17.10.1957
Sameinað þing: 4. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1923 í B-deild Alþingistíðinda. (3045)

Sparifjármyndun

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég hafði ætlað hér utan dagskrár, af því að mér fannst ástæða til, að beina einni fyrirspurn til hæstv. félmrh. En ég sé nú, að hann er ekki við, en ég tel, að það komi ekki að sök, því að aðrir hæstv. ráðherrar eru við. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. ríkisstj. geti auðveldlega leyst úr þessari spurningu, en ekki þýðingarlaust einmitt að fá það fram á þessum vettvangi.

Mig langar til þess að spyrja um, á hvaða heimildum séu byggðar þær upplýsingar hæstv, ráðh., — og ég geri ráð fyrir, að ríkisstj. sé kunnugt um þær heimildir, — að sparifjármyndunin í landinu hafi verið 141 millj. kr., það sem af er eða fyrstu sjö mánuði þessa árs, eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðh. hér í þinginu í gær og prentað er á forsíðu Þjóðviljans í dag. Ég spyr að þessu vegna þess, að þær heimildir, sem mér er kunnugt um og gefa til kynna tölur eins og þessar, eru ekki í samræmi við þessar upplýsingar. Hagskýrslurnar birta mánaðarlega yfirlit yfir sparifjáraukninguna, og samkvæmt hagskýrslunum er sparifjáraukningin fyrstu 6–7 mánuði ársins 1956 í bönkunum einum 98 millj., en ráðherra segir, að í bönkum og sparisjóðum hafi þær þetta ár verið 98.9, en aftur á móti er til viðbótar, ef sparisjóðirnir eru teknir, þetta ár 38 millj., eða samtals 136 millj. En fyrstu 7 mánuði þessa árs segja hagskýrslurnar að sparifjáraukningin í bönkunum hafi verið 60 millj. og 607 þús. og 39.9 millj í sparisjóðunum, eða 100 millj. kr.

Ef hagskýrslurnar eru rangar í þessu tilliti, þá er hér um svo veigamikið atriði að ræða, að það þarf að gera gangskör að því að fá þær leiðréttar, eða ef heimildir þær, sem ríkisstj. byggir þessar upplýsingar á, eru rangar, þá er jafnnauðsynlegt að leiðrétta þær. Og ég teldi langbezt, að þessar upplýsingar kæmu fram hér í þingsölunum, svo að ekki þyrfti nú að taka upp deilur og endalaust karp um það í dagblöðunum, hvort eitt eða annað í þessu sambandi sé rétt eða ekki, því að hér eru atriði, sem í raun og veru ætti ekki að þurfa að deila um. Þetta er í sambandi við það, að menn hafa haft nokkrar áhyggjur af því, að sparifjáraukningin er ekki sú sama upp á síðkastið og verið hefur og menn verða að minnast þess, að á s. l. ári minnkaði spariféð frá júlílokum og til desemberloka um 23 millj, kr., svo að frá júlí 1956 til júlí 1957 er í bönkunum ekki nema um 36 millj, kr. sparifjáraukningu að ræða, en frá júlí 1955 til júlí 1956 var hins vegar um 104.4 millj. kr. sparifjáraukningu að ræða. Mér þætti mjög æskilegt, ef hægt væri að gefa þessar upplýsingar, svo að það sanna gæti komið í ljós.