20.02.1958
Neðri deild: 54. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1876 í B-deild Alþingistíðinda. (3021)

Landhelgismálið

Sjútvmrh (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég kom því miður aðeins of seint hér á þingfund og hv. þm. G-K. (ÓTh) hafði hér hafið umræður utan dagskrár um þetta mál, og missti ég því nokkuð af því, sem hann sagði. En mér skilst nú samt, að það hafi ekki mikið niður fallið efnislega, því að hann mun hafa endurtekið það flest aftur, sem hann var búinn að segja, áður en ég kom hér í þingsalinn.

Hv. þm. G-K. var um það leyti, sem ég gekk í salinn, að fullyrða, að þegar ríkisstj. leitaði samstarfs við þingflokk sjálfstæðismanna og hélt sameiginlegan fund með honum og 1. þm. Reykv., Bjarna Benediktssyni, í byrjuðum októbermánuði, þá hefði hún verið þegar búin að taka ákvörðun um, að ekkert yrði aðhafzt um breytingar í landhelgismálinu, breytingar á friðunarlínunni, fyrr en að landhelgismálafundinum afstöðnum í Genf. Litlu síðar í ræðu sinni var þessi hv. þm. þó að lesa það hér upp úr bréfi, að hann hefði fengið það milliliðalaust eða beint frá ríkisstj. sjálfri rétt um þessa sömu daga, að þetta væri á algerum misskilningi byggt hjá honum, engin ákvörðun hefði verið tekin. Þetta kom enda mjög skýrt fram á þeim fundi, sem þessir tveir hv. þm. höfðu með ríkisstj., að þó að þeir reyndu að svara þeirri spurningu, sem þá var fyrir þá lögð, á þessa leið, að þá var það þegar á þessum fundi upplýst við þá, að þetta væri á misskilningi byggt, engin ákvörðun hefði verið tekin um framkvæmdartíma. En sú spurning, sem fyrir þá var lögð á þessum fundi, var um það, hvort þeir og Sjálfstfl. vildu standa að því með stjórnarflokkunum að ákveða framkvæmdartíma í þessu máli, velja þann tíma, sem allir flokkarnir vildu standa að. Því var þá á þessum fundi lýst fyrir þessum tveimur hv. þm., að upp hefði komið í ríkisstj. og einnig hjá þeim mönnum, sem um málið hefðu fjallað, mismunandi skoðanir á þessu efni, hvað hagstæðast væri fyrir okkar málstað að gera í þessum efnum. Ég hafði lýst því, að ég teldi ekki nauðsynlegt að bíða fram yfir landhelgismálafundinn, sem halda átti nú í febrúarmánuði í Genf, ég teldi fyllilega hægt að ráðast í þá stækkun, sem lengi hefur verið fyrirhuguð, nú þegar og hefði helzt kosið þá leið. Hins vegar var því lýst fyrir þessum hv. þingmönnum, að einn aðalráðunautur ríkisstj., sem verið hefur á undanförnum árum, Hans G. Andersen, hefði hins vegar talið æskilegt og langæskilegast að bíða fram yfir þennan landhelgismálafund með framkvæmdir í málinu. Og utanrrh. lýsti því einnig yfir, að það væri hans skoðun, að rétt væri að bíða. Þar sem málin stóðu nú þannig, en ég hins vegar lýsti því yfir, að ég legði á það höfuðáherzlu að reyna að leita að sameiginlegum tíma, sem allir flokkarnir gætu staðið að, og því jafnt lýst yfir af utanrrh. á þessum fundi sem öðrum, að þeir legðu einnig höfuðáherzlu á það, að samkomulag gæti tekizt með öllum flokkunum um að velja framkvæmdartíma, þá var Sjálfstfl. spurður að því, hvort hann vildi standa að einhverju slíku samkomulagi. En þá var samstarfsvilji frá hálfu Sjálfstfl. sá, sem hann hefur lýst hér síðan og greinilegast kom þó fram af öllu í þeirri ræðu, sem formaður flokksins hélt hér, sem sagt þessi, að vilja ekki gefa neitt svar, snúa út úr og reyna á þann hátt að trufla eðlilega samstöðu í málinu.

Þetta er sem sagt alveg augljóst mál, einnig af bréfaskiptunum, að það er gagnslaust fyrir forsprakka Sjálfstfl. að halda því fram, að á þessu stigi málsins hafi verið búið að ákveða um framkvæmdartíma. Það var ekki, það var þeim tilkynnt. En þrátt fyrir það vildu þeir ekki láta í ljós, hver væri þeirra skoðun. Ástæðan var einfaldlega sú, að þeir voru á þeirri skoðun, sem þeir höfðu verið lengi áður, og er í rauninni ekkert um það að sakast, að þeir töldu rétt að bíða fram yfir þennan landhelgismálafund. Það er enginn vafi á því. Þannig höfðu þeir haldið á þessu máli áður, að þeir töldu rétt að fylgja málínu eftir á hinum alþjóðlegu ráðstefnum, og höfðu hagað öllum undirbúningi málsins á þá lund, að þannig yrði áfram haldið. En þó að þeir væru á þessari skoðun, sem ég efast ekkert um að þeir hafa verið, þá kusu þeir að færast undan að segja frá þessari skoðun, en kjósa sér þá stöðu að geta skammað mig og ríkisstj. fyrir það að aðhafast ekkert í málinu, þó að þetta væri þeirra skoðun.

Þetta er í rauninni kjarni málsins. Ég hins vegar hef sagt það allan tímann og segi það enn, að ég tel, að það skipti svo miklu máli að reyna að fá fullkomna samstöðu allra flokkanna hér á Alþ. um þann tíma, sem valinn er í þessu efni, og um öll aðalatriði málsins, að ég tel fjarstæðu að vera að benda á það sí og æ, eins og form. Sjálfstfl. gerði hér í umr., að atvmrh. hefði samkv. lögum einn og óbundinn rétt til þess að ákveða stækkun landhelginnar og þyrfti þar engan um að spyrja, og það væri því engan um að saka nema hann einan, að ekki væri búið að stækka landhelgina. Það sjá allir menn, að þó að stjórnskipulega séð kunni einn ráðh. að hafa vald í þessum efnum, þá er það óhyggilegt fyrir málið sjálft og alla aðila að standa þannig að því að eiga á hættu, að heilir þingflokkar rísi jafnvel upp öndverðir út af ágreiningi um það, hvaða tíma átti að velja eða hvernig átti að standa að framgangi málsins. Hitt er vitanlega miklu farsælla, að reyna eins og kostur er að fá fram samstöðu um málið.

Þó að ég fyrir mitt leyti líti svo á, að það hefði verið þýðingarmikið á alla lund að fá fram stækkun landhelginnar þegar snemma á árinu 1957 eða um vorið 1957, þá lít ég ekki svo á málið, að ég geti ekki vel fallizt á að draga það um hálft ár eða jafnvel allt upp í heilt ár að velja framkvæmdartíma, ef á þann hátt má skapa öruggari og fastari samstöðu með öllum hér heima í sambandi við framkvæmdina, heldur en hefði orðið í hinu fyrra tilfellinu. Þetta var mín afstaða, og þetta er mín afstaða enn.

En þeir þm. Sjálfstfl., sem hér hafa talað, hafa verið að leggja áherzlu á það og einkum og sérstaklega form. Sjálfstfl., hve mikinn samstarfsvilja Sjálfstfl. hafi sýnt í þessu máli, en hve dónalegir stjórnarflokkarnir hafi verið við Sjálfstfl, í allri meðferð málsins, Bréfin, sem hér voru lesin, segja nokkuð til um það. Sem sagt, þegar Sjálfstfl. er fyrst spurður um það, eftir að aðrir aðilar eru búnir að lýsa því yfir, hver sé þeirra afstaða til þess að velja framkvæmdartíma, þá neitar hann að segja nokkuð til um það, en kýs sér þá afstöðu að fara að búa til kenningu sjálfur um það, hvað ríkisstj. sé búin að ákveða í málinu, og ætlar að fara að þræta í bréfaskiptum um það, hvað ríkisstj. sé búin að ákveða, og neita því, sem ríkisstj. segir sjálf. Þessi fyrstu viðbrögð eru vitanlega ekki í þá átt, að það sýni samstarfsvilja, síður en svo.

En Sjálfstfl. óskaði einnig eftir því að fá frekari upplýsingar um það, hvað gerzt hefði í málinu. Hann fékk allar þær upplýsingar, sem máli gátu skipt á þessu stigi málsins, hann fékk þær sendar sem trúnaðarmál. En þrátt fyrir það reynir hann að halda því fram jöfnum höndum, að það hafi ekkert verið gert til undirbúnings í málinu og hann hafi ekki verið látinn fylgjast með því, sem gert hafi verið, en þetta tel ég ekki heldur sýna neinn samstarfsvilja frá hálfu þessara manna. Og það er líka mikill misskilningur hjá 1. þm. Reykv., þegar hann segir nú, að Sjálfstfl. hafi ekki haldið uppi, hvorki í blöðum né annars staðar, neinum ásökunum á ríkisstj, fyrir aðgerðaleysi í þessu máli. Hér á Alþ. hafa nokkrir fulltrúar Sjálfstfl. haldið uppi heiftarlegum árásum bæði á mig og ríkisstj. sem heild fyrir aðgerðaleysi í málinu, þó að þeim hafi án efa verið kunnugt, að þannig stóð á málinu, eins og nú hefur verið lýst, að það var verið að leita eftir fullkominni samstöðu um það, hvenær ætti að velja framkvæmdartímann, og mér kemur ekki til hugar, þó að mín skoðun hafi verið sú, að rétt hefði verið eða fullkomlega fært að hefja framkvæmdir fyrr en gert hefur verið, að amast neitt við því, þó að bæði Sjálfstfl. og sumir aðrir hafi verið á þeirri skoðun, að rétt hafi verið að bíða með framkvæmdir í málinu fram yfir þennan landhelgismálafund. Það voru aðeins misjafnar skoðanir manna á því, hvenær rétt væri að hefja framkvæmdir.

Ég verð að segja það, að ég hygg, að flestir eða allir, sem hlýtt hafa nú á ræðu formanns Sjálfstfl. hér um þetta mál, hljóti eins og ég að draga mjög í efa, að það megi takast eðlilegt samstarf við hann um framkvæmdir í þessu máli. Mér fannst túlkun hans öll vera á þá lund, að það blési ekki byrlega í þeim efnum.

Þegar ég hafði m. a. skrifað Sjálfstfl. bréf nú fyrir nokkrum dögum og óskað eftir því, að hann vildi tilnefna mann af sinni hálfu ásamt með mönnum frá stjórnarfl. til þess að samræma á millj flokkanna afstöðuna til þess, hvernig hin nýja friðunarlína yrði dregin í kringum landið í einstökum tilfellum út frá þeim gögnum, sem fyrir liggja, þá virðist formaður Sjálfstfl. í rauninni vera alveg undrandi á því, að slíkt bréf sem þetta skuli vera sent, og hann leggur það þannig út, að þetta sýni það, að raunverulega hafi ríkisstj. ekkert gert til þess að undirbúa þetta mál. Hann veit þó miklu betur, því að hann veit, að það hefur í fyrsta lagi verið leitað eftir öllum þeim helztu sjónarmiðum, sem uppi eru í hinum ýmsu landshlutum og hjá hinum ýmsu aðilum, sem hér eiga hlut að máli, hvers þeir óska í sambandi við hina nýju línu, og hann veit enn fremur, að það hafa verið lagðar fram fleiri en ein till. um það, hvernig komi til mála að haga línunni. En eigi að síður vitum við, að um einstök smærri atriði er þannig háttað, að full ástæða er til þess að reyna að leita þar eftir samkomulagi á milli flokka, betur en þegar hefur verið gert, og virðist vera fyllilega nægilegur tími, eins og málin standa nú, að efna til þess á þessu stigi.

Ég sé því ekki, að skipun þessarar n. ætti að gefa tilefni til tortryggni, eins og virtist koma fram hjá formanni Sjálfstfl., heldur miklu frekar hitt, að enn er leitazt við það af hálfu ríkisstj, að fá samstöðu og samstarf við Sjálfstfl., þó að tilraunir hingað til í þessu máli hafi verið á þá lund, að ekki væri beint líklegt, að takast mætti ljúflegt samstarf við flokkinn, eins og hann hefur haldið á málunum.

Ég vildi aðeins víkja að lokum að því atriði, að það hafa verið mismunandi skoðanir innan ríkisstj. á því og meðal þeirra sérfræðinga, sem unnið hafa að málinu, hvaða framkvæmdartími væri heppilegastur. Þetta er ekkert til að gera sér mat úr á nokkurn hátt fyrir stjórnarandstöðuna. Það er alveg þýðingarlaust að ætla að gera þetta að einhverju aðalatriði. Þetta er fullkomlega eðlilegur hlutur og heilbrigt, að einn kann að vilja bíða eftir því, að ákveðin ráðstefna ljúki störfum, og ég fyrir mitt leyti segi það, að mín skoðun er sú enn, að það sé engin nauðsyn að bíða eftir henni, síður en svo, en hins vegar aðkallandi að fá landhelgina stækkaða. Hins vegar mun ég ekki gera það að neinu úrslitaatriði, og það held ég að Sjálfstfl. hefði ekki átt að gera heldur. Ég held, að hann hefði átt í upphafi að segja það, sem rétt er, að hann var einnig á þeirri skoðun, að rétt væri að bíða fram yfir þessa landhelgismálaráðstefnu, þó að hann þyrfti að segja nokkrum þm. sínum og kjósendum það, m. a. hv. þm. N-Ísf., sem hér hefur áður verið að skamma mig í sambandi við framkvæmdaleysi í málinu, að hann væri því fullkomlega sammála, Sjálfstfl., að enn væri beðið með framkvæmdir í málinu, því að það er hið sanna um afstöðu Sjálfstfl.