10.02.1958
Neðri deild: 49. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1909 í B-deild Alþingistíðinda. (3035)

Bréfaskipti forsætisráðherra Sovétríkjanna og Íslands

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Það er nú ekki ýkja margt, sem ég þarf að minnast á, en hv. þm. sagði, að það hefði verið álitið á þeim tíma, sem hv. þm. vann með kommúnistum, 1944–46, að þá væru þeir að breyta þannig um stefnu, að það væri eðlilegt, en svo hefði það komið í ljós í utanríkispólitíkinni, að þetta hefði ekki verið hægt, — þá átti hann við ósamkomulagið, sem ég var að lýsa lítils háttar og skal ekki endurtaka. En þetta kemur nú ekki alveg heim við staðreyndirnar, því að um haustið, eftir ósamkomulagið við Sjálfstæðishúsið, þá er það nú upplýst mál, að hv. þm. G-K. gekk eftir kommúnistum að koma þá aftur í ríkisstj. og reyndi að koma stjórninni saman að nýju og gerði þá meira að segja tilboð hæstv. núverandi forseta hér í þessari hv. d., sem ekki hafa verið gerð honum sennilega betri, til þess að fá hann í samstarf aftur. Og það er vitað mál, að þegar er verið að tala um þetta samstarf millj flokka, þá er viljinn öðruvísi og hefur komið öðruvísi fram á bak við tjöldin heldur en talið er, án þess að ég fari að teygja umr. út á þann breiða grundvöll.

Hann svaraði ekki verulega þeirri fullyrðingu minni, að það væri eðlilegt, að hver og einn, hvernig sem hann hefði greitt atkvæði um samninga milli ríkja, stæði að þeim samningum á eftir. Ég man nú ekki betur, og ég hygg, að við séum báðir það fróðir, hv. þm. G-K. og ég, að radikalir í Danmörku — mig misminnir það áreiðanlega ekki — voru á móti því að ganga í Atlantshafsbandalagið. En þeir starfa vitanlega, eftir að gengið hefur verið í Atlantshafsbandalagið, með núverandi stjórn að því að vinna áframhaldandi að því samstarfi af þeirri einföldu ástæðu, að það er samningur milli ríkja, alveg eins og samningur okkar, og þeir standa þess vegna að því.

Ég óskaði eftir því áðan, að það kæmi fram, ef því væri til að dreifa, hvar vikið væri frá þeirri stefnu, sem mikill meiri hl. Alþingis með þjóðina að baki sér hefur tekið í utanríkismálum, og ég hef ekki heyrt bent á það atriði enn.

Viðkomandi því, að samstarfsflokkar beri ábyrgð á því, sem gert er í einni ríkisstj. af einum ráðh., þá vitum við ósköp vel, hver sú venja hefur verið á Íslandi. Vegna þess að flokkar, sem eru ósammála um mál, eru oft saman í ríkisstj., þá hefur það verið þannig og er þannig og verður áreiðanlega þannig með aðrar sambræðslustjórnir, að flokkarnir ganga til samstarfs við þá flokka, sem þeir telja að þeir komist lengst með að framfylgja sínum áhugamálum, þó að þeir verði að leggja önnur stefnumál til hliðar, eins og ég benti á áðan að tíðkast bæði hér og annars staðar.

Að sjálfsögðu gerir Alþb. sér ljóst, þegar það gengur í ríkisstj., að það verður fylgt þeim ákvörðunum, sem teknar voru 28. marz, með þeim skýringum á breyttu ástandi, sem þeir flokkar, sem fyrst og fremst stóðu að þessari samþykkt, telja að séu til staðar. En ég geri ráð fyrir, að það sé gert með það fyrir augum, að þeir telja, að þó að þeir slitu samstarfi um mörg mál, sem þeir geta komið fram í ríkisstj., þá mundu þeir ekki fá samstarf um utanríkismálin, sem þeim væri frekar að geði, við aðra flokka og þeim mundi ekki verða stjórnað frekar þeim að geði, þó að aðrir flokkar tækju við.

Meira held ég að það hafi ekki verið, sem kom fram, sem ég þarf að svara.