17.10.1957
Sameinað þing: 4. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1924 í B-deild Alþingistíðinda. (3047)

Sparifjármyndun

Jóhann Hafstein:

Ég leyfi mér að þakka hæstv. viðskmrh, fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur hér gefið, og ég tel mikilsvert, að það skuli þegar koma í ljós, að það er ekki sparifjármyndunin í landinu, sem hefur orðið slík sem hæstv. félmrh. lét í veðri vaka í gær, og það er náttúrlega ótrúlega mikið ábyrgðarleysi að ætla fólki að skilja það svo, að sparifjármyndunin í landinu sé svo og svo mikil, en gera þá ekki grein fyrir því, að það er ekki átt við sparifjármyndunina, heldur sparifjármyndunina að viðbættum hlaupareikningsinnistæðum, sem enginn hefur í þessu sambandi innifalið í því, þegar talað er um fjármunamyndun sem sparifé meðal landsmanna.

En þetta er þá sem sagt upplýst, að í staðinn fyrir sparifjármyndun í landinu, eins og kom orðrétt fram í ræðu hæstv. félmrh. og eins og með stórum stöfum stendur skrifað á forsiðu Þjóðviljans í dag, að sparifjármyndunin sé 141 millj. kr., þá er ekki um það að ræða, heldur er hér byggt á skýrslu, sem viðskmrn. hefur látið hæstv. ráðh. í té, þar sem átt er við sparisjóðsinnlögin og hlaupareikningsinnistæðurnar.

Það stendur sem sagt enn óhaggað, að sjálf sparifjármyndunin er því miður miklu minni, en hún hefur verið undanfarið, eins og þær tölur gáfu til kynna, sem ég upplýsti áðan, og það er í sjálfu sér gleðilegt, að aukning hefur orðið fyrri hluta þessa árs allveruleg, þó ekki eins mikil og áður. En samkvæmt reynslu s. l. árs, þá má búast við því, að síðari hluti ársins verði auðvitað ekki eins hagstæður í þessu efni.

Ég sem sagt endurtek þakklæti mitt til hæstv. viðskmrh. fyrir að hafa upplýst þetta, svo að menn þurfi þá ekki lengur að fara í grafgötur um það, við hvað er átt í þessu sambandi.