21.02.1958
Sameinað þing: 29. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1862 í B-deild Alþingistíðinda. (3017)

Fríverslunarmálið

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Það eru aðeins tvö atriði, sem ég vildi gera að umtalsefni, í ræðum þeim, sem fluttar hafa verið, síðan ég talaði síðast.

Hv. síðasti ræðumaður, hv. 9. landsk. þm., fór nokkrum orðum um jafnkeypisviðskiptin og kvaðst vilja benda á, að sú tollalækkun, sem ég hefði gert að umtalsefni að nauðsynleg væri gagnvart innflutningi frá jafnkeypislöndunum og yrði að vera jöfn þeirri tollalækkun, sem við framkvæmdum gagnvart fríverzlunarsvæðinu, ef af stofnun þess yrði, mundi ekki duga til þess að varðveita skilyrði okkar til þess að halda jafnkeypisviðskiptunum áfram. Þetta er auðvitað alveg rétt. En þetta tók ég einnig skýrt fram í skýrslu minni, að tollalækkunin ein dugir auðvitað ekki. Hún er að vísu sjálfsögð, til þess að aðild að fríverzlunarsvæðinu verði ekki til að torvelda jafnkeypislöndunum að selja hingað sínar vörur í skiptum fyrir útflutning okkar þangað frá því, sem verið hefði. Aðild okkar að fríverzlunarsvæðinu má ekki þýða það, að jafnkeypislöndin, verði verr sett en nú á sér stað til sölu á varningi sínum á íslenzkum markaði, en það mundu þau auðvitað verða, ef við lækkuðum tolla okkar eingöngu gagnvart fríverzlunarsvæðislöndunum, en létum núgildandi tolla haldast gagnvart öðrum viðskiptalöndum. Hér verður auðvitað að vera samræmi á vegna mikilvægis markaða okkar í jafnkeypislöndunum.

Hitt tók ég skýrt fram í skýrslu minni og undirstrikaði alveg sérstaklega, að þetta dygði ekki til þess að varðveita markaði okkar í jafnkeypislöndunum. Það yrði jafnframt að vinna að því, að Íslendingar fengju undanþágu frá því grundvallaratriði fríverzlunarsvæðisins að afnema stjórn á innflutningi, þ. e. a. s, afnema innflutningshöft. Jafnkeypisviðskiptin væru okkur svo mikilvæg, að við yrðum að fá að láta jafnkeypislöndin sitja að íslenzkum markaði í jafnríkum mæli og okkur er nauðsyn á markaði í þeim löndum, og það er ekki hægt með öðru móti en því — það hefur reynslan sýnt — en að hafa innflutningsleyfakerfi, sem tryggi jafnkeypislöndunum íslenzka markaðinn á vissum sviðum fyrir vissar vörutegundir Þess vegna setti ég í skýrslunni fram þá hugmynd, að leitað yrði eftir að hafa eitt af frumskilyrðum fyrir hugsanlegri aðild okkar að fríverzlunarsvæðinu, að við fengjum viðurkenningu á þeirri sérstöðu, að við yrðum að hafa verndarvörulista yfir vissar vörutegundir, sem við þyrftum að kaupa frá jafnkeypislöndunum vegna sölu á afurðum okkar þangað.

Ég vildi aðeins segja þetta aftur hér og undirstrika þetta, af því að þetta er að sjálfsögðu eitt af grundvallaratriðunum í sambandi við getu okkar til þess að verða aðilar að fríverzlunarsvæðinu. Ég skil ekki í, að neinum detti í hug, að við í raun og veru getum gerzt aðilar að fríverzlunarsvæðinu, ef það ætti að þýða samtímis missi markaða okkar í jafnkeypislöndunum, svo mikilvægir sem þeir eru íslenzkum útflutningsatvinnuvegum.

Hitt atriðið var í ræðu hv. 3. þm. Reykv., grundvallaratriðið í hans ræðu í raun og veru. Það var sú hugmynd hans, sú staðhæfing hans, að aðild okkar Íslendinga að fríverzlunarsvæðinu mundi hafa í för með sér rýrnandi lífskjör íslenzku þjóðarinnar, rýrnandi lífskjör á Íslandi. Hann rökstuddi það með því fyrst og fremst, að aðild að slíkum viðskiptasamtökum mundi stofna hinum gömlu þjóðlegu atvinnuvegum okkar, landbúnaði og vissum hluta iðnaðarins, í bráða hættu, en ef slíkar atvinnugreinar yrðu lagðar í rúst og við um leið ofurseldir samkeppni stórfyrirtækja í Vestur-Evrópu, mundum við verða undir í þeirri samkeppni á svo mörgum sviðum, að það mundi rýra lífskjör manna hér stórlega. Ég held, að þessi skoðun sé á algerum misskilningi byggð, og ég vil ekki láta þessum umr. ljúka án þess, að ég fyrir mitt leyti andmæli henni, og skal nú færa fram fyrir því nokkur rök.

Í fyrsta lagi staðhæfi ég, að það sé á misskilningi byggt, að lífskjör þjóðanna innan fríverzlunarsvæðisins, ef stofnað yrði, hlytu að jafnast út, að lífskjör allra aðildarríkja svæðisins mundu verða þau sömu. Það er kunnugt, að lífskjör á einstökum svæðum, jafnvel lítilla ríkja, geta verið mjög ólík eftir aðstæðum, hvað þá stórra ríkja. Og þegar slíkt getur gerzt á ákveðnum ríkjasvæðum, er auðvitað engin ástæða til þess að halda, að ekki þó fastari efnahagssamtök, en hér verður um að ræða muni hafa í för með sér, að það hljóti að verða allsherjarjöfnun á lífskjörum þeirra aðildarríkja, sem ættu hlut að máli. Eftir sem áður munu þau öfl verða að verki og hafa úrslitaáhrif, sem nú valda því, að lífskjör í hinum ýmsu Vestur-Evrópuríkjum eða þeim ríkjum, sem hugsanlegt hefur verið um að gerist aðilar að fríverzlunarsvæðinu, eru mjög ólík. Þau öfl munu eftir sem áður vera að verki og hafa sömu áhrif og þau hafa nú.

Hver er undirstaða þeirra lífskjara, sem við njótum hér á Íslandi nú? Lífskjörin hér eru betri, en í mörgum þeirra ríkja, sem hugsanlegt er að yrðu aðilar að fríverzlunarsvæðinu, en lífskjör í ýmsum öðrum ríkjum eru mun betri, en þau eru hér á Íslandi. Ég þori ekki að skipa Íslandi á neinn ákveðinn stað í þá röð hinna 17 aðildarríkja, sem rætt hefur verið um, ef reynt yrði að flokka þau eftir hæð lífskjaranna. En ég hygg þó, að óhætt sé að segja, að Ísland mundi verða í efri flokknum. Ef það væri rétt, að lífskjörin á heildarsvæðinu mundu jafnast út og engar framfarir í heild leiddi af þessu samstarfi, þá mundu lífskjör þjóðarinnar rýrna. En ég skal nú benda á þau rök, sem ég tel liggja til þess, að slíkt þurfi alls ekki að eiga sér stað, og þetta er mjög mikilvægt atriði í sambandi við málið allt.

Hver er undirstaða þeirra lífskjara, sem við njótum hér? Hún er fyrst og fremst nálægð við mjög auðug fiskimið, ein auðugustu fiskimið veraldar. Hún er í öðru lagi dugnaður og sérþekking fólksins, sem það býr yfir, þess fólks sem starfar að öflun og meðferð sjávaraflans. Hún er í þriðja lagi þau nýtízku tæki, sem þjóðinni hefur tekizt að afla sér til þess að fá sjávarafla og verka hann og selja. Hún er í fjórða lagi þær orkulindir, sem landið er auðugt af, bæði í mynd fossa og jarðhita, og eru nú þegar undirstaða iðnaðar, en hugsanleg undirstaða miklu meiri iðnaðar, en nú er stundaður í landinu. Þessi atriði eru meginundirstaða þeirra góðu lífskjara, sem við nú njótum á Íslandi. Ekkert af þessu missum við vegna aðildar að fríverzlunarsvæðinu. Fiskimiðin fjarlægjast ekki landið þrátt fyrir það. Dugnaður og sérþekking fólksins minnkar vissulega ekki. Tækin flytjast ekki í burtu. Skilyrði okkar til að afla enn nýrra tækja minnka ekki, heldur þvert á móti batna, og orkulindirnar þorna sannarlega ekki vegna aðildar okkar að fríverzlunarsvæðinu. Nei, öll þessi megin undirstaða lífskjaranna hér á Íslandi nú helzt auðvitað, og þau öfl, sem bætt hafa lífskjörin jafnmikið og átt hefur sér stað undanfarna áratugi hér, verða áfram að verki. Til hins finnst mér þvert á móti liggja miklu sterkari rök, að þessi öfl muni fá að njóta sín betur, ef við komumst í tengsl við stóra efnahagsheild, vegna þess að þá er líklegt, að við fáum aðstöðu til þess að njóta alveg sérstaklega þess, sem við höfum bezta aðstöðu til að leggja af mörkum í alþjóðlegu samstarfi. M. ö. o.: starf okkar Íslendinga mundi þá geta einbeinzt enn frekar, en nú á sér stað að þeirri framleiðslu, sem þjóðin stendur bezt að vígi að stunda, betur en allar hinar þjóðirnar.

Eins og ég gat um, hef getið um áður og lagt áherzlu á, er höfuðkosturinn fyrir okkur að gerast aðilar að slíku efnahagssamstarfi sá, að við það mundi opnast nýr stór markaður, sem við mundum nota okkar nálægð við fiskimið okkar og okkar miklu tæki og okkar sérhæfða vinnukraft til þess að selja góða og mikið unna vöru á, og jafnframt kynni aðild okkar að fríverzlunarsvæðinu einmitt að skapa okkur skilyrði til þess að nota orkulindir okkar, fossaflið og jarðhitann, í miklu ríkara mæli en við höfum hingað til átt kost á vegna smæðar markaðsins hér heima og vegna þeirra viðskiptahamla, sem mótað hafa viðskiptalífið í Evrópu og heiminum öllum raunar í allt of ríkum mæli.

Ég hef áður tekið það fram og skal nú endurtaka það að síðustu, að ég tel okkur Íslendinga ekki geta gerzt aðilar að slíku fríverzlunarsamstarfi, nema því aðeins að það hafi í för með sér aukinn markað fyrir sjávarafurðir okkar á fríverzlunarsvæðinu og við höfum jafnframt skilyrði til þess að byggja upp stóriðnað til útflutnings, sem leyst geti þann iðnað af hólmi, sem hér yrði smám saman að leggjast niður vegna aðildar okkar að þessu efnahagssamstarfi. En ef þessum skilyrðum er fullnægt, felst einmitt í því, að skilyrði okkar til þess að hagnýta þá framleiðsluaðstöðu, sem við höfum umfram aðrar þjóðir, munu batna mjög verulega, og í kjölfar þess mundu auðvitað sigla bætt lífskjör á Íslandi, en ekki rýrnuð lífskjör þjóðarinnar.