10.02.1958
Neðri deild: 49. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1907 í B-deild Alþingistíðinda. (3034)

Bréfaskipti forsætisráðherra Sovétríkjanna og Íslands

Ólafur Thors:

Út af ræðu hæstv. forsrh. dettur mér í hug: „Vreiður vas þá Vingþór, es hann vaknaði, ok síns hamars of saknaði.“ Ég held, að þessi „sterki maður“ hafi fundið, að hann hefur stundum getað barið fastara, en hann gerði að þessu sinni. Hann hefur týnt hamrinum einhvers staðar. Vesælari vörn held ég að hafi ekki verið færð fyrir allsterkri árás, en hann gerði núna. Getur þó verið, að hann bæti úr þessu, þegar hann kemur aftur í ræðustólinn, því að hann hóf mál sitt með því, að hann ætlaði að svara tvíþættri gagnrýni minni, annars vegar varðandi utanríkismálin og hins vegar varðandi efnahagsmálin. Það var ekki mikil ástæða til að fara að svara miklu varðandi efnahagsmálin, enda gleymdi hæstv. forsrh, því alveg. „Þetta var annars ágæt vísa, einkum seinni parturinn“, þ. e. a. s. það, sem hann gleymdi.

Hæstv. ráðh. var að minna mig á, að það hefði aldrei verið önnur eins og eymd og sundurþykkja í neinni stjórn eins og nýsköpunarstjórninni. Ég hef átt sæti í nokkrum stjórnum með honum og okkur komið mætavel saman oft og einatt, enda hæstv. forsrh. sízt alls varnað. En aldrei hefur samkomulagið verið eins ánægjulegt í neinni ríkisstjórn, sem ég hef verið í, eins og í nýsköpunarstjórninni, enda hefur það heldur skyggt á ástir t. d. hæstv. fjmrh. og mín, öfund hans og afbrýðissemi í garð kommúnista út af því, hvað mér þó var vel við þá, meðan ég var að vinna með þeim. Hitt er svo annað mál, að síðan sú stjórn sat að völdum, hafa allir heimsatburðir og öll aðstaðan út á við gerbreytzt. Ég vann með ánægju með þessum mönnum, sem ég ber hlýjan hug til eins og flestra annarra manna, sem ég hef þurft að vinna með hér á Alþ., og þá var afstaðan í veröldinni sú, að forustumenn lýðræðisþjóða töldu vonir liggja til, að hægt væri að starfa með þeim eins og öðrum flokkum. Þær vonir hafa mjög dofnað og voru víst taldar kulnaðar, þegar hæstv, forsrh. fann eldinn í hjarta sínu og hlýjuna frá kommúnistum og situr nú við arininn og þylur sínar vísur með þeim.

Hæstv. ráðh. minntist á það, að svo bölvuð hefði samvinnan verið, að jafnvel einn núverandi þm., sem þá var ráðh., hefði borið fram frv. einn. Ég veit ekki betur, en að þess séu nokkuð mörg dæmi, að ráðherrar beri fram sín frv., ef þeir vilja, einir. Ég er auk þess ekki viss um nema þáverandi atvmrh. hæstv. hafi haft einhver samráð um það, það getur legið á milli hluta, svo að við ekki drögum um of athyglina frá því, sem hér er verið að ræða um.

Hæstv. forsrh. hugðist mundu knésetja mig með því að spyrja, hvort ég myndi ekki eftir því, að það hefði verið ósamkomulag í ríkisstj. um utanríkismálin. Jú, ég man sannarlega eftir því, að því meira sem leið á starfstíma nýsköpunarstjórnarinnar, því meira varð þess vart, að kommúnistar vildu hafa hönd í bagga með utanríkismálunum, og ég skildi vel, að eins og komið var í veröldinni, var ekki hægt að sameina eld og ís, og þess vegna klofnaði ríkisstj. Hún klofnaði einmitt þess vegna.

Nú er alveg það sama, sem fyrir liggur, og við erum að ræða hér í dag. Blað hæstv. utanrrh. segir frá því og segir áreiðanlega satt, að kommúnistar vegna setu sinnar í ríkisstj. séu ábyrgir fyrir orðum hæstv. forsrh. Sjálfur lýsir forsrh. því yfir, að utanrrh. og hans málgagn séu ósannindamenn hvað þetta áhrærir.

En hvað sem öðru líður, er greinilegt, að í þessum stóru málum ríkir fullkomið ósamkomulag innan stjórnarinnar og svo mikið siðleysi, svo að ég noti nú orðin, sem blað stærsta stjórnarflokksins notar um hæstv. forsrh., — svo mikið siðleysi, að fyrir opnum tjöldum koma þessir menn og lýsa hver annan ósannindamann. Ég sannaði það í minni fyrri ræðu með orðréttum tilvitnunum, eins og ég sannaði, að það er rétt, sem utanrrh. segir, að hæstv. forsrh. talar í nafni kommúnistanna. Meðan þeir eru geirnegldir við ráðherrastólana, þá eru þeir líka geirnegldir á svör forsrh. í þessum efnum. Þetta er óumdeilanlegt. Og ég vil gjarnan, að hæstv, forsrh. skýri frá því hér að viðstöddum hæstv. utanrrh., hvort utanrrh. og blað hans segja það beinlínis ósatt, eins og hæstv. forsrh. var að lýsa yfir, sem ég áðan las upp úr leiðara blaðsins í gær, — beinlínis ósatt, að forsrh. tali fyrir hönd ríkisstj. allrar. En um það segir Alþbl. í gær, með leyfi hæstv. forseta:

„Þjóðviljinn virðist ekki vera alls kostar ánægður með svarbréf Hermanns og lýsir yfir, að bréfið hafi ekki verið borið undir ríkisstj. alla og lýsi því aðeins einkaskoðunum forsrh. Þetta er furðulegt, því að bréfið byggist efnislega á þeirri stefnu í utanríkismálum, sem ráðherrar Alþb. undirrituðu í stjórnarsamningnum og fylgt hefur verið síðan. Stjórnarsamningurinn, sem Lúðvík Jósefsson og Hannibal Valdimarsson undirrituðu, er sannarlega ekki einkaskoðun forsrh.

Er þetta satt, eða er það ósatt? Er utanrrh. og hans blað ómerkilegir ósannindamenn, eða er hæstv. forsrh. að reyna að hlífa kommúnistum, jafnvel þó að hann gangi á sannleikann og virðingu og mannorð síns utanrrh.? Þetta viljum við gjarnan vita, og það dugir ekkert slúður um fortíðina til þess að skyggja á þessa staðreynd, sem blasir við mönnum og menn vilja fá beinar skýringar á.

Hæstv. ráðh. sagði, að það, sem einu sinni hefði verið borið undir Alþingi, það stæði. Skoðanaskipti þekkti hann ekki, hvorki þingflokka né þingmanna. Þetta segir maðurinn, sem var mestur fjandmaður þess, að við gengjum í Atlantshafsbandalagið, þó að nú sé hann að reyna að fela sig á bak við það, að andstaða hans hafi eingöngu stafað af því, að hann hafi viljað láta það verða ljóst, að herinn færi úr landinu, þegar Íslendingar óskuðu,

Ég veit ekki, hvort hæstv. forsrh. ræður yfirleitt nokkrum sköpuðum hlut núna. Það getur vel verið, að hann sætti sig við að heita forsrh. og ráði engu. En ég man, að í þá daga réð hann talsverðu og var þó ekki í ráðherrastól, og a. m. k. réð hann svo litlum hlut sem þeim, að ef þetta hefði staðið á milli, þá gat hann margfaldlega með því að lyfta litla puttanum ráðið. Hann þurfti ekki annað en að segja: Vinir mínir, ég hætti minni andstöðu, ef þið viljið ganga inn á þessa kommubreytingu, ef nokkurn tíma nokkra kommubreytingu þurfti til þess. — Svona ódýru verði kaupa menn sig ekki frá leiðinlegri fortíð í svona mikilsvarðandi efnum, enda sagði hæstv. ráðh.: „Ef ég man rétt, þá var það um þetta.“ Það skyldi nú aldrei vera, að hann myndi ekki rétt?

Ég er að sönnu ekki ánægður með þau svör, sem hæstv. ráðh. hefur gefið, af því að þau eru engin svör. Það eina, sem kannske sættir mig við þau, er það, að jafnvanur rökræðumaður eins og hæstv. forsrh, hefur ekki annað fram að bera. en þetta. Það sýnir, hversu herfilega aumur hans málstaður er. En þó langar mig nú til að biðja hann, ef hann vildi gera það af gamalli persónulegri vináttu til mín, að segja mér, hvor það er, sem segir ósatt, hæstv. utanrrh. og hans blað eða hæstv. forsrh., sem segir, að ekkert sé að marka það, sem hæstv. utanrrh. og blað hans segir.