17.10.1957
Sameinað þing: 4. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1927 í B-deild Alþingistíðinda. (3051)

Sparifjármyndun

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði nú búizt við því, að ekki væri þörf á því að deila um það hér, hvort það væri rétt, sem í hagskýrslunum segir, en þeir hæstv. ráðh., sem hér hafa talað, virðast vera á allt öðru máli. Ég hygg, að hagstofan heyri undir hæstv. fjmrh., og ætti hann þá ekki að fresta því lengi að láta fara fram gagngerða endurskoðun á starfsemi hagstofunnar.

Það er svo, að fram að þessu hefur verið alltaf rætt um sparifjármyndun í því formi, að það væri það, sem næmi verðmætaaukningunni í landinu. Og hagstofan virðist hafa samið sínar skýrslur að þessu sinni eins og áður. Nú ætla hæstv. ráðh. að snúa dæminu við og segja: Sparifjáraukning er líka sú hækkun, sem verður á hlaupareikningi eða hlaupareikningum ýmissa fyrirtækja, en eins og kunnugt er, þá eru það verzlanir, sem hafa stærstu hlaupareikningsviðskipti við bankana.

Nú undanfarnar vikur og undanfarna mánuði hafa innflytjendurnir beðið eftir að fá yfirfært. Þess vegna hafa innistæður þeirra á hlaupareikningi hækkað nokkuð, af því að þeir hafa ekki fengið leyfi til þess að nota það fé, sem þeir áttu á hlaupareikningnum, til yfirfærslu.

Þetta er ekki verðmætaaukning í landinu, því að í staðinn fyrir vörur á innflytjandinn nokkra peninga í bönkunum, og hagstofan og hagfræðingar hafa aldrei leyft sér að halda því fram, að þetta væri verðmætaaukning, sem hér væri um að ræða. En hæstv. ráðherrar ætla að reyna að snúa staðreyndunum við til þess að rétta sinn hlut að einhverju leyti.

En er það nú skynsamlegt að halda því fram og segja það frammi fyrir alþjóð, að sparifjáraukningin sé meiri nú en áður, þegar öllum eða flestum, sem þurfa á fjármagni að halda, er neitað um lán, vegna þess að bankar og sparisjóðir hafa ekki fé? Ætli það séu ekki slíkar staðreyndir, sem allur almenningur trúir betur, en orðagjálfri hæstv. ráðherra hér í þinginu. Og ég er dálítið undrandi á því og hef átt á ýmsu von eftir reynslu undanfarinna mánaða af þessum hæstv. ráðh., að þeir skuli koma hér og ætla sér að segja það hvítt, sem er svart, og þótt hagstofan haldi þessu fram, þá ætla þeir að halda öðru fram, og þeir ætla að segja það svo oft, að það verði tekið fyrir góða og gilda vöru.