20.02.1958
Neðri deild: 54. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1884 í B-deild Alþingistíðinda. (3023)

Landhelgismálið

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Það er nú í rauninni aðeins eitt atriði, sem er þess virði, að rétt sé að svara því, af því, sem nú kom fram hjá hv. þm., en það er það, að hann vildi gera hér mikið úr því, að ég hefði farið með ósatt mál um afstöðu utanrrh. í sambandi við það, sem gerðist á þessum fundi. (ÓTh: Má ég taka fram í fyrir þessum hv. þm.? Ég minnti á, að hæstv. ráðh. sagði orðrétt: Hæstv. utanrrh. sagði þetta og sagði hitt.) Já, ég ætlaði að byrja að skýra frá þessu núna og mun nú gera það, jafnvel þó að hv. þm. sé orðinn hálfóstyrkur, eftir að hann er kominn í sæti sitt, og hann veit, að hægt er að upplýsa það sanna.

Ég hef vitanlega ekki látið neitt orð falla um það, að Guðmundur Í. Guðmundsson hafi verið staddur á þessum fundi. Á þessum fundi var eigi að síður utanrrh., Gylfi Þ. Gíslason, mættur, sem lýsti þar afstöðu utanrrh. og sagði þar mjög greinilega, — og efast ég ekkert um, að hann er reiðubúinn hér að staðfesta það, sem Guðmundur Í. Guðmundsson hefur líka látið uppi æ ofan í æ, — að afstaða utanrrh. væri sú, að öllu skipti í þessu máli að fá samstöðu flokkanna um afgreiðslu málsins.

Þetta var upplýst á þessum fundi, eins og ég sagði, sem skoðun utanrrh., og hv. þm. G-K. þarf ekki að halda, að hann sleppi fram hjá þessum sannindum með því að hrópa eitthvað út um það, að utanrrh. hafi ekki verið staddur á þessum fundi. Skoðanir utanrrh. lágu því alveg skýrt fyrir og voru undirstrikaðar á þessum fundi af þeim ráðh., sem fór með utanríkismálin.

En hitt er líka jafnaugljóst mál af því, sem nú hefur komið fram í þessum umræðum, að þegar þessir tveir þingmenn Sjálfstfl. voru kallaðir til viðtals við ríkisstj. og spurðir þessarar ákveðnu spurningar, sem hér hefur verið minnzt á, um framkvæmdartímann, þá var þetta mál á umræðugrundvelli. Þeir voru upplýstir um það, að misjafnar skoðanir væru uppi um það, hvaða tími væri heppilegastur. Þannig er þessu í rauninni alltaf farið, þegar er verið að ræða um það, hvernig hentugast sé að standa að framgangi eins máls. Málið lá alls ekki þann veg fyrir sem form. Sjálfstfl, vill vera láta, að einn ráðherrann hafi sagt: Það skal ekki verða gert, ég fellst aldrei á það. — Þetta var undirstrikað á fundinum og í bréfi ríkisstj. til Sjálfstfl., að málið lá ekki þannig fyrir, heldur aðeins sagt hreinlega frá því, að bæði ráðunautar ríkisstj. og einstakir ráðherrar höfðu talið einn tíma heppilegri en annan og aðrir höfðu aftur álitið annan tíma heppilegri. En svo er nú ekki að spyrja að ráðleggingum hv. þm, G-K. í þessum efnum, þegar hann lýsir því, að hann hefði haft það þannig, að ef hann hefði haft valdið til þess að ákveða, hvað ætti að gera í málinu, þá hefði hann knúið það fram og sagt, að sá ráðherra í ríkisstj., sem ekki vildi fallast á það, það yrði þá að biðja um lausn fyrir hann og hann yrði að víkja. Þannig hugsar hann sér að vinna að því að fá samkomulag á milli flokka um framkvæmd á jafnmikilsverðu máli og því, sem hér er rætt um. Mín leið aftur var hin — og okkar í ríkisstj., að segja alveg hreinlega til um það, hvað við álitum að væri heppilegast hver um sig, og óskuðum eftir því við fjórða flokkinn, hvort hann vildi ekki segja um sitt álit, því að við teldum, að það skipti öllu máli að fá samstöðu. En Sjálfstfl. kaus þá leið að segja ekki neitt, að færast alveg undan.

En í þessu efni væri nógu gaman að mega spyrja um það nú í dag og vænta þess, að form. Sjálfstfl. vilji gefa um það svar nú: Hver er afstaða Sjálfstfl. nú í dag til þessa máls? Vill hann, að við færum út landhelgislínuna nú strax? Vill hann svara? Ég vænti þess, að það komi alveg skýrt fram, hvort afstaða Sjálfstfl. er sú, að rétt sé að standa að framkvæmdum nú þegar, eða hvort hann heldur því fram, að það sé rétt að bíða fram yfir þann landhelgismálafund, sem nú á að fara að hefjast, þó að það hljóti eðlilega að skjóta málinu nokkuð á frest. Ja, það er gaman að heyra það, hver er afstaða flokksins. Vill hann enn þá fara í þrætur um það, hvort það sé búið að ákveða eitthvað eða ekki; eða vill hann segja, hver er afstaða flokksins?

Túlkanir hv. þm, G-K, um það, hvernig þessi mál hafi gengið fyrir sig í ríkisstj. á þeim tíma, sem hann hafði engar upplýsingar um það, eru auðvitað alveg út í hött. Utanrrh. hefur aldrei sagt neitt um það í ríkisstj., að hann segði nei við því, að ný útfærslulína yrði ákveðin. Hann gerði sér ljóst, að það var ekki á hans valdi að segja neitt slíkt, og ég hef gert mér það ljóst allan tímann, að ég hefði getað gefið út reglugerð án þess að spyrja hann eða aðra um það, sem þýddi stækkun á landhelginni. En hann hafði aðeins látið uppi sína skoðun eins og þeir ráðunautar, sem unnu með stjórninni að þessu máli, hvað hann teldi heppilegast, og ég hafði látið uppi mína skoðun, en skýrt hins vegar frá því, að ég vildi ná samkomulagi við alla flokkana. En þegar mér varð líka ljóst, að afstaða Sjálfstfl, var raunverulega sú, að hann vildi ekki á neinn hátt leggja því lið að standa að útfærslunni fyrr, hann vildi gjarnan bíða fram yfir landhelgismálaráðstefnuna, þá freistaði ég þess að ná samkomulagi á þeim grundvelli og standa þannig að málinu, þó að það þýddi nokkurn drátt. En maður gæti haldið, að einnig á móti því ætlaði Sjálfstfl. að snúast, þegar honum þykir það henta, Og svo kemur þetta venjulega: Af hverju guggnaði ráðherrann, af hverju guggnaði atvmrh.? Af hverju fór hann ekki sínu fram, jafnvel þótt hann ætti það á hættu að fá stjórnarandstöðuna og fleiri aðila í landinu til þess að gagnrýna þann tíma, sem valinn yrði?

Nei, það er eins og hver annar áróður frá hv. þm., að mín afstaða hafi eitthvað breytzt í þessu máli frá því, sem var, áður en ég tók við ráðherrastörfum. Mín skoðun var sú þá, að við þyrftum ekki að bíða, eins og gert var, eftir erlendum ráðstefnum varðandi þessi mál, og það er mín skoðun enn, að við hefðum að eðlilegum hætti getað staðið að útfærslunni miklu fyrr, en raun hefur orðið á. En nú ætla ég, að það megi telja alveg tryggt, að það geti ekki leikið á mörgum mánuðum, þangað til útfærslan verður ákveðin. Og verði það á þann hátt, sem ég vona, þrátt fyrir þann gust, sem nú er frá forustuliði Sjálfstfl. í þessu máli, að Sjálfstfl. sem heild muni einnig standa að málinu þá, þá skiptir það vitanlega höfuðmáli að fá fullkomna þjóðareiningu um það, sem gert er, þegar útfærslan verður endanlega ákveðin.

Ég hygg nú, að þessar umræður hafi leitt það í ljós miklu betur en áður, hvernig málið hefur gengið hér á milli flokka. En þó að freistandi væri á ýmsan hátt að lýsa hér miklu frekar ýmsu því, sem fram hefur komið í þessu máli og varðandi undirbúning þess, þá mun ég ekki gera það, því að á meðan málið er á því stigi, sem það er nú, og verður farið að taka það upp á alþjóðaráðstefnu innan nokkurra daga, þá tel ég ekki hagkvæmt fyrir málið, að það sé farið að ræða það í einstökum atriðum. En afstaða manna og flokka til þess, hversu fljótt ætti að vinna að málinu, hefur nú komið alveg greinilega fram.