03.03.1958
Neðri deild: 59. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1930 í B-deild Alþingistíðinda. (3056)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Þann 10. des. s. l. var útbýtt hér í hv. deild frv. til l. um breyt. á lögum frá 1954, um tekjuskatt og eignarskatt, þskj. 131, 80. mál. Að flutningi frv. stóðu hv. 2. þm. Reykv., hv. þm. Ísaf., og ég. 11. des. var frv. tekið til 1. umr. og að henni lokinni vísað til hv. fjhn. og til 2. umr.

Ég hef ekki alls fyrir löngu rætt við hv. form. fjhn., hv. þm. V-Húnv., um frv. og afgreiðslu þess frá nefndinni. Virtist mér á ummælum hans, að hann hefði ekki sérstakan áhuga fyrir afgreiðslu þess, en ræddi hins vegar um, að bráðlega væri von á frv. frá hæstv. ríkisstj. um breyt. á lögum frá 1954, um tekjuskatt og eignarskatt. Taldi hv. þm., að í frv. mundi verða ákvæði um skattfríðindi til handa sjómönnum á íslenzkum fiskiskipum.

Þetta frv. hefur nú verið lagt fram hér í d. á þskj. 261, og hafa hv. alþm. haft tækifæri til að kynna sér það. Í 4. gr. þess eru ákvæði um skattfríðindi fyrir sjómenn á íslenzkum fiskiskipum. Geri ég ráð fyrir, að hv. alþm. geti orðið mér sammála um það, að þau smávægilegu skattfríðindi fyrir sjómenn, sem 4. gr. frv. gerir ráð fyrir, verði engan veginn til þess fallin að bæta það vandræðaástand, sem skapazt hefur á undanförnum árum í sambandi við að sjá sjávarútveginum fyrir nægilegum sjómönnum á fiskiskipin. Hefur sigið meir og meir á ógæfuhlið í þessum efnum síðustu árin og fer stöðugt versnandi.

Svo alvarlegt er þetta ástand nú, að þrátt fyrir þann mikla fjölda færeyskra sjómanna, sem enn eru ráðnir á íslenzku fiskiskinin, eru á yfirstandandi vetrarvertíð sjö ágæt fiskiskip á landi í einni verstöð við Faxaflóa vegna skorts á sjómönnum. Þessi sjö skip voru þó gerð út allt árið 1957.

Þrátt fyrir það, að íslenzku þjóðinni fjölgar töluvert á ári hverju, fækkar þeim mönnum, sem leggja vilja stund á aðalatvinnuveg þjóðarinnar, sjávarútveginn. Allri þjóðinni mætti vera það ljóst og þá ekki sízt hv. alþm., hvaða afleiðingar þessi óheillaþróun hlýtur að hafa í för með sér fyrir þjóðarbúið hvað efnahagslega og raunar einnig menningarlega afkomu snertir.

Um alllangt tímabil hafa afurðir sjávarútvegsins numið 90–95% þess gjaldeyris, sem þjóðin aflar með sölu íslenzkra afurða á erlenda markaði. Þennan útflutning mætti enn auka að stórum mun, þar sem mikil eftirspurn er erlendis eftir þeim afurðum, sem sjávarútvegurinn getur látið í té. Er því áríðandi fyrir þjóðina að gera sér glögga grein fyrir þeim mikilvægu skilyrðum, sem Íslendingar hafa á þessu sviði, og þeim yfirburðum, sem íslenzkur sjávarútvegur getur haft, borið saman við möguleika annarra þjóða til þessarar framleiðslu.

Í grg. með frv. á þskj. 131 færðum við flm. fram rök fyrir þeirri nauðsyn, að gerðar verði markverðar ráðstafanir af hendi Alþingis til að fyrirbyggja þá öfugþróun, sem nú ríkir, að með hverju ári sem liður fækki þeim mönnum, sem leggja vilja stund á sjómennsku. Eins og segir í lok grg., teljum við flm., að þó að felldur verði niður tekjuskattur sjómanna af þeim tekjum, sem þeir afla yfir þann tíma, sem þeir eru lögskráðir á íslenzk fiskiskip á skattárinu, sé þar aðeins um einn lið að ræða í þeim aðgerðum, sem óhjákvæmilega verður að gera af hendi Alþingis og ríkisstj. til að hvetja menn til að leggja stund á aðalatvinnuveg þjóðarinnar, sjávarútveginn. Að sjálfsögðu verður að leita ýmissa annarra ráða til að tryggja sjávarútveginum nægilegt vinnuafl, svo að hægt sé að reka hann með eðlilegum hætti, alþjóð til efnahagslegs öryggis.

Það er í sjálfu sér ekkert aðalatriði, hvort frv. okkar á þskj. 131 verður samþykkt hér í hv. d., eins og það liggur fyrir, eða hvort hv. fjhn. getur orðið sammála um að flytja brtt. við 4. gr. frv, hæstv. ríkisstj., samhljóða því, sem frv. okkar kveður á um. Ef samkomulag næst ekki um þá afgreiðslu, eru það vinsamleg tilmæli mín til hæstv. forseta, að hann hlutist til um, að frv. okkar á þskj. 131 verði bráðlega tekið til 2. umr. hér í hv. deild, svo að úr því fáist skorið, hver sé afstaða hv. alþm. til þessa aðkallandi nauðsynjamáls.