20.02.1958
Neðri deild: 54. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1889 í B-deild Alþingistíðinda. (3026)

Landhelgismálið

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Herra forseti. Ég hef ekki blandað mér í þessar umr., enda geri ég því miður ráð fyrir, að þær verði því máli, sem verið er að ræða um, til lítils gagns, og kunni það að eiga eftir að koma fram, þó að maður vilji vona hið gagnstæða. En vegna þess að hv. 1. þm. Reykv. (BBen) minntist á störf mín í þessu sambandi viðkomandi þessu máli, vildi ég segja um það örfá orð, en blanda mér þó sem allra minnst inn í þær deilur, sem hér hafa átt sér stað.

Ég lýsti því yfir í ávarpi, sem ég flutti um áramótin, að ákvörðun yrði tekin um útfærslu landhelgislínunnar innan stundar. Það var byggt á því, að málið hafði verið afgreitt í ríkisstj. eftir ýtarlegar umræður þar. Þess vegna er því atriði fullsvarað, og skal ég ekki ræða um það frekar.

En það, sem mig undrar í þessum umr., er annað. Það er gert mikið úr því, að í landhelgismálinu hafi menn lýst mismunandi skoðunum, þegar það var á umræðugrundvelli. Ég býst við, að við minnumst þess báðir, hv. þm. G-K. (ÓTh) og ég, að þegar mál er á umræðugrundvelli í ríkisstjórn, sem er samsett af fleiri, en einum flokki eða studd af fleiri en einum flokki, þá er það ekkert annað en hið algenga, að ráðherrar lýsa skoðunum sínum á fyrsta stigi málsins, þegar það er rætt, og ég vil minna hv. þm. G-K. á það, að þegar ég sat með honum í ríkisstj., þá var það orðtak hans: Þetta er skoðun mín á málinu, en ég áskil mér rétt til að skipta um skoðun, eftir að umræðurnar hafa farið fram. — Hann vitanlega gerir sér það ljóst, þegar hann er í ríkisstj., að hann getur ekki einn haft skoðanir, sem öllu ráða, og þannig er með alla ráðherra. Ég skal ábyrgjast, að þær skipta tugum, þessar yfirlýsingar. Þess vegna er það alveg furðulegt, þegar mál er á umræðugrundvelli, að menn skuli undrast, að það komi fram mismunandi skoðanir. Og ég ætla nú — án þess að fara að rekja það nánar — að minna á það stærsta mál, sem hefur verið afgreitt hér á Alþingi, okkar sjálfstæðismál. Ég býst við, að hv. þm. G-K. minnist þess, að ríkisstj. hafði jafnvel tekið ákvörðun um tíma í málinu, hvenær það skyldi afgreitt, og að við gengum þá tveir millj. stjórnarandstöðunnar og þeirra flokka, sem voru í ríkisstj., til þess að koma okkur saman um tíma. Er þetta ekki rétt? Menn settu fram þar skoðanir sínar, og datt engum í hug að telja það ákvarðanir. Það var samið hér í þinghúsinu og reynt að koma sér niður á sameiginlegan tíma, og það tókst. Þannig er þetta í þeim stærstu og minnstu málum. Það þarf að leita að sameiginlegum skoðunum, eftir að menn hafa lýst afgreiðslu, sem þeir helzt kjósa að hafa á málinu.

Ég ætla ekki að fara að lýsa hér heldur landhelgismálinu, þegar það var afgr. á sínum tíma, en ég býst við, að hv. þm. G-K. muni eftir því, að það var gert eftir ýtarlegar umr., þar sem komu fram margar skoðanir á sumum atriðum. En við reyndum að rannsaka okkar eigin skoðanir, hvað væri heppilegast fyrir niðurstöðu málsins, leita álits sérfræðinga, og tókum síðan ákvörðun eftir vandlega athugað mál.

Þess vegna er það, að deilur á einn ráðh., sem fer með stórmál, að hann taki ekki af skarið, eru ekki á rökum reistar. Og ég get vel úr flokki talað, því að ég minnist þess, að á frambjóðendafundi í Strandasýslu kom fram á Drangsnesi ákafleg óánægja út af því, að ekki væri búið að breyta línunni í Húnaflóa, sem ekki er óeðlilegt, og við höfum oft rætt um, hvort væri hægt að lagfæra hana, og var m. a. rætt um það í sambandi við landhelgismálið á sínum tíma. Ég náttúrlega hefði kosið það, en sá, að það var ekki eðlilegt, eftir að málið var rætt, að fara að breyta því, sem hafði verið gert, að mig minnir 1952. Það kom fram ákaflega hörð ádeila þá á hv. þm. G-K. sem ráðh. í þessum málum, að hann gerði ekki neitt. Og mér datt vitanlega ekki í hug, — og er það nú ekki venjulegt, satt að segja — annað en að verja málstað ráðh. (ÓTh: Gerirðu það ekki venjulega?) Nei, ég verð nú að vera svo hreinskilinn, að ég geri það ákaflega sjaldan, vegna þess að það er svo erfitt að gera það.

Þetta var auðvitað vegna þess, sem ég skýrði þar á fundinum, að það þarf að hafa samráð um það, hvenær þetta er gert, og einn maður getur ekki tekið ákvörðun um það. Það er það sanna um þetta mál, um landhelgismálið, og það getur hv. stjórnarandstaða ekki vefengt, það er alls ekki sæmandi. Þegar við köllum þá á fund til þess að fá samvinnu um málið, þá kemur það greinilega fram, að málið er á umræðugrundvelli, þar sem menn hafa lýst sínum skoðunum, og þeim er lýst fyrir þeim mönnum, sem við viljum hafa samráð og samstarf við. Þetta er höfuðatriði málsins. Það var á þeim umræðugrundvelli, sem tugir mála eru á fyrsta stigi, þegar menn hafa lýst skoðunum sínum, og síðan er reynt að ná samkomulagi, og það var það, sem við reyndum í þessu tilfelli við Sjálfstfl.

En hv. stjórnarandstaða segir: Sjútvmrh. var búinn að lýsa skoðun sinni á málinu, utanrrh. var búinn að lýsa skoðun sinni, og skoðun sjútvmrh., sem hann hafði lýst, tafði ákvörðun. — Hvers vegna ekki eins skoðun hins ráðh.? Því er beinlínis lýst, að þarna séu mismunandi skoðanir, og við vitum það, að þær hafa verið bæði utan þings og innan, í ríkisstj. og utan ríkisstj. Það, sem er mergurinn málsins, er þetta, og það kom greinilega fram í ræðu hv. 1. þm. Reykv., því að hann sagði: Það, sem stjórnin ætlaði að gera, var að draga okkur inn í ábyrgð og láta okkur lýsa því yfir, hver væri skoðun Sjálfstfl. í málinu — og bætti svo við: eftir að þeir höfðu tekið ákvörðun, — sem ekki var rétt. Þeir bera þetta fyrir sig, að það hafi verið tekin ákvörðun, til þess að geta sagt, að þeir taki ekki afstöðu til málsins, sem við báðum þá um til samstarfs, og til þess að hafa frjálsar hendur og geta eftir á ráðizt á ríkisstj. fyrir þá afstöðu, sem hún tekur, hver sem skoðun þeirra er í málinu. Og þið takið eftir því, sem er eitt af því undarlegasta fyrirbrigði, sem hefur komið fram í umr. um stórmál, að sjálfstæðismenn, — það heyra allir í þessari hv. þingdeild, sem hlusta hér á mál manna, — þeir forðast að nefna það einu orði, hver sé skoðun þeirra í málinu. Ef þeir eru þeirrar skoðunar, að það hafi verið rangt að taka þá ákvörðun að láta þetta bíða, þangað til landhelgismálaráðstefnunni er lokið, hvers vegna þá ekki að segja, að það sé rangt og þeir séu annarrar skoðunar, og ráðast á ríkisstj. fyrir það? Nei, þeir gera það ekki, þeir lýsa ekki skoðun sinni. Þeir vita ekki enn þá, hvernig landhelgismálið kann að fara, og ætla að hafa frjálsar hendur til þess að geta ráðizt á ríkisstj., ef ekki tekst allt saman eins vel og við óskum. Það er þessi þokkalega afstaða. En ef þeir eru þeirrar skoðunar, að átt hefði að gera það, áður en landhelgismálaráðstefnan er haldin, hvers vegna ekki að lýsa því og segja: Það var rangt að bíða?

Það er vitanlegt, að ríkisstj. hafði lýst því, að málið væri á umræðugrundvelli, og eftir það hefur Sjálfstfl. ekkert leyfi til að lýsa því yfir, að það sé ekki á umræðugrundvelli. Við lýstum því yfir á fundinum, og það er ekkert annað en útúrsnúningur í þessum bréfum til þess að þurfa ekki að taka afstöðu. Þetta er punkturinn í málinu. Það er vitanlega þakkarvert að vilja núna taka ákvörðun með okkur um það, hvernig hagað verði stækkun landhelginnar, og ég lýsi ánægju minni yfir því. En það hefði verið ánægjulegra, ef þeir hefðu viljað taka þátt í rökræðum um þetta mál á þeim fundi, sem haldinn var, eða á fundum, sem halda mátti eftir þann fund, og taka afstöðu til þess, hvenær ætti að færa út landhelgina. En til þess liggja þær ástæður, sem eru augljósar fyrir alla, sem hafa hlustað á þessar umr. Ég verð að segja, að það er alveg furðulegt, og hvar er það til í víðri veröld, að stjórnarandstaða hafi enga skoðun á máli eins og þessu? En þetta er það, sem við höfum orðið varir við í þessum umr.