16.04.1958
Sameinað þing: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1934 í B-deild Alþingistíðinda. (3063)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það eru nokkrar þáltill., sem ég hef borið fram, sem eru hjá þingnefndum, og ég vildi beina því til hæstv. forseta, að hann hlutaðist til um, að nefndirnar afgreiddu þau mál, sem til þeirra hefur verið vísað og hafa verið þar svo lengi, að líklegt má þykja, að nægur tími hafi unnizt til að sinna þeim. Ég hef ekki við höndina skrá yfir þessi mál, en ég get komið henni til hæstv. forseta, annaðhvort utan fundar eða á næsta fundi, ef hann telur, að það muni greiða fyrir eðlilegum starfsháttum.

En aðalerindi mitt var þó að benda á, þar sem nú mun liða að þinglokum, eftir því sem fregnir segja, að hv. utanrmn. hefur ekki enn kosið þá undirnefnd, sem henni ber að kjósa samkvæmt ótvíræðum ákvæðum þingskapa. Meðan Alþingi situr, má segja, að þetta komi að minni sök en ella, vegna þess að hæstv. ríkisstj. gæti þá, ef hún vildi, leitað til annaðhvort allrar utanrmn. eða Alþingis í heild og loksins þingflokka, sem eru við höndina. En þegar Alþingi situr ekki á fundum, þá er það a. m. k. hugsanlegt, að ríkisstj. kynni að detta í hug að fara að lögum og leita samráðs við þann aðila, sem skylt er að leita samráðs við, og mér virðist það því vera mjög illa gert við illa stadda ríkisstj. að ætla henni ekki þá samhjálp, sem lög hafa fyrirskipað, og vildi beina því til hæstv. forseta, hvort hann kunni ráð til þess, að úr því verði bætt, annaðhvort með hans íhlutun eða hann vilji leiðbeina mér og öðrum þingmönnum, til hvaða úrræða eigi að grípa, til þess að lögum verði framfylgt að þessu leyti.