17.10.1957
Sameinað þing: 4. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1928 í B-deild Alþingistíðinda. (3053)

Sparifjármyndun

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Það er nú séð, að það hefur eitthvað komið illa við sjálfstæðismenn, að það skyldi verða upplýst, að innistæðuaukning hefur orðið í bönkum og sparisjóðum. Ákaflega á eitthvað illa við þá að heyra þetta. En það er alveg furðulegt, þegar reynt er nú að halda því fram, að hér sé einhver skilmunur þannig á peningum, sem aðilar eiga inni á hlaupareikningum og í sparisjóðum, hvað viðkemur verðmætaaukningu. Ef maður á peninga inni á hlaupareikningi, þá segir fyrrverandi viðskmrh., að það sé ekki verðmætaaukning, slíkir peningar, en ef þessir sömu peningar hefðu verið lagðir inn á sparisjóð, þá er það verðmætaaukning. Einkennilegir eru þessir peningar. Nei, hið sanna er það, að Landsbankinn, sem hefur nú um nokkurt skeið gefið út skýrslur um þessi efni, hefur að sjálfsögðu gert mun á því í sínu yfirliti, hvað eru bein spariinnlög og hvað eru veltiinnlög. En síðan hefur þessi sami Landsbanki tekið saman þessar tvær tölur og birt þær undir einu, sem hann kallar heildarinnlán, og það er þessi tala, sem nú var gerð upp á venjulegan hátt, að innistæðuaukningin sem heild sýndi það á 7 fyrstu mánuðum þessa árs, að hún var 141 millj. á móti 98 í fyrra. Undan þessu verður vitanlega ekki komizt, jafnvel þó að menn ætli sér nú þá dul að reyna að vinna þetta mál á þann hátt, sem hv. 1. þm. Rang. sagði hér, að sig varðaði ekkert um það, hvað hagstofan og aðrar slíkar stofnanir segðu, hann ætlaði sér að segja þetta svo oft, að því skyldi verða trúað.

Það er auðvitað karlmannlega mælt að segja þetta, og maður þekkir þessi vinnubrögð, að reyna að endurtaka ósannindin svo oft, að einhverjir a. m. k. fari að trúa þeim. En það breytir engu um það, að innistæðuaukningin í bönkum landsins og sparisjóðum hefur orðið þessi, gerð nú upp á nákvæmlega sama hátt og gert hefur verið á undanförnum árum. En það er rétt að, að þessu sinni er það svo, að aukningin á hlaupareikningum er talsvert miklu meiri á þessu ári, en hún var t. d. í fyrra. Það er nú eini munurinn.

Svo koma þessar einkennilegu skýringar, að hér geti verið um það að ræða, að verzlunarmenn og aðrir slíkir eigi peninga inni á hlaupareikningum, vegna þess að þeir fái ekki yfirfærslu fyrir vöruinnkaupum. En það stangast við þær tölur, sem þessum sömu mönnum hefur gengið heldur illa að glíma við, að á meðan svona hefur staðið á á hlaupareikningunum, þá hafa tölur sýnt það og sannað, að það hefur verið látinn að hendi meiri gjaldeyrir til vörukaupa, en á sama tíma árið á undan. Menn kannske ætla sér að endurtaka það nógu oft, að þessar tölur séu ekki réttar, þó að allar opinberar skýrslur sýni annað.

En þegar þetta er athugað, þá vitanlega geta menn ekki heldur bjargað sér út úr þessu á þennan hátt. Hér er aðeins um það að ræða, að ýmsir aðilar og sumir mjög stórir aðilar hafa sparað fé á þennan hátt, og þarna hafa orðið, eins og ég sagði hér áður, stórfelldar millifærslur á milli mánaða, þannig að spariféð hefur vaxið, um leið og hitt hefur aftur minnkað, en slíkt hefur líka gerzt stundum áður.

Nei, það eru engar þannig skýringar á þessu, að hér séu raunverulega peningar geymdir aðeins um stundarsakir í staðinn fyrir vöruinnkaup, því að vöruinnkaupin hafa verið með mjög svipuðum hætti fram eftir öllu ári, svo að það er engu slíku til að dreifa.

Ég vil svo aðeins endurtaka það, sem ég sagði, að hér var gerður samanburður á þann hátt, sem gert hefur verið á undanförnum árum, alveg á sama hátt, og tölurnar líta svona út, hvort sem einstökum mönnum líkar það út af fyrir sig betur, eða verr.