18.12.1957
Efri deild: 45. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

73. mál, kosningar til Alþingis

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Eyf. (BSt) sagði, að hann teldi víst, að margar áskoranir hefðu borizt víða frá til Alþingis um að samþykkja það réttlætismál, sem hv. stjórnarflokkar berjast fyrir með framgangi þessa máls. Hann sagði þetta af því tilefni, að ég hafði spurt hann sem hæstv. forseta að því, hvort hann hefði orðið var við þann almenna áhuga hjá almenningi um land allt, sem hæstv. fjmrh, talaði um í ræðu sinni í hv. Nd. í gær. Það er rétt, sem hv. þm. V-Sk. sagði hér rétt á undan, að engin, ekki ein einasta áskorun hefur borizt hv. Alþ. um það að samþ. þetta frv. (Forseti: Hefur hv. þm. lesið öll erindin?) Ég hef látið rannsaka það, síðan hæstv. forseti hélt ræðu sína, af vönduðum starfsmönnum Alþ., sem engin ástæða er til þess að rengja. Og þeir hafa afhent mér eina áskorun, sem er um það frá bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar, að kosningum skuli vera lokið kl. 12 á miðnætti. Það er sú eina áskorun, sem Alþ. hefur borizt í þessu máli. Ég vænti, að hæstv. forseti, hv. 1. þm. Eyf., minnist þess, að bæði við sjálfstæðismenn hér í hv. Ed. og í hv. Nd. höfum einmitt lagt áherzlu á það, að þessi breyting kosningalaga væri eðlileg, enda hafa lögin verið framkvæmd þannig um meginhluta landsins, að það hefur ekki verið kosið nema til kl. 12, kjördeginum hefur lokið um miðnætti. Aðeins í allra stærstu kaupstöðunum mun það hafa komið fyrir á síðari árum, að kosið hefur verið fram yfir kl. 12. En ég hef með þessu sýnt fram á, hversu staðlaust fleipur hæstv, fjmrh, hefur farið með í ræðu sinni í gær, og það er aðeins eitt dæmi um það, hvernig hv. framsóknarmenn, sem gengið hafa fram fyrir skjöldu með kommúnistum í því að skerða rétt kjósenda í þessu landi, hafa hagað málflutningi sínum. Hæstv. ráðh. hikar ekki við að fullyrða í Nd., að almennur stuðningur hafi komið fram við frv. um allt land, og hér í Ed. staðhæfir þingvanur og virðulegur forseti þessarar hv. deildar, að hann telji vist, að fjöldi erinda hafi borizt um þetta. Í ljós kemur svo, að ekki eitt einasta hefur borizt.

Nei, á þetta mál er ekki aðeins hér í Reykjavík, heldur víðs vegar um land litið sem pólitískt ofsóknarmál flokka, sem eru hræddir við sínar eigin gerðir, hræddir við dóm fólksins, sem fram undan er, þótt ekki sé nema í bæjarstjórnarkosningum, og hræddastir við hann næst sér, í höfuðborg landsins. Þess vegna er það, að þessi ákvæði eru sett nú, ákvæði, sem eru gersamlega „ópraktísk“ annars staðar, en í Reykjavík, vegna þess að úti á landi, í kjördæmum hv. 1. þm, Eyf., hv. 1. þm. N-M. og okkar fleiri, er enginn vandi að fylgjast með því, hvenær menn eru búnir að kjósa og hverjir hafa kosið, þó að menn hafi ekki umboðsmenn inni hjá kjörstjórnunum.

Það er engin tilviljun, að það er verið að miða þessar kosningalagabreytingar við Reykjavík. Það er gert vegna þess, að andstæðingar Sjálfstfl. eru hér tiltölulega veikastir, þó að kommúnistar eigi að vísu öflugt fylgi hér. En Sjálfstfl. er hins vegar yfirgnæfandi stærsti flokkur höfuðborgarinnar.

Ég vildi spyrja þessa hv. þm., sem mælt hafa með þessu máli hér í deildinni, hvort þeir telji líklegt, að hæstv. ríkisstj. hafi flutt þetta frv. til þess að skaða flokka sína. Mundi það vera líklegt, að þessi hæstv. ríkisstj. hefði allt í einu verið gripin svo háleitri réttlætistilfinningu, að hún færi að flytja breytingar á kosningalögum, sem fælu í sér skaðsemi fyrir hennar eigin flokka? Ég held ekki. Ég nefndi dæmið um sjómennina úti á landi, sem þetta frv. gæti bitnað á, sem dæmi um það ranglæti, sem þetta frv. gæti valdið. Það hendir oft í mörgum sjávarþorpum og útvegsbæjum úti á landi, að sjómennirnir eru ekki komnir að kl. 11, þeir eru kannske ekki komnir að kl. 12. Ég fæ ekki séð, að það sé neitt réttlæti í því, að þeir sjómenn, sem koma að landi milli kl. 11 og 12, megi ekki kjósa og geti ekki neytt kosningarréttar síns. Það getur vel verið, að hv. þm. Framsfl. telji einhverja fullkomnun lýðræðisins í því fólgna, að ákveðnum hóp manna í þjóðfélaginu, sem vinnur áríðandi störf, sé gert erfiðara fyrir um að neyta kosningarréttar síns. Ég fæ ekki séð, að slíkt sé spor í rétta átt.

Það er nú nánast tiltekið hlægilegt, þegar hv. 1. þm. N–M, ætlar að fara að segja þingbræðrum sínum hér á hv. Alþ., að það hafi alltaf verið hans meginregla í kosningum að láta það ráðast, hverjir komi á kjörstað, — „að láta það ráðast, hverjir komi á kjörstað“. Ég er ekki mjög nákunnugur mönnum og málefnum á Austurlandi, en ég hef allt aðrar fregnir af kosningabaráttu hv. 1. þm. N-M. og flokksbræðra hans á Austurlandi heldur en þær, að þeir láti það ráðast, hverjir komi á kjörstað. Og eitt veit ég, að þar, sem ég þekki til, láta þeir það ekki ráðast, eins og þau dæmi sönnuðu, sem ég nefndi í fyrstu ræðu minni hér í dag. Hitt mun mála sannast, að hvergi sé kosningakúgun og ofbeldi og yfirgangi beitt í ríkara mæli en þar, sem ríki Framsfl. er mest á Íslandi. Svo heldur hv. 1. þm. N-M., að hann geti komið og verið tekinn alvarlega, þegar hann slær fram slíkum fullyrðingum, sem hann gerði hér í seinni ræðu sinni, hér áðan. (Forseti: Ég verð að víta þau orð, að tiltekinn flokkur beiti kosningakúgun og ofbeldi, því að það er vítavert og refsivert athæfi.) Mig furðar ekkert á því, þó að hæstv. forseta, sem er grandvar maður að mínu áliti, þó að hann svíði undan sannleikanum í þessum málum. En ég hika ekki við að endurtaka það, að þegar svona hræsni og yfirborðsháttur er borinn fram fyrir mann, þá þýðir ekkert annað, en segja sannleikann umbúðalausan, jafnvel þó að það kosti vitur af hálfu hæstv. forseta. Ég endurtek það og ég skora á hæstv. forseta að vita það öðru sinni, að samkvæmt þeim fregnum, sem ég hef af Austurlandi, þar sem ríki Framsfl. er mest, sé hvergi beitt meira ofríki og ofbeldi í kosningabaráttu, heldur en einmitt þar. Svo kemur hv. 1. þm. N-M. og segir, að það sé sinn háttur að „láta það ráðast, hverjir komi á kjörstað“.

Ja, þeir geta trúað þessu, sem vilja, ég trúi því ekki.

Ég skal svo ekki misnota athugasemdatíma þann, sem hæstv. forseti veitti mér. En ég vil að lokum segja það, að um eðli og tilgang þessa máls þarf ekki að fara í neinar grafgötur. Hæstv. fjmrh. lýsti því yfir í umr. í Nd., að þetta mál væri beinlínis flutt til þess að klekkja á Sjálfstfl. í Reykjavík og „kosningaapparati“ hans. Það er alveg sama, hve margar afsakanir hv. þm. Framsfl, hér í þessari virðulegu deild flytja fram fyrir þessu máli, þeir komast ekki á svig við þessar staðreyndir, og þeir komast heldur ekki á svig við sjálfan svip frv., því að hann segir til sín. Hann segir það, sem almenningur í landinu sér, gagnstætt því, sem hæstv. fjmrh. sagði, að hér er á ferðinni pólitískt ofsóknarmál, eins og ég sagði áðan, sem ekki hefur snefil af réttlætistilfinningu bak við sig, heldur ríka ofbeldishneigð, viðleitni til þess að skerða rétt fólksins, þann rétt, sem helgastur er hjá þjóð í lýðræðisþjóðfélagi, kosningarréttinn.