03.03.1958
Neðri deild: 59. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1932 í B-deild Alþingistíðinda. (3057)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Hv. þm. Snæf. hefur vakið hér athygli á óhæfilegum seinagangi á afgreiðslu tiltekins máls hjá hv. fjhn.

Ég vil í því sambandi bera fram sérstaka umkvörtun yfir því, að frv., sem ég hef flutt ásamt þremur öðrum hv. þm., um ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, og vísað var til fjhn. 29. okt., hefur ekki enn nú í byrjun marz verið afgreitt úr nefnd.

Það er að sjálfsögðu óviðunandi seinagangur á afgreiðslu mála. Þetta mál hefur áður legið hér fyrir Alþingi nokkrum sinnum, var síðast í fyrra vísað til hæstv. ríkisstj. með því fororði, að hún hefði í undirbúningi löggjöf um þetta efni. Það hefur ekkert bólað á slíkri löggjöf, og enn þá er legið á afgreiðslu þessa máls, og virðist því harla lítill áhugi á að hrinda áleiðis því merkilega viðfangsefni, sem þar er um að ræða, hvað sem mönnum kann að sýnast um einstök atriði þess frv. En sannast sagna virðist vera harla lítill áhugi hjá nefndum hv. þd. að skila málum frá sér, því að mér telst svo til, að hér séu flutt af nefndum eða af þm. í deildinni 45 frv. og aðeins fjögur þeirra hafi hlotið meðferð í nefnd. Eru þó mörg þessara frv. flutt í október og nóvembermánuði, og virðist því hafa verið harla nægur tími til þess að athuga þessi mál, ekki sízt með hliðsjón af því, að störf Alþingis hafa ekki verið það tímafrek til þessa, að ekki hefði átt að gefast kostur á að athuga þessi mál í þingnefndum, og vildi ég mjög eindregið beina því til hæstv. forseta, að nefndir yrðu hvattar til þess að skila frá sér þeim frumvörpum, sem hjá þeim liggja.