20.02.1958
Neðri deild: 54. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1887 í B-deild Alþingistíðinda. (3024)

Landhelgismálið

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst vekja athygli á því, að hæstv. menntmrh. hefur ekki svarað þeirri fsp., sem ég bar hér fram til hans, og skoða ég það svo, að hann fallist á, að ég hafi sagt rétt frá skiptum okkar út af handritamálinu, og ég kannast ekki við, að hæstv. ríkisstj. hafi í nokkrum öðrum málum, en þessum tveimur leitað samráðs við sjálfstæðismenn um meðferð utanríkismála, og eru því dylgjur hv. 5. landsk. um annað þar með afsannaðar, þær er hann bar fram í sunnudagsblaði Alþýðublaðsins.

Annars verð ég að segja það, að ég fæ aukið álit á hyggindum og ef svo má segja: herkænsku hv. þm. við að hlusta á þessar umr., því að ég sé, að hann hefur auðsjáanlega tekið málið upp í þeirri vissu vitund, að leikar mundu fara eins og raun hefur orðið á hér í þinginu í dag, að hið sanna samhengi málsins mundi koma í ljós. Hann hefur sem stuðningsmaður hæstv. sjútvmrh. ekki viljað gera á hann beina árás, þó að Þjóðviljinn geri beina árás á hæstv. utanrrh., en heldur þannig á málinu, að það var óhjákvæmilegt, að við sjálfstæðismenn rækjum málið og sýndum fram á, hvernig í því liggur, og þar með stendur hæstv. sjútvmrh. rétt enn einu sinni afhjúpaður sem sá maður sem hann er. Þetta sá hv. þm. auðvitað fyrir og hefur náð þeim tilgangi.

Hæstv. sjútvmrh, sagði, að það væri ekki vinningur fyrir stjórnarandstöðuna að hreyfa því, að ekkert hefði verið aðhafzt í þessu máli fyrr en nú, það væri eðlilegt, að um það hefði verið ágreiningur, og í raun og veru ekkert um það að segja. Ég skal ekki segja, hvað kann að vera um stjórnarandstöðuna og hennar ávinning. En það er víst, að hans eigin flokkur og hans eigið málgagn hefur talið sér ávinning að því að ráðast á ríkisstj. í heild og sérstaklega hæstv. utanrrh. fyrir hans hlut að þessu máli. Ég skal aðeins því til sönnunar vitna í þrjú gögn af óteljandi.

Það er föstudaginn 3. jan. Þá er tekin fram í sérstakri rammagrein í Þjóðviljanum athyglisverð yfirlýsing forsrh.: „Tekin ákvörðun um stækkun landhelginnar innan stundar.“ Það er vitnað í orð Hermanns Jónassonar á gamlárskvöld um þetta, og síðan segir:

„Eins og Þjóðviljinn hefur áður skýrt frá, hefur Lúðvík Jósefsson sjútvmrh. fyrir löngu gengið frá ýtarlegum till. um stækkun landhelginnar, en þær hafa allt til þessa ekki fengizt afgreiddar innan ríkisstj. Er ánægjuefni, að forsrh. skuli nú lýsa yfir því, að komið sé að því, að teknar verði ákvarðanir.“

Þarna er sagt, að ríkisstj. sé svo slöpp í sínum störfum, að svo mikilsvert mál sem landhelgismálið hafi ekki einu sinni fengizt afgreitt innan ríkisstj. þrátt fyrir ýtarlegar till. hæstv. sjútvmrh. Nú upplýsir að vísu ráðherrann, að hann einn hefur ákvörðunarvaldið í málinu, og hann segir meira að segja, að hæstv. utanrrh. hafi alls ekki verið á móti því, að þetta væri gert þegar í haust. Ja, á hverju hefur þá strandað? Er það bara afgreiðsluleysi hæstv. ríkisstj., dugleysi hæstv. forsrh. að halda fund um málið, sem gerir það að verkum, að ekkert hefur verið gert?

Þá er þess að geta, að þegar Þjóðviljinn var að velta fyrir sér, hvernig stæði á hinum mikla ósigri stjórnarflokkanna í bæjarstjórnarkosningunum, þá segir þar hinn 29. jan. s. l., að það sé engu lagi líkt, að stjórnarandstæðingar, svo kemur orðrétt: „skuli fá aðstöðu til þess að drótta því að stjórninni, að hún efni ekki fyrirheit sín í landhelgismálinu“, Þetta eru orð málgagns hæstv. sjútvmrh. Þetta er ekki ásökun okkar sjálfstæðismanna, heldur það, sem málgagn sjútvmrh. segir sem eina af höfuðskýringum á þeirri fordæmingu, sem ríkisstj. hefur nú fengið hjá kjósendum. Og loksins s. l. sunnudag segir enn í forustugrein, sem heitir: „Íhaldinu gefin vopn“ — að það sé óafsakanlegt, að stjórnarandstæðingar skuli „hafa fengið aðstöðu til þess að gagnrýna núv. stjórn fyrir það, að of lengi dragist að stækka landhelgina, vegna andstöðu Guðmundar Í. Guðmundssonar við málið innan ríkisstj.

Þetta eru orðrétt ummæli málgagns hæstv. sjútvmrh. Hver er það, sem hér er með sakir á hæstv. ríkisstj.? Hver er það, sem hér ber hæstv. utanrrh. brigzlyrðum, en hefur svo heilindi til þess að koma hingað upp og segja, að utanrrh. hafi aldrei verið á móti þessu, þetta hafi allt verið álitamál, í raun og veru sé allt í lagi að gera ekki neitt? Ja, dómur hans eigin málgagns er nokkur annar. Hæstv. sjútvmrh. hefur enn þá einu sinni verið staðinn að því að tala með takmörkuðu umboði, að halda alveg þveröfugu fram eftir því, hvar hann er staddur. Af hinu öfunda ég svo ekki vesalings hæstv. utanrrh., að fara með þennan fylgisvein suður til Genfar og eiga undir heilindum hans þar, hvernig til tekst um réttargæzlu fyrir hönd Íslands.

Það er í sjálfu sér ekki ástæða til þess að segja meira um þetta mál. Hæstv. sjútvmrh. segir: Ja, hver er tillaga sjálfstæðismanna? Hæstv. ráðh. hefur sjálfur staðið fyrir því hér í vetur, að hindrað hefur verið, að till. hv. þm. Borgf., Péturs Ottesens, um þetta mál kæmi á dagskrá. Hann hefur sjálfur staðið fyrir því. Það er vegna þess, að hann hefur ekki viljað, að almennar umræður væru teknar upp um málið. Hann hefur viljað hafa áfram færi til þess að skjóta að félögum sínum úr skúmaskotunum, eins og honum er lagnast, og svo jafnframt að dreifa því út um landið, að málið hafi strandað á sjálfstæðismönnum, þegar það er hans eigið ákvörðunarleysi, sem veldur því, að drátturinn hefur orðið. Og ég legg enn áherzlu á það, að við sjálfstæðismenn gerumst ekki upphafsmenn þessara umræðna nú, heldur er það málgagn hæstv. sjútvmrh., sem knýr það fram, að gert sé hreint fyrir dyrum í þessu efni og í ljós komi, hver afstaða hvers og eins hefur verið.

En það verður að spyrja hæstv. ráðh.: Ef hann og úr því að hann hefur fallist á að bíða eftir þessari ráðstefnu, ætlar hann þá að haga ákvörðunum sínum að einhverju leyti eftir því, sem fram kemur á ráðstefnunni, eða er hann búinn fyrir fram að ákveða að ráðast í framkvæmdir, hvað sem gert verður á ráðstefnunni, og sérstaklega að ráðast í framkvæmdir, ef ráðstefnan gefur ekki þá lausn, sem við Íslendingar teljum aðgengilega? Og ef hann er, ráðinn í því að fara sínu fram, hvað sem ráðstefnunni líður, hvaða ástæða hefur þá verið til þess af hans hálfu að bíða eftir ráðstefnunni? En nú kemur á daginn, að gagnstætt því, sem Þjóðviljinn fullyrti í sínu fyrsta janúarblaði, og gagnstætt því, sem ráðherrann fullyrti í bréfaskriftum sínum við okkur sjálfstæðismenn í haust, þá er efnislega alls ekki búið að ákveða, hvað eigi að gera í málinu, því að nú fyrst á að fara að skipa nefndina til þess að komast að niðurstöðu um það, og í þeirri nefnd eigum við sjálfstæðismenn fulltrúa, sem áreiðanlega verður maður til þess að gera þar grein fyrir afstöðu sinni og okkar sjálfstæðismanna, og þarf ekki frekar um það að ræða.

Loksins get ég ekki komizt hjá því að minnast á hinn kátlega kattarþvott hæstv. ráðh., þegar hann var að reyna að skjóta sér undan ósannindunum, sem hann hafði eftir hæstv. utanrrh. á fundi, þar sem hann hafði alls ekki komið, og sagði, að það hefði verið utanrrh., Gylfi Þ. Gíslason, sem talaði á fundinum. En undir hvaða titli gekk þá Guðmundur Í. Guðmundsson? Og var hann ekki einmitt annars staðar við að gegna utanríkisráðherraembætti sínu?