddi hæstv. menntmrh. um þá mótbáru mína gegn þátttöku í fríverzlunarsvæðinu, að við mundum ekki geta viðhaldið þeirri sérstöðu Íslands og mótað þann áætlunarbúskap, sem ég álit að væri óhjákvæmilegur fyrir Íslenzkt atvinnulíf og verzlunarlíf. Hann svaraði þeirri röksemd með því, að hann álíti, að það væri ekki ókleift að stunda áætlunarbúskap, þó að við værum á fríverzlunarsvæðinu,

Ég held, að þetta sé ekki rétt. Ég skal viðurkenna, að það mundi vera hægt fyrir ríki, sem hefði hverfandi litla utanríkisverzlun og það í ýmsum vörutegundum, þannig að útflutningur á hverri þeirra um sig hefði lítið að segja í þjóðarbúi viðkomandi þjóðfélags. Ég skal ekki neita, að áætlunarbúskapur mundi geta staðizt hjá slíkri þjóð. Við gætum máske reiknað það þannig, að þó að hún flytti út við skulum segja vefnaðarvöru og járn og stál og annað slíkt, þá væri þetta aldrei nema kannske 5% eða 10% af viðkomandi vörum, sem væru háðar öðrum mörkuðum, en fyrst og fremst væri hún sjálf það stór, að hún hefði markaði innan sinna vébanda fyrir slíkt. Það mundi kannske vera hægt að vera á fríverzlunarsvæði, og er ég þó hræddur um, að það yrði nokkuð erfitt fyrir slíka þjóð. En anzi er ég samt hræddur um, að það yrðu að vera margar einkennilegar sögulegar forsendur fyrir slíku. Hræddur er ég um, að hún yrði að eiga nokkuð gamlan, sterkan og rótgróinn iðnað til að keppa við þann, sem inn kæmi. Hræddur er ég um, að hennar lífskjör mundu þá verða að vera í nokkuð nánu samræmi við lífskjörin í þeim löndum, sem hún væri að keppa við. En ég skal sem sagt ekki útiloka þennan fræðilega möguleika, ef viðkomandi þjóð væri yfirleitt hverfandi lítið háð utanríkisverzlun. En hvernig hagar til hér á Íslandi, þegar verið er að ræða um, hvort Ísland gæti stundað áætlunarbúskap sem sitt höfuðskipulag, og einn aðalþátturinn í honum er venjulega sá, að það sé algert eftirlit með utanríkisverzluninni, eins og Ísland hefur meira eða minna haft síðustu 24–25 árin? Hvernig lítur þetta út hér, því að hér er það þannig, að ein af okkar framleiðslugreinum, sem sé sjávarútvegurinn, flytur út yfir 90% af öllu, sem hann framleiðir. Og fyrir þennan útflutning sjávarútvegsins, fyrir fiskútflutninginn kaupum við öll hráefni í allan iðnað landsins að undanteknum sjávarútvegs- og landbúnaðariðnaðinum. Allur hinn iðnaðurinn og þá alveg sérstaklega iðnaðurinn hér í Reykjavík og á Akureyri byggist algerlega á hráefni, sem flutt er inn, með þessum undantekningum, sem ég hér nefndi, þannig að án þessa sjávarútvegs og án þessa fiskútflutnings getur hvorki okkar iðnaður né okkar verzlun, slík sem nú er, verið til, eins og okkur er öllum ljóst. Fiskútflutningurinn er undirstaða alls okkar atvinnulífs.

Áætlunarbúskapur fyrir Ísland hlýtur þess vegna fyrst af öllu að þýða tryggingu á sölu fisksins, tryggingu á því, að við getum framleitt þessa vöru og selt hana, öryggi fyrir því, þ. e. a. s. að eiga það ekki undir neinum markaðssveiflum eða neinu slíku, að okkur takist að selja þessar vörur. Á því byggist ekki aðeins afkoma sjávarútvegs. Á því byggist öll afkoma iðnaðarins í landinu, og á því byggist öll afkoma landbúnaðarins í landinu, vegna þess að landbúnaðurinn byggir á þeim heimamarkaði hér, sem grundvallast á því, að fólkið við sjávarsíðuna hafi næga vinnu við að framleiða sjávarafurðir.

Þess vegna hlýtur áætlunarbúskapur á Íslandi fyrst og fremst af öllu að felast í því að tryggja fyrir Ísland söluna á fiskinum, meðan okkar stjórnarfélagshættir eru eins og þeir eru. Öryggið um það þýðir um leið fulla atvinnu á Íslandi. Slíkt öryggi getum við ekki fengið með þátttöku í fríverzlunarsvæði Evrópu. Hæstv. menntmrh. lýsti því einmitt alveg rétt, að við hefðum þar að vísu von um að geta unnið okkur markaði og jafnvel markaði fyrir freðfisk, þegar búið væri að koma upp ísskápakerfi og öðru slíku í löndum eins og Frakklandi og öðrum slíkum. Hvað höfum við nú? Við höfum tryggingu nú. Við höfum öryggi nú fyrir sölu á öllum okkar fiskafurðum. Við höfum sums staðar þegar aflað okkur markaða, þar sem við stöndum mjög föstum fótum, markaða, þar sem við að vísu verðum að keppa, en þar sem við samt sem áður erum búnir að kynna okkar góðu vöru það vel, að við stöndum þar föstum fótum, bæði í Ameríku og Evrópu, og viðhöfum líka beinlínis með skipulagi, með samningum til margra ára, eins og t. d. þeim þriggja ára samningum, sem við höfum gert við Sovétríkin um sölu á allt að helmingnum af öllum okkar freðfiski, tryggt okkur fyrir fram sem lið svo að segja í hugsanlegum áætlunarbúskap hjá okkur slíka markaði. Og mér er kunnugt um, að við getum tryggt okkur fyrir fram. Ég veit um lönd eins og t. d. Austur-Þýzkaland, iðnaðarland, sem alltaf vantar fisk. Það væri vafalaust hægt að tryggja sér, þótt maður vildi til 10–15 ára, markaði, sem eru meiri jafnvel í því litla landi heldur en nokkru öðru landi, sem við seljum til núna, bara ef við hefðum nógan fisk.

M. ö. o.: með þeirri yfirstjórn á okkar framleiðslu og útflutningi, þótt ófullkomin sé hjá okkur, því að eins og við erum báðir sammála um, þá er enginn áætlunarbúskapur hjá okkur þannig enn þá, þó að ýmsir þættir, sem einkenna hann, hafi verið framkvæmdir í okkar stjórnskipulagi, þá er engum efa bundið, að við getum skapað okkur algert öryggi fyrir því að geta selt allt, sem við getum framleitt af þessum vörum. Og einmitt slíkir samningar eru í löndum áætlunarbúskapar venjulega tryggingin fyrir því að geta skapað viðkomandi þjóð fulla atvinnu og fullt afkomuöryggi. Og næði það þá yfirleitt nokkurri átt hjá okkur að farga þessari vissu, sem við höfum nú, þessari sérstöðu, sem við höfum nú fram yfir lönd, sem eru keppinautar okkar, eins og Noregur, og eiga í vandræðum með að selja sinn fisk nema kannske rétt þegar það mislukkast alveg sérstaklega með fiskveiðina? Næði það nokkurri átt að farga þessari vissu og farga þessu öryggi með þátttöku í fríverzlunarsvæði í von um markaði þar, sem geta reynzt tálvonir, von, sem aðeins yrði að staðreynd fyrir mjög harðvítuga baráttu okkar við mjög volduga auðhringi, eins og þá hringi, sem ráða nú sem stendur fiskframleiðslu Vestur-Þýzkalands og Englands og við höfum ekki sérstaklega góða reynslu af viðureigninni við? Við höfum sannarlega verið vanir því í viðureigninni við þá herra, að við höfum fengið á stríðsárum að flytja inn fiskinn og verið sparkað í burtu á eftir og það jafnvel þó að þeir kölluðu það að hafa efnahagssamvinnu við okkur.

Ég held, að þeirri vissu, sem við höfum nú um markaði fyrir okkar framleiðslu, kæmi aldrei til mála að fórna fyrir þá mjög svo óvissu von, sem ég er næstum viss um að yrði tálvon, að geta unnið sér upp markað í samkeppninni við þessa stóru hringi á fríverzlunarsvæði Vestur-Evrópu.

Ég held, að áætlunarbúskapur og fríverzlun sé óhugsandi saman. Ég held, að munurinn á þátttöku Íslands í fríverzlunarsvæði Vestur-Evrópu og á áætlunarbúskap okkar Íslendinga sé svo mikill, að það sé raunverulega líkast því, ef við færum inn í fríverzlunarsvæði Evrópu, ef það kemst nokkurn tíma á, þá væri það líkast því að vera stjórnlaust flak, sem hrektist á öldum úthafsins, þar sem við hins vegar með áætlunarbúskap okkar og þeirri aðstöðu, sem ég reyndi að lýsa í síðustu ræðu minni, værum þó að stýra okkar fleyi eftir því, sem við sjálfir vildum, á þessu úthafi, réðum því sjálfir, gætum vitandi vits markað okkur stefnu, hagnýtt okkur öll sambönd, hvar sem er í veröldinni, í staðinn fyrir að láta skola okkur á þeim kröppu öldum, sem nú rísa í samkeppninni í Vestur-Evrópu, og máske sökkva í þeim boðaföllum, sem þar koma til með að einkenna efnahagslífið á næstunni. Það er engin tilviljun, að menn herða nú umræðurnar um fríverzlunarsvæðið, þegar kreppa virðist vera að brjótast út einmitt í þessum löndum, og við höfum það erfiða reynslu af, hvað kreppa þýðir fyrir okkar land, að við ættum sízt af öllu að láta okkur detta í hug að fara að taka þátt í slíku, ef það skyldi komast upp, þegar þannig lítur út, að hættulegri og erfiðari verði viðskiptin þar heldur en þau hafa verið nokkru sinni síðan á krepputímunum hjá okkur.

Ég veit, að hæstv. menntmrh. mun standa við það, sem hann lýsti yfir, að Alþ. fái að fylgjast með þessum málum á næstunni, og mér þykir vænt um, að hann hefur komið með þetta mál inn. Ég álít, að það sé einmitt rétt að farið, og vildi aðeins leggja mitt orð í belg, ef það mætti verða til þess, að menn hugsuðu um þetta mál frá fleiri sjónarmiðum, og skal ég um leið taka fram, að því fer auðvitað fjarri, að ég hafi enn getað grandskoðað þetta mál. Þvi síður er hægt að mynda sér endanlega skoðun á því og afstöðu til þess, meðan ekki einu sinni forsvarsmenn þess vita, hvað út úr því muni koma. En mitt hugboð er á þá leið, sem ég nú hef skýrt.