21.02.1958
Sameinað þing: 29. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1857 í B-deild Alþingistíðinda. (3016)

Fríverslunarmálið

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég vil gjarnan byrja mál með því að þakka hæstv. menntmrh. þá ýtarlegu og að mínu áliti í meginatriðum greinagóðu skýrslu, sem hann hefur flutt þinginu um það mál, sem hér liggur fyrir. Samt sem áður finnst mér, að í ræðu hæstv. ráðh. hafi svo lauslega verið rætt um ýmis vandamál, sem hlytu að fylgja þátttöku okkar í væntanlegu fríverzlunarbandalagi, að ég er ekki viss um, að menn hafi fengið af þeirri ræðu og þeim ræðum, sem síðan hafa verið haldnar, rétta heildarmynd af þessu máli, og sé því ástæðu til þess að bæta við það, sem hér hefur komið fram í umr., nokkrum orðum.

Það er að vísu ekki vitað, hvort af því muni verða, að til þessa fríverzlunarbandalags verði stofnað, og þá auðvitað ekki víst, í hvaða mynd það muni verða. Telja verður þó, að líkurnar á því, að til slíkra samtaka verði stofnað í einhverri mynd, séu það miklar, að fullkomlega tímabært sé fyrir okkur Íslendinga að gera okkur grein fyrir því, hvort við mundum óska að taka þátt í slíkum samtökum, og tel ég því, að umr. um þetta mál í heild séu fullkomlega tímabærar nú.

En þó að auðvitað sé ekki endanlega um það vitað, í hvaða mynd þau efnahagssamtök, sem hér er um að ræða, mundu verða, þá virðist það þó liggja nokkurn veginn ljóst fyrir, að hér er um það að ræða, að þau lönd, sem aðilar yrðu að samtökum þessum, mundu skuldbinda sig til þess að leggja ekki hindranir í veginn fyrir vöruskipti milli þessara landa með verndartollum eða innflutningshöftum. Það er ekki enn þá vitað, til hve margra vörutegunda þetta samkomulag mundi taka, en gert mun þó ráð fyrir því, að það verði allverulegur hluti þeirra viðskipta, sem um er að ræða, sem toll- og haftafrelsið mundi taka til. Með þessu er auðvitað ekki sagt, að óheimilt mundi vera að leggja á tolla, en slíkir tollar yrðu þá eingöngu fjáröflunartollar, eins og það hefur verið kallað, en með því er átt við það, að leggja yrði þá innlent framleiðslugjald á viðkomandi vörur, sem næmi tollinum, þannig að innlendum framleiðendum yrði ekki ívilnað á kostnað annarra framleiðenda innan þessa svæðis. Þetta er það, sem um er að ræða.

Að mínu áliti er ekki nokkur vafi á því, að kostirnir, sem því mundu fylgja fyrir okkur Íslendinga að verða aðilar að slíkum samtökum, eru margir. Það má í fyrsta lagi á það benda, að hér er um að ræða þær þjóðir, sem okkur eru einna skyldastar að menningu og þjóðfélagsháttum, og þegar af því leiðir, að þær hafa í ríkara mæli, en aðrar fjarlægari og óskyldari þjóðir einmitt á boðstólum þær vörur, sem okkur vanhagar um. Í öðru lagi má benda á þá staðreynd, að þetta eru þau lönd, sem okkur eru landfræðilega næst, þannig að af því leiðir, að flutningskostnaður á vörum þaðan og þangað verður minni, en til annarra fjarlægari landa, og það atriði út af fyrir sig gerir viðskipti við þær að öðru jöfnu hagkvæmari. Það ætti ekki að þurfa nánari skýringar við. Í þriðja lagi má á það benda, að vegna þess að við verðum að svo miklu leyti einmitt að framleiða fyrir innlendan markað, en innlendi markaðurinn er tiltölulega lítill, þá getum við í mörgum þeim tilfellum, sem þannig háttar um, ekki hagnýtt okkur hina hagkvæmustu tækni. Stærri markaður eða það, að framleitt sé fyrir stærri markað, er skilyrði fyrir slíku, en þessu skilyrði ætti einmitt í ríkara mæli að verða fullnægt, ef við verðum aðilar að stærri efnahagslegri heild. Þetta eru atriði auk þeirra, sem á hefur verið minnzt í þeim umr., sem hér hafa farið fram, sem mæla með því, að við verðum aðilar að þessum samtökum.

Hins vegar verður því ekki neitað, að vandamálin í sambandi við slíka aðild eru mörg og stór. Í þeim umr., sem hingað til hafa farið fram um þá hlið málsins, eru það einkum tvö atriði, sem á hefur verið bent, enda er það auðvitað augljósast, að slík vandamál hljóta að koma upp, ef til þessarar aðildar kemur. En þau vandamál, sem hér er um að ræða, eru í fyrsta lagi vandamál innlenda iðnaðarins og í öðru lagi tekjuöflunarvandamál ríkissjóðs. Hæstv. ráðh. gerði þessi tvö atriði allýtarlega að umræðuefni í sinni framsöguræðu, og er ég honum sammála um það, að þó að ekki beri að vanmeta þann vanda, sem hér er um að ræða, þá ætti hann engan veginn að vera óleysanlegur.

Hvað iðnaðinn snertir, þá ber þess að gæta, að það er ekki nema nokkur hluti iðnaðarins, sem mundi eiga við aukin vandkvæði að etja, ef til aðildar að fríverzlunarsvæðinu kæmi, og þó að vandamál hans beri engan veginn að vanmeta, þá ætti með tilliti til þess, að gert er ráð fyrir, að það taki alllangan tíma að koma þessu í kring, að verða möguleiki á því að breyta okkar framleiðsluháttum þannig, að víð gætum lagað okkur eftir því.

Hvað snertir fjárhagsvandamál ríkissjóðs, þá er það auðvitað staðreynd, að ríkissjóður aflar sér fyrst og fremst tekna með tollum. Hæstv. ráðh. gaf hér nokkrar upplýsingar um það, hve miklu tekjutapi mætti ætla að ríkissjóður yrði fyrir, ef til þess kæmi, að fella yrði niður alla svokallaða verndartolla. Ég býst í rauninni við því, að það sé mjög erfitt að gera sér fyrir þessu nákvæma grein, sem m. a. stafar af því, að eiginlegir fjáröflunartollar í þeirri merkingu, sem ég minntist á, þannig að sama framleiðslugjald sé á innlendri framleiðslu og tollinum nemur, eru hér í rauninni ekki til. Raunverulega má hins vegar líta þannig á, að jafnvel mest af þeim tollum, sem við höfum, sé fjáröflunartollar, af því að það kemur af tæknilegum og öðrum ástæðum ekki til greina, að þessar vörur verði framleiddar hér. En þær heimildir, sem hæstv. ráðh. byggði á, byggðust á því, að reiknaður var út sérstaklega tollur á þeim vörum, sem framleiddar eru hér innanlands, Ég tel þetta að vísu ekki einhlítt, ef skipta á tollunum í fjáröflunartolla og verndartolla, en sjálfsagt eru ekki aðrar betri heimildir fyrir hendi. En það, sem skiptir þó ef til vill mestu máli í sambandi við þetta, er það, að hvort sem verndartollarnir nema meira eða minna af heildartekjum ríkissjóðs, þá má auðvitað á það benda, að séu þessir tollar afnumdir, þá mundi geta borgaranna til þess að greiða aðra skatta aukast, þannig að það ætti ekki að vera mjög miklum vandkvæðum bundið að flytja skattana þannig til. Og í öðru lagi má á það benda, að ef af þátttöku Íslands í þessu fríverzlunarsvæði yrði, þá hlyti tekjuþörf ríkissjóðs að minnka mjög verulega frá því, sem nú er, af því að sá mikli tekjutilflutningur, sem stendur í sambandi við hafta- og uppbótakerfið, yrði þá óþarfur, þannig að tekjuþörfin mundi að verulegu leyti minnka.

Þessi vandamál ættu þannig ekki að vera óleysanleg. En fyrir hinu má ekki loka augunum, að þessi atriði, sem nú hafa verið nefnd, eru engan veginn stærstu efnahagsvandamálin í sambandi við væntanlega þátttöku Íslendinga í fríverzlunarbandalaginu. Hæstv. ráðh. drap raunar á það í sinni ræðu, að ef af þátttöku Íslendinga ætti að verða í fríverzlunarbandalaginu, þá yrði nauðsynlegt, eins og hann orðaði það, að samræma innlent og erlent verðlag, það væri ekki framar hægt að skapa jafnvægi í greiðsluviðskiptum við önnur þáttökuríki með innflutningshöftum og uppbótum, heldur yrði að fara aðrar leiðir. Ég er ekki alveg viss um, að allir hafi gert sér fullkomlega ljóst, hvað í þessu fólst í rauninni. Út af fyrir sig lítur það meinleysislega út, að það þurfi að samræma innlent og erlent verðlag, og kannske flestir sammála um, að slíkt sé réttmætt og nauðsynlegt. Flestir eru og sammála um það, að innflutningshaftakerfinu fylgi margvísleg óþægindi, svo að það væri ekki sérstakur skaði skeður með því, að það væri afnumið og farnar einhverjar aðrar leiðir í þessu efni. En það er meira, sem í þessu felst. Hvað er nú það, sem um er að ræða, þegar talað er um misræmi á innlendu og erlendu verðlagi? Það er þetta, að hvort sem við gerum þann samanburð á þann hátt að umreikna verðlag erlendis í íslenzkar krónur eftir skráðu gengi eða umreikna erlent verðlag í íslenzkar krónur eftir skráðu gengi, þá verður niðurstaðan sú sama, að verðlagið hér á landi verður til mikilla muna hærra, en í nágrannalöndunum. Af því leiðir aftur, að ef um tollfrjáls og haftalaus viðskipti við þessi lönd væri að ræða að öllu öðru óbreyttu, þá hljóta Íslendingar sem búa við hið háa verðlag hér, að verða alveg ósamkeppnisfærir á hinum erlendu mörkuðum, en á sama hátt verða innlendir framleiðendur, sem framleiða fyrir innlenda markaðinn, ósamkeppnisfærir við hina erlendu aðila, sem framleiða á hinu lægra verðlagi. Það er einmitt með innflutningshöftunum og uppbótunum, sem atvinnuvegunum hefur verið haldið gangandi þrátt fyrir það misræmi, sem er á milli erlenda og innlenda verðlagsins og gerð hefur verið grein fyrir.

Með aðild að fríverzlunarsvæðinu væri útilokað að fara þessa leið lengur. Þá verður, eins og hæstv. ráðh, raunar réttilega tók fram, að samræma innlenda og erlenda verðlagið. En hvað þýðir það? Þar verður ekki nema um tvær leiðir að ræða. Það er hægt að framkvæma samræmingu á þann hátt að hækka verðlagið hér innanlands eða verðlagið á erlendum vörum, sem hingað eru fluttar inn, til samræmis við hið innlenda verðlag með því að lækka gengi krónunnar eða gera hliðstæðar ráðstafanir. Það er hægt að kalla slíkar ráðstafanir einhverju öðru nafni, en gengislækkun, en efnislega verður um það að ræða. Það væri líka hægt að fara aðra leið, þá að færa innlenda verðlagið niður til samræmis við hið útlenda, hina svokölluðu verðhjöðnunar- eða niðurfærsluleið, eins og það hefur verið orðað. Aðrir möguleikar eru ekki fyrir hendi.

Það verður því að horfast í augu við það í sambandi við umræður um fríverzlunarvandamálið, að þær kosta ráðstafanir í efnahagsmálum í þá átt, sem um hefur verið talað. Hitt þarf ekki að skýra nánar fyrir hv. þingmönnum, hvaða erfiðleika, bæði stjórnmálalega og efnahagslega, það mundi hafa í för með sér að framkvæma þessar aðgerðir. Það er því hlutur, sem verður að meta, þegar að því kemur að taka afstöðu í þessu máli, hvort kostirnir við þátttöku okkar í fríverzlunarkerfinu eru það miklir, að við viljum taka á okkur óþægindi af þeim nauðsynlegu ráðstöfunum í efnahagsmálum, sem gera yrði, til þess að slík þátttaka yrði möguleg.

Málið liggur ekki svo ljóst fyrir enn þá, að það sé tímabært að taka til þess afstöðu. Hins vegar tel ég mjög mikilvægt, að ef ræða á þetta mál í alvöru, þá sé þetta atriði gert ljóst. Það er fullkomið samræmi í þeim skoðunum, sem haldið var fram af hv. 3, þm. Reykv. hér áðan, er hann andmælti mjög þátttöku Íslendinga í þessu fríverzlunarbandalagi og var þá um leið andvígur þeim ráðstöfunum, sem gera þyrfti til þess að gera slíka þátttöku mögulega. Hvort sem menn eru með þeim skoðunum eða móti, þá eru þær sjálfum sér samkvæmar. Það er líka sjálfu sér samkvæmt að styðja aðild að þessu bandalagi og þá auðvitað um leið þær ráðstafanir, sem gera yrði, til þess að það væri mögulegt. Hitt eru ekki raunhæf sjónarmið, þó að þau kunni að vera þau vinsælustu í bili, að fylgja að vísu aðild að þessu bandalagi, en vilja ekki gera þær ráðstafanir í efnahagsmálum, sem nú hefur verið drepið á og eru skilyrði fyrir því, að um slíka aðild geti verið að ræða. Þetta vildi ég gjarnan benda á.

Eitt atriði vildi ég þó minnast á að lokum, en það eru jafnkeypisviðskiptin. Í rauninni er það nú þannig, að undirrót þeirra vandamála, sem við er að etja í sambandi við væntanlega þátttöku Íslendinga í fríverzlunarbandalaginu, er misræmið milli hins innlenda og erlenda verðlags. Öll önnur vandamál, sem rædd hafa verið í því sambandi, eru í rauninni afleiðing af því.

Það er þetta misræmi, sem hefur gert nauðsynlegt haftafyrirkomulagið. Haftafyrirkomulagið hefur aftur leitt til uppbyggingar atvinnulífsins, til að efla iðnað og aðra framleiðslustarfsemi, sem ekki mundi verða samkeppnisfær, ef um frjálsa verzlun væri að ræða. Uppbæturnar til útvegsins eru einnig afleiðing af þessu, en af þeim leiðir aftur hina miklu tolltekjuþörf ríkissjóðs. Og að síðustu má nefna, að einmitt það, að jafnkeypisviðskiptin eru slíkur þáttur í okkar heildarviðskiptum við útlönd, er einnig bein afleiðing af þessu. Um hin svokölluðu „clearing-lönd“ eða þau lönd, sem við höfum jafnkeypisviðskipti við, háttar einmitt þannig, að aðstæður eru þar að því leyti svipaðar og hjá okkur, að verðlagið, umreiknað eftir gengi, er hærra þar, en í öðrum löndum, þar sem meira jafnvægi ríkir í efnahagsmálum. Það að skipta í ríkara mæli við þessi jafnkeypislönd hefur að nokkru leyti losað okkur við þá miklu tekjuyfirfærslu, sem annars var nauðsynleg til þess að halda útflutningsframleiðslunni gangandi, þannig að viðskiptin við jafnkeypislöndin hafa þannig í rauninni verið eins konar dulbúin gengislækkun. Það leiðir nú í rauninni af því, sem sagt hefur verið, að ef til aðildar að fríverzlunarbandalaginu kæmi, þá ætti ekki að vera sama þörf á jafnkeypisviðskiptunum og áður var.

En það er annað atriði í sambandi við þetta, sem ég get ekki stillt mig um að gera nokkra athugasemd við og fram kom í ræðu hæstv. ráðh. Hann talaði um það sem skilyrði fyrir því, að Íslendingar gætu orðið aðilar að fríverzlunarsvæðinu, að við yrðum eftir sem áður að reyna að halda þeim mörkuðum, sem við höfum í jafnkeypislöndunum, og setja það í einhverri mynd að skilyrði fyrir aðild okkar að þessu bandalagi. Hann nefndi í því sambandi, að við yrðum þá að gefa tollfrjálsan innflutning frá þessum löndum á sama hátt og um aðildarríki að fríverzlunarsvæðinu væri að ræða. En ég sé satt að segja ekki, að slíkt mundi einu sinni leysa það vandamál, sem þarna er um að ræða. Verðlagið í þessum jafnkeypislöndum er hærra, en verðlagið í væntanlegum aðildarríkjum fríverzlunarbandalagsins, þannig að jafnvel þó að þessi lönd nytu sömu tollkjara og aðildarríkin að fríverzlunarbandalaginu, þá hlytu þau samt á flestum sviðum að verða ósamkeppnisfær á íslenzkum markaði. Það er ekki víst, að það yrði hvað allar vörutegundir snertir, en sé aðstaðan að öðru leyti jöfn, þá getur varla verið um að ræða innflutning frá þeim jafnvel þó að þau njóti sömu tollkjara og aðildarríkin. Ástæðan til þess, að keypt er frá vöruskiptalöndunum, þrátt fyrir það þó að verðlagið sé hærra þar, er eins og nú er sú, að það eru ekki veitt innflutningsleyfi frá öðrum löndum, og ættum við að halda þessum viðskiptum, þá yrði að fara sömu leið. Þetta mundi þá þýða það, að við yrðum að hafa heimild til þess að takmarka innflutninginn frá aðildarríkjunum til þess að geta keypt vörur í jafnkeypislöndunum, sem eru dýrari, en þar. En ég sé ekki vel, hvernig það getur samrýmzt þeim sjónarmiðum, sem að öðru leyti hefur verið látið í veðri vaka að lægju að baki þeim væntanlegu samtökum, sem hér er um að ræða. Þetta vildi ég aðeins leyfa mér að benda á.

Ég vildi svo aðeins minna á eitt að lokum. Hv. 3. þm. Reykv. hefur í tveim ræðum gefið okkur lexíur í marxisma, sem að mínu áliti er margt að athuga við. Ég mun þó ekki fara út í það, m. a. með tilliti til þess, að hv. þm. mun eiga lítinn ræðutíma eftir. En eitt er þó það atriði, sem ég get ekki stillt mig um að benda á. Það er þetta: Hv. 3. þm. Reykv. virtist vera mjög andvígur hringum og hafa mikinn ótta af starfsemi þeirra. Margir munu vera honum sammála um þetta, einnig úr hópi þeirra, sem ekki eru sósíalistar. Hitt var mér aftur á móti miður skiljanlegt, að hann virtist líta svo á, að einmitt það að gera verzlunina frjálsari eða stækka viðskiptaheildirnar mundi skapa hringunum betri skilyrði, en áður. Almennt hefur nú verið litið þannig á meðal hagfræðinga, að eftir því sem markaðurinn væri þrengri, eftir því mundi vera auðveldara að mynda einokunarsamtök og halda uppi einokunarverði, hin erlenda samkeppni hljóti að halda slíku í skefjum. Mér er ekki fyllilega ljóst, á hverju hið gagnstæða sjónarmið getur byggzt. Ég býst einnig við, að það komi ýmsum, sem kunnir eru kaupsýslu og viðskiptum, einkennilega fyrir sjónir, það sem virtist vera skoðun hv. þm., að eftir því sem atvinnuleysið væri meira og kaupgeta verkamanna og launþega minni, eftir því mundu vera meiri gróðamöguleikar fyrir auðhringa og atvinnurekendur.