10.02.1958
Neðri deild: 49. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1904 í B-deild Alþingistíðinda. (3033)

Bréfaskipti forsætisráðherra Sovétríkjanna og Íslands

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Herra forseti. Hv. þm. G-K. talaði hér um tvö mál. Hann talaði um bréfið, sem skrifað hefur verið til forsrh. Sovétríkjanna, og um dýrtíðarmálin og að ósamkomulag mundi vera um þau, og hann var ákaflega hneykslaður yfir þessu hörmulega ósamkomulagi, sem hann lýsti að væri til staðar í stjórnarflokkunum um þessi mál.

Áður en ég vík að öðrum ummælum heldur en þessum, ætla ég að leyfa mér að minna hann á, einmitt vegna þess að hann talaði um þessi tvö mál, að meira eymdarástand, meiri fjandskapur, meiri ringulreið hefur aldrei verið, svo að ég viti til, í þessum málum heldur en meðan hann var í ríkisstj, sællar minningar, meðan verið var að eyða nýsköpunarfénu, og er skemmst á það að minnast, að það hefur ekki hingað til komið fyrir í neinni ríkisstj., að það gekk svo langt, án þess að ég ætli að fara að greina ummæli, sem þar fóru á undan, að einn ráðherra úr ríkisstj., núv. hv. þm. Siglf., bar einn fram frv., gaf fyrirskipun um að flytja frv. hér á Alþingi um ríkisábyrgð og lausn dýrtíðarmálanna, sem er raunverulega upphaf alls þess, sem hefur gerzt síðan, ríkisábyrgð, án þess að væri séð fyrir tekjum til þess að borga það, sem borga þurfti. Þannig var samkomulagið í þeim málum, áður en þingnefnd tók svo málið til meðferðar og réð fram úr því á sinn hátt.

Viðkomandi þeim ummælum, sem hann var svo leiður yfir og bar mig svo mikið fyrir brjósti yfir, að þau skyldu hafa birzt í Þjóðviljanum, vii ég spyrja hann um það: Hver réð í utanríkismálum, þegar hann var í þeirri sömu stjórn sem ég minntist á áðan? Var samkomulag um utanríkismálin?

Það er ekkert launungarmál, áður en ég vík að því nánar, að í öllum stjórnum, sem eru samsteypustjórnir, er ósamkomulag meira og minna um mál. Það hefur að sjálfsögðu í öllum stjórnum, sem jafnaðarmenn og Alþýðubandalag hafa verið í, verið ósamkomulag um það, hvernig eigi að reka þjóðarbúið, grundvallarósamkomulag um þjóðnýtingu eða ekki þjóðnýtingu. En það dettur engum í hug í sambræðslustjórnum, að það komi til mála, að minnihlutaflokkar fái að ráða því, að komið verði á þjóðnýtingu á Íslandi, þó að það sé stefna flokka, sem eru í ríkisstj. og eru þar í minni hluta og minni hluta með þjóðinni. Svo er um mörg mál. Slíkar stjórnir hafa setið í mörgum löndum og verið ósamkomulag um ýmislegt, sem minnihlutaflokkarnir hafa orðið að sætta sig við að hreyfa ekki. Þannig mætti nefna stjórnir, sem nú sitja hér í nálægum löndum; og ég vík aftur að utanríkismálunum.

Ég ætla ekki að fara á þessu stigi, þó að raunverulega hafi gefizt nægilegt tilefni til þess, að lýsa samkomulaginu í ríkisstj. Ólafs Thors og milli flokkanna, sem ég horfði á út um þessar dyr, við dyrnar á Sjálfstæðishúsinu. Það er a. m. k., hv. þm. G-K., enn ekki komið svo langt. (Gripið fram í.) Ja, ég veit ekki, hvort má minna hv. þm. á það, þegar hann komst á flótta hér út í gegnum dyrnar og skreið inn í bil við bakdyr á landssímahúsinu. Það var samkomulagið í ríkisstj. þá. Þannig var samkomulagið milli flokksmanna, sem sátu í ríkisstj., og hans.

Það er ekki furða, þó að þessi maður risi hér upp og lesi upp úr blöðum og þykist vera hneykslaður, — hugsið ykkur það, — með þetta samkomulag, sem var hjá honum í dýrtíðarmálunum og utanríkismálunum. Ég veit ekki, hvort það er rétt, að það var þá tekin ákvörðun, að sagt var, í ríkisstj., án þess að sumir ráðherrarnir vissu um það, um þann samning, sem deilan reis um. Ég skal ekki fullyrða það, en það er a. m. k. fullyrt af þeim, sem þar stóðu að. Ég skal ekkert fullyrða um, hvort svo hefur verið. Og það var nýtt mál, sem var verið að taka ákvörðun um. Nei, það er ekki furða, þótt þessi hv. þingmaður reisi sig hér í stólnum út af ósamkomulaginu í ríkisstjórn Hermanns Jónassonar, með þá sögu, sem hann hefur að baki sér.

Viðkomandi utanríkismálunum núna, þá er það auðvitað mál, að um það eru flokkarnir ekki sammála, og um það liggur fyrir greinileg samþykkt frá Alþingi, m. a. liggur hún fyrir frá 28. marz, þegar var farið fram á það af Alþb., að atkvgr. væri skipt, til þess að þeir gætu komið því við að greiða atkvæði gegn nokkrum hluta till. frá 28. marz, þ. e. a. s, um áframhaldandi veru í Atlantshafsbandalaginu og samstarf við Atlantshafsbandalagið. Það er því alveg augljóst, að hér hafa verið uppi þrjár stefnur í utanríkismálum, sem Alþingi hefur greinilega gengið frá eða atkvgr. á Alþingi hefur greinilega sýnt, og það er stefna Sjálfstfl., sem vildi ekki láta herinn fara, þó að friðarhorfurnar hefðu breytzt til batnaðar 28. marz, stefna Framsfl. og Alþfl., sem vilja láta herinn fara, undireins og fært þykir, og stefna Alþb., sem vill láta herinn fara undir öllum kringumstæðum og óskar meira að segja eftir, að við höfum ekki samstarf við Atlantshafsbandalagið, eins og kom fram við þessa atkvgr.

Þetta liggur alveg ljóst fyrir og hefur komið fram hvað eftir annað. Og þegar svarað er bréfi eins og því, sem lá fyrir að svara, lá það í hlutarins eðli, að það þurfti ekki að bera það undir Alþingi eða aðra aðila, sem hefur greinilega verið markað hvað eftir annað af meiri hluta þjóðarinnar og meiri hluta Alþingis. Og ég vil gjarnan fá að heyra það frá hv. þm., hvar það atriði er í bréfinu, þar sem vikið er frá þessum höfuðlínum.

Það hefur verið sagt frá því, að ýmsir aðrir, eins og t. d. Danir, hafi borið þetta undir utanríkismálanefnd. Þar stendur að verulegu leyti öðruvísi á. Þeir eru þar að ræða um alveg nýja stefnu, sem þeir hafa ekki tekið ákvarðanir um áður, hlutlausa beltið eða beltið í miðri Evrópu, sem ekki hafi atómvopn. Það er þess vegna, þegar spurt er um, í hvers nafni sé svarað, þá er svarað í samræmi við þá stefnu, sem Alþingi og þjóðin hefur tekið, og það er það, sem er meginefni bréfsins.

Ég heyrði, að það var á það minnzt, að ég væri meðal þeirra, sem ekki hefðu greitt atkv. með því að ganga í Atlantshafsbandalagið. Það er alveg rétt. Ég vildi láta setja það í samning, að jafnhliða og við gengjum í Atlantshafsbandalagið, settum við það að skilyrði fyrir atkvgr. með því að ganga í Atlantshafsbandalagið, ef ég man rétt, að ákveðið væri, að herinn skyldi fara héðan, hvenær sem við álitum, Íslendingar sjálfir, að svo ætti að vera. Það fékkst ekki tekið upp í neinn sérsamning, var þá ekki talið hægt, og það voru ástæðurnar fyrir því, að ég taldi mér ekki fært að greiða atkvæði með, heldur sat hjá við atkvgr. af þessum ástæðum. En ég vil segja það, að hvernig sem atkvgr. mín hefði verið við inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið og ákvörðun Alþ., þá kemur vitanlega ekki til mála annað, en hver þm. beygi sig fyrir þeim ákvörðunum, sem yfirgnæfandi meiri hl. Alþ. hefur samþ. og er samningur milli þjóða.

Ég og hv. þm. G-K., ef ég man rétt, skrifuðum að gefnu tilefni grein í Nýtt Helgafell vegna fyrirspurnar, sem það gerði til formanna flokkanna um það, hver væri afstaða þeirra flokka til ýmislegs að því er snertir utanríkismálin, og ég svaraði því þannig, — efnislega er það sama og kemur fram í bréfinu og allt efnislega það sama viðvíkjandi Atlantshafsbandalaginu, — að, að sjálfsögðu stæðum við, við okkar samninga, sem við hefðum gert, því að ég áliti, að þjóðinni væri það í blóð borið að halda samninga og hún vildi halda sína samninga, enn fremur álíti ég það hið óskynsamlegasta, sem nokkur smáþjóð gæti gert, að bregðast sínum samningum. Það er vitað mál, að okkar sjálfstæði byggist á því, að samningar og lög séu haldin, og við megum þess vegna auðvitað síðastir verða til þess, enda höfum við ekki tilhneigingu til þess að brjóta samninga. Það væri því sama að mínu áliti, hvernig ég hefði greitt atkv., eftir að samningurinn er gerður, verður að standa við þann samning, sem gerður hefur verið.

Ég get því ekki betur séð en þessi vinnubrögð séu á allan hátt eðlileg, og ég endurtek það, að svarið er í samræmi við þær pólitísku línur, sem hér hafa verið lagðar á Alþ. með yfirgnæfandi meiri hl.

Viðkomandi samkomulaginu við Alþb. um þessi mál hef ég sagt það, sem setja þarf. Það er vitað, að flokkarnir eru ósammála um þau mál, og þar er stefna minnihlutaflokks, sem ekki getur búizt við því að koma sinni stefnu fram frekar, en viðkomandi þjóðnýtingu eða öðru, fyrr en þeir hafa unnið þann meiri hl. með þjóðinni.